“Móðir mín í kví, kví,
kvíddu ekki því, því;
ég skal ljá þér duluna mína
að dansa í
og dansa í.”

Sagnfræðineminn og einbirnið Páll Helgasson hafði ætið verið stoltur af sínum Siglfirska uppruna, þrátt fyrir að vera fæddur og uppalinn á mölinni fyrir sunnan.
En nú var hann staddur þar í litlu bárujárnsklæddu sumarhúsi sem hann leigði í þrjár vikur. Hann sá nú loksins fyrir sér hús og götur sem amma hans hafði sagt honum frá í öllum sínum sögum um fjörðinn sinn fagra.

Þetta krúttlega hús stóð mjög svo hættulega nærri háum hallandi steinsteypuvegg gamla kirkjugarðsins sem virtist vera á leiðinni að detta á húsið á hverri stundu.

Páll hafði alla ævi verið hrifin af gömlum kirkjugörðum, því þar var ekki bara fallegt og gróðursælt. Heldur líka rólegheit sem pössuðu hans hálf innhverfa persónuleika.
Sögur á öllum legsteinum sem honum fannst gaman að lesa og ímynda sér líf og sögu fólksins sem hvíldi þarna. Flestir dóu úr hárri elli, sælir sinna daga en svo voru þarna sorglegar grafir með ungu fólki sem hafði látist úr sjúkdómum eða af slysförum.

Margar grafir voru líklega tómar og geymdu sálir sjómanna sem hafið aldrei skilaði í land.

Hann gekk þarna um í neðsta og flata elsta hluta kirkjugarðsins, fallnir og skakkir krossar sáust víða en þessi annars snarbratti kirkjugarður var að öðru leyti vel hirtur og Páll vissi vel að þessar gömlu munaðarlausu grafir mátti enginn snerta eða sinna samkvæmt einhverjum einkennilegum eldgömlum reglugerðum.

Lengst inn í suðurhorninu rekur Páll tærnar í fallinn kross og hann hreinsar frá gras og gróður og finnur þá skítugt hjartalaga silfurhálsband og á því stendur „Stefán og Lára“

En þegar hann les máð orð á krossinum fer um hann hrollur með tilheyrandi gæsahúð þegar hann sér hvað þessi örfáu orð miðla til hans.

ÓÞEKKTUR DRENGUR
F. (engin dagsetning eða ártal.)
D. (Engin dagsetning en bara Apríl 1944.)

Hvað er nú þetta… Síðan hvenær eru til óþekkt börn á þessari litlu eyju þar sem allir þekkja alla, hugsaði Palli.

Sama kvöld hringir hann í ömmu Gústu og segir henni fyrst hvað honum finnist allt hérna dásamlegt….
…. nei amma, ég er ekki búinn að fara á Síldarminjasafnið ennþá.

Svo spyr hann hana hvað hún viti um þennan óþekkta dreng og ömmu Gústu dauðbrá og hún táraðist þegar hún minntist þessa hörmungar atburðar og engin hafði skilið neitt í neinu kringum þessa merkilegu atburðarás sem gerðist á Siglufirði strax eftir páskahelgina i apríl hafísaárið mikla 1944.

Það voru sjómenn á heimstíminu sem fundu þennan dreng frosin fastann í ísjaka rétt fyrir utan fjarðarkjaftinn. Hugsaðu þér Palli minn, þvílíkt áfall að þurfa að lyfta látnu frosnu barni um borð og koma í bæinn með svona hrikalega frétt.

Ég var að verða tíu ára en ég man að það var ekki tala um annað í bænum og á öllu landinu líka og mikið spáð og spekúlerað í dagblöðum um þennan einkennilega dreng sem engin kannaðist við að sakna.

Fólk talaði í hálfum hljóðum um að þetta væri útburðardrengur en hann var ekkert kornabarn Palli minn. Hann var víst vel í holdum og líklega í kringum þriggja ára gamall.

Velklæddur og vafinn inní fallega prjónað Íslenskt ullarteppi.

Páll Helgason verðandi sagnfræðingur hverfur nú úr öllum sumarleyfis hugsunum og grúskar í öllu sem hann getur fundið á netinu og hann ræðir líka við hjálpsamar og fróðar tvíburasystur sem vinna á bóka- og skjalasafni Fjallabyggðar. En finnur ekkert sem gæti útskýrt hvaðan þessi dularfulli útburðar hafísdrengur gæti mögulega komið.

