Hér á eftir fer saga af harðduglegu alþýðufólki sem fluttist til hins ört vaxandi bæjar, sem oft hefur verið líkt við gullgrafarabæinn fræga og kallað Klondike norðursins. Þetta var snemma á öldinni sem leið, þegar fólk flýði sveitir landsins og átti sér þann draum heitastan að brjótast úr bláfátækt til bjargálna, frekar en gerast leiguliðar eða vinnuhjú stórbóndans. Þau Guðmundur Þorleifsson og Ingibjörg Jónsdóttir eru einmitt gott dæmi um slíkt. Það var framlag fólks eins og þeirra sem byggði upp hagsæld þjóðarinnar svo og innviðina, sem urðu sífellt sterkari eftir því sem leið á síðustu öld. Vinnuframlag þeirra stuðlaði að auknum lífsgæðum og færðu landið inn í nútímann að segja má á handaflinu einu saman. Þau voru af kynslóð sem á ekki skilið að gleymast okkur sem á eftir komum og nutum ávaxtanna.

Guðmundartúnið sést vel á þessari mynd ofan og vinstra megin við miðju.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson /Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Þegar ég var að slíta barnsskónum á brekkunni á Siglufirði, var stór hluti af suðurbænum leiksvæði okkar krakkanna. Auðvitað var mest haldið til í götunni heima og næsta nágrenni hennar, en það náði einnig allt frá bryggjunum fyrir neðan Suðurgötuna, að fjörunni við öskuhaugana fyrir neðan Hafnartúnið, og alla leið upp í Fífladali og Hvanneyrarskál. Stundum voru tíndar hundasúrur í kring um háspennustaurana á Guðmundartúninu, en þær þóttu alveg sérlega stórar og ljúffengar. Þökk sé öllum húsdýraáburðinum sem Guðmundur bar á bakinu frá fjárhúsinu og dreifði um túnið. Túnið var einstaklega ræktarlegt og eins og stór grænn ferhyrningur við fjallsræturnar, en ákaflega bratt. Á þessum áhyggjulausu árum fannst manni einhvern vegin það alltaf hafa verið þarna og gerði sér enga grein fyrir hve gerð þess var í raun mikið stórvirki, og hve skapari þess hafði lagt mikið á sig við að búa það til.

Guðmundur (1886-1968).

Guðmundur Þorleifsson fæddist að Róðhóli í Sléttuhlíð árið 1886. Foreldrarnir Björg Jónsdóttir og Þorleifur Jónsson höfðu búið á jörðinni alla sína búskapartíð, eignuðust ellefu börn sem öll dóu í æsku nema Guðmundur og systir hans Halldóra. Guðmundur var yngstur systkina sinna og fæddist fáeinum vikum eftir að faðir hans lést. Búskapur foreldranna hafði alla tíð verið basl og hokur, svo að þegar fyrirvinnunnar naut ekki lengur við voru fáir kostir í stöðunni fyrir ekkjuna. Guðmundi var komið í fóstur aðeins sex mánaða gömlum á Syðsta-hóli þar sem hann ólst upp við þokkalegt atlæti. Sú jörð var landlítil og heyskapur því rýr, og við bættist að Halldór Jónsson fóstri hans missti heilsuna innan fárra ára frá því að hann kom þangað. Þá þurfti Guðmundur að taka við búinu og rekstri þess þó hann væri ekki nema rétt um fermingu, en hann reyndist vera hinn mesti dugnaðarpiltur og útsjónarsamur þó ekki væri hann orðinn hár í loftinu eða árin mörg. Hann kom á fáeinum árum upp stærri bústofni, sló tún hjá öðrum og fékk lamb fyrir dagsverkið sem hann lét lifa. Hann ól upp hross sem hann seldi og keypti kindur í staðinn. Hann var fyrstur í sveitinni til að slétta túnið sem var reyndar mjög lítið með því að rista kargaþýfið ofan af, tæta það og jafna síðan út. Silungsveiðin í Sléttuhlíðarvatninu hefur þó líklega orðið til þess að kotbændurnir þarna við vatnið flosnuðu ekki upp, og að fólkið svalt ekki. Guðmundur minntist þess síðar að hann fékk sextíu silunga í fyrsta skiptið sem hann reyndi fyrir sér í vatninu með net. Á vetrum voru netin svo dregin undir ísilagt vatnið, en þá veiddist yfirleitt ekki mikið.

