Helga náði sér fljótlega af áfallinu sem hún varð fyrir við fyrsta lestur dagbókarinnar.

Það er líklega einhver meining með því að dagbókin skrifar sig sjálf og segir hvað gerast muni í framtíðinni, hugsaði Helga, sem hafði ekki þorað að nefna þetta við nokkurn mann.

Helga fylgdist spennt með því hvað dagbókin sagði á hverjum degi og það undarlega var að gærdagurinn var alltaf horfin strax um miðnætti, strokaður út úr dagbókinni og á sömu síðu birtust spádómar morgundagsins.

Helga sannreyndi einnig að allt sem dagbókin sagði um hennar líf á hverjum morgni reyndist undatekningarlaust rétt í öllum atriðum.

Henni varð mikið hugsað til þess hvaðan þessi dagbók kæmi og hvernig þessi spádómskraftur hafi komist í þessa bók.
En hún var líka fljót að venjast þessu og flýtti sér inn í lesherbergið sitt á morgna, spennt að fá að vita hvað myndi gerast í lífi hennar í dag.

Það var ekki það að hennar líf væri áhugavert, dagbókarfærslurnar minntu hana reyndar á að það mesta sem hún gerði og tók sér fyrir hendur var ekkert merkilegt og líktust mikið  Facebook færslum vina hennar.
Aðallega hversdagsfréttir um ekki neitt… kannski með einni ljósmynd!

Á laugardagsmorgni les hún í dagbókinni:

Kl: 11.06

Ég varð næstum fyrir bíl þegar ég var í göngutúr suður við gömlu Hólsárbrúnna, gekk þar í þungum þönkum hugsandi um þig, kæra merkilega dagbók. Verð að passa mig og beina athygli minni að því sem er að gerast í kringum mig.

Einmitt, hugsaði Helga, það er kannski aðalætlun þessarar dagbókar sem veit mína framtíð að vara mig við hættum sem geta komið óvænt í mínu lífi.

En samt bjó í henni efi um hvort að það sé gáfulegt að lifa bara eftir spádómum. Þrátt fyrir að það var þægilegt að fá dagskrá dagsins á hverjum morgni og sleppa við að þurfa að skipuleggja allt sitt líf sjálf.

Hún hafði reynt að ná í fornbókasalan inni á Akureyri en hann var í veikindafríi og ekki væntanlegur fyrr en eftir helgi.

Eftir hádegi á mánudag náði hún loksins í fornbókasalan sem gladdist þegar hún bar upp erindi sitt en sagði svo:

Gott að þú hringdir vina, ég dauðsé nú reyndar eftir því að hafa ekki sjálfur kíkt betur í kassana áður en ég leyfði þér að gramsa í þessu öllu. Þetta voru allt saman rándýrar og merkilegar bækur, en selt er selt og þetta voru mín en ekki þín mistök.

Ég er bundin þagnarskyldu og get þess vegna ekki sagt þér svo mikið, en bókaeigendurnir voru víst mjög svo þekkt fólk á sínum tíma.

Ég get alveg borgað þér meira… svaraði Helga. Nei, nei, það er óþarfi, þetta voru mín eigin mistök. En ég fann stóran sendibréfabunka í botninum á einum kassanum og þar var bréfið um þessa merkilegu dagbók frá ömmunni sem þú varst að spyrja um.

Á ég ekki bara setja þetta í póst til þetta þín væna?

Jú, takk, en ég get vart beðið… geturðu nokkuð lesið nokkur valin stykkir fyrir mig þar sem amman segir eitthvað um þessa dagbók?
Jú, jú, það er bara frekar rólegt hjá mér núna.

Bréfið er sem sagt skrifað í Berlín 10 des 1945 eins og stóð í dagbókinni þinni.

Við skulum sjá… amman segir hér að hún er í Berlín til þess að reyna að finna ættingja sína í móðurætt, sem var þekkt gyðingaætt sem átti stórar eignir í Berlín. En allt hennar fólk er nú horfið.

Hún lýsir líka fyrir Helgu þvílíkar hörmungar sem hafa dunið yfir alla íbúa Þýskalands og talar um fátækt og sundursprengdar húsarústir . Heilu hverfin, sem hún man eftir úr sinni barnæsku, eru horfin.

