Formáli:

Íslendingar og þá sérstaklega við Siglfirðingar vitum að síld er einkennilegur og frekar óáreiðanlegur fiskur. En margir segja samt að hún sé eiginlega yfir það hafin að vera kölluð fiskur. Heiðursnafnið er “Silfur Hafsins” en þrátt fyrir það getur síldin oft skapað mikil vandræði með því að haga sér öðruvísi en aðrir fiskar.

Í þessari minnst sagt merkilegu sænsku sögu sem snýst um gamalt síldarhernaðarleyndarmál er það nú á hreinu hjá leyniþjónustu sænska sjóhersins (Musac) að síld er bæði hættulegur og dularfullur fiskur sem á það til að „prumpa“ í miklu magni þegar stórar síldartorfur flýja upp að yfirborði sjávar. Þá getur skapast dularfullt neðansjávarhljóð sem líkist hljóði frá loftbólum sem myndast þegar óvina kafbátar eru að læðast víðs vegar um hin stóra skerjagarð sem umlykur strendur Svíþjóðar.

Eitthvað rámar mig í að svipað hernaðarleynibrölt hafi átt sér stað í Hvalfirði og það kemur fram í sænsku sögunni að Ameríkanar og Nato voru með þetta dularfulla loftbóluhljóð í sínum sameiginlega kafbátanjósnahljóðabanka sem þeir deildu með hernaðarbandalags „hlutlausum“ sænskum vinum sínum.

Maður veit ekki hvort maður sem sögulesandi á að hlægja eða gráta….
En það er augljóst að það getur verið nokkuð dýrkeypt að eitthvað sé „Top Secret,“ því þá er ekki hægt að sækja góð ráð frá þeim sem þekkja náttúruna og öll þau hljóð sem hún gefur frá sér. Eins og t.d. hjá sjávarlíffræðingum eða sjómönnum sem lengi hafa talað um „sjóðandi sjó“ þegar þeir hafa séð síldartorfur flýja undan t.d. árásum háhyrninga. Miljónir af síld sleppa þá samtímis út lofti úr sundmaga sínum með því að prumpa út miklu magni af örsmáum loftbólum og við yfirborðið lítur þetta úr eins og suða í potti.

Undirritaður rakst á þessa sögu í virðulegu rannsóknarblaðamennsku tímariti sem heitir FILTER og fékk síðan leyfi frá Mattias Göransson höfundi greinarinnar sem jafnframt er ritstjóri tímaritsins að endursegja þessa merkilegu síldarsögu á íslensku í grófum dráttum.

Grein Mattiasar er stytting og samantekt úr hans eigin bók sem fjallar um 200 ára sögu um „Sænska Rússahræðslu“ sem heitir „Björnen kommer.“

Heimasíða um bókina Björnen kommer.

En sagan byrjar svona:


„Í yfir 15 ár hélt sænski sjóherinn og meirihluti íbúa Svíþjóðar að það væri fullt af rússneskum kafbátum út um allt í skerjagörðum landsins. Helsta sönnun fyrir þessu neðansjávarnjósnum Rússana voru hellingur af hljóðupptökum af dularfullu kafbátahljóði sem í daglegu máli var kallað „Týpíska hljóðið.”

Þetta er sagan um hvernig það gerðist að „leynilegir sjávarhljóðasérfræðingar“ sjóhersins neyddust að lokum til að brjóta odd af oflæti sínu og sækja sér aðstoðar frá öðrum.“  

Eða eins og einn af örfáum háttsettum sjóhersforingjum sem var efins um að þetta væri „kafbátahljóð“ sagði á sínum tíma þegar ýmsar staðreyndir bentu á að sökudólgurinn gæti vel verið síldartorfur:

„Þetta hefur verið langt og merkilegt ferðalag, að komast frá ímynduðum rússneskum kafbátum yfir í að sannleikurinn komi úr rassgatinu á síld.“  

Kannski er boðskapur sögunnar sá að svona leynihernaðarbrölt skapar leit að staðreyndum sem gagnast málstað hernaðar.
Þarna er greinilega dularfull hætta á ferðum og á þessum tíma virðist ekki vera nein takmörk fyrir því hvað hlutirnir mega kosta. Þrátt fyrir að kaldastríðsbröltinu hafi óformlega verið hætt í kringum 1989.

