Þessi orð eru sprottin upp úr sorg og veikindum og þau eru í rauninni tileinkuð ykkur öllum, því allir þekkja SORG.

En ég vona líka að þessi orð mín snerti hjörtu skyldmenna og ástvina minna í móðurætt meira en margt þessa gráu vikudaga sem framundan eru…..

Fólkið mitt sem á ættir sínar að rekja til Héðinsfjarðar, Dalvíkur og Svarfaðardals en sjálf sagan um þessar tær gerist inní Héðinsfirði.

En þetta gæti rétt eins líka verið líkt fólkinu þínu sem vekja sterkar tilfinningar í þinni sál þegar þú minnist þeirra .

Mig langar svo til að reyna að hreinlega faðma sálina í ykkur úr fjarlægð… með ORÐUM.

Af hverju?
Jú mér þykir svo ótrúlega vænt um þessar manneskjur og ég stend í skuld við alla þá sem gáfu mér svo óendanlega mikið. 
Ást, umhyggju og kærleik og vegna þess að ég kemst ekki í mikilvægar kveðjustundir vegna heilsubrests.

Og svo koma stundum stundir í lífinu með stórum spurningum sem vekja hugsanir um hvaðan maður kemur og hver ég er í dag og svona…. af hverju elska ég aðra og aðrir mig? 

Og svo skulda ég ykkur öllum áramótapistill líka.

Þetta er í rauninni bæði einhvers konar áramótapistill, plús smásaga með þessu skrítna nafni. En til þess að þú lesandi góður skiljir söguna verður þú að lesa pistilinn.

Minningarmyndir sem koma úr sorgarferli eftir móðurmissi eru sterkar og magnast til muna þegar við bætist móðursystur missir hálfu ári seinna og síðan varð mjög stutt í andlát ástkærrar frænku.

Krafturinn sem kemur nú úr mínum minningum er slíkur að í minningarmyndunum er ekki bara fólkið sem er mér kært, nei það eru þarna töluð orð, faðmlög og snerting og líka tónlist, lykt, vindátt, sól og rigning og í einni gargandi mávur sem fer í taugarnar á mér og ég horfi á hann reiður og segi: Passaðu þig…..ég veit hver þú ert og ég veit hvar þú átt heima líka…..en samt get ég ekki strokað þennan fugl út úr minningunni.

Ég tek að láni mín eigin orð til að reyna að útskýra þetta betur úr loka kafla „Göngutúra um heimahaga“ sem varð óvart 10 kaflar með 250 ljósmyndum en orðin komu öll úr sorgarferli eftir andlát föður míns.

„Sannleikur lífsins er að lífið er breytilegt, manneskjur og umhverfið í kringum okkur breytist og minningarnar um hvernig allt var og leit út fölna eins og gamlar ljósmyndir.
En gamlar ljósmyndir ljúga aldrei eða hagræða veruleikanum eins og við sjálf höfum tilhneigingu til og alltof oft höfum hreinlega þörf fyrir að gera.

Í hvert skipti sem einhver segir “manstu” þá byrja allir að hugsa í myndum, sjá fyrir sér liðinn tíma, horfin hús og fólk sem okkur þótti vænt um…………..ein mynd gefur aðra og síðan erum við á ferðalagi í minningareilífðinni þar sem enginn náttúrulögmál gilda og tíminn bognar og beygist eins og við viljum.“ 

Er hægt að skrifa sig út úr sorg, nei en að minnast hjálpar og í þetta skiptið set ég engar ljósmyndir með í þessa sögu því meiningin er að orðin ein skapi myndir hjá ykkur sem lesa þessi orð frá mér.

Gjarnan af fólki sem er ykkur sjálfum kært.

Margar af mínum minningum koma til mín sem svart/hvítar kvikmyndir en það hefur mikið að gera með að þá er ég að sjá fyrir mér mjög svo gamlar sögur sem amma mín Mundína á Vatnsenda sagði mér um galdragrös og furðuverur o.fl. úr Héðinsfirði en svo fatta ég að ég þarf ekkert að sjá þetta í svart/hvítu og „vips“ skipti bara yfir í lit… miklu betra.

Afi minn, Pétur Bald bætti svo kannski við sögu úr sínum heimahögum um skyldleika við seli með manneskjuaugu og eitthvað um að sumir selir ættu börn í landi.

Svona sögur geta bara komið frá þeirri miklu samveru sem ég hafði við eldra fólk sem elskar man óendanlega, gefur sér tíma til að tala við og hlusta á börn og afi Pétur var þannig gerður að maður sá alltaf á honum að hann ljómaði allur upp þegar honum tókst að fá okkur barnabörnin til að segja honum sjálfum sögur.

