Matsferill er nýtt fyrirhugað námsmat fyrir grunnskóla landsins sem kemur í stað samræmdra könnunarprófa. Matsferli er ætlað að vera öflugt verkfæri fyrir skólana til að leggja mat á kunnáttu, leikni og hæfni nemenda á fjölbreyttan og einstaklingsmiðaðan hátt. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur markað stefnu við gerð matsferils og kallar eftir umsögnum í Samráðsgátt stjórnvalda frá kennurum, skólastjórnendum og öðrum haghöfum.

Í apríl 2018 skipaði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp breiðs hóps hagsmunaaðila um framtíðarstefnu um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Hópurinn skilaði niðurstöðum árið 2020 og lagði til verulegar breytingar sem byggðust m.a. á nýju námsmati sem kallað yrði matsferill.

Hugmyndafræði nýs skipulags námsmats snýst um að færa matið nær nemendum og kennurum sem verkfæri til umbóta, skólaþróunar og framfara. Matsferli er ætlað að auka við verkfærakistu skóla landsins með heildstæðu safni valfrjálsra og fjölbreyttra matstækja í skólum. Matsferill skal kanna kunnáttu, leikni og hæfni út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla hverju sinni. Hann inniheldur m.a. skimunarpróf til að greina erfiðleika snemma á skólagöngunni.

Stefnan er liður í áformum mennta- og barnamálaráðherra um eflingu skólaþjónustu og verður útfærsla á verkfærum matsferils á hendi nýrrar þjónustustofnunar á sviði menntamála. Nánari upplýsingar um stefnuna er að finna í Samráðsgátt stjórnvalda og kallar mennta- og barnamálaráðuneytið eftir umsögnum.

Mynd/aðsend