Jú, hér kemur þetta…

„… við afi þinn reynum að hjálpa til og dag einn fórum við á risastóran flóamarkað þar sem fólk selur allt sem það á til þess eins að fá mat á borðið.
Hugsaðu þér Helga mín hvað við erum heppnar að búa á Íslandinu góða.

Þarna rekst ég á illa klæddan sorgmæddan mann, þetta var sígauni sem var að selja allskyns “krimskrams,” og allt í einu sá ég þessa fallegu dagbók.
En hann hrifsaði hana strax til sín og sagðist ekki vilja selja þessa bók.

Ég bað hann afsökunar og sagði að ég vildi svo gjarna kaupa dagbókina handa barnabarninu mínu henni Helgu.

Allt í einu varð úr þessu merkilegt samtal elsku besta Helga mín og andlitið á honum ljómaði upp.

Helga!
Hún heitir Helga!
Eins og dóttir mín heitin?

Svo grét hann elsku Helga mín, þvílíkt táraflóð og svo sagði hann.
Allt mitt fólk dó í gasklefum nasistana.

Já ég skil þig vel vinur… allt mitt fólk í móðurætt er líka
horfið .  

Hann sagði mér að móðir hans var mjög virt spákona og hún setti góðan hluta af sinni guðsnáðargjöf í þessa dagbók svo að hún Helgan mín gæti alltaf vitað um þær hættur sem biðu hennar í lífinu.

En dóttir mín var svo hrædd við ofsóknir nasistana á okkar fólki að hún faldi bókina vel á stað sem bara ég og hún vissum um og gat síðan því miður ekki séð það hræðilega sem kom nokkrum dögum seinna.

Nafnið Helga þýðir „hin heilaga.” Mér líst vel á þessi dagbók fari áfram í hendurnar á annarri Helgu sem þér þykir greinilega vænt um, því ég mun aldrei fá til baka mína Helgu.

Ættarsaga mín mun enda með mínum dauða.

En ég vill samt vara þig við… það er ekki alltaf þægilegt að vita sína eigin framtíð.

 Já ljúfan mín. Þetta er sem sagt enginn venjuleg dagbók og ég veit ekki hvort að nokkuð af þessu sé satt og það verður spennandi að fá að vita það þegar ég hef þig loksins í faðmi mínum eftir jól.“

Sjáum til… jú svo nefnir amman hitt og þetta um einhver dýragarð og að tívolíið sé allt í rúst, nei, það kemur ekkert meira um þessa dagbók.

Ja hérna, hugsaði Helga og nú er þessi galdradagbók í mínum höndum hér norður á Sigló.

Helga lærði að umgangast við dagbókina sína og treysti henni fyrir öllum sínum framtíða leyndarmálum en sumt var mjög erfitt fyrir hana að vita.
Eins og t.d. að einn morgun í desember les hún að hún fái fréttir um að góður vinur hennar hafi farist í snjóflóði rétt innan við Strákagöngin. Hún skildi strax að hún hefði getað varað hann við… en hvernig þá og hver myndi svo sem trúa því að hún hefði lesið það í dagbókinni sinni góðu?

Rétt fyrir jól kom gleðifréttin sem hún hafði beðið eftir svo lengi.

Þriðjudagur 22 desember 2020

Kl.20.14

Ég reyndist víst sannspá, því hann Jónas minn kom óvænt með blóm til mín og kyssti mig á kinnina og sagði með bros á vör:
Elsku mamma þú verður að venja þig við að verða kölluð amma. Hún Guðbjörg mín er ólétt og við erum þegar búin að ákveða að ef þetta verður stelpa þá á hún að heita tvisvar sinnum Helga í höfuðið á báðum ömmunum.  

Þarna var á leiðinn erfingi af dagbókinni góðu, en framtíðar amma Helga var harðákveðin í að ná því að kenna verðandi Helgunni sinni allt um sögu dagbókarinnar og hvernig maður á að nota þann kraft sem í henni býr.

Helga vissi mikið vel að dag einn mun dagbókin sem skrifar sig sjálf segja:

Kl. 16.36
Í dag tók ég upp á því að deyja og ég er furðulega sátt við það.
Ég er svo sæl og ánægð með allt sem lífið hefur gefið mér
.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

(Þakklætiskveðjur til fósturmóður minnar Solveigar Jónsdóttur fyrir prófarkalestur og góð ráð.)

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!

SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.