Guðmundur Þorleifsson ungur maður. Ljósmyndari ókunnur

Þegar Guðmundur stóð á tvítugu var hann búinn að koma ágætlega undir sig fótunum og bústofninn samanstóð þá af sextíu kindum, tveimur kúm og fimm eða sex hrossum. Um tíma átti hann tvær jarðir í Sléttuhlíðinni, eða bæði Róðhól og Syðsta-hól og var búinn að byggja sér timburhús á þeirri síðarnefndu.

Frostaveturinn mikla 1918-19 voru miklar frosthörkur og víða heyleysi. Það sumraði seint, spretta varð því sem næst engin og nánast ekkert náðist þess vegna inn af heyjum. Um haustið varð hann því að fella megnið af bústofninum. Hann bjó þó á jörðinni í eitt ár til viðbótar, réði sig í vinnu hjá Tómasi Jónassyni sem bjó á Mið-Hóli en varð síðar kaupfélagsstjóri á Hofsósi. Kaupið var 500 krónur yfir sumarið og sumarfríið var ein vika sem Guðmundur notaði til að heyja fyrir þær kindur sem hann átti eftir.

Árið 1923 fór hann fyrst til Siglufjarðar, vann þar á sumrin næsta áratuginn, en fór á vertíð til Vestmannaeyja á vetrum, og með mikilli vinnu á báðum þessum stöðum eignaðist Guðmundur nokkurt sparifé. 

Ingibjörg í heimsókn hjá ömmu Sóley á Hverfisgötunni. Ljósmynd: Leó R Ólason/mynd úr einkasafni.

Ingibjörg (1902-1974).

Í júnímánuði árið 1932 giftist Guðmundur Ingibjörgu Jónsdóttir frá Sauðaneskoti á Upsaströnd. Hún var dóttir Jóns Jónssonar frá Klaufabrekkum í Svarfaðardal og Margrétar Þorkelsdóttur frá Göngustaðakoti einnig í Svarfaðardal, en þau Jón og Margrét bjuggu lengst af á Sauðaneskoti. Eitthvað útræði mun hafa verið frá þessum ystu bæjum sem taldir voru til Svarfaðardals, þ.e. Sauðanes og Sauðaneskot, og í Bændavísum eftir Guðmann Þorgrímsson eru nefndir bæði Þorkell og Jón en ekki veit ég hvort þar er um að ræða Jón Jónsson faðir Ingibjargar, og Þorkel afa hennar þó það sé ekkert ólíklegt.

Sauðaneskot er sæmdar slot
síst eru menn í bjargarþrot.
Þorkell rennir fleyi á flot
fyrðar kenna haglaskot.

Á Sauðanesi situr Jón
sitt kann búið stunda.
Maðurinn lætur mastraljón
um marar bárur skunda.

Mínar heimildir segja að róið hafi verið til fiskjar frá þessum bæjum á þeim árum sem Ingibjörg var á barnsaldri, en allur fiskur var síðan borinn talsverða leið upp úr fjörunni, m.a. upp brattan sjávarbakkann og upp að bæjunum þar sem hann var verkaður. Þar mun Ingibjörg hafa átt mörg handtökin á sínum unglingsárum.

Á nítjándu öldinni og jafnvel enn snemma á þeirri tuttugustu, var Dalvík oftast nefnd Böggvisstaðasandur og talað var um Svarfaðardal langt út eftir Upsaströnd. Þegar vegurinn var lagður út að Múlagöngum fór bæjarstæði Sauðaneskots undir vegstæðið að mestu leyti, en það var í skráðum heimildum talið vera smákot sem var byggt út úr landi Sauðaness, en stundum nefnd hjáleiga þess og var staðsett u.þ.b. 6 km. norðan við Dalvík.

