Helga hafði loksins tekið sér sinn eigin bókadekurdag sem hún hafði lofað sjálfri sér svo lengi og skroppið inn á Akureyri og nú var hún stödd inni í fornbókabúð og leitaði eftir fallegum innbundnum bókum með lesverðugu innihaldi.

Eigandi búðarinnar var álíka gamall og rykfallin eins og allt annað sem var þarna inni og þegar hún bar fram spurningu sína um fallegar bækur þá benti hann á nokkra sneisafulla bananakassa og sagði að þar væru góðar bækur frá virðulegu heimili sem hann var nýbúinn að kaupa úr dánarbúinu.

Þarna var mikið af góðu og áhugaverðu vel innbundu lesefni en svo allt í einu rekst Helga á ótrúlega fallega gamla dagbók og hún virtist við fyrstu sýn vera algjörlega ónotuð. Allar blaðsíður tómar nema sú fyrsta og þar voru þessi orð skrifuð með gamaldags ritstíl.

„Berlín 10 desember 1945

Elsku Helga mín.

Guð hvað ég sakna þín mikið elsku besta nafna mín.

Það verður einkennilegt að hafa þig ekki hjá mér yfir jólin eins og venjulega því við afi verðum hér yfir alla hátíðina. En elsku Helga mín, vertu nú dugleg að skrifa allt sem drífur á þína daga í þessa fallegu og sérkennilegu dagbók sem ég sagði þér frá í bréfinu, svo þú getir sagt mér allt þegar við hittumst á nýju ári.

Ástar og saknaðarkveðjur og þúsund kossar frá mér og afa.

Amma (Unnur) HELGA“

Merkilegt, þessi stúlka heitir Helga eins og ég hugsaði Helga þegar hún keyrði norður út úr bænum eftir stutt stopp í IKEA þar sem hún pantaði sér góðan les sófa og lampa í herbergið sem elsta dóttirin hafði haft sem sitt sumarleyfisherbergi alltof lengi.
En nú verður því breytt í lesherbergi bara fyrir hana sjálfa.

Áður en hún fór af stað fékk hún sér kaffi og kleinu og kíkti aðeins á Facebook og þar voru margar vinkonur á svipuðum aldri og þær voru stanslaust að státa sig með myndum af nýfæddum barnabörnum og Helga sendi hamingjuóskir og svo fékk hún strax skilaboð á Messenger frá einni sem spurði:

Er ekki eitthvað á leiðinni hjá þér og Gunna ?
Æi.. hvað ég er orðin leið þá þessum spurningum, eins og ég geti bara hringt og skipað mínum börnum að byrja að framleiða barnabörn.

Allt hefur sinn tíma, þannig er það bara. En samt….

Á leiðinn norður á Sigló varð henni mikið hugsað til þess tíma þar sem hún sjálf var mikið bókaormabarn og dagbókar og ljóðaskrifandi unglingur. Minntist þess með bros á vör þegar pabbi hennar sem sýndi þessum lestraráhuga lítinn skilning truflaði hana í þessum þægilega ljúfa bókalestrarheimi.
Hann fékk nóg einn fallegan vordag og kom inní herbergið hennar hálfu ári eftir að hún varð 16 ára og truflaði hana við lestur á Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson.

Helga mín er ekki nóg komið núna? Þú verður að fara að þroskast og hætta að lifa bara í þessum ímyndaða unglingaástardellubóka heimi.

Elskan mín!
Þú er að missa af sjálfu lífinu, sem er þarna beint fyrir framan nefið á þér.

Helga horfði gáttuð og móðguð á pabba sinn, sem greinilega hafi ekki hugmynd um að hún var löngu hætt að lesa unglinga ástarsögur.
En, já, já, bækur sem bækur og það var það eina sem hann sá.

Hann Kalli frændi þinn kemur í kvöld og tekur þig með á ball á Hótel Höfn, Gautarnir eru að spila. Það mun gera þér gott að komast út á lífið og líka að hreinlega kynnast skemmtilegum jafnöldrum.

Farðu bara út á lífið og gerðu svo eitthvað af þér sem ég vill ekki vita.

Er það ekki bara, vina?

Helga gat ekki stillt sig og svaraði spjátrungslega:

Ók, þú vilt sem sagt að ég fari á ball og komi helst ólétt heim?
Er þér alvara pabbi ?

