Undanfarin ár hefur starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga tekið þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins, sem er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, og staðið sig vel. Þátttakan hefur verið góð og verið starfsfólki hvatning til að hreyfa sig meira og reglulegar en ella. Í ár tóku nemendur þátt í fyrsta sinn og byrjuðu þátttöku sína með stæl. Þau voru skráð í keppni framhaldsskóla með 2 – 399 nemendur og var ákveðið að einblína á þátttöku staðnema í frumrauninni.

Árangurinn varð góður og þegar upp var staðið hafnaði skólinn í 2. sæti í sínum flokki, bæði hvað varðar flesta daga sem tekið var þátt sem og flestar mínútur sem hreyfingin stóð. Norðlensku skólarnir voru áberandi í þessum flokki því Framhaldsskólinn á Húsavík hlaut fyrsta sætið og Framhaldsskólinn á Laugum það þriðja.

Nemandafélagið fékk senda veglega verðlaunaskildi frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands vegna þessa góða árangurs. Þórarinn Hannesson, sem fer fyrir stýrihópi Heilsueflandi framhaldsskóla í MTR, afhenti fulltrúum nemendafélagsins Trölla, Jóni Grétari Guðjónssyni og Lárusi Inga Baldurssyni, skildina í skólanum á dögunum. Stefnt er að þátttöku aftur næsta vetur og að þá verði fjarnemar einnig virkjaðir.

Mynd/Gísli Kristinsson