Lokkaði þetta úr hverjum og einum útfrá aldri, kyni og áhugamálum. Talaði ekki eins við nokkurt af okkur barnabörnunum í rauninni nema þegar hann var jólasveinn.

Í hvert einasta skipti sem ég kom í þetta litla rauða tveggja hæða hús á Vetrarbrautinni á Sigló var ég varla nema rétt búinn að opna hurðina þegar amma kallar:

Ert þetta þú Nonni minn og ég var svo vanur þessu… en einu sinni varð ég bara hreinlega að spyrja:

Hvernig veistu ALLTAF að þetta er ÉG amma?

Og hún svarar eins og ekkert sé sjálfsagðara:

Fylgjan þín kemur alltaf 5 mínútum á undan þér og lætur mig vita….og ég verð ekki einu sinni hissa því ég hafði sjálfur séð allskonar furðuverur og fugla út um allt bæði í Héðinsfirði, Sigló og upp í Skarðsdal svo ég spyr bara:

Og hvað heitir þessi Fylgja amma?

Fylgjur heita yfirleitt ekkert LJÚFURINN minn, þetta eru svona verndar englar eða eins og skugginn af sjálfum þér…er alltaf með þér en ég veit að akkúrat þessi er úr Héðinsfirði.

En sniðugt! En áttu nokkuð kleinur og mjólk amma?

Hugsið ykkur að það sé til hús við götu sem heitir “VETRARBRAUT” á Siglufirði?  En mér finnst þetta mjög svo passandi götunafn því þessi gata á eyrinni var fyrir mér nafli og miðja alheimsins og hún er það enn í dag.

Og svo er það eflaust líka fyrir öllum mínum auka systkinum, auka móður og föður sem bjuggu á efri hæðinni á Hafnartúni 6.  En þær systurnar byggðu þetta hús saman og sama ást og umhyggja sem réði ríkjum hjá foreldrum þeirra á Vetrarbrautinni fylgdi með þeim af eyrinni og í suðurbæinn.

Minnist þess líka að ég var oft mjög svo öfundsjúkur því þau á efri hæðinni voru svo mörg og þar var miklu meiri læti, líf og fjör en á neðri hæðinni og þolinmæði aukaföður míns hef ég tekið mér mikið til fyrirmyndar um hvernig maður sem karlmaður á að ala upp börn, hann var hreinlega allstaðar og með í öllu og tók ljósmyndir samtímis….. ómetanlegur minningarfjársjóður í dag.

Ég hef oft sagt að ég sé uppalinn á bæði Siglufirði og í Héðinsfirði en ég er reyndar ekki beinlínis að ljúga því ég var tvö heil sumur í Héðinsfirði.
Við afi vorum veiðiverðir, ráðnir af veiðifélagi sem leigði allan fjörðinn í 10 ár en það hét því fáránlega nafni Fjármagn ehf. Ekkert skrítið kannski því þetta voru allt ríkir heildsalar og vinir þeirra en þeir komu ekkert voða oft svosem en byggðu samt þarna flott veiðihús og við afi vorum þarna mest sjálfir og við borðuðum soðinn silung með kartöflum og smjöri og drukkum soðið með í allar máltíðir.

Man hvað ég dáðist alltaf af afa sem gat stungið upp í sig silungahausum og svo hreinlega úrbeinaði hann þessa hausa með einkennilegum soghljóðum og kjálkahreyfingum.
Þegar hann tók eftir því að ég var að dáðst af þessum munnvinnubrögðum sagði hann, viltu haus ljúfur….Ööö, nei takk.

Þessi smásaga hér neðar er um gjörsamlega óútskýranlega ást sem ríkir á milli 12 ára drengs og 52 ára eldri afa hans.

Minnir mig svolítið á atriði úr sögu Astrid Lindgren um Emil í Kattholti. En þeir vinirnir hinn ungi Emil og Alfred vinnumaður eru nýbúnir að baða sig í sumarhlýju vatni og sitja bara þegjandi í sinni ást og umhyggju fyrir hvor öðrum á ströndinni en svo segir Emil:

Þú og ég Alfred..

og hann svarar bara stutt og laggott:

Já..Emil. Þú og ég.…    

Margir minnast Péturs Friðriks Baldvinssonar sem gleðibolta og það var hann en hann átti sér samt margar sorgir og sárar minningar um ástvina missi og þetta með að geta misst fleiri var hans stærsta hræðsla í lífinu og hann gerði mikið af því alla ævi að bæði sýna og setja orð á ást sína til okkar allra í orðum og gerðum, daglega og ekki bara á hátíðisdögum.