Nú var mamma líka komin í hurðargættina, hún hafði greinilega staðið þarna í felum allan tímann. Hún fussaði á manninn sin og sagði: Guðmundur Þór, í alvöru talað, það þarf ekkert að pína barnið í að fara á ball, ég var alveg eins á hennar aldri og ég fann það bara sjálf seinna hvort ég vildi fara út á lífið eða ekki.

Barnið!
Koma ólétt heim, er ekki í lagi með ykkur?
Hverslags vitleysa er þetta í ykkur stelpur, eru ekki allir á pillunni í dag.
Já Helga mín, þú ert vissulega fædd 1964. Ári fyrir pillu, ekki satt Hrafnhildur Helga Jónsdóttir?
Sagði hann og horfði strangt en hálfbrosandi á elskuna sína sem hann hafði hitt þegar hún var á sautjánda ári á balli í Alþýðuhúsinu sem var svona lokaball eftir velheppnað dansnámskeið hjá Dansskóla Heiðars Ástvalds og mikið rétt, hún kom ólétt heim en þetta var yndisleg nótt fyrir þau bæði sem síðan lengdist og endaði í ansi góðu hjónabandi.

Það getur varla verið hættulegt fyrir ungt fólk að fara á ball, hrökk út úr Guðmundi Þór og á leiðinn út úr herberginu bætti hann við:

Helga mín. Hann Kalli kemur klukkan átta og sækir þig, ykkur er víst boðið í partí líka.

Hún Helga sá sko ekki eftir því að hafa farið á þetta ball á Höfninni, því þar hitti hún hann Gunna sinn og þau hafa verið saman alla tíð síðan.
Þrjú yndisleg börn, sú elsta er 31 árs og hún býr í Reykjavík og er vissulega í sambúð með góðum strák en bæði tvö eru mest upptekin við að klára doktorsnám í stjórnmálafræði og einhverju öðru sem Helga hefur aldrei skilið alveg.

Miðjubarnið er 29 ára stelpututtla, frjáls og laus og liðug, sem skiptir um kærasta aðra hverja viku og svo vinnur hún við hitt og þetta og lætur sig síðan hverfa af landinu mánuðum saman og leggst þá í ferðalög þar sem hún skoðar heiminn og hittir annað hálfskrítið hippahugmyndalegt fólk sem líkist henni sjálfri.

Helga öfundar hana oft, því þessa valmöguleika eða svona frjálsræði hafði hún aldrei sjálf.

Örverpið hann Jónas Þór, minn liti sæti… sem er nú reyndar nýorðin 24 ára og 198 sentímetra langt barn.
Hugsaði Helga og brosti, verður kannski fyrstur til að gefa henni sitt langþráða fyrsta barnabarn. Hann býr vissulega enn heima og unnir sér best úti á sjó með pabba sínum.
Þeir tveir eru svo líkir og ljúfir og góðir við allt og alla og það er ekki skrítið að margar af stelpum fjarðarins hafi lengi vel reynt að gera hosur sínar grænar fyrir honum Jónasi mínum. Nú er hann loksins á föstu með góðri stelpu og þau byrjuð að ræða um sambúð í alvöru.

Helga sjálf er í einhverskonar millibilsástandi í lífinu, ný orðin 56 ára.
Hún seldi litlu sport- og tískuvörubúðina sína í fyrra, því hún var orðin nokkuð slitin og þreytt eftir yfir 30 ár af barnauppeldi og tvöfaldri vinnu. Hún ætlaði strax að fara að sækja um vinnu en Gunni, þessi skilningsríka elska stoppaði hana af og sagði:

Elsku hjartans Helga mín, taktu þér frekar gott frí, þú átt það svo sannarlega skilið eftir allt strit með börn, búð og heimili, samtímis sem ég var að byggja upp útgerðina. Við höfum það fínt elskan mín, hafðu ekki áhyggjur af neinu og Jónas er svo áhugasamur í að taka við af mér og þá gerum við tvö bara það sem okkur dettur í hug og leikum við barnabörn þegar við nennum.

Ó, guð hvað ég er þakklát pabba fyrir að hafa rekið mig á ball, því annars hefði ég aldrei hitt þessa elsku sem er mér allt.

