Sigurður H Björnsson í Kollugerði segir frá.
Tímarit.is

Dagur – 40. tölublað (16.08.1972)

Formáli:

Tilurð þessarar samantektar minnar um viðtal frá 1972 við  „Síðasta bóndann í Héðinsfirði“ kom í rauninni upp úr „netleitarslysi“ með góðra vina hjálp. Ég var í rauninni að leita að að einhverju sem í myndum og máli gæti lýst því hvernig það gerðist á sínum tíma að lagður var einkennilegur “sikk/sakk” gönguslóði yfir Hestskarð frá Siglufirði til Héðinsfjarðar á sínum tíma.

En þá dett ég niður á þetta stórkostlega viðtal við hann Sigurð H Björnsson í Vík (27 mars 1912 – 16 júlí 1978), frænda minn, en hann nefnir einmitt þessa sneiðingsslóð og svo ótrúlega margt annað sem lýsir lífinu og tilverunni í veg- hafnar- og rafmagnslausum einangruðum þröngum firði.

En hann og hans fólk voru síðustu ábúendur í Héðinsfirði, en þetta er mér persónulega allt saman náskylt og kært fólk líka. Því Sigurður er systursonur ömmu minnar sem hét þessu fallega nafni, Mundína Valgerður Sigurðardóttir (30 ágúst 1911 – 2 ágúst 2000)  og hún var rétt eins og hann fæddur á Vatnsenda í Héðinsfirði. Þrátt fyrir að Sigurður væri systursonur hennar ömmu Mundu þá voru þau eiginlega jafnaldra.  

Amma var bara árinu eldri því það voru yfir 20 ár á milli þeirra systranna.  Anna Lilja Sigurðardóttir í Vík móðir Sigurðar var fædd á Vatnsenda 1890. Hún var elst 9 systkina og Mundína amma var yngst.

Það er augljóst að þessi fjörður er honum frænda mínum kær og rétt eins og ég líður hann fyrir þennan brotflutning með sömu eilífðar heimþrá sem ég ber í mér alla daga.

Séð út fjörðinn frá Vatnsenda á björtum fallegu sumardegi. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson

Héðinsfjörður var lengi vel í mínum huga eins og falin paradís líkt og dularfullir faldir staðir eins og Sjangri-La sem er erfitt að finna og maður þarf eða þurfti virkilega að hafa fyrir því að komast þangað. Það er hreinn Aladín galdur að geta komist að Vatnsenda á 10 mín. frá Sigló gegnum gat í fjalli.

Ég hef sagt það áður og nú síðast í áramótasunnudagspistli sem birtist hér á trolli.is í janúar síðastliðinn en í þessum pistli er líka smásaga tengd mínum upplifunum í Héðinsfirði… að margt og mikið af þeim skrýtnu sögum sem annarslagið renna úr mér koma frá miklum og nánum samskiptum við móðurættarfólkið mitt og þetta fólk bjó í einstakri nálægð og í sátt og samlyndi við náttúruna.

Náttúru-Líf sem er týnt og tröllum gefið í dag.

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”

Það er merkilegt líka að lesa lýsingar Sigurðar af dularfullum atburðum í Héðinsfirði eins og t.d. um veiði á einkennilegum 8 punda risableikjum sem ég hef séð líka einstaka sinnum eða um ómóta tilfinninguna sem grípur hann við fjárhúsin en þar er ég honum sammála að þar er eins og hann segir einhver „óhreinka“ sem er erfitt að útskýra.

Viðtalið er undirritað með bókstöfunum E.D. og ég kann því miður enginn nánari deili á þessum góða penna en það er athyglisvert og aðdáunarvert að sum orð eru skrifuð með Z og hvað málfar og frásagnarstíll Sigurðar frænda er einstakur og það skín í gegnum allt viðtalið að þessi maður og náttúran sem hann fæddist í eru eitt og sama.

En gjörið þið svo vel hér kemur viðtalið við Síðasta bóndann í Héðinsfirði.

ATH. Ég hef endurritað allt orðrétt en stytt smávegis á einstaka stað og bætt við ljósmyndum og slóðum sem útskýra og einfaldar fyrir ykkur lesendum að svala forvitni ykkar.

Ég vill líka passa uppá að benda ykkur á að til eru heimasíður sem eru algjör fjársjóður líkt og Ljósmyndasafn Siglufjarðar en það er Siglfirska örnefna og staðarlýsingar síðan snókur.is en forráða menn þar veittu mér góðfúslega leyfi til að lána nokkrar ljósmyndir og vísa í netslóðum á meira efni um þá staði sem Sigurður er að segja frá.  

Sendi öllum þeim stóra þakklætiskveðjur sem lögðu á sig mikla og óeigingjarna sjálfboðavinnu við að skapa þessa frábæru heimasíðu.     

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

.. Mannabyggð er nú engin í Héðinsfirði og hefur ekki verið svo tvo síðustu áratugina.

Hús og önnur mannvirki grotna niður, túnin komin í órækt, og þar myndi þeim dauft yfir að líta, sem muna fimmtíumanna byggð í þessari sérstæðu sveit…..

Víst var það einangrunin og hinir gjörbreytu tímar hér á landi sem lokkuðu – eða hröktu – fólkið frá Héðinsfirði og má e.t.v. einu gilda. Fyrir tveimur áratugum flutti síðasti bóndinn, Sigurður H Björnsson, þaðan með fólk sitt og fénað eins og þar stendur, hélt til Eyjafjarðar og settist að í nágrenni Akureyrar og hefur lengst af búið í Kollugerði 1, litlu en notasömu búi, ásamt ættmennum sínum….

…. Hann sagði mér mér eitt og annað um Héðinsfjörð og sjálfan sig, er við áttum tal saman annan dag páska í vor. Fer frásögn hans hér á eftir í aðalatriðum:

 Í Héðinsfirði voru þessir bæir: Vík, þar sem jafnan bjuggu nokkrir bændur, er sá bær að austan, en land náði einnig vestur yfir. Þá Vatnsendi og Möðruvellir einnig að austan og Grundarkot sem var í ábúð til ársins 1949. Sama megin var einnig eyðibýlið Brúnakot, utan við Ámárland, síðan um 1700 talið til Víkurlands.

Ég fæddist á Vatnsenda og var þar til þriggja ára aldurs en fór þá með foreldrum mínum að Vík, ólst þar upp og varð þar síðan bóndi. Faðir minn missti sjónina að mestu þegar ég var á fermingaraldri. Hann dvaldist tólf ár á Laugarnesspítala, hann kom heim 1938 og andaðist vorið 1943.

Vatnsendi. Ljósmyndari: Anna Dís Sveinbjörnsdóttir. Gamla steinsteypta íbúðarhúsið sem frændfólk mitt gerði upp með mikilli fyrirhöfn löngu fyrir göng hvarf niður í vatnið í snjóflóði veturinn 2004. Sömu nótt féll einnig mikið flóð austan megin úr sama fjalli á bæinn Bakka í Ólafsfirði og lést þar einn maður.

Það kom af þeim ástæðum í minn hlut að vera forsjá heimilisins með móður minni, og að vinna þau verk, sem talin voru fullorðinna manna einna….

…. Um síðustu aldramót (1900) voru 50 manns á bæjunum Í Héðinsfirði, en ég og mitt fólk flutti þaðan 30. Júní 1951 og vorum við þá búin að vera ein í firðinum í rúmt hálft annað ár.

…. Allir höfðu nóg að bíta og brenna. Flestir náðu góðum þroska og undu glaðir við sitt.

Sjór var auðvitað dálítið stundaður heima svo að ætíð var nægur sjómatur til á bæjunum allt árið, svo var saltaður fiskur og hertur, og mikið var borðað af hákarlinum.

Og svo má ekki gleyma blessuðum SILUNGNUM, sem bæði var étinn nýr, saltaður og reyktur.
Oft var fiskur líka saltaður til sölu….

Um SAM– GÖNGUR…

…. Hægt er að fara bæði ríðandi og gangandi til Siglufjarðar. Lengst af var farið Hólskarð, farið úr Héðinsfirði upp frá Ámá, þar yfir og niður Hólsskarðdalinn við Siglufjörð.

Þetta breyttist þó á síldarleysisárunum, líklega um 1940, því þá voru starfsmenn ríkisverksmiðjanna settir í að ryðja sneiðing yfir hestskarð. Styttist þá leiðin um helming frá Vík í Siglufjörð. Þessi vegur var síðan farinn á hestum á meðan ég þekkti til.

Gangandi menn völdu sér ýmsar leiðir eftir atvikum. Til Ólafsfjarðar var farið úr fjarðarbotninum yfir Skeggjabrekkuháls og komið niður hjá Garði í Ólafsfirði. Oft fórum við stytztu leið frá Vík og að Kleifum í Ólafsfirði og var tveggja tíma gangur eða meira milli bæja.

Hestskarð séð frá Siglufirði. Ljósmyndari: Hannes P. Baldvinsson. Mynd frá Snókur.is. Takið eftir gamla sikk / sakk sneiðingarslóðanum í skarðinu frá 1940.
Varða og göngu-sneiðingur í Hestskarði. Ljósmyndari: Már Örlygsson. Mynd frá snókur.is.

Hugmyndir um bæði fiskeldi og vegagerð ?

Bændur í Héðinsfirði áttu sjálfir jarðir sínar. Nú er búið að leigja þær allar saman og hyggjast leigutakar hefja lax og silungarækt þar. Var í sumar hafður vörður í Héðinsfirði til að líta þar eftir.

Ennfremur var af vegagerðarmönnum athugað vegastæði á milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar, með jeppaveg fyrir augum, sem fyrstu vegagerð fyrir vélknúið farartæki til hins óbyggða fjarðar. Er vonandi að bæði takist fiskrækt og svo vegagerðin til að auðvelda framkvæmdir í Héðinsfirði, við hinn nýja og áhugaverða atvinnuveg.

Ég seldi minn part í Vík, hálfa jörðina, fyrir skömmu, en hinsvegar eigum við, nokkrir erfingjar jörðina Vatnsenda.

Spjallað um silungsveiði…

Eftir að komið var fram í júlí fór sjóbleikjan að ganga í vatnið. En oft var snemmsumars dregið fyrir í sjónum við sandinn og aflað vel, vor eftir vor. En mér fannst silungurinn oft betri þegar hann var búinn að vera einhvern tíma í vatninu.

Við fengum stundum svona dálítinn slatta í árabát í sjónum við sandinn, kannski upp í 5-600 pund, man ég. En ennþá meira stundum í vatninu.

Einhvern tíma eftir 1940 drógum við fyrir hjá Vatnsenda. Fólkið var búið að sjá silunginn á grynningunum um daginn, svo við fórum um kvöldið. Við höfðum ofurlítinn bát og hann rétt flaust með silunginn.  Og allt þetta fengum við í einum drætti. Einn maður í okkar hópi var syntur og það var Guðmundur heitinn bróðir minn. Hann sagðist fara einn á bátnum og getað skilað sér þótt báturinn sykki, en allt flaut. Þegar niður að sjónum kom, bárum við aflann yfir kambinn og fórum svo til Siglufjarðar á trillu með silunginn. Þessi silungur mun hafa verið yfir 1000 pund og við fengum nokkuð gott verð fyrir hann á Siglufirði miðað við verðlag þá, allt var þetta stór og falleg bleikja.

Fyrirdráttur við Vatnsenda. Ljósmyndari óþekktur. Mynd frá snókur.is.

Þá þekktist ekki að fara með stöng. Allt veitt í fyrirdrátt og svo í lagnet.
Nokkuð af silungi gekk fram úr vatninu, upp í Héðinsfjarðaránna, langt fram í afrétt. Man ég það þegar Ásgrímur Sigurðsson frændi minn (móðurbróðir) og síðar skipstjóri fórum í göngur, að Ásgrímur hafði mikinn áhuga á silungum.

Hann tók eitt sinn þrjá stóra silunga með berum höndunum í ánni. Það var nú ágætt, en heldur verra fyrir mig að þurfa að bera þá.

Heldur þótti silungurinn verri, er veiddist frammi í ánni, hefur þá oft verið mikið „leginn.“

Góður afli við Vatnsenda. Ljósmyndari óþekktur. Mynd frá snókur.is.

Fyrir kom, að við fórum með tvo til þrjá hesta undir reiðingi með silung til Siglufjarðar og seldum við hann þar Pétri og Páli og hverjum sem hafa vildi og gekk hann vel út.
Ég man það eftir því einu sinni á Siglufirði, að ég viktaði bleikju handa manni einum og var hún átta pund og það voru margar hennar líknar í veiðinni. Þessi bleikja hefur oft verið mér ráðgáta. Það var aðeins þetta eina sumar og þó ekki nema í tvö skipti sem þessi ákaflega stóra bleikja veiddist í vatninu, og þessi ósköp af henni. Ég hafði aldrei séð lax og ég hef látið mér detta í hug að þetta hafi verið lax en ekki bleikja…

Vík. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

…. Einu sinni, seinni part sumars var sent eftir mér og ég beðinn að flytja 400 pund af silungi á trillu til Siglufjarðar. En þar sem við komum um nóttina til kaupstaðarins, vorum við í vandræðum með aflann því fólk var gengið til náða. En komin var fiskbúð og ég vakti  kaupmanninn upp og bauð silunginn. Hann var léttbrýnn þegar hann sá hinn stóra og feita silung og keypti af okkur.

Þóttumst við góðir og hröðuðum okkur heim, því að við þurftum í heyskapinn daginn eftir.
En svo liðu ekki nema tveir dagar þar til sami maður, frændi minn, sendi eftir mér á ný og bað mig fara aðra ferð til siglufjarðar. Hafði hann aftur fengið góða veiði og nú yfir 1000 pund af silungi.

En það er til marks um silungaveiðinna, að flestir í firðinum áttu saltaðan silung til vetrarins og er það ágætur matur þegar verkunin tekst vel, auk þess sem silungur var á borðum á sumrin, stundum dag eftir dag og bar ekki á að maður yrði leiður á honum…..

Rætt um snjóflóð, flugslys og slysavarnir…

 Ég hafði talstöð fyrir Slysavarnafélagið frá 1942. Naut ég sjálfur góðs af því.
Þegar ég fór, seldi ég svo félaginu húspartinn minn fyrir sanngjarnt verð. Ekki er skemmtilegt að segja frá því, að ekki var þetta hús látið í friði, því að hver einasta rúða var brotin í því.
Nú á Slysavarnarfélagið skipsbrotsmannaskýli þarna og er það eina sæmilega húsnæðið, því að önnur hús hafa grotnað niður.

Árið 1947 var hið sorglega flugslys í Hestfjalli.

Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Frá vettvangi flugslyss í Hestfjalli í Héðinsfirði – Doglas C3.


Árið 1919 féll snjóflóð úr Víkurhyrnu og fórst þar maður og annað snjóflóð féll daginn eftir hjá Ámá og þar fórst maður, er var við gegningar og einnig nokkuð af fé.

Einu sinni var móðir mín á ferð á milli bæja og mætti þá manni af öðrum bæ og tóku þau tal saman litla stund. En á meðan þau ræddust við, féll snjóflóð, og var talið, að ef móðir mín hefði ekki hitt manninn á leið sinni og numið staðar, hefði hún verið þangað komin er snjóflóðið féll. Oftar féllu snjóflóð, þótt ekki yrði mönnum eða skepnum að meini í mínu minni….

Hugsanir um uppgjöf og heimþrá…  

…. Ég er stundum að hugsa um það, hvort Héðinsfjörður byggist á ný. Eyðing byggðar var eðlileg, eins og þróunin var, þegar fólkið flutti burtu. En skeð getur, að land eins og Héðinsfjörður verði bráðlega meira metið en verið hefur.

Hver veit?

Mig tók það sárt, að flytjast úr þeirri sveit og ég var tvö ár að ná mér eftir flutninginn.

Þegar ljóst var að hverju stefndi með byggðina í Héðinsfirði, sagðist ég ekkert skammast mín fyrir að flýja af hólmi ef aðrir mér duglegri og meiri menn taldir, flyttu á undan.

Einhversstaðar hið innra með mér sat ofurlítill broddur af umtali, sem maður heyrði um okkur bræður.

Við áttum þá heima í gömlum torfbæ.

Sagt var að ekki myndu þeir eyra lengi heima „Bæjarstrákarnir.“ Mér gramdist þetta ofur lítið þá, og sú varð raunin að við fluttum ekki fyrr en allir voru burtu farnir.

Það var mér alltaf viðkvæmt mál að yfirgefa Héðinsfjörð, af því að mér þótti svo vænt um þá sveit.

Nú er mest um vert, að þarna sé einhverja hjálp að fá fyrir sjófarendur.
Stöku sinnum gátum við orðið að liði á því sviði og voru það einkum Ólafsfirðingar sem þurftu að leita hafnar hjá okkur, þá var stundum fullur bær, spilað og sungið þar til veður hægði. Sjaldan komust menn þó í hann verulega krappan.

Ekki bar mikið á FYRIRBURÐUM…og „óhreiknu“

eða þessháttar í Héðinsfirði, eða þeir hafa þá að mestu sneytt fram hjá mér.

Þó heyrði ég sagnir af dulrænu fólki og skyggnu en kann ekki frá því að segja.
Aðeins einu sinni sá ég sýn, sem ég hef ekki gleymt. Ég var þá unglingur og við móðri mín vorum ein heima því að systkini mín voru í jólaboði.

Fór ég á vökunni til fjósverka og ætlaði ég mér að stytta mér leið í fjósið, en þegar ég kom út fyrir bæinn, sá ég eitthvað fyrir framan mig og ég stirðnaði næstum af hræðslu, því ógn stóð af þessu, hvað sem það nú var og ekki sá ég greinilega. Hið eina sem, sem mér hugkvæmdist var að taka til fótanna og gerði ég það og mun hafa stokkið langt. En þegar ég kom inn til móður minnar sagði hún, að ég væri náfölur, og var það sjálfsagt rétt.

Ég sagði mömmu frá sýn minni og líklega hefði þetta verið Þorgeirsboli. Fór hún svo með mér í fjósið og bar ekkert til tíðinda. En næsta dag kom til okkar maður einn, sem sagt var að Þorgeirsboli fylgi og svo vildi til að ég mætti honum nákvæmlega á þeim stað við bæinn, sem ófreskjan hafði verið kvöldið áður.

Mér fannst þetta vera ráðningin, svo langt sem hún náði.

Á grandanum milli sjávar og vatnsins heitir Sandvöllur og var heyjað þar. Þar var einnig hæð nokkur á grandanum rétt við ósinn og á henni voru fjárhús. Ekki varð ég neins var við þessi fjárhús, en ævinlega hafði ég fremur hraðann á er ég fór þar hjá einkum í myrkri.
En bóndinn, sem fjárhúsin átti, fór eitt sinn að grafa þar fyrir hlöðu, sem hann ætlaði að byggja við fjárhúsin, fann þar mikið af beinum og voru það talin mannabein.

Héðinsfjörður, panoramamynd. Ljósmyndari: Anna Dís Sveinbjörnsdóttir. Mynd frá snókur.is

Þessi bóndi var þrekmaður til líkama og sálar og mun fát hafa hræðzt, enda lauk hann hlöðubyggingunni án tíðinda. Það var svo eitt sinn um sláttinn, að hann ætlaði að sofa í hlöðunni um nóttina, enda þá stutt að fara í slæjuna að morgni. Við bræður vorum einnig með við heyskap og sváfum í tjaldi í Brúnakoti.  Ekkert bar til tíðinda um kvöldið, en um nóttina varð ég þess var, að fyrrnefndur bóndi var lagstur í tjald okkar.

Spurðum við hann hverju þetta sætti en hann gaf ógreið svör og sagði aldrei frá því, svo ég vissi hvers vegna hann hafði flúið hlöðuna.

Hitt veit ég, að það hefur hann ekki gert að ástæðulausu.

Einu sinni bar það til í Vík að vetrarlagi, að kvikt varð einhverjum skepnum í fjörunni.
Varð maður einn, sem út gekk örna sinna, fyrstur var var við þau, en síðan síðan sáu þennan „fénað“ fleiri menn, enda komu sum þeirra fast heim að húsinu.
Þetta kvöld fór enginn í fjós og hlerar voru settir fyrir glugga.

Morguninn eftir var traðk mikið í fjörunni og heim við hús, en aldrei var upplýst, hvað þar hafði verið á ferð og var þó fleira en eitt nefnt í því sambandi. Um búfé var ekki að ræða því það var allt í húsi þegar þetta bar við.

En þótt frá þessu sé sagt, var fremur lítið um það, að menn yrðu varir við „ÓHREINKU“ eða aðra hluti, sem kallast geta dularfullir og man ég ekki að oft væri um þá rætt.

  Við Sigurður í Kollagerði ljúkum viðræðum með því, að hann segir, að rætur sínar hafi verið svo sterkar í Héðinsfirði, að hann hafi verið tvö ár að ná sér, er hann var þaðan fluttur, en hann bætir við:

Ef ég er þá búinn að ná mér enn.

Þakka ég þér svo frásögnina.

                                           E.D.

Aðrar sögur og greinar tengdar Héðinsfirði eftir Jón Ólaf

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

Aðrar sögur og greinar eftir Jón Ólaf Björgvinsson á trolli.is.

Höfundur formála og endurritun viðtals:
Jón Ólafur Björgvinsson

Höfundur viðtals:
E.D. Dagur – 40. tölublað (16.08.1972) Tímarit.is

Forsíðu ljósmynd:
Bjarni Þorgeirsson
(Núverandi Grundarkotsbóndi)

Ljósmynd: Sigurður H Björnsson
Dagur – 40. tölublað (16.08.1972)

Aðrar ljósmyndir:
Ýmsir og nöfn þeirra eru birt undir hverri mynd.

Heimildir:
Vísað er í heimildir með slóðum í texta.