Á föstudag fór fram minningarmótið Úlli Open 2020 í Vestmannaeyjum, en það er haldið til minningar um Siglfirðinginn Gunnlaug Úlfar Gunnlaugsson, Úlla pípara, sem bjó um langt árabil í Eyjum.  En í dag eru 11 mánuðir frá því hann lést langt fyrir aldur fram.

Hann var fæddur á Siglufirði þann 5.apríl 1958 bjó þar fyrstu árin með fjölskyldu sinni en dreif sig út í Eyjar á unglingsárum og vann þar bæði á sjó og í landi, lengst af hjá Huginsfólkinu og í Miðstöðinni hjá Didda heitnum og Mara pípara.  Hann flutti svo til Grindavíkur og bjó þar og starfaði þar til hann lést þann 22. september á síðasta ári.

Úlli með árgangi 1958 á Siglufirði. Myndin var tekin í 60 ára fögnuði árgangsins 2018.

Lagnaþjónusta Suðurnesja sem Úlli stofnaði ásamt Rúnari Helgasyni kom myndarlega að mótinu með fjárstyrk, en Þorfinnur sonur Úlla er nú meðeigandi Rúnars að Lagnaþjónustunni. 

Glæsilegu móti lauk með sigri Bjarka Guðmundssonar frá Grindavík, þannig að farandbikarinn verður fyrsta árið varðveittur í Grindavík.  Í verðlaunaafhendingunni afhentu síðan Kristín Gísladóttir, ekkja Úlla og börn hans, Eva Rut, Þorfinnur og Gunný, Kristínu Valtýsdóttur frá Krabbavörn í Vestmannaeyjum, allt það sem safnaðist í kringum mótið, eða 327.000,- krónur. Þakkaði hún fyrir þennan styrk með fallegum og vel völdum orðum.

Enn og aftur vilja aðstandendur mótsins þakka stuðninginn og minna á að mótið verður haldið aftur á næsta ári og stefnan er að gera enn betur þá.

Úrslit mótsins:
Karlar:
1. Bjarki Guðmundsson
2. Kristófer Helgi Helgason
3. Bjarni Ólafur Guðmundsson

Konur:
1. Guðrún Mary Ólafsdóttir
2. Kristín Gísladóttir
3. Gunný Gunnlaugsdóttir


Heimild/Eyjafréttir