Þegar Ingibjörg stálpaðist yfirgaf hún bernskuheimili sitt og hélt til ævintýrabæjarins Siglufjarðar í atvinnuleit eins og svo fjölmargir sveitungar hennar gerðu framan af öldinni sem leið, en þar lágu leiðir hennar og Guðmundar saman.

Ingibjörg Jónsdóttir og Guðmundur Þorleifsson. Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson /Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Bústólparnir á Háveginum.

Fyrstu tvö árin leigðu þau Guðmundur og Ingibjörg hjá Skapta á Nöf og Guðmundur vann hjá þeim merkismanni í mörg ár, en þar kom að þau fóru að huga að byggingu síns framtíðarheimilis. Þau urðu sér úti um lóð uppi undir fjallsrótum þar sem seinna var lagður götuslóði og nefndur Hávegur, en hús þeirra var þá skráð númer 12b við þá götu. Að byggja hús á Siglufirði var ekkert einfalt verk í þá daga og byggingarefni ekki auðfengið. Guðmundur fékk lánaðan bát hjá Skapta til að sækja möl inn í Neskrók. Henni var síðan mokað úr bátnum upp á bryggju og bar Guðmundur steypumölina sem notuð var í kjallarann, í strigapokum á bakinu alla leið upp að lóðinni þar sem húsið skyldi rísa. Má nærri geta að þetta hefur verið gríðarmikil átakavinna og ekki á færi nema hraustustu manna. Ofan á steyptan kjallarann var síðan byggt járnklætt timburhús upp á eina hæð og ris þar sem þau Guðmundur og Ingibjörg bjuggu síðan til æviloka. 

Hávegur 12b árið 2021. Ljósmynd: Leó R. Ólason.

En þar sem þau hjón voru bæði úr sveit, lá kannski beint við að þau kæmu sér upp svolitlum bústofni í síldarbænum til að drýgja tekjurnar örlítið, en slíkt var reyndar nokkuð algengt meðal bæjarbúa lengi vel fram eftir tuttugustu öldinni. Einnig er rétt að líta til þess að vinna á Siglufirði var stopul og tekjurnar þá einnig. Á sumrin var unnið nánast nætur og daga meðan síldin veiddist, en á vetrum var oft lítið um atvinnu sem hentaði illa þeim sem féll helst aldrei verk úr hendi. Fyrstu búskaparár þeirra fór Guðmundur þó á vertíð til Vestmannaeyja eins og hann hafði áður gert.

Minný Leósdóttir, pistlahöfundur á sínum yngri árum og Guðmundur Þorleifsson. Ljósmyndari ókunnur/mynd úr einkasafni.

Fyrir ofan húsið þeirra var grýtt kargaþýfi upp að gróðurlitlum mel sem tók við þar fyrir ofan. Guðmundur var í fjögur ár að vori og hausti fyrir og eftir síldarvertíðir, að haka og tæta upp þúfurnar og bera grjót úr hinu fyrirhuguðu túnstæði sem hann ýmist hlóð skjólveggi úr eða gróf niður. Þá lá næst fyrir að bera áburð á blettinn og sá í hann grasfræi. Síðan mátti sjá þarna grænan reit í melhólunum fyrir ofan brekkuna á Siglufirði svo áratugum skipti, eða á meðan túnið var nýtt til heyja. Það var talið vera tvær dagsláttur og af því mátti hafa um þrjátíu hestburði af heyi með því að tvíslá og bera á í milli. Þá var næst að koma sér upp gripahúsi ásamt hlöðu, en það byggði Guðmundur fyrir ofan íbúðarhúsið. Þau Ingibjörg héldu lengi vel eina kú og tíu til tólf kindur sem voru settar á vetur.

Þau unnu bæði ýmis verkamannastörf á Siglufirði framan af, mikið við síldarsöltum á ýmsum plönum þó það væri að öllum líkindum mest hjá Skapta. Þegar leið á starfsævina réðist Guðmundur til starfa hjá SR. og vann þar síðustu 20 árin áður en heilsan fór að bila, en Ingibjörg vann á sama tíma í SR. frystihúsi við Vetrarbraut allt þar til hún hætti að vinna seint á sjöunda áratugnum.

