Í DAG KL. 13 VERÐA FLUTT TVÖ VERK Í ÞÁTTARÖÐINNI: ÚTVARPSLEIKHÚS ÆSKUNNAR.

Verkin sem flutt verða í dag eru:
Draumurinn, höfundur: Emelía Íris Benediktsdóttir, 11 ára
og
Litaofurhetjurnar, höfundur: Amíra Linda Mansri, 11 ára.

Páskafríið varð öðruvísi í ár en flestir höfðu ætlað. Mörg börn og ungmenni höfðu mikil áform um íþrótta- og menningarstarf um páskana, áform sem síðan urðu að engu vegna nauðsynlegra sóttvarnaráðstafana yfirvalda.

Skólum var lokað og páskafríið varð enn lengra og mun færra í boði. Hjá Stúdíó Handbendi hófst umræða um að það þyrfti að gera eitthvað skemmtilegt, þrátt fyrir takmarkanir, og hugmyndin fæddist um að setja af stað námskeið í gerð útvarpsleikrita, þar sem ungskáld fengju tilsögn, semdu leikrit og þau yrðu svo tekin upp í fullkomnu hljóðveri og send út í útvarpi.

Leiðin frá hugmynd til framkvæmdar var stutt, á innan við sólarhring hafði fengist samstarf við Menningarfélag Húnaþings vestra, Stúdíó Bakka og FM Trölla.

8 ungskáld skráðu sig til leiks, á aldrinum 6-15 ára, frá Hólmavík í vestri til Blönduóss í austri. Helmingur ungskáldanna á a.m.k. eitt foreldri sem ekki er fætt á Íslandi.

Haldin var kennsla í gegnum fjarfundabúnað í 3 skipti og síðan skiluðu ungskáldin af sér verkum sínum.

Upptökur voru með nokkuð öðru sniði en vanalega, þar sem aðeins gat einn leikari verið í klefanum í einu. Öll leikritin eru því saman klipptar samræður fólks sem talaði aldrei beint saman. Foreldrar sem komu með ungskáld sín í upptökur áttu það alltaf á hættu að vera dregin inn í upptökuklefann.

Tekin var sú listræna ákvörðun að „bæta“ ekki verk ungskáldanna. Þau voru tekin upp, eins vel og mögulegt var, með öllum þeim persónueinkennum sem ungskáldin gefa þeim – söguuppbyggingu, persónusköpun og málfræði var ekki haggað af fullorðnum.

Útkoman er stórskemmtileg og vonandi verður áframhald á þessu starfi.

Handbendi auglýsir svo Sumarleikhús æskunnar fljótlega og þá gefst áhugasömu leikhúsfólki á grunnskólaaldri einstakt tækifæri til að starfa með fagfólki að listsköpun.