TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….
… EN TRÖLLIN BÚA SAMT Í OKKUR ÖLLUM!

Sköpunarsögu biblía Íslenskra Trölla sem er geymd í velföldum heilögum leynihelli á Tröllaskaga segir söguna um hvernig tröll komu upprunalega til Íslands.

Fyrir um tvö þúsund árum geisaði mikið stríð í milli Ásaguða og Jötunheima og það varð fljótt fyrirsjáanlegt að Ásar myndu sigra og í framhaldi af því ekki hika við að reyna að hreinlega útrýma þjóðflokki Jötna.  

Jötunheima-Tröll eru ekkert öðruvísi en aðrir þegar kemur að viljanum að bjarga sínum afkvæmum og vilja að sjálfsögðu skapa þeim trygga og góða framtíð. Þegar sem verst var í þessu langvarandi blóðbaði ákváðu nokkur háttsett Tröll að best væri að forða sem flestum tröllabörnum til mannaheima undan þessum hörmungum.

Haldið var mikið leyniþing með frægum seiðköllum frá bæði Trölla og mannaheimi og mannskepnur kunna stundum að sýna meðaumkun og umburðarlyndi, því svona hörmungar afleiðingar stríðs eru velþekktar í mannkynssögunni.

Það var ákveðið að veita tröllabörnunum tímabundið landvistarleyfi á nokkur afskekktum óbyggðum stöðum á jörðinni. Eins og t.d. í djúpum fjallgörðum og fjörðum Noregs og svo á hinu þá óbyggða Íslandi.

Skilmálar manneskjunnar var að ódauðleg Tröllabörnin væru í umsjá seiðkallatröllakennara og að tröll fái bara vistast utandyra þegar ekki sést til sólar og alls ekki trufla eða sjást í mannaheimi. Refsingin við brotum á þessari reglugerð var að tröll væru þá réttdræp og hitt var að verða að steini ef að sólageislar ná þeim.

Þetta gekk eftir, en þegar stríðinu mikla líkur yfir hundrað árum seinna voru ekki mörg tröllabörn sótt til sinna heima. Hér á jörðu niðri myndaðist eigin þjóðflokkur úr þessum munaðarlausu tröllabörnum sem auðvitað þekktu ekkert annað en nokkuð frjálst líf í þá strjálbyggðum manneskjuheimi.

Ódauðleiki trölla gerir það að verkum að þau fjölga sér frekar hægt og verða kynþroska um og eftir eittþúsund ára aldur.
Mannskepnan fjölgar sér hinsvegar hratt og það eitt krefur yfirtöku á stærri og stærri landssvæðum og eftir bara tæp þúsund ár þrengist meira og meira að í lífi trölla. Fleiri og fleiri eru drepin og mörg verða að steini við það að vera of seint úti við að forða sér óséð frá yfirráðasvæðum og landssvæðafrekju mannskepnunnar.

Allstaðar í heiminum deyja tröll út og um aldamótin 1800 eru eingöngu fjögur tröll og einn tröllaseiðkall eftir, velfalin í hrikalegum fjöllum og fjörðum á Tröllaskaga.

Seiðtröllkarlinn Kári Kaldalón sér að þetta er búið spil og minntist gamalla spakmæla föður síns um að:

“Ef þú getur ekki sigrað andstæðinga þína, þá er líklega best að reyna að sameinast þeim”.

En hvernig?

Hann leggst undir feld og hugsar þetta vel og vandlega útfrá öllu því sem hann veit um lífshætti og líffræði mannkynsins og hann vissi mikið eftir fleiri þúsund ára rannsóknir.

Kári skipar síðan Ögmundi Dvergatrölli að læðast að afskekktu koti í Hvanndalabjargi og stela fyrir sig ungu stúlkubarni. Hann Ögmundur litli passaði vel í þetta því hann var einkennilega lávaxið og lítið tröll og líklega einhverskonar hálfmanneskja og átti þar af leiðandi auðvelt með að fela sig í mannabyggðum.

Kári þurfti að rannsaka í henni stúlkubarnablóðið og bera það saman við tröllablóð.

Seiðkarlinn vissi um sögur af tröllum sem blönduðu blóði við manneskjur og eignuðust með þeim börn en við það misstu þau sinn ódauðleika og magnið af sínum tröllatöfrum.

Eins og sagt er frá í sögunni „RAGNHILDUR MATSELJA OG SKESSUSONURINN“

Tröllin létu vel að stúlkubarninu og hún hændist meira og meira að þeim og þeirra lífsháttum og Kári skipaði öllum að vingast við hana og fylgjast vel með öllu hennar manneskjulega látbragði og venjum.

Eftir tíu ára langar og ítarlegar rannsóknir er Kári tilbúinn að færa tröllaeiginleika þeirra allra yfir í manneskjulíkama en áður en svo getur orðið fara tröllin í langa njósnaleiðangra að Hvanndalakotinu og horfa á hart líf þeirra dugnaðarhjóna sem hafa þrátt fyrir soglegan dóttur missir komið tveimur börnum á legg á þessum hrikalega og afskekkta stað.