Helga á frekar erfitt með að finna sig í að hafa ekkert sérstakt fyrir stafni daglega.
Hún kann hreinlega ekki að slappa af og unna sjálfri sér einhvers í stað þess að stanslaust vera í því hlutverki að elska og þjónusta aðra. Hún fór samt alltaf snemma á fætur og kvaddi strákana sína fyrir sjóferð dagsins og síðan fór hún í langa göngutúra víðsvegar um fagra náttúru Siglufjarðar, tók fallegar ljósmyndir og lagði svo daglega út á Fésið og beið síðan spennt eftir viðbrögðum vina og hún var eiginlega orðin háð því að telja hversu mörg „like“ hún fengi.

Þetta vandræðalega stefnuleysi varð síðan ástæðan fyrir þessu bóka- og lestrarherbergis sjálfsdekurverkefni og hana hlakkaði mikið til að geta byrjað að verða bókaormur aftur eftir næstum 40 ára hlé.

Því ekkert er jafn afslappandi og að týna sjálfri sér í góðri sögu.

Þegar Helga kom heim frá Akureyri skoðaði hún þessa dagbók betur í hálfkláraða lestrarherberginu sínu og hún fletti öllum hinum bókunum sem hún hafði keypt í von um að finna þetta bréf sem „amma Unnur Helga“ nefnir í dagbókaráritunarkveðju sinni.
En því miður er þar ekkert að finna en þetta voru allt saman dásamlega fallegar bækur og margar með áritaðri kveðju til fyrrverandi bókaeiganda frá frægum Íslenskum höfundum.

Held ég verði að hringja í fornbókakarlinn á morgun og spyrja hvort hann hafi fundið þetta bréf í hinum kössunum.

Merkilegt, allt saman, hugsar Helga og leggur frá sér opna dagbókina og fer síðan og leggst uppí hjá honum Gunna sínum, tekur utan um hann og sofnar og steinsefur alla nóttina og vaknar ekki einu sinni til þess að kveðja sjómennina sína eins og venjulega.

Það var mjög svo léttskýjað í morgunhugsanaferli Helgu og kaffið var eitthvað svo óvenjulega gott og öll hennar skilningarvit skörp og tilbúin í að taka inn þennan góða dag.

Ég er kannski bara búin að finna sjálfa mig aftur. Gott að hafa dekurverkefni sem ég valið mér sjálf, hugsaði hún og horfði smástund á Hólshyrnuna sem skartaði sínu fegursta í fallegu haustbyrjunarljósi en hún ákvað að þetta væri bara gluggaveður og hún nennti ekki út í meiningalausan ljósmyndatökugöngutúr.

Lesherbergið dró hana til sín, því þar inni beið eftir henni skemmtilegri ævintýraheimur.

Helga sest niður við litla skrifborðið þar sem hún lagði frá sér opna dagbókina kvöldið áður og henni brá svo mikið að hún missti kaffibollan í gólfið og hann mölbrotnaði með háum hvelli.

Hvað, hvað er nú þetta… stynur Helga, það hefur einhver skrifað í dagbókina og sér til mikillar undrunar og furðu les hún:

„Fimmtudagur 27 ágúst 2020

Kl: 09.21.
Ég vaknaði svo útsofin og hress, kaffið var eitthvað svo dásamlega gott og ég var svo ánægð með sjálfa mig yfir að láta loksins verða af því að elska sjálfa mig og unna mér einhvers góðs. Ég elska þetta lesherbergi nú þegar.“

Um hálftíuleyti skar ég mig illa í stóru tána og þurfti að láta Andrés lækni sauma þetta saman uppi á Heilsugæslu.

Guð minn álmáttugur, hef ég bæði gengið og skrifað í svefni?
Hvað er er eiginlega í gangi?

kl.10.43.

Solla vinkona hringdi í mín og biður mig að hitta sig í hádeginu niður á Torgi og vill að við tvær tökum að okkur að hafa smá skemmtihitting hjá okkur fermingarsystkinunum.

Fyrsta tóma dagbókar blaðsíðan er nú þegar full af lýsingum af öllu sem mun gerast í lífi Helgu þennan fimmtudag sem var rétt að byrja.

Helga reyndi að hrista þessa ónotatilfinningu af sér og lokaði dagbókinni í hasti og hljóp út úr lesherberginu góða en steig samtímis á bollaglerbrot og skar sig illa í hægri stórutána.

Þessi andsk.. dagbók skrifar sig sjálf hugsaði Helga skelkuð þegar hún haltraði fram í eldhús með blóðslóðina á eftir sér.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

(Þakklætiskveðjur til fósturmóður minnar Solveigar Jónsdóttur fyrir prófarkalestur og góð ráð.)

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!

SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.