Ja hérna… þvílíkt ástand… þessi Kóróna krísa tekur bara engan endi.
Hugsuðu bæði menn og englar.

Í englaminni hafði annað eins ekki gerst síðan „Svarti Dauðinn“ var uppá sitt besta og drap hálfan heiminn að gamni sínu fyrir nokkur hundruð árum. Það var einmitt þá sem dauða engilinn hann Azrael fékk allskyns viðurnefni og nýja ásýnd sem „Maðurinn með ljáinn

En við megum ekki gleyma að þá var nú reyndar heildarfjöldi mannkynsins bara brot af því sem það er í dag.

HimnaRíki er rétt eins og önnur ríki með stjórnsýslu og almannavarnarkerfi þar sem allt byggist á að fá daglegt líf og dauða að rúlla nokkuð áreynslulaust fyrir bæði starfandi engla sem og allar almennar sálir sem búa þar.

Efstur er Almættið og síðan Erkienglar sem eru hans ráðherrar og umboðsmenn í ýmsum málefnum og þar á eftir fjöldinn allur af verkamanna englum á plani. Það eru í rauninni þeir sem halda Himnaríkismálum gangandi en þeir fá sjaldan hrós eða klapp á öxlina.

Þetta langvarandi Kórónuveirudauðaástand var virkilega farið að skapa alvarleg vandamál í Himnaríki og þá sérstaklega í Dauðamóttökumálaráðuneytinu. Og þetta þrátt fyrir mikla tölvuvæðingu síðustu þrjátíu ára sem kom með hjálp allra tölvunörda sem drápust eins og flugur við lyklaborðin sín af hreyfingarleysi og hjartaáföllum eftir ofneyðslu á orkudrykkjum.

Langar biðraðir mynduðust nú við hliðið hjá Lykla Pétri því það er hinn mesti misskilningur að sumir fari til helvítis.
Því tilvist Helvítis er bara gömul kjaftasaga sem prestar fyrri alda notuðu til að hræða fullorðin börn til hlýðni.

En hinsvegar verða allir að fara í gegnum Hreinsunareldinn, en það getur tekið mislangan tíma og fer mikið eftir því hversu mikið maður hefur á samviskunni og persónulegum vilja til að sjá og viðurkenna syndir sínar.

En öllum er yfirleitt að lokum fyrirgefið og sleppt inn í Himnaríki.

Sem dæmi um vandamál sem þetta ástand skapaði má nefna að í biðröðinni í Hreinsunareldinn bar mikið á fínklæddum ribböldum sem voru með leiðindi og stæla við bæði starfsengla og aðra dauða gesti.

Það kom fljótlega í ljós að þetta voru alltsaman nýdauðir Íslenskir útrásavíkingar, bankastjórar og pólitíkusar sem öskrandi kröfðust sérafgreiðslu og þar fyrir utan töfðu þeir mikið fyrir öllum öðrum.

Því það gekk ekkert hjá þeim að viðurkenna syndir sínar þegar þeir vel komust í hreinsunareldinn og hér var ekki hægt að kaupa sér hreina samvisku með lögfræðiaðstoð.

Skyndilausnin var að stofna einhverskonar sér Íslenska „biðhreinsunareldadeild“ fyrir þessar erfiðu sálir og mér vitanlega eru þeir allir þar ennþá.

En það sem er kannski verst af öllu, er að langvarandi streituálag á vissum lykilstarfsmönnum Himnaríkis, var virkilega farið að tyggja sundur góðan starfsanda og vinnuvilja.

Alvarleg kulnunareinkenni fóru nú að sjást víða og þá sérstaklega hjá „Manninum með ljáinn“ sem var einn og yfirgefin í starfi sínu við að sækja alla sem létust.

Statue of Death, personified as a human skeleton dressed in a shroud and clutching a scythe, from the Cathedral of Trier in TrierGermany

Azrael greyið var álíka einn í þessu eins og Ameríski Coca Cola jólasveinninn. En síðustu árin höfðu töluverðar umræður skapast um að taka Íslenska jólasveina sér til fyrirmyndar til þess að mæta auknum mannfjölda jarðarinnar og minnka álagið á sveinka.

Í fyrirmyndarlandinu eru Jólasveinarnir þrettán að tölu, með eigið öflugt verkalýðsfélag og lífeyrissjóð.

Það var vissulega löngu búið að uppfæra „Dauðabókina“ hans Azraels í stafrænt form og skipta út gamla tímaglasinu hans fyrir spjaldtölvu þar sem hann sá auðveldlega hverja hann átti að sækja en það var augljóst að hann var nú orðinn langþreyttur og… tja… hreinlega kexruglaður í hausnum því hann las bæði dánartíma og nöfn rangt og kom með fullt að röngu fólki að hliðinu hjá Lykla Pésa.