Pistlahöfundur 13 ára við dyrnar á Hávegi 12b, þar sem hann var tíður gestur. Ljósmyndari ókunnur/mynd úr einkasafni.

Fáeinar fjölskyldur í næsta nágrenni við þau hjón voru í eins konar mjólkuráskrift hjá þeim meðan þau héldu kúna, en það mun hafa verið um og fyrir miðja síðustu öld. Ein af þeim var Sóley amma mín sem bjó á Hverfisgötunni, en þær Ingibjörg voru þremenningar. Þegar foreldrar Ingibjargar þau Jón og Margrét brugðu búi í Sauðaneskoti, fluttust þau til dóttur sinnar og tengdasonar á Siglufirði og bjuggu hjá þeim til dauðadags. Jón lést 1939 en Margrét lifði til 1957. Mikill samgangur var alla tíð milli heimila afa míns og ömmu, og þeirra Guðmundar og Ingibjargar. Þegar móðir mín Minný Leósdóttir var unglingur kallaði hún Margréti gjarnan ömmu sína þar sem hún átti enga slíka á lífi.

Þráinn Guðmundsson og Minný Leósdóttir. Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson/Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Þau hjón voru mjög trúuð og eitt af því sem þau gerðu alltaf, var að signa sig á morgnana áður en erill dagsins hófst. Það var svo mörgum árum síðar að Hulda barnabarn þeirra var stödd nyrðra, að Guðmundur áttaði sig á að hún vissi ekki hvað þessi athöfn stóð fyrir. Hann kallaði þá á konu sína og sagði undrandi, „barnið kann ekki að signa sig“. Það þótti ekki ganga að við svo búið yrði unað, og var þá snarlega bætt úr þessu ólukkans kunnáttuleysi.

Pólitískur eldsvoði í Kaupfélaginu.

Guðmundur var alla tíð mikill kaupfélags og samvinnumaður. Bæði þegar hann var ungur maður, bjó í Sléttuhlíðinni og átti sín viðskipti við kaupfélagið á Hofsósi, en alls ekkert síður eftir að hann var fluttur á Siglufjörð, því hann var þar félagsmaður frá stofnun KFS. Hann var nokkuð virkur í félaginu, en án þess þó að hafa sig verulega mikið í frammi. Nægilega þó til þess að hann var kjörinn til að vera einn af fulltrúunum sem sátu aðalfund þess árið 1945, en á þeim fundi urðu mikil átök sem enduðu fyrir dómstólum. Munu viðskipti KFS við verslanirnar „Anna & Gunna“ sem ég veit engin deili á, og „Geislinn“ sem var í eigu þeirra Vigfúsar Friðjónssonar og Kjartans Friðbjarnarsonar, hafa vakið tortryggni margra félagsmanna. Töldu þeir að þar væri stjórnarmaður að misnota stöðu sína á kostnað kaupfélagsins, þar sem honum nákomnir stóðu að rekstri þessara verslana. Líklega hafa ástæðurnar verið fleiri, því það má lesa án mikillar fyrirhafnar verulegan pólitískan ríg milli fylkinga út úr því sem skrifað hefur verið um þessi mál.