Palla dreymir martraðir þar sem kirkjugarðsveggurinn fellur á lita sumarhúsið og hann liggur síðan sjálfur í myrkri gröf við hliðina á drengnum og hann heyrir barnið stanslaust fara með þetta „Móðir mín í kví kví“ þjóðsagnakvæði.

Best að gúggla þessa sögu hugsar Palli martraðarsveittur þegar hann vaknar og hún var ekki löng:

Einu sinni var vinnukona á bæ.
Hún hafði orðið þunguð, alið barn, og borið út, sem ekki var mjög ótítt á landi hér, meðan harðar skriftir, sektir eða líflát voru lögð við slíkum brotum. Eftir það bar svo til eitthvert sinn, að halda átti gleði þá, er vikivaki nefndist og alltíðir voru hér áður á landi, og var þessari hinni sömu stúlku boðið til vikivakans.

En af því hún var ekki svo fjölskrúðug, að hún ætti skartföt, er sambyði slíkum skemmtifundi sem vikivakar voru á fyrri dögum, en var kona glysgjörn, lá allilla á henni, að hún yrði þess vegna að sitja heima og verða af gleðinni.

Einu sinni á málum, meðan gleðin stóð til, var griðkona þessi að mjólka ær í kvíum með öðrum kvenmanni; var hún þá að fárast um það við hina mjaltakonuna, að sig vantaði föt að vera í á vikivakanum; en í því hún sleppir orðinu, heyra þær þessa vísu kveðna undir kvíaveggnum:

“Móðir mín í kví, kví,
kvíddu ekki því, því;
ég skal ljá þér duluna mína
að dansa í
og dansa í.”


Griðkona sú, sem borið hafði út barn sitt, þóttist þekkja hér skeyti sitt; enda brá henni svo við vísuna, að hún varð vitstola alla ævi síðan.”

Snerpa.is, Netútgáfan 1997

Þrátt fyrir að Palli grúskaði mikið í sögum um barnaútburð sem var víst ein tegund svokallaðra „dulmála“ þá var svo margt og mikið í sögunni um óþekkta drenginn sem stemmdi ekki og hann var greinilega ekki alin upp í sárri fátækt en einhverskonar óskráð leynibarn var hann og blessað barnið getur bara ekki hafa ferðast mjög langt á þessum ísjaka.
Lausnin lá kannski í að grafa upp líkið og taka DNA sýni og láta svo Kára Stefáns og hans gengi hjá Genís gefa okkur vísbendingu um ættir drengsins.

En líklega vill enginn rífa upp gömul sár sem tilheyra þessari hörmungarsögu.

Páll fer nú á kaf í veðursögur frá þessu herrans ári 1944 og sér að mikill hafís lá fyrir öllu norðurlandi frá febrúar og langt fram í apríl.
Lá þétt að landi í Húnavatnssýslu og í Skagafirði og náði síðar alla leið austur fyrir land.

”Lauge Koch (1945), Hlynur Sigtryggsson (1969)”
Veður.is

Palli leigði sér bílaleigubíl á fiskimarkaðnum hjá parinu góða sem rekur markaðinn sem reyndar sjá líka um að snyrta kirkjugarða fjarðarins en það gerðu þau meira sem hugsjónar en gróða vinnu, því þetta var þrælavinna og þá sérstaklega snyrtingin á gamla bratta kirkjugarðinum.

Hann keyrði fyrst alla leið vestur á  Blönduós og gróf þar í gömlum fréttablöðum en fann ekkert sem gæti mögulega tengst þessari sögu. Síðan á bakaleiðinni kom hann við á Króknum og þá festist hann í einkennilegri frétt um dularfullt mannshvarf í mars sama ár. 

En þar er sagt að ungur þroskaheftur maður sem hét Stefán, hafi horfið í ofsaveðri, líklega kringum 15 mars þegar hann hafi reynt í ófærðinni sem ríkti að sækja hjálp handa fárveikum föður sínum sem lést af veikindum sínum og það var víst einnig ung veik ráðskona, sem hét einmitt Lára þarna á bænum, sem er í eyði núna og stóð niðri við sjávarsíðuna ekki langt frá þeim stað þar sem Samgöngusafn Íslands er til húsa í dag.

Páll tekur eftir því á heimleiðinni frá Sauðárkrók á þjóðveg 75 að þegar hann er rétt komin yfir hæðina á nesinu við sveitabæ sem heitir Sjáfarborg og nyrsti oddurinn á þessu nesi er víst kallaður Landsendi. Þá hann er staddur í beinni sjónlínu við þetta horfna bæjarstæði sem var nefnt í mannhvarfssögunni.
Hann stoppar líka hinumegin við þessa breiðu vík og gengur niður að ströndinni og sér þar hrunið lítið bárujárnshús og hann tekur eftir því að stysta leiðin inn á Sauðarkrók var auðvitað yfir ísalagt hafið og yfir á litla eyju sem heitir Lundey og síðan áfram að Landsenda.

Þetta eru bara tæpir 5 km segir Goggle Maps í snjallsímanum hjá Páli.

Mynd lánuð frá Google Maps

Ætli þessi Lára sé enn á lífi og líklega er hún ráðskonan unga sem lifði þessi veikindi af eins og fram kom í fréttagreininni hugsaði Páll þegar hann vaknaði kófsveittur og skjálfandi af hræðslu eftir enn eina martraðarnótt.

Hann hringdi víðsvegar um sveitina kringum bæjarstæðið horfna í von um að einhverjir myndu muna eftir þessari Láru ráðskonu og loksins fékk hann samband við eldhressa konu sem var fædd 1926 og hún sagðist strax hafa orðið góð vinkona Láru á sínum tíma en líka að Lára hafi ætíð verið mjög svo dul og hljóðlát og að hún hafi fljótlega eftir að hún náði sér eftir þessa hræðilegu flensu farið í síldarsöltun á Sigló.

Veistu hvar hún býr… eða fyrirgefðu, er hún Lára vinkona þín á lífi?

Þú þarft nú ekki að fara langt ljúfur, hún býr með dóttur sinni í litlu húsi á eyrinni á Sigló, við Vetrarbrautina minnir mig.

Páll hugsaði sig vel og vandlega um hvernig og reyndar afhverfu hann ætti svo sem að nálgast Láru og spyrja um þennan óþekkta útburðardreng. En hann bara varð að fá frið í sinni sagnfræðisál og enda þessar martraðir sem höfðu magnast til muna og honum fannst einhvern veginn eins að drengurinn vildi ná sambandi við móður sína.

Páll bankaði uppá í litla húsinu á eyrinni og þóttist vera að forvitnast um ættir sína og annarra og Lára gamla bauð honum inn hokin í baki og hún talaði svo lágt að það var eins og hún hvíslaði allt sem hún sagði.

Páll tók síðan fram silfurhálsbandið fallega sem hann hafði pússað vel og vandlega og rétti Láru og hún byrjaði strax að hristast í hljóðlátum grátekka og bognaði svo meira og meira og var næstum dottin úr sófanum. Páll tók utanum hana og rétti hana upp og þurrkaði henni um augun.

Svo þú veist þá allt eða hvað… hvíslaði Lára.

Nei ekki allt, en sumt hef ég greinilega skilið rétt og þú skalt vita að ég hef ekki sagt neinum frá þessu og mun aldrei gera það en ég held að drengurinn þinn vilji að hann sé nefndur við nafn og að það sé talað um hann á annan máta en sem óþekktan útburðar-hafísdreng.

Hann hét Maríus Már Stefánsson sagði Lára upphátt og stolt í fyrsta skiptið í yfir 70 ár og hann var leyniástarbarnið mitt og Stefáns og hann hvílir þarna undir þessum falla krossi þar sem þú fannst hálsbandið.
Ég hef ekki haft heilsu síðustu árin í að læðast upp í þennan fjallakirkjugarð og vaða þar í háu blöðkugrasi til þess að tala við hann og hvað þá sinna þessari nafnlausu gröf.

Ég kom þarna sem ráðskona rétt 17 vetra og mitt hlutverk var að sjá um heimilisstörfin og ganga í ýmis önnur bústörf. En svo átti ég líka að kíkja til tæplega tvítugs sonar bóndans sem var sagður þroskaheftur en hann hafði flosnað ungur uppúr skóla og af sumum í sveitinni var hann hreinlega kallaður sonur djöfulsins.

En hann Stefán minn elskulegi var alls ekki vondur maður eða þroskaheftur á nokkurn hátt en hann fékk hræðileg kækja og krampaköst og þá afmyndaðist hans fagra andlit og samtímis sagði hann alveg hræðileg orð og særandi setningar. En hann réði ekki við þetta og pabbi hans var svo sem ekkert svo slæmur…

… en hann var bitur út í Stefán því móðir hans blæddi út í fæðingarátökunum, það var of langt til læknis í ófærðinni.