Það er sagt að þessi um og yfir 15 ára „síldarprumphljóðaleit“ hafi kostað sænska ríkið um 3 milljarða sænskra króna.

En auðvitað megum við ekki gleyma að ýmsar staðreyndir og tilviljanir efla grun um að Rússarnir hafi mikinn áhuga á ákveðnum hernaðarmannvirkjum í skerjagarði Svíþjóðar.
Eins og t.d. þegar Rússneski kafbáturinn U 137 strandaði á skeri ekki langt frá Karlskrona, þriðjudaginn 27 október 1981.

Í dag er samt sagt að flestir eru sammála um að þetta var algjört slys. Rússarnir höfðu hreinlega ekki hugmynd um hvar þeir voru staddir.

Aðalpersónur sögunnar eru tveir sjávarlíffræðingar frá Gautaborg. Håkan Westerberg er prófessor og sérfræðingur í allskyns sjávarhljóðum og Doktorantinn hans heitir Magnus Wahlberg er líka mjög vel að sér á sama sviði.

Einhvern tíman eftir 1980 koma leyniþjónustumenn sjóshersins (Musac) og ræða við Håkan og hann fær auðvitað ekkert að vita neitt eða heyra þessi dularfullu sjávarhljóð en aðstoðar Musacmenn með því að láta þá fá allskyns rannsóknartexta um náttúruleg sjávarhljóð.  

Vorið 1992 koma þessir menn svo aftur í heimsókn til Håkan og virðast nú hafa enn þá meiri áhuga á náttúrlegum hafshljóðum því það hafði þá komið í ljós að líklega kæmu sum hljóð frá bæði minkum og selum sem voru forvitnir og voru eitthvað að þvælast í kringum þessar viðkvæmu hljóðritunar njósnabaujur í skerjagarðinum sem Svíarnir fengu líklega frá vinum sínum í Nato.

Håkan bendir enn og aftur á að ef hann fengi að heyra þetta sérstaka týpíska hljóð þá gæti hann betur aðstoða herinn við að finna út hvort þetta væri náttúrulegt sjávarhljóð eða ekki. Hann reyndi líka að útskýra ýmsar tæknilegar hliðar málsins eins og áhrif þrýstings á tíðnisvið og hvernig hljóð ferðast í sjó.

En ekkert af þessum rökum bítur á þessa háu herra frá hernum og það kemur ekki til mála að hann fái að heyra þetta leynikafbátahljóð.

Greinin birtist í Filter nr. 58 2017.

En svo líður og bíður og ekkert gengur hjá sjóhernum að finna alla þessa rússnesku kafbáta sem stanslaust virðast vera að þvælast í leyfisleysi í sænskri landhelgi.
Sjómenn segja sögur um að í hvert einasta skipti sem herinn birtist með þyrlur og allskyns hljóðnema og herskip sem síðan kasta djúpsjávarsprengjum fyrir borð að það eina sem gerist er að það flýtur upp mikið magn af dauðri síld.

Reyndar er sagt að í eitt skiptið hafi óþekktur kafbátur komið upp á yfirborðið en hann var frá Vestur Þýskalandi og Þjóðverjarnir vinkuðu bara og sigldu síðan heim.
Hmm… kannski var fullt af öðrum NATO kafbátum að leika sér/æfa sig þarna í hlutlausum skerjagarði Svíþjóðar. Hver veit?

Nú kemur loksins að því að Håkan og Magnusi er boðið inn í það allra heilagasta hjá leyniþjónustu sjóhersins og sumt er eins og tekið úr gamalli James Bond kvikmynd með kaldastríðs þema. Magnus lýsir því t.d. að í eitt skiptið þegar hann átti að mæta á fund hjá nokkrum háttsettum herforingjum og hann kynnir sig úti við varðhliðið og segir nafnið á manninum sem kallaði hann til sín að þá segir vörðurinn: „ tja… þessi maður er reyndar ekki til en ef hann kallaði þig hingað þá er hann líklega þarna inni.“

Magnús lýsir síðan hvernig hann fer inn í löng göng og þaðan inn í mikið neðanjarðar leyniherbergi og svo fengu þeir vinirnir loksins að heyra upptökur af þessu merkilega hljóði.