Hann var sjómaður, verkamaður, síldarplansbassi, vélstjóri, sumarlögga, söngvari, leikari og besti jólasveinn í heimi, sá eini sanni sem ég trúði á fram að fermingu….gleymdi ég einhverju ?

Jú! Og minn besti vinur!

Við erum staddir þarna rétt norðan við veiðihúsið og við erum að laga fyrst fallega bogadregna brú sem er smíðuð úr rekaviði sem styttir leið yfir leiðinda mýrarfláka og þar á eftir skemmtilega formaða litla bryggju líka. Allt þetta smíðaði fyrrverandi veiðivörður og að mig minnir hans þáverandi sænsk ættaða kærasta.

Það er svo svakalega gott veður og blanka logn en fyrst erum við bara berir að ofan en svo varð blíðan verri svo við erum komnir á bara nærbrækurnar báðir tveir. (Margir á Sigló segja aldrei nærbrók, bara nærbrækur þótt bara sé verið að tala um 1 st.) 

Þeir eiga sér oft svo einkennilega kærleiksrík og heimspekileg samtöl þessir tveir einangruðu villimenn þrátt fyrir yfir hálfrar aldar aldursmun.

Beinar og bognar tær!

Hvað!.. af hverju horfir þú svona á mig afi, hvað ertu að hugsa?

Hann stendur þarna þegjandi smástund og segir svo:

Þú ert eitthvað svo dásamlega sléttur allur og fallegur svona sólbrúnn og ljóshærður…… eitthvað svo NÝR allur.

Nýr! svara ég hissa…..en afi ég er nú samt 12 ára, er maður nýr þá eða?

Já miðað við mig þá ertu frekar nýr…….svo grubblar hann meira og bætir við óvænt.. og svo þessi ótrúlegu himinbláu, skæru Möllers-augu…. mér finnst það stundum eitthvað svo ótrúlegt að Ég eigi bara eitthvað í þér ljúfur.  

Ég tólf ára barnið er orðinn svo vanur svona pælingum svo ég svara bara í sömu hreinskilni:

Ég var einmitt að horfa líka á þig afi og ég hef aldrei tekið eftir að þú værir kannski gamall karl en ég sé það núna að þú ert eitthvað svo krumpaður og húðin á þér er eins og að þú sért í of stórum kafarabúningi…… og svo toga ég i laust skinn og mér finnst þetta bara allt mjög eðlilegt og við mundum hvorugir eftir hvort að við höfðum einhvern tíman séð hvern annan hálfnakta.

Já svona verður þú líka þegar þú verður gamall…. húh, nei… ég ætla að æfa sund og gera Atlasæfingar eins og Johnny Wisemüller Tarzan karl alla æfi og svo hlógum við þangað til ég sagði með sársauka og gleði í röddinni!

Æi…ég er ennþá með strengi í maganum.

Eftir hvað? Spyr afi.

Þig…ég hló svo mikið í gærkveldi þegar þú varst að leika Grasa-Guddu o.fl. fyrir mig í tvo tíma.

Hann hélt stundum að mér nútíma verðandi unglingnum leiddist þarna í þessum firði sem var svo þröngur að það heyrðist ekki í útvarpi og hvað þá talstöð, en við gátum í neyð farið í slysavarnaskýlið í Vík ef okkur vantaði eitthvað….

…..en okkur vantaði aldrei neitt.

En þá tók hann út úr sér tennurnar og tók bara tveggja tíma syrpu með allskyns karakterum úr leikritum og hermdi eftir skemmtilegu körlum og konum sem við þekktum báðir. Þetta var svo gaman að það fylgdu verkir með þessu í kjálka og magavöðvum.

Ríku karlarnir, erlendir sendiherrar og annað frægt fólk sem kom, gleymdu hreinlega að veiða og sátu bara í veiðihúsinu og hlustuðu á afa sem á þriðja glasi gat allt í einu talað bæði útlensku og túrísku en það er einmitt tungumál sem er mikið talað á Sigló í dag.

Á brottfarardegi sagði afi:

Nonni minn skrepptu og náðu í silung handa þeim ljúfur svo þeir geti sýnt betri helmingnum sínum að þeir hafi veitt eitthvað.
YES Sir…. og svo eftir klukkutíma vitjunarvinnu í þrjú net fengu þeir fullan strigapoka með netamerktum silungi.

En nú sitjum við á bryggjuendanum í pásu buslandi með fæturna í vatninu á litlu bryggjunni sem við vorum nú byrjaðir að laga og enn og aftur dettum við inní einkennileg en fyrir okkur eðlileg heimspekileg samtöl um hitt og þetta og þarna áttum við okkur á að við tveir erum fæddir inní svo ótrúlega ólíkan tíma en samt á sömu öldinni.

Hann í barnmargri fátækri fjölskyldu inná Dalvík og ég inní auðæfi og velmegun sem fylgdu með síldinni á Sigló.

Þetta varð allt saman eitthvað svo átakanlega augljóst bara með því að kíkja á TÆRNAR á hvor öðrum.

Hvað ertu nú að glápa á afi?

Þú ert með svo beinar og fallegar tær og þú hefur greinilega aldrei þurft að ganga í of þröngum notuðum skóm sem þú erfðir eftir þér eldri eða látins bróður…..

Ha.. hvað meinarðu?

Ja, Sjáðu mínar og svo lyftir hann upp báðum fótunum og ég sé þessar ótrúlega illa bognu tær en svo bætir hann við, en verra var það með æskuvin minn hann Jóhann RISA…… nú þekktir þú hann afi?

Það voru aldrei til nægilega stórir skór eða sjóstígvél á hann og hann hefur þjáðst alla ævi út af of þröngum skóbúnaði…..hugsaðu þér vinur…ha…

Ég er nú alveg dottin inní sjálfan mig og djúpar pælingar um risa, gamaldags sjóstígvél og tær.

En svo sé ég allt í einu að afi er með eina tá sem er helmingi styttri en allar hinar en samt með nögl og öllu…… en þessi dvergatá á þér afi…..hvar fékkstu hana?

Fékk…? Hún hefur alltaf verið þarna en heyrðu þetta er reyndar svolítið fyndin tá, því að fyrir mörgum árum þá datt á mig síldartunna og mölbraut þessa tá en Ólafur Læknir var svo klár að í staðinn fyrir að taka hana alla af þá stytti hann hana bara, tók bara burtu bita á milli liða og saumaði svo saman.

Má ég sjá…er hún lifandi og svo tók ég í þessa sérkennilegu afatá og skoðaði gaumgæfilega.

En afi mér er svo svakalega heitt segi ég og svo stend ég upp og segi:

Ég ætla bara að skutla mér út í og synda eina bunu niður ósinn.

Sé skelfingarsvipinn á afa og segi, kemurðu ekki bara með líka ha… ég kann alveg að synda afi ég hef æft sund síðan ég var 6 ára, þú veist það og ég get ekki sokkið heldur segi ég stoltur.

En ég kann ekki að synda ljúfurinn minn.

Ha! Kann ekki maðurinn sem hefur verið sjómaður hálft lífið ekki að synda? Komdu, ég kenni þér bara að synda núna, það er mátulega grunnt hérna við bryggjuna.

Nei vinur það er of seint núna og ég sekk, ég veit það því ég hef sokkið illa, en núna treysti ég bara á að Guð og almættið bjargi mér rétt eins og Gústa Guðsmanni.

Hvernig þá, hvað meinarðu…er betra að bara treysta á að GUÐ eða JESÚS kunni að synda?

Jú, þeir bjarga mér bara svona eins þú hefur séð á fallega altarismálverkinu í kirkjunni á Sigló.

Ertu að grínast afi! Hvaða kjaftæði er þetta……eða, já, jú, hún er nú reyndar flott, svaka litir í þessu…málaði Hebbi Málari vinur þinn þetta?

Ekki hoppa í ósinn elsku vinur segir afi með bón og blíðu í röddinni. 

 Afi láttu ekki svona, varst það ekki þú sem sagðir einu sinni að ég væri skyldur selum gegnum pabba þinn á Dalvík…ha….

Hvað meinarðu drengur?

Jú þú sagðir mér sögu þegar ég var lítill… eitthvað um langafa og að hann þekkti fullt af selum og að þeir væru í rauninni ættingjar hans, eitthvað…. sjö börn í landi og sjö í sjónum.
Var það ekki afi?

Nonni minn þig er að misminna eitthvað úr þessum sögum en hann var mjög þekkt selaskytta.

Oj barasta, hvernig getur maður drepið svona falleg dýr?

Við vorum fátæk og svöng…

Nei, nú skutla ég mér í eina bunu niður ósinn svara ég hálfpirraður og er orðinn eitthvað svo leiður á þessu barnalega samtali.

Elsku, elsku litli ljúfurinn minn góði og ljós míns lífs!

Gerðu það fyrir mig. Ekki hoppa í ósinn það er svo svakalega mikill straumur þarna sem þú sérð ekki og og og… ég vil ekki missa þig, get ekki hugsað þetta til enda…..og þú veist hvað ég elska þig óendalega mikið og hann er hreinlega með grátinn í hálsinum.

