H-listinn í Fjallabyggð sendi frá sér þessa fréttatilkynningu.



H-Listinn Fyrir Heildina í Fjallabyggð

Gröfum stríðsöxina á tímum Covid-19 og vinnum saman

Á 646. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar voru tekin fyrir erindi er vörðuðu aðgerðir til viðspyrnu vegna Covid-19 lagði meirihluti D-Lista Sjálfstæðisflokks og I-Lista Betri Fjallabyggðar fram svohljóðandi bókun gagnvart
H-Listanum Fyrir Heildina í Fjallabyggð sem er í minnihluta.

Meirihluti bæjarráðs harmar að ekki sé fyrir hendi vilji hjá minnihluta að standa saman að þeim aðgerðum sem nú er gripið til vegna COVID-19. Formaður bæjarráðs hafði samband við H-listann á laugardag og bauð forsvarsmönnum listans fulla aðkomu að þeirri tillögugerð sem er hér á dagskrá, ásamt og aðkomu að framhaldi þeirrar vinnu sem fram fer á komandi vikum og mánuðum. Þessu boði meirihluta hafnaði H-listinn í gær eftir að hafa fundað um málið.“

Þessi bókun er vægast sagt mjög hörð og langt frá því að segja alla söguna á bakvið aðdragandann að málinu og má velta fyrir sér sannleiksgildi og heiðarleika þessarar bókunar meirihlutans og finnst mér sem oddvita H-Listans að mér bera skylda til að fara í gegnum atburðarrásina eins og hún var í aðdraganda fundarins.

Undanfarnar þrjár vikur hafa þau sem standa að baki H-Listans verið að velta sín á milli áhyggjum vegna yfirvofandi atvinnuleysis í Fjallabyggð í kjölfar Covid-19 faraldursins í ljósi þess að atvinnuleysistölur í Fjallabyggð hafa aukist mjög hratt undanfarið. Fimmtudaginn 26. mars sendi oddviti H-Listans inn til bæjarráðs, tillögu listans vegna framkvæmda á árinu vegna Covid-19.
 
H-listinn leggur til að farið verði í að endurskoða framkvæmdaáætlun Fjallabyggðar með það í huga að forgangsraða framkvæmdafé í mörg smærri verkefni í stað stærri verkefna s.s. gervigrasvallar en það verkefni krefst mikilla fjárútláta en er ekki endilega mannaflafrekt. Það er líklegt að atvinnuleysi mun aukast í sveitarfélaginu og erfitt getur reynst fyrir skólafólk að fá vinnu í sveitarfélaginu í sumar. Því er nauðsynlegt að Fjallabyggð bregðist nú þegar við og reyni að gera allt til að auka framkvæmdir þannig að hægt verði að sporna við auknu atvinnuleysi s.s. í viðhaldi eigna sveitarfélagsins, fara í framkvæmdir sem snúa að umhverfismálum og fleira. Að nógu er að taka.
H-listinn er tilbúinn til að vinna að tillögum með meirihlutanum í þessu stóra verkefni og nýta allar leiðir til að kalla eftir tillögum um verkefni, t.d. frá nefndum og frá bæjarbúum. Þessi vinna þarf að hefjast strax.“

Eitthvað lagðist þessi tillaga illa í forsvarsfólk meirihlutans, því að á laugardeginum hringdi formaður bæjarráðs í undirritaðan oddvita H-Listans. Í því símtali voru málin rædd og H-Listanum boðin full þáttaka og að stofnaður yrði stýrihópur um vinnu Fjallabyggðar í aðgerðum til viðspyrnu vegna Covid-19, sem myndu m.a. innihalda breytingar á fasteigna- og notendagjöldum í Fjallabyggð gegn því að H-Listinn dragi tillögu sína tilbaka og taki hana af dagskrá bæjarráðs. Oddviti H-Lista svaraði því til að hann væri að fara á fjarfund með listanum á sunnudeginum og urðu aðilar sáttir á að málið yrði lagt fyrir þann fund sem oddviti H-Listans gerði og ákváðu að heyrast aftur eftir tiltekin fund. Eftir umræður á þeim  fundi varð það niðurstaðan að tillaga listans yrði ekki dregin tilbaka. Fullur áhugi var hjá fundarmönnum fyrir því að vinna með meirihluta Fjallabyggðar að þessum krefjandi og mikilvægu málum, enda allir fundarmenn sammála um að tillaga H-Listans bæri það með sér.

Á mánudagsmorgninum heyrðust síðan oddviti H-Listans og formaður bæjarráðs í símtali þar sem formanninum er tjáð að tillagan verði ekki dregin tilbaka, enda bæri hún með sér vilja til samstarfs um aðgerðir í þágu íbúa Fjallabyggðar. Fram kom hjá fomanni bæjarráðs að hann hefði aðra sýn á málinu og teldi tillöguna ekki lýsa samstarfsvilja listans, heldur þvert á móti og tilkynnti í símtalinu að H-Listinn fengi því ekki aðkomu að vinnunni í málinu né aðild að stýrihópnum. Oddviti H-Listans harmar þessa tilraun formanns bæjarráðs til að þvinga H-Listann til að draga tillöguna sína tilbaka, sem hljóta að teljast afar ólýðræðisleg vinnubrögð.

Á bæjarráðsfundinum átti oddviti H-Listans alls ekki von á því sem á honum skall, hann hafði reiknað með því að meirihluti D-Lista og I-Lista myndu bóka þannig að meirihluti myndi standa á bakvið aðgerðir Fjallabyggðar og láta þar við sitja. Hefði það verið gert þá hefði oddviti H-Listans greitt atkvæði með aðgerðaráætlun meirihlutans. Bókun meirihlutans gegn H-Lista gerði oddvita það ókleift að greiða atkvæði með aðgerðunum einfaldlega vegna þess að þá hefði hann í leiðinni greitt atkvæði með óvæginni bókun meirihlutans gegn
H-Listanum. Mikilvægt er að það komi fram að  H-Listinn styður af heilum hug framkomnar tillögur meirihluta Fjallabyggðar varðandi „Aðgerðir til viðspyrnu vegna Covid-19“ og á þetta við um fyrstu þrjú erindin á fundinum enda greiddi H-Listinn ekki atkvæði gegn þeim tillögum. Oddviti H-Lista tók þá ákvörðun á fundinum að fara ekki í átök við fulltrúa meirihlutans í formi bókanna í fundargerð undir þessu viðkvæma máli. 

H-Listinn harmar innilega að meirihluti D-Lista og I-Lista skuli rangtúlka vilja og aðgerðir H-Listans í svona viðkvæmu og alvarlegu máli sem Covid-19 er og hefur skapað alvarlegt ástand í landinu og varðar líf, heilsu og öryggi íbúa
Ennfremur harmar H-Listinn að meirihluti Fjallabyggðar skuli reyna að stofna til pólitískra átaka undir þessu máli.

Jón Valgeir Baldursson
Oddviti H-Lista Fjallabyggðar.