Karlinn var frekar drykkfeldur og þá tók hann út illsku og vonbrigði á einkasyni sínum og þá réði Stefán ekkert við kækina.

Þetta hljómar allt eins að Stefán hafi haft það sem er kallað „Tourette Syndrome “ á háu stigi segir Páll í huggunartóni.

Já, er þetta kallað það í dag…  tja, hann Stefán minn var reyndar bráðgáfaður en auðvitað hafði lítil skólaganga, einangrun og einelti frá fæðingu gert hann svolítið öðruvísi en aðra.

Við urðum ástfanginn og ástin hafði svo ótrúlega róandi áhrif á hann en svo varð ég ólétt og mér tókst að fela það fyrir allri sveitinni og það var ekkert erfitt því karldurgurinn var svo illa liðin að það kom aldrei neinn í heimsókn. En karlinn komst auðvitað að þessu og hann varð alveg óður og skipaði okkur að fela barnið.

En svo leið tíminn hratt og hann Maríus minn þroskaðist og dafnaði og karlinn var byrjaður að elska afastrákinn sinn út af lífinu og var jafnvel ölvaður farinn að tala um að láta sig bara hafa skömmina og opinbera tilvist drengsins.

En svo kom þessi líka djöfullegi hafísvetur og ég hafði rétt áður en allt hreinlega fennti í kaf í sveitinni skroppið út í Hofsós að versla og kom heim með hræðilega hitaflensu og Maríus litli veiktist líka illa en karlinn drapst.
Þegar ég er svo orðin hálfrænulaus þá verður Stefán svo hræddur að hann segist ætla að fara með drenginn okkar inná Sjúkrahúsið á Sauðárkrók og samtímis sækja hjálp fyrir mig…. já, ég reyndi að mótmæla en hann fór með barnið vafið í stórt og fallegt ullarteppi sem móðir mín sáluga hafði gefið mér á sínu dánarbeði. 

Hann hefur þá ákveðið að stytta sér leið yfir hafísfulla víkina sagði Páll dapur.

Já, líklega fannst honum það vera auðveldara en að kafa landleiðina yfir djúpa skafla á næsta bæ. Sveitasíminn hjá okkur var dauður og það var víst allt orðið rafmagnslaust í sveitinni líka, allar línur sligaðar af blautsnjó og ís en hann sá örugglega ljósin frá Sauðárkrók í gegnum hríðarbilin.

Það kom björgunarsveita snjóbíll tveimur dögum seinna og bjargaði mér en ég var þá meðvitundarlaus og rankaði við mér fjórum sólahringum seinna á sjúkrahúsinu og mér var þá sagt að Stefán væri horfin og þá vissi ég auðvitað að Maríus leynidrengurinn minn væri farinn líka og ég sagði ekki neitt, en grét tvöfalt í hljóði í fleiri ár.

En svo gerist þetta ótrúlega að Guð ákveður að færa mér drenginn minn á ísjaka út af Siglufirði og þar er hann grafin og auðvitað vildi ég vera nálægt honum, svo ég flutti hingað og hitti Anders minn heitinn, norskættaðan yndislega mann og við fengum hana Maríu okkar og hún var mér mikil huggun og nú á ég barnabarnabörn út um allt land.

Þakka þér fyrir að færa mér hálsmenið og fyrir að loksins fá að tala um hann Maríus minn og Stefán. Ég hef líka haft martraðir útaf þessari þjóðsagna vísu en ég vissi alltaf sannleikan og að ég missti Maríus í slysaför sem átti að bjarga lífi hans í rauninni og ég vildi ekki segja sannleikan því þá hefði fólk talað um þá feðga sem einhverskonar forneskju fyrirbæri.

Páll Helgason verðandi sagfræðingur fór heim í litla húsið sem þátttakandi í sögu sem sló út allt sem hann hafði hingað til lesið eða heyrt og sofnaði ánægður og kirkjugarðsveggurinn var hættur við að detta á hann.

En honum fannst eins og að hann heyrði glaðlega barnarödd hvísla:

Takk Palli… viltu koma út að leika.       

Höfundur og ljósmyndari:
Jón Ólafur Björgvinsson

Heimildir koma úr ýmsum áttum og það er bent á þær í slóðum í sögunni.

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!

SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.