En ég er eitthvað svo ungur og ákveðinn í þessu og fullur af mínum eigin ódauðleika að ég svara bara.

Flott að það sé sterkur straumur því þá þarf ég ekki einu sinni að synda sjálfur og…. eins og ég viti ekki að þú elskir mig afi og þú veist að ég elska þig líka…

BÆ!

Og svo skutlaði ég mér bara fram af bryggjunni og ég þurfti bara að taka nokkur sundtök og þá greip straumurinn mig og mér fannst þetta æðislegt og svo sný ég mér á bakið og sé afa minn standa skjálfandi á litlu bryggjunni í 25 stiga hita.

En ég vinkaði bara og brosti og fór niður meira en hálfan ósinn áður en ég tók land og labbaði til baka og afi sagði ekki neitt og brosti bara til mín, hann skildi mig svo vel og mundi að hann hafði einhvern tíman verið svona barn sjálfur.

En sumarið eftir sökk ég illa, eins og afi hafði prufað.

Afi segir allt í einu í fínu veðri. Nonni minn það er að koma brjálað veður og bendir út í fjarðarkjaftinn, við skulum drífa okkur heim bara og trillan er ekki örugg á ankerinu í þessari átt.

Svo við förum báðir í bússur og brettum upp og afa finnst að best sé að ég rói einn út í Freyjuna á löngum óþjálum ál árabát og sæki hann síðan á trillunni með því að sigla á þessu háflóði upp í sandbanka og hann myndi síðan klifra um borð, ekkert mál og við höfðum gert þetta oft áður en núna urðum við að flýta okkur frekar mikið.

Því það er komin þó nokkur alda og ég er í erfiðleikum með að leggja að og klifra um borð og ég dett á milli trillu og árabáts, gríp í byrðinginn með vinstri hendinni og held að þetta reddist, rétt næ að sjá afa með angistarsvip áður en bússurnar fyllast af sjó.

Og þyngdin dregur mig niður í kolsvart hyldýpið og ég sekk og ég sekk… alveg niður á botn og ætlaði aldrei að geta náð af mér þröngum bússunum, 1 mín….2….3 næstum 3 og ½, spyrni í sandbotninn og ég skýst upp á yfirborðið, dreg andann og næstum í sama stökki kemst ég upp í trilluna.

Eða svo var það Fylgjan mín frá Héðinsfirði sem amma Munda gaf mér sem hreinlega lyfti mér upp úr djúpinu.

Vinka afa og öskra ég er ók… bíddu ég kem og ég heyri að hann fer með bænir og alveg frá sér af angist ….. sný gömlu Volvo penta glóðarkúlu vélina í gang með þeim fítonskrafti sem kom með mér upp úr dauðadjúpinu og sigldi að landi og sótti hann elsku afa minn.

Sem hoppar um borð og faðmar ný drukknaðan drenginn sinn svo fast að hann náði ekki andanum og afi segir aftur og aftur….

Jésús Kristur, Guð og almætið, Gústi Guðsmaður og allir hans vinir takk, takk, takk.

Svo kyssir hann mig aftur og aftur líka og segir, þarna var ég nærri búinn að missa þig elsku, elsku vinur og við hágrétum báðir smá stund…. en svo inn með þig drengur og úr öllu NÚNA.
Leggstu svo í kojuna vinur og svo komu öll teppi sem til voru og gamla græna verkamanna úlpan hans yfir mig líka.

Afi sigldi á kompás og klukku út úr fjarðarkjaftinum og fyrir nesið og heim í hinn fallega fjörðinn minn, skyggni núll og djöfulleg alda en ég sofnaði smá stund en vaknaði í loftinu og lenti illa á gólfinu, hálfvankaður rankaði ég við mér þegar afi henti í mig eina björgunarvestinu sem til var í gömlu góðu Freyjunni okkar og sagði ákveðinn.

Farðu í þetta vesti drengur.

En ég gat ekki að því gert að ég hugsaði en sagði það ekki upphátt….það passaði einhvern veginn ekki að vera of hreinskilinn akkúrat núna.

„EN AFI! HVOR OKKAR VAR ÞAÐ NÚ AFTUR……. SEM KUNNI EKKI AÐ SYNDA“    

Ástar og saknaðarkveðjur til ykkar allra

Nonni Björgvins.

Höfundur: Jón Ólafur Björgvinsson

Ljósmynd: (Héðinsfjörður 2015)
Copyright. Jón Ólafur Björgvinsson

Skráð á blautt lyklaborð í Gautaborg 23 janúar 2020.