Húsið Aðalgata 32 var byggt árið 1929 af þá nýstofnuðu Kaupfélagi Siglfirðinga (KFS) í samvinnu við Kjötbúð Samvinnufélags Fljótamanna og Kaupfélags Fellshrepps. Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Við skulum láta liggja milli hluta hverjir voru í stjórninni þegar átökin hófust, en það voru vissulega allt þungaviktarmenn í bæjarlífinu sem margir kannast vel við enn í dag. Á aðalfundinum sem haldinn var þ. 7. Júní, ýmist neitaði kjörinn fundarstjóri að bera fram tillögur fundarmanna eða neitaði jafnvel að taka við þeim. Framhaldsaðalfundur var síðan haldinn þ. 10. júní lögðu 44 fundarmenn fram tillögu um að víkja honum úr fundarstjórasæti og kjósa nýjan fundarstjóra, en hann neitaði eins og á fyrri fundinum að bera hana undir atkvæði. Var þá tillagan borin upp af einum fulltrúanna og samþykkt með miklum meirihluta atkvæða. Stjórnarmenn vildu ekki beygja sig undir þetta og hugðust halda fundi áfram, en meirihluti fulltrúanna fluttu sig þá í annað húsnæði og héldu fundinum áfram þar. Annar framhaldsaðalfundur var síðan haldinn þ. 21. júní þar sem samþykktum var breytt og ný stjórn kosin. Fyrrverandi stjórn neitaði þá að víkja, rak 70 félagsmenn og þar af 29 aðalfundarfulltrúa ásamt kaupfélagsstjóranum. Þar á meðal var Guðmundur Þorleifsson sem ritaði harðort bréf í Siglfirðing sem fyllti nánast heila síðu. Þar rakti hann viðskipti sín og veru sína í félaginu, sagðist ekki hafa brotið nein lög eða samþykktir félagsins og því ekki taka mark á brottrekstrinum. Hann væri því enn fullgildur meðlimur í kaupfélaginu og brottreksturinn aðeins ólöglegur gjörningur ólöglegrar stjórnar.

Lyktir urðu þær að hin nýkjörna stjórn fór í mál við þá gömlu þar sem hún krafðist þess að verða afhent umráð kaupfélagsins, og úrskurður fógeta var á þann veg að fallist var á allar kröfur hinnar nýju stjórnar.

Hina nýju stjórn skipuðu eftirfarandi: Jóhann Þorvaldsson kennari, Hjörleifur Magnússon fulltrúi bæjarfógeta, Haraldur Gunnlaugsson skipasmiður, Jónas Jónasson verkstjóri, Halldór Kristinsson héraðslæknir og Skapti Stefánsson útgerðarmaður.

Hjörtur Hjartar rifjar upp tímann á Siglufirði í viðtali sem birtist í Samvinnuni frá 1978, en hann er kaupfélagsstjóri á Siglufirði frá 1945 til 1952. Hann segir þar meðal annars:

„Á vissan hátt má segja að það kviknað hafi í kaupfélaginu á Siglufirði árið 1645. Elsupptökin voru pólitísks eðlis, og hart var deilt um hverjir ættu að ráða málefnum félagsins. Sú deila hafði í raun staðið í nokkur ár, og er hún all sérstæður kapítuli í samvinnusögunni. Annars vegar stóðu þeir sem kallaðir voru „kommúnistar“, og hins vegar svokallaðir „borgaraflokkar“ eða „hinir sameinuðu“. Þessar nafngiftir segja þó ekki mikið. Bardaginn var harður og sérstakur setudómari útnefndur til að fjalla um málið sem oft var kallaður „Kaupfélagsslagurinn á Siglufirði“.

„Segja má að allt stæði í uppnámi á þeim degi sem úrskurðurinn féll. Hinn löglega meirihluta vantaði kaupfélagsstjóra umsvifalaust, sem ásamt stjórninni gæti tekið við félaginu úr hendi setufógeta. Á aðalfundi sambandsins sem haldinn var á Laugarvatni sagði Sigurður Kristinsson mér frá átökunum á Siglufirði og spurði hvort ég vildi taka að mér kaupfélagsstjórastarf þar ef svo færi að „hinur sameinuðu“ sigruðu. Hann fór ekki dult með að þetta væri orustuvöllur og framtíðin óviss“.

„Gangur mála varð síðan sá að fógetaréttur kvað upp úrskurð 6. sept., lögmætri stjórn var fengin umráð félagsins í hendur 19. sept. og ég var kominn í sæti kaupfélagsstjóra þann 21. sept“.

„Þótt hart væri deilt meðan slegist var, tókst að lægja öldurnar. Þegar um það bil tvö ár voru liðin frá þessum atburðum, var bardagamóðurinn algerlega runninn af mönnum. Og gott samstarf tókst með forystu og félagsmönnum“.

Efri röð Haraldur Gunnlaugsson Hjörtur Hjartar,Hjörleifur Magnússon Páll Ásgrímsson.
Neðri röð Kristján Sigurðsson ,Jóhann Þorvaldsson , Halldór Kristinsson læknir.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson / Ljósmyndasafn Síldarsafnsins.