Þetta fólk stóð nú ráðgáta í sérstakri biðröð í von um að fá þetta leiðrétt með klögunarorðum eins og: … „en ég var ekki einu sinni smituð/ur af þessari andskotans veiru???“

Þvílíkt ófremdarástand… „við verðum að gera eitthvað í þessu..“ ræddu nokkrir háttsettir Erkienglar sín á milli í hálfum hljóðum.

Við biðjum Gabríel að ræða þetta við Almættið, hann þekkir hann/hana best “ sagði einn þeirra spekingslega.

Af hverju alltaf ÉG“ sagði Gabríel pirraður við vini sína sem hann hafði þekkt í þúsundir ára.

Mikael, einn af vinum Gabríels.
Málverk eftir: Guido Reni (Santa Maria della Concezione, Rom)

Erkienglavinirnir Gabríels ýttu honum að dyrum Almættisins og sögðu svo… „já.. svona, drífðu þig.. bankaðu…“ og svo földu þeir sig á bak við ský.

Almættið birtist manneskjum í ýmsu formi og það fer mikið eftir því í hvaða trúarbrögðum hinn og þessi eru alin upp við í hvaða búningi Almættið birtist þeim.

En úr því að það var laugardagur og um starfsmann að ræða þá kom Almættið bara til dyra eins og hann/hún var klædd/ur, í Arsenaltreyju og stuttbuxum. Það voru bara 5 mín. í mikilvægan leik.

Gabríel var svo stressaður að hann tók ekkert eftir þessum afslappaða klæðaburði og byrjaði að afsaka sig og síðan rabblaði hann upp allt sem gekk á í þessari Kórónudauðakrísu….

„… Og svo ofan á allt annað er hann Azrael algjörlega útbrunninn og dregur hingað fólk sem á ekkert að vera að deyja og… og… hvað eigum við að gera? Getum við sett einhvern annan í þetta? … Og svo…“

Gabríel, Gabríel, róaðu þig aðeins“ svaraði Almættið hálfpirringslega og kíkti á klukkuna samtímis.

Sendu hann í veikindafrí og nei það getur enginn annar tekið við þessu, þetta er hefð og það kann þetta enginn annar… „ sagði Almættið og byrjaði að loka hurðinni en hætti svo við og opnaði aftur og bætti við.

Og Gabríel, láttu hann… æi, hvað heitir hann aftur sálfræðingurinn…. hann… já, Freud spjalla við Azrael reglulega í nokkrar vikur og þetta lagast allt saman fljótlega en mundu líka að tíminn er afstæður og ekki sá sami í mínum huga eða þínum englahaus og hvað þá í heimi manneskjunnar.“

Svo lokaði Almættið bara hurðinni og Gabríel greyið stóð bara og starði á hurðina og stundi.

En…en… ef hann fer í frí þá deyr enginn… „ Gabríel stóð lengi og starði út í loftið, undrandi yfir þessari skyndiákvörðun Almættisins….. svo heyrði hann að Almættið opnaði bjórdós og hækkaði í sjónvarpinu.

Á kúlunni bláu sem mannkynið býr á, tók svo sem enginn eftir þessari breytingu strax í byrjun. En þegar fólk sem lá fyrir dauðanum og jafnvel slatti að þeim sem höfðu látist skyndilega, algerlega að ástæðulausu hættu við og stóðu upp eins og ekkert væri sjálfsagðara, þá urðu allir fjölmiðlar og félagsmiðlar fullir af kraftaverkafréttum.

En þetta vandist og fólk fór í lengdina meira að taka eftir því að enginn dó lengur, sem var þægileg tilbreyting frá óvissunni og þessu sorgarferli sem heimurinn var lengi vel fastur í.

En þessi staðreynd varð fljótt að nýju vandamáli eftir bara nokkra vikur. Því mannskepnan fjölgar sér eins og kanínur og fyrir Kórónukrísu var það á mörkunum að þessi blessaða jörð gæti fætt og klætt þá sem þá þegar lifðu þarna.

Ný krísa kórónaði nú Kórónaveirukrísuna og mannskepnan fór nú með bænir um að fá Dauðann til baka.

Já… mannskepnur eru skrítnar og vanþakklátar skepnur… ekkert dugir“ Hugsaði Almættið og teygði sig í fjarstýringuna og leitaði að einhverju léttu sjónvarpsefni frá öðrum skemmtilegri heimi sem hann/hún hafði gleymt að hann/hún hafði skapað einhvern tíman í denn.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Aðrar sögur og greinar eftir Jón Ólaf Björgvinsson á trolli.is.

Ljósmyndir af listaverkun eru fengnar að láni úr Wikipedia greinum sem vísað er í gegnum slóðir í texta.

Innblástur varðandi frásagnarform sögunnar er sóttur í verk Tage Daníelssonar og Erlend Loe.