Tilraunir.

Þeir fengu síðan nokkuð frjálsar hendur í að rannsaka þessar 52 klukkutíma upptökur sem voru til og voru strax frekar sammála um að líklega kæmi þetta dularfulla loftbóluhljóð frá síldartorfum. En það er ekki nóg að segja „líklega“ við hernaðarsérfræðinga og þeir fara nú út í allskyns rannsóknir þar sem þeir reyna að framleiða og taka upp þetta síldarprumpuhljóð.

Síld er viðkvæmur fiskur og drepst oftast fljótlega eftir að hún er veidd og fyrst leika þeir sér af því að kreista dauða síld í vatnskerum og mikið rétt það kemur einhverskonar prumpuhljóð úr þeim en röng tíðni og annað háð þrýstingi o.fl.

Magnusi tekst síðan að fá síldveiðimenn í lið mér sér og fær hjá þeim 20 st. lifandi síldar og þeir binda þær fastar og láta þær sökkva í djúpið og já þær reka vissulega við en aftur er ekki allt sem stemmir.

Síðan rannsaka þeir líka á hvaða tíma sólarhringsins hljóðupptökurnar eru gerðar og það kemur í ljós að allar nema ein komu inn í hljóðnema sjóhersins í morgunsárið og styrkir það mjög svo kenningu þeirra út frá því sem vitað er um hegðun síldartorfa.

Þeim fannst það einnig mjög svo ólíklegt að Rússarnir væru bara að þvælast þarna í skerjagaranum í dagsbirtu.

Enn þá meiri tilraunir.

Nú er herinn orðin langleiður á þessu óvissuástandi og þeir gefa sig alla í makalausar tilraunir með þeim Håkan og Magnus og nefni ég hér nokkur dæmi.

Þeir fara í síldarleit með herskipum og kafbátum en það gengur „si så där“ því hermenn eru ekki beinlínis sjómenn og vita ekkert um síldveiðar. Håkan hafði stungið uppá því að fá aðstoð frá reyndum sjómönnum en það kom ekki til mála.

Nei! Þessar “síldarstríðsveiðar” voru algjört hernaðarleyndarmál.

En þeir finna að lokum nokkrar torfur og reyna að hræða þær til að prumpa með sprengjum og með því að láta kafbáta slæðast undir síldartorfur og eitthvað af líkingu við þetta svo kallaða týpíska hljóð náðist á upptökur en ekki í góðum gæðum eða í nægilegu magni.

Prófessor Håkan bendir á að líklega sé þetta rangur árstími og að betra væri að gera þetta á komandi vori. Háttsettur sjóhersforingi tekur hann á orðunum og skipuleggur stórárás með herskipum og kafbátum og alles á væna síldartorfu næsta vor en þá fengu háskóla-fræðimennirnir ekki að vera með.

Sagt er að í skjali frá þessum herforingja hafi hann bent á eftir farandi:

Það er mikilvægt að áhafnir kafbátana séu með það á hreinu að þetta verkefni snýst ekki um að skjóta tundurskeytum á óvini, heldur meira um að elta síld og hræða úr henni líftóruna og þar af leiðandi er þetta frekar óvenjulegt kafbátaverkefni.“

Þetta tókst ekkert sérstaklega vel hjá hernum en að lokum var það Doktorant Magnus Wahlbeg sem með aðstoð alvöru síldveiðimanna náði loksins góðri upptöku af þessu fræga „síldarprumphljóði“ og þar með tókst honum að sanna kenningu sína og prófessorsins.

Í sögulok standa eftir stórar spurningar um alla þessa “Rússarnir koma hræðslu” sem skapaðist gegnum tíðar lýsingar í fjölmiðlum af kafbátaleit þar sem “sannleikurinn” ALDREI flaut uppá yfirborðið í nær tvo áratugi.

Endursögn og þýðing:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðuljósmynd:
Vatnslistaverk eftir Örlyg Kristfinnsson, mynd lánuð frá heimasíðu Síldarminjasafni Íslands.
Grein. Um síldina. sjá einnig meira um síld hér á Wikipedia. SÍLD.

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

ÁLFHÓLLINN OKKAR OG ÁLF- HYRNAN HANS!

AFGLAPASKARÐ

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?