Hafið gefur

Hann var nýbyrjaður að draga upp þriðja grásleppunetið þegar blóðlitaðar loftbólur birtust á yfirborðinu í miklu magni. Netið hans fór síðan allt í einu í heljarinnar flækju og upp kom stór netahnútur og eitt augnablik fannst honum eins og það væri blóðugur selkópur innan í þessum hnút… með mörg stór blæðandi bitsár fyrir ofan vinstri hreifann.

Þetta gerðist allt saman á örfáum sekúndubrotum.

En þegar hann greiddi úr netahnútnum þá datt allt í einu nokkrra mánaða manneskjubarn í faðminn á honum og hann trúði ekki sínum eigin augum, hélt að honum væri að dreyma eða sjá ofsjónir. En svo er honum litið í blóðrauðan sjóinn við bátinn og hann nær að hugsa „allt þetta blóð getur ekki hafa komið bara úr honum.“ Hann heyrir busl og skvetti hljóð bakborðmegin og hann nær því að sjá tvo unga háhyrninga kasta dauðum hauslausum sel upp í loftið áður en þeir hverfa síðan saman niður í djúpið með hræið.

Hann var ekki enn búinn að skilja að hann hélt á barni og náði að hugsa að hann hafði reyndar lesið að selir hafa tvisvar sinnu meira súrefnisfyllt eldrautt blóð í sér en manneskjur og það er þess vegna sem þeir geta kafað svona lengi og ekki vegna þess að þeir væru með svo stór og öflug lungu.

Háhyrningar eru Úlfar hafsins“  sagði hann upphátt við sjálfan sig og rankaði við sér þegar barnið hreyfði sig og hann sá að það blæddi reyndar ekkert úr þessu selsbarni sem hafið hafði kastað til hans en hann sá hvítlituð ný-gömul ör í kringum vinstri öxlina og handleggurinn lafði hálfmáttlaus við hliðina á barninu.

Það lá við að hann kastaði þessu barni fyrir borð í ofboði en sú löngun hvarf um leið og hann horfi inn í stór gulbrún barnsaugu sem sáu alla leið inn í sálina í honum og föðurhjartað tók aukaslag því það er innbyggt í genin í öllum manneskjum að vilja bjarga hvítvoðungum með stórt höfuð og svona ótrúlega biðjandi falleg kringlótt Pandabangsa augu.

Það kom ekkert annað til mála en að vefja þessum pelslausa kalda „sela-strák“ þétt inn í teppi og sigla í land og heim til hennar sem vissi allt um börn sem voru öðruvísi en önnur börn.

Hún trúði honum ekki þegar hann sýndi henni barnið og sagði henni alla söguna, æstur og móður og másandi og hún hugsaði: „Guð minn almáttugur hann er orðinn snarklikkaður… elskar mig svo mikið að hann hefur stolið handa mér barni...“

Hann sá hvað hún var að hugsa „ hvað heldurðu virkilega að ég hafi bara tekið þetta barn, ha… bara skroppið í land úti í Eyju… eins og að þær örfáu hræður sem búa þar myndu ekki sakna eins og eitt stykki barns. Ha…“

Skoðaðu hann betur og þú munt sjá að þetta er ekkert venjulegt barn“ bætti hann ákveðin við og ýtti henni að barninu sem nú í fyrsta skiptið gaf frá sér ámátlegt tístandi hljóð en hann grét ekki. Því selir eru ekki með tárakirtla en líta oft út eins og að þeir séu um það bil við að fara að gráta. 

Ég held að hann sé svangur, farðu og kauptu pela í Kaupfélaginu“ sagði hún með fyrirskipunarrödd.

Drengurinn vildi ekki taka pelann og tísti bara meira og meira. „Settu hann á brjóstið hjá þér og leyfðu honum að finna hlýja geirvörtuna og læddu svo túttunni inn“ 

Og fyrir frama augun á honum gerðist aftur kraftaverk þennan undarlega dag, því þegar drengurinn tók brjóstið og pelann samtímis þá var það eins og að ósýnilegur guðdómlegur fingur ýtti á innbyggða móðurtakkann í henni og hún grét og brosti samtímis og sagði:

Sjáðu… sjáðu hvað hann er dásamlega fallegur ?

Það sá þig vonandi enginn koma í land með þetta barn ?

Nei, enginn sá okkur.“

Þau urðu aftur ÞAU, samheldið og sammála par um að leggja sig alla fram við að ala saman upp leynidrenginn sinn sem hafið gaf þeim.

Að elska barn með sérþarfir

Foreldar sem skyndilega eignast barn með sérþarfir standa oft frammi fyrir þeirri staðreynd að öll sú kunnátta sem maður hefur fengið ókeypis um barnauppeldi frá eigin fjölskyldu kemur bara að hluta til að notum.

Og ást og umhyggja fyrir börnunum okkar virðist oftast en samt ekki endilega alltaf vera innbyggt í genin í okkur.

En hvernig elskar maður barn sem kemur úr tveimur heimum…  RÉTT ?

Einum þurrum heimi og öðrum blautum og hún Þroskaþjálfinn sem var nýorðin móðir og sérfræðingur í sérþörfum í barna í þessum þurra vissi akkúrat ekkert um blauta heiminn sem drengurinn hafði svo greinilega þörf fyrir að tilheyra.

Það varð þeim báðum strax ljóst að þetta var enginn venjulegur drengur því þegar hann var settur í bað þá skipti hann um ham og fékk selapels og það var augljóst að honum leið ákaflega vel í vatni.

Þetta minnir mig á þjósögu sem ég heyri einu sinni um selakonu sem átti sjö börn í sjó og sjö börn á landi“  sagði hann og strauk hugsandi hendinni gegnum grásprengt föðurlegt skeggið. „Þetta er reyndar bæði svolítið falleg og sorgleg saga samtímis“ bætti hann við.

Mig rámar eitthvað í þetta“ svaraði hún „en hvernig var þessi saga aftur?“

„Í grófum dráttum svona….” sagði hann og las upp valin stykki úr þjóðsögunni.

Einu sinni var

“maður nokkur austur í Mýrdal, sem gekk hjá klettum við sjó fram að morgni dags fyrir fótaferð; hann kom að hellisdyrum einum; heyrði hann glaum og danslæti inn í hellinn, en sá mjög marga selshami fyrir utan. Hann tók einn selshaminn með sér, bar hann heim og læsti hann ofan í kistu.

… seinna kom hann aftur að hellisdyrunum; sat þar þá ungleg kona og lagleg; var hún allsber og grét mjög…. Maðurinn lét stúlkuna fá föt, huggaði hana og tók hana heim með sér….

Oft sat hún samt og horfði út á sjóinn.

Eftir nokkurn tíma fékk maðurinn hennar, og fór vel á með þeim og varð barna auðið. Haminn geymdi bóndi alltaf læstan niður í kistu og hafði lykilinn á sér, hvert sem hann fór.”

En bíddu aðeins, ástin mín…. Þetta er nú ekki beinlínis fallegt, skaut hún inn… þessi bóndadjöfull fer með hana eins og ambátt og kynlífsþræl. Ha.. viðbjóðslegt.“

„Já elskan mín, sammála en bíddu,  þetta reddast“

“Eftir mörg ár reri hann eitt sinn og gleymdi lyklinum heima undir koddabrún sinni……
….en þegar hann kom heim aftur, var kistan opin, konan og hamurinn horfin.

Hafði hún tekið lykilinn og forvitnast í kistuna og fundið þar haminn… kvaddi börn sín, fór í haminn og steyptist í sjóinn.

Áður en konan steypti sér í sjóinn, er sagt hún hafi mælt þetta fyrir munni sér:

“Mér er um og ó,

ég á sjö börn í sjó

og sjö börn á landi.”

Sagt er að…. Þegar maðurinn reri síðan til fiskjar, var selur oft að sveima í kringum skip hans, og var eins og tár rynnu af augum hans.
Mjög var hann aflasæll upp frá þessu….

og…. að þegar börn þeirra hjóna gengu með sjávarströndinni, synti þar selur fyrir framan í sjónum, jafnframt sem þau gengu á landi eða í fjörunni, og kastaði upp til þeirra marglitum fiskum og fallegum skeljum.

En aldrei kom móðir þeirra aftur á land….(SELSHAMURINN. Netútgáfan Snerpa.is)

Þessi saga hræddi þau bæði því þau vildu hvorugt halda þessu barni í ánauð til þess eins að uppfylla þrá og löngun þeirra eftir barni og þeim varð báðum ljóst að þetta uppeldi myndi ekki taka 20 ár eða meira eins og venja er með mannabörn.

Nei, í þessu tilfelli verður allt að gerast hraðara, því drengurinn þeirra stækkaði greinilega á selahraða og selir verða fullorðnir á tæpum þremur árum.

Og þau voru upptekin og full af hugsunum um lausnir sem snérust um hvernig þau gætu fengið að elska og eiga hafsdrenginn sinn lengur áður en hann yrði eins og öll önnur börn að synda sjálfur út í hið stóra óendalega ógnandi haf lífsins.

HANN tókst á við þetta verk eins og margir karlmenn gera oft með vísindalegum og tæknilegum lausnum. Breytti bílagryfjunni í bílskurnum í mjóa en góða sundlaug svo drengurinn hans gæti lært að kafa og synda og fengið nýjan kraft í vinstri hreifinn sem var lengi vel hálfslappur.  

Hann hugsaði… líka mikið út í vísinda og þróunarsögulegar mögulegar úrskýringar um hvernig það hefi getað gerst að barnið hans hefði þessa merkilegu eiginleika og hæfni að geta lifað bæði á landi og í sjó.

Flóknar og djúpar hugsanir um:
„tja, allt líf á jörðinni byrjaði upphaflega í hafinu… og selir eru einmitt ein tegund af dýrum sem hafa skriðið fyrst á land og aðlagast landlífi.
Fengið hendur og fætur… en svo einhvern veginn hætt við og lagt mikið í að aðlagast og þróast til þess að lifa að mestu leiti í hafinu aftur… hmm… þeir sjá og heyra best í sjó en þessi skilningarvit eru líka í fínu lagi á landi.

Og svo segir sagan reyndar líka að selir hafi mannsaugu

Og hann hugsaði líka um allar þær hættur sem biðu í framtíðarlífi sem ekki varð hjá komist í stóru köldu hafi sem hann þekkti svo vel sjálfur af eigin raun.

Hætturnar stafa að mestu leyti frá veiðarfærum, vopnum, mengun og svívirðilegu virðingarleysi mannskepnunnar fyrir náttúrunni.“ Hugsaði hann með skelfingarsvip.

Við verðum að finna einhvern griðstað þar sem drenginn okkar getur lifa óhultur og óáreittur og kenna honum einhvern veginn allt sem hann verður að varast“ Sagði hann einbeittur og ákveðin við elskuna sína.

Er svoleiðis staður til einversstaðar?

Já reyndar en þessi staður til en bara alltof langt í burtu fyrir okkur. Það var víst einu sinni mjög svo sérstakur maður, prestur minnir mig sem elskaði seli svo mikið að honum tókst að skapa friðað svæði sem er ennþá til þarna vestur í Hindisvík

VIÐ verðum þá bara að skapa þennan stað sjálf“ sagði hún og horfði ákveðinn og móðurlega á hann. Og hann sá að henni var dauðans alvara.

HÚN nálgaðist þetta meir út frá kennslufræðilega pólnum á þessu öllu og nú kom öll hennar kunnátta og langa reynsla sem þroskaþjálfi að góðum notum. Hún sá strax að drengurinn hennar yndislegi bæði sá og heyrði vel en hann gat greinilega ekki myndað manneskjuorð í einkennilega stuttum hálsi sínum.

Henni brá oft í byrjun þegar hún baðaði litla guttann sinn þegar hann skyndilega fékk mjúkan fallegan pels en svo fannst henni þetta bara svo óendalega sætt og krúttlegt að hún byrjaði ósjálfrátt að syngja alltaf fyrir hann: „Þvottavísur fyrir litla bangsa“ úr Dýrunum í Hálsaskógi. 

Og svo kom samskiptalausnin af sjálfum sér. „Ég kann táknmál…. Við kennum honum að tala táknmál og þú verður að læra það líka“ sagði hún og horfði á hann eins og ströng kennslukona.

 „ha… en hann er ekki heyrnalaus…“ heyrði hann sjálfan sig segja hissa.

Nei… en hann er mállaus, asnarassgatið mitt… „ Sagði hún með ást í augunum
Og það er á okkar ábyrgð að hann geti tjáð sig, þrátt fyrir að hann heyri og skilji talað mál… annars getur hann aldrei orðið frjáls.“

Og úr því að þau höfðu svo stuttan tíma fyrir sér og drengurinn þroskaðist og óx svo hratt þá lögðu þau bæði allan sinn tíma í að æfa sig og kenna barninu táknmál.

Við skulum nota Dýrin í Hálsaskógi mikið sem þema því þar eru allskonar talandi og syngjandi dýr og saga um allskyns atburði sem er gott fyrir drenginn að kunna.“  

Sagði táknmálsskólastjórinn ákveðinn.

Og svo eru öll dýrin í skóginum vinir líka“ bætti hann kunnáttulega stoltur við.

Þetta er alveg ferlega erfitt tungumál“ sagði hann oft sífrandi til að byrja með við stranga elskuna sína þegar hún benti honum á hann að yrði að tala með munninum og sýna allar tilfinningar sem fylgja því sem talað er um, með höndunum og öllu andlitinu og kroppnum samtímis.
Því annars lítur þetta bara út eins og þú sért að gera einhverjar fáránlegar óskiljanlegar leikfimisæfingar.“

Þetta var svo erfitt að hann var við það að gefast upp en drengurinn lærði fljótt og vildi tjá sig og þegar strákrassgatið teiknaði allt í einu til hans PABBI, þá bráðnaði hann gjörsamlega og ekkert var erfitt eftir að akkúrat þetta orð flaug út í loftið á milli þeirra feðganna.

Þetta bar skjótt árangur því drengurinn var lærdómsvís og bráðgáfaður og þau voru að springa úr stolti þegar krúttið þeirra vinkaði til þeirra og sagði:

Mamma, pabbi, koma, sjá mig, syngja

Og svo söng hann hljóðlaust Vögguvísulagið úr Hálsaskógarsöngleiknum með mikilli innlifun á fullkomnu táknmáli.

Þetta er að nálgast…“ Sagði hún með gleði og sorgartár í augunum samtímis.

„Ertu með einhverjar hugmyndir um hvernig eða hvar við getum skapað þetta FRIÐ-land fyrir hann?“

Já… reyndar… ég er með hugmynd sem gæti kannski gengið upp

Hafið tekur… aftur það sem það þegar á

Með í móðurarfinum hans fylgdi landeigendahlutur í Eyðisfirði þar sem amma hans var fædd og uppalin. Þessi fjarðarhlutur var ekkert merkilegur í hans huga og hafði aldrei komið að neinum notum fyrir hann hingað til. Hann mundi þó eftir því að hafa farið nokkrum sinnum með afa og ömmu inn í þennan fallega veg- og hafnarlausa þrönga fjörð til þess að veiða silung og tína bláber. 
Systir ömmunnar og sonur hennar voru síðustu ábúendurnir í firðinum en hann minntist þess líka að þau fóru samt aldrei og heimsóttu þetta eyðifjarðarskyldfólk.

Það andaði víst lengi köldu á milli systranna og enginn vissi af hverju.

Hann undirbjó sig vel fyrir næsta aðalfund veiði og landverndarfélags Eyðisfjarðar og allir landeigendur tóku vel í þá hugmynd að gera allan fjörðinn að griðlandi fyrir seli og allt annað dýralíf.

Nema einn og það var sá sem var mest skyldur honum og karldurgurinn var sko ekki að skafa af því í sínum mótmælaorðum gegn þessari fárandlegu tillögu.

 „ Hvurskonar helvítis kjaftæði er þetta…. á að fara vernda þessa sjávarvilliketti sem stela og éta silung úr netunum mínum. Kemur ekki til mála meðan ég lifi… og hana nú.“

Og sá gamli þrjóski varð síðan bara ennþá reiðari þegar fjarskyldur frændi sem bjó fyrir sunnan benti á að sá gamli hafði nú reyndar ekki lagt silunganet í hvorki sjónum eða vatninu í yfir 20 ár.

Haltu kj.. helvítis…  Reykjarvíkur snobbbullu drullusokkur… Ég á þetta land og enginn ráðskast með minn móðurarf.

Dapur í bragði fór hann heim og sagði elskunni sinni frá sorglegri stöðu friðlandsmála.

Við getum ekki bara beðið eftir því að karlskrattinn drepist, þar fyrir utan þá virðist hann vera algjörlega ódrepandi líka, hvaðan kemur eiginlega öll þessi biturð og reiði sem heldur honum á löppunum?

Án þess að láta elskuna sína vita hringdi hann í frænda sinn sama dag og grátbað manninn sem ekki einu sinni hafði kastað kveðju á hann í hálfa öld að finna sig á leynifundi í bílskúrnum sínum.

Karlinn lofaði engu en virtist samt verða forvitinn.

Svo birtist hann óvænt klukkutíma seinna og reif upp bílskúrshurðina með orðunum:
„Og hvað er það sem er svona ótrúlega mikilvægt fyrir þig að segja… frændi?“  

Karlinn rak í rogastans þegar hann sá selinn unga í bílagryfjusundlauginni og bara gapti og kom ekki upp orði.

En þegar pabbinn bað drenginn sinn að koma upp úr þá hneig sá gamli niður á hné og stundi: „Ég vissi það… mamma var ekkert að ljúga og ekki ég heldur því ég sá þetta líka..

Og með barnagrátsekka í röddinni sagði karlinn loksins móðursystursyni sínum hvað hefði gerst fyrir löngu síðan. En það var að móðir hans fann einmitt svona barn sem var mikið slasað í fjörunni heima í Eyðisfirði, tók það heim og reyndi að hlúa móðurlega að því en barnið dó sömu nótt.

Og veistu hvað… ég var bara 5 ára en ég sá það með eigin augum að á dauðastundinni varð hann aftur selakópur.  Það trúði okkur mömmu enginn og amma þín gerði bara grín af þessu… og..og mér og mömmu sárnaði þetta svo ótrúlega mikið að hún talaði aldrei við hana aftur.

Komdu hérna drengur, leyfðu mér að sjá þig betur.“

Og þegar drengurinn horfði djúpt inn í bitrur augun varð enn og aftur kraftaverk og þessi hafsengill átti héðan eftir yndislegan leyni-afa. 

Enginn í bænum skildi neitt í neinu um ástæðuna fyrir þessum gleðiljóma sem nú lýsti upp gamla andlitið og hvað þá hvað það var sem lá að baki þeirri miklu vináttu sem skyndilega ríkti á milli þeirra Eyðisfjarðarfrænda.

 En allir sáu hversu oft þau þrjú fóru saman á Freyju trillunni góðu í veiði og berjamóatúra inn í Eyðisfjörð og öllum var svo sem sama.

En ef þú hefðir séð það sama og ÉG, þá væri þér örugglega ekki sama, því þarna fékk ég að sjá hvað einlæg ást og löngun getur skapað í sínu undralega samspili við okkar gefandi og takandi haf.

En trúðu mér… eða ekki… það sem ég sá var:

Pabbi, mamma og aldraður afi í sjávarlautaferð í lítilli trillu og fyrir framan þau sela-barnahópur að syngja saman á táknmáli.

Því þau áttu vissulega engin börn á landi…

en son og minnst 7 barnabörn í sjó.

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

Aðrar sögur og greinar eftir: Jón Ólaf Björgvinsson

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðuljósmyndir:
Kristin Sigurjónsdóttir og
Gunnar Smári Helgason
Heimildir:
Þjóðsagan:(SELSHAMURINN. Netútgáfan Snerpa.is) vísað er í aðrar heimildir eins og t.d. söngtexta með því að sjálfur textinn er lifandi netslóð sem leiðir lesendann til upprunalegs efnis.

Sérstakar þakkir fyrir yfirlestur og góð ráð og hvatningu við skrif sögunnar og uppsetningu textans vill ég senda til:
Hörpu Hreinsdóttur, Sólveigar Jónsdóttur og Helgu Ingibjargardóttur.