Takið til ykkar allar hreyfingar segir Kári Kaldalól og klæðaburð og talsmáta þeirra. Reynið að hlusta á sögur sem þau tala oft um og lærið þetta utanað. Því ef þetta á að takast þá verðum við að geta hitt aðrar manneskjur sem sjá engan mun á okkur og öðrum sér líkum.

Svo kom sá stóri dagur að galdratröllið Kári svæfði alla í Hvanndölum með svæfingarþoku sem lá þétt yfir Hvanndölum í tvö sólarhringa.
Hann skipti út blóði frá tröllum yfir í manneskjur og losaði sig síðan við þeirra stóru lík og henti þeim í sjóinn um nóttina og líkin ráku fyrir minni Héðinsfjarðar og enduðu í fjörunni undir Hestfjalli og við sólarupprás breyttust þau í stóra klettaveggi sem sjást þar enn í dag.

Kári beið og gat síðan fullvissað sig um að allt hafði gengið vel gegnum samtöl við sín nú barnalega litlu tröll þegar þau lifnuðu við eitt af öðru í nýjum líkömum.

Það er TRÖLL í garðinum hjá The Herring House! Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Sjálfur tók hann yfir 19 ára stúlkukroppinn sem þeir stálu tíu árum áður, því Kára þótti mjög vænt um hana Hallfríði sína sem hún hét og hann gaf henni eilíft líf inni í sínum eigin hugarheimi og þar lifði hún í fallegri draumalanda umgjörð og Hallfríði leið mjög vel þar.

Í draumum Kára spjallaði hann við hana Höllu sína og hún hvíslaði oft góð ráð í eyra hans um líf og væntingar manneskjusála.

Kári átti erfitt með að skilja við sinn stóra tröllakropp og hann lét tröllalík sitt reka alla leið út í Grímsey þar sem það rakst á suðvesturhorn eyjarinnar og braut þar út stórt skarð í háa kletta og heitir sá staður alla tíð síðan Káragjá.

Tröllin náðu að æfa sig meira og minna óáreitt í hálfa öld í sínum afskekkta kotbúskap í Hvanndölum en svo kom sú stund að manneskjum var hreinlega bannað búa þarna af heilsufarsástæðum.
Þrátt fyrir að það var nú alþekkt í allri Fjallafjarðabyggð hversu miklir dugnaðarforkar hjónin og hálffullorðin börnin þeirra tvö og vinnukonan dularfulla í Hvanndölum voru.

Mörgum fannst einnig einkennilegt að þetta Hvanndalafólk virtist eldast mjög hægt og sögusagnir gengum um að það væri galdragrösum frá hinum sögufræga ódáinsakri staðarins um að kenna.
En Kári seiðkarl sá að enginn myndi trúa á svona þjóðsögur í þeirri framtíð sem nú þegar var komin í þeim véla- og tæknivædda manneskjuheimi sem þau nú lifðu í.

Kári varð því snemma að minna alla á og setti upp reglugerð sem sagði að allir yrðu eftir ákveðin árfjölda að láta sig hverfa og byrja nýtt líf undir nýju nafni á öðrum stað og ekki koma til baka til heimabyggða aftur fyrr en sú kynslóð sem þekkti tröllafólkið var dáið.

Kári fylgdist vel með sínu manneskjutröllafólki á æfingartímabilinu í Hvanndölum og setti þeim stangar reglur um matarræði, því hann tók efir því að ef borðað var of mikið kjötmeti þá áttu sumir ungir kroppar það til að vaxa of hratt og mikið og byrja að líkjast tröllum.

Fiskur, lýsi og allskyns grænmeti var það sem hélt niðri tröllaeðlinu og lík-hamstærðinni.

Áður en litli hópurinn yfirgaf Hvanndali og Sýrdals hjákotið á sama stað sem þau höfðu byggt upp líka safnaði Kári Kaldalón saman sínum litla söfnuði í hellinum heilaga.

Kæru vinir nú er komið að því að við förum öll í sitthvora áttina hér á Tröllaskaganum, byrjum nýtt líf sem manneskjutröll og við skulum fjölga okkur gegnum ástarsambönd sem þola að vita sannleikan um okkar fortíð.

Svona fordómalausar og góðhjartaðar manneskjur eru til en þið verðið öll að vanda ykkur og alls ekki fara í skyndisambönd sem gefa ykkur óvænt börn sem þið hafið ekki möguleika að ala upp sjálf. Samheldni og ást mun verða okkar björgun og við skulum hittast árlega hér á okkar heilaga stað á Jónsmessu og bera saman bækur okkar og styðja hvort annað í aðlögunarbaráttu okkar. Þetta er okkar eina von um að lifa áfram sem tröllaþjóðflokkur og munið öll að við höfum samt bara skipt um þjóðbúning þrátt fyrir að okkar tröllafólk hafi lifað hér á landi í þúsundir ára.

En við komum sem flóttatröll og saga forfeðra okkar má aldrei gleymast.

Hafið í huga að best er að börnin ykkar óvitandi um uppruna sinn alist upp eins og öll önnur manneskjubörn upp að fermingaraldri;
En þá verðum við hafa okkar eigin fermingarathöfn hér í hellinum á Jónsmessu og skóla þau inn í okkar hulduheim á fallegan og mjúkan máta.
Því ef ekki, er stór hætta á ef þau ekki fylgja okkar matarræðis- og lífