Í byrjun október síðastliðinn var Aðalheiður Sigurjónsdóttir í Ólafsfirði að koma úr sturtu og sá þá ójöfnu á brjóstinu sem hún kannaðist ekki við og við þreifingu fann hún fyrir smá þykkildi. Fór hún í framhaldinu til kvensjúkdómalæknis og sá hann fulla þörf á að láta skoða þetta frekar.

Í byrjun nóvember fór hún í skoðun á Akureyri, fyrst í brjóstamyndatöku og fannst skoðunin óvanaleg að því leyti að það voru teknar miklu fleiri myndir en í fyrri skoðunum sem hún hefur farið í. Næst fór hún í sónar og kom þá læknir og tilkynnti henni að hún væri með tvö æxli sem þyrfti að skoða frekar með ástungu.

Síðan var það 13. nóvember að Aðalheiður fékk hringingu frá skurðlækni á Akureyri sem tjáði henni að hún hafi greinst með illkynja krabbamein og þurfi að fara í aðgerð og síðan í geisla en óvíst væri með lyfjameðferð.

Með sögu sinni vill Aðalheiður hvetja konur til að drífa sig í skoðun, ekki bíða fram á næsta ár.

 

Í framhaldi af þessum fréttum fór Aðalheiður suður til Reykjavíkur í viðtal þar sem henni var sagt að það verði að öllum líkindum nóg að fara í fleygskurð til að fjarlægja meinið og í framhaldinu í geisla.  Æxlið var sagt frekar hægvaxandi og hormónatengt, hún varð að hætta að taka inn hormónalyf eftir þessa greiningu og fara á lyf sem eiga að hefta frekari útbreiðslu á meininu.

Eftir þessar fréttir var Aðalheiði tilkynnt að lyf sem sprauta ætti í eitla, í aðgerð, væri því miður uppselt á landinu og seinkaði aðgerð af þeim sökum. Ekki fóru þær fréttir vel í hana og ollu miklum kvíða. En það var síðan 23. janúar að aðgerðin var framkvæmd og gekk hún vel en æxlin reyndust vera þrjú og meinið fannst einnig í einum eitli.

Fór hún eftir útskrift á sjúkrahótel og síðan heim til Ólafsfjarðar eftir nokkra daga. Þrátt fyrir að aðgerðin hafi gengið vel og í bónus brjóstaminnkun fékk Aðalheiður sýkingu í brjóstið og er hún nýhætt á sýklalyfjum. Í næstu viku hefst geislameðferð, í fimmtán skipti, og þarf Aðalheiður að vera fyrir sunnan á meðan.

Að greinast með krabbamein var mikið áfall fyrir Aðalheiði og fjölskyldu, en þau standa þétt saman og lifa fyrir einn dag í einu með bjartsýni að leiðarljósi.

Fréttir hafa borist af því að þátttaka sé afar dræm í krabbameinsskoðun sem boðið er upp á hér í Fjallabyggð þessa dagana. Aðalheiður skorar á allar konur að taka ábyrgð á eigin heilsu og panta tíma strax.

Hún hafði sjálf farið í skoðun 2017 og ári seinna verið greind með krabbamein svo þetta getur gerst hratt.

Krabbameinsfélag Íslands er með krabbameinsleit (brjóstamyndataka/leghálsstrok) fyrir konur 23 ára og eldri búsettar frá Hauganesi í Eyjafirði til Fljóta í Skagafirði dagana 25. mars til 3. apríl 2019.

Skoðað verður á Heilsugæslustöðinni á Siglufirði

Tímapantanir í síma 466 1500 og 460 2100