Þessi stjórn er líklega sú sem kemur næst á eftir stjórninni sem tók við eftir átökin 1945, en samkvæmt mínum heimildum eru öll dýrin í skóginum aftur orðnir vinir þegar þarna er komið sögu.

Balda litla (1913-2001).

Baldvina Baldvinsdóttir fæddist að Hvammi í Laxárdal. Á fjórða ári var hún tekin í fóstur af móðurbróður sínum Guðmundi Þorleifssyni sem þá bjó enn í Sléttuhlíðinni. Hún var þar hluta úr ári og fór þá til eldri hjóna að Róðhóli í Sléttuhlíð. Níu ára gömul fór hún svo í fóstur til annarra hjóna í Sléttuhlíð, en átti þar ekki allt of gott atlæti. Þau Guðmundur frændi hennar héldi ágætu sambandi og skrifuðust á. Þegar frá leið, fréttist til Siglufjarðar að ekki væri allt eins og best væri á kosið og innti Guðmundur Böldu eftir líðan hennar í einu bréfinu. Hún svarar því til að hjá henni sé allt upp á það besta og sér líði vel í sveitinni. Það má segja að snemma hafi krókurinn beygst og hún vildi ekki gera vandræði sín að vandræðum annarra. Nú líður einhver tími, en sögur halda áfram að berast Guðmundi til eyrna, af því að ekki sé hugsað nægilega vel um Böldu frænku hans. Gerir hann sér þá ferð upp í Sléttuhlíð að vitja hennar, en gerir ekki boð á undan sér. Kemur þá í ljós að hún er bæði klæðalítil og vannærð. Hann fer þá með hana með sér til Siglufjarðar og bjó hún hjá honum og Ingibjörgu konu hans upp frá því, eða allt þar til þau létust. Hún bjó síðan áfram í húsinu þar til hún þurfti að leggjast inn á Sjúkrahús Siglufjarðar vegna veikinda sinna sem drógu hana að lokum til dauða.

Balda ásamt Halldóru dóttir Guðmundar Ómars Þráinssonar og vinkonu hennar. Ljósmyndari Guðmundur Ómar / mynd úr einkasafni.

Það mun hafa verið árið 1948 sem Balda kom til Siglufjarðar þar sem hún bjó síðan í rúma hálfa öld. Ég kynntist henni mjög vel því hún var nánast daglegur gestur á heimili afa og ömmu á Hverfisgötunni þar sem ég ólst upp. Balda var ótrúleg kona, mátti aldrei neitt aumt sjá, vildi öllum vel og hafði sínar skoðanir á því hvernig bæri að lifa þessu lífi. Þær fólust aðallega í því að ef einhver vildi gera eitthvað fyrir hana þá væri það hinn mesti óþarfi, en ef hún gæti gæti gert eitthvað fyrir náungann bæri brýna nauðsyn til að gera það sem fyrst. Þegar skoðaðar eru þær einföldu lífsreglur sem hún lifði eftir, má glögglega sjá hversu þessi heimur væri miklu betri en hann er ef fleiri væru eins og hún.

Hávegur 12b ásamt útihúsinu sem stendur enn fyrir ofan húsið, en kartöflugarðurinn var svo fyrir sunnan það. Ljósmynd: Leó R. Ólason/mynd úr einkasafni.

Það var svolítið undarleg þversögn að á sama tíma og hún gaf villiköttunum við kjallaradyrnar, fóðraði hún líka fuglana ofan við húsið, og það virtist alveg vera að ganga upp. 

Balda var ekki há í loftinu og það hefur eflaust ekki verið neitt auðvelt fyrir hana að ganga til vinnu á vetrum ofan úr fjallinu þegar snjóþyngslin voru með allra mesta móti. Síðustu árin notaðist hún gjarnan við hjálpartæki í formi skíðastafa sem voru nokkurn vegin á hæð við hana, þrátt fyrir að vera bara af venjulegri stærð. Þegar hún lá á sjúkrahúsinu og vissi að stutt var eftir, hafði hún á orði við mig og Minný móður mína eitt sinn þegar við heimsóttum hana, að sig langaði mikið til að kveðja húsið hinsta sinni. Það var auðvitað auðsótt mál og við ókum upp á Háveginn öll þrjú, og ég bar hana upp sneiðinginn og inn í hús. Það var mjög sérstakt að fylgjast með henni þarna og sú heimsókn mun aldrei gleymast. Hún talaði til innansokksmunanna, gerði að gamni sínu við þá, þakkaði þeim fyrir samfylgdina í gegn um lífið og klappaði þeim og strauk. Eldhúsborðið, stólana, rúmið og meira að segja útvarpið. Hún hló og gerði grín að sjálfri sér fyrir hvað hún var orðin máttlítil og ósjálfbjarga þegar ég bar hana aftur niður að bílnum. Fáeinum dögum síðar var hún öll.

Stórfjölskyldan samankomin vegna jarðarför Böldu. Ljósmyndari ókunnur / mynd úr einkasafni.

Friðþóra Stefánsdóttir kona Jóhanns Þorvaldssonar kennara skrifaði líklega stystu minningargrein sem ég hef séð um dagana, en segja má að hvert einasta orð hafi verið þrungið svo samanþjöppuðum sannleika að vart er hægt að nálgast kjarna málsins með fagmannlegri og einbeittari hætti. 

„Umgjörð daglegs lífs Böldu var Siglufjörður, náttúran, menn og málleysingjar. Andardráttur umhyggju hennar snerti allt. Lotning hennar fyrir lífsins höfundi var átakalaus. Hvern helgan dag sat hún á kirkjubekknum meðan heilsan leyfði. Hún var á bænavakt alla daga. Hún höfðaði ávallt til hins góða í manninum og gaf alltaf meira en hún þáði.

Balda var ekki stór kona að sjá, en þeim mun stórbrotnari var hennar innri maður, góðvild hennar meiri og umhyggja fyrir öllum og öllu. Hún fór hávaðalaust gegnum lífið, en skildi engu að síður eftir sig djúp spor í hjarta samferðamanna sinna.

Gæfa okkar var að eignast hana að vini, njóta umhyggju hennar og ástúðar. Hún var okkur dýrmæt gjöf lífsins. Nú drúpum við höfði og þökkum allt í þeirri vissu að hún er í landi guðs um tíma og eilífð“.

Þráinn Guðmundsson (1933-2007).

Þeim Ingibjörgu og Guðmundi fæddist einn sonur, Þráinn. Hann eins og aðrir siglfirskir unglingar á þeim tíma fór að vinna á síldarplönunum um leið og hann hafði aldur og getu til. Þráinn var hæfileikaríkur, vel gefinn og samviskusamur ungur maður. Því lá beint við að hann gengi menntaveginn, sem var nokkuð sem foreldrarnir höfðu aldrei neina möguleika á sökum fátæktar. 

Þráinn og Minný móðir mín voru æskuvinir. Aðeins eitt ár skildi á milli þeirra í aldri og ef til vill hafði frændsemin þar eitthvað að segja, því mikill samgangur var milli heimila þeirra eins og áður hefur komið fram. Þau voru leikfélagar í bernsku þegar þau voru að alast upp á brekkunni, voru mjög samrýmd og vinátta þeirra hélst meðan bæði lifðu. Sama gerðist hjá næstu kynslóð sem á eftir kom. Ég og Ingibjörg dóttir Þráins vorum bæði fædd sama ár. Hún var „send í sveit“ á sumrin til afa síns og ömmu frá því ég man eftir mér og langt fram á unglingsár og við vorum líka leikfélagar og ágætir vinir rétt eins og foreldrar okkar.

Þráinn Guðmundsson stúdent 1953. Ljósmyndari óþekktur/mynd úr einkasafni.

Eftir gagnfræðaskólagönguna á kirkjuloftinu, fór Þráinn til Akureyrar þar sem hann varð stúdent frá MA. 1953, en þaðan lá leið hans suður til Reykjavíkur þar sem hann lauk prófi frá Kennaraskólanum 1957. Hann nam síðan íslensk fræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan fyrrihlutaprófi. Þráinn fór síðan til náms til Svíþjóðar þar sem hann dvaldi á árunum 1957–58 og hlaut í framhaldinu Fullbright styrk til náms í Bandaríkjunum 1966–68. 


Þráinn starfaði allan sinn starfsferil að skóla og fræðslumálum. Hann var kennari við Miðbæjarskólann 1954–63 og síðan yfirkennari og skólastjóri við Laugalækjarskóla um 30 ára skeið, 1963–93. Hann var fræðslustjóri Reykjavíkur 1985–86 og á tímabili var hann skólastjóri Námsflokka Reykjavíkur. Hann hafði forystu um að komið yrði á fullorðinsfræðslu hér á landi með stofnun Kvöldskóla Reykjavíkur, en próf frá Kvöldskólanum veitti réttindi til framhaldsnáms. Síðustu árin starfaði hann hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, en lét þar af störfum árið 2003.

Þráinn að koma niður úr túninu ásamt tengdadóttur sinni Bergþóru, en hún er eiginkona Guðmundar Ómars. Ljósmyndari ókunnur / mynd úr einkasafni.

Í mörg ár eftir að Þráinn hóf störf við kennslu, kom hann til Siglufjarðar í sumarfríum sínum til að vinna í síldinni og aðstoða foreldra sína við bústörfin. Eftir að heilsu Guðmundar föður hans tók að hraka, tók Þráinn að sér að slá túnið sem var að sjálfsögðu aðeins gert með orfi og ljá og hreint ekkert áhlaupsverk. Þá sá hann um að mestu leyti um að koma heyinu í hús. Sá sem þetta ritar man vel eftir honum við sláttinn og einnig þegar hann bar baggana á bakinu af túninu og niður að útihúsinu sem jafnframt gegndi hlutverki hlöðu, en oft var lika mikill heystabbi undir striga fyrir ofan það, sem minnkaði þagar leið á veturinn.

Þráinn hafði mikinn áhuga á skák. Hann tók þátt í starfi skákhreyfingarinnar og sat í stjórn Skáksambands Íslands í nær 40 ár. Hann var forseti Skáksambandsins 1986–89 og í mörg ár var hann fulltrúi Íslands á þingum Alþjóðaskáksambandsins FIDE. Þá var hann oft fararstjóri íslensku ólympíuskáksveitarinnar. Árið 1990 var hann útnefndur alþjóðlegur skákdómari af FIDE. Hann var ritari Skáksambandsins þegar Bobby Fischer og Boris Spassky háðu heimsmeistaraeinvígið í skák sem fór fram hér á landi árið 1972, sem var á þeim tíma nefnt einn mesti menningarviðburður sem hafði farið fram hérlendis. Þá var hann ritstjóri tímaritsins SKÁK, og ritaði sögu Skáksambands Íslands sem kom út í tveimur bindum. Þráinn var útnefndur heiðursfélagi bæði Skáksambands Íslands og Taflfélags Reykjavíkur.

Guðmundur Ómar Þráinsson lætur fara vel um sig í túninu hjá afa sínum og nafna. Ljósmyndari ókunnur / mynd úr einkasafni.

Hinn 23. október 1954 giftist Þráinn Margréti Guðmundsdóttur. Þau Þráinn og Margrét eignuðust fimm börn, en þau eru í aldursröð: Ingibjörg skrifstofumaður, búsett í Englandi, Guðmundur Ómar, yfirmaður sérsveitar ríkislögreglustjóra, Hulda leikskólakennari í Kópavogi, (bjó um tíma á Siglufirði og er gift Helga Kristni Hannesar Bald), Margrét sem býr í Danmörku og er kennari í Árósum, og Lúðvík sem er yngstur, en hann er viðskiptafræðingur og endurskoðandi.

Heimildir: Mbl.is, Samvinnan/Gylfi Gröndal, Einherji/Jóhann Þorvaldsson, Siglfirðingur, Guðmundur Ómar Þráinsson, Hulda Þráinsdóttir, Njörður Jóhannsson.

Sérstök hjálparhella við greiningu á höfundum ljósmynda, Steingrímur Kristinsson.

Samantekt: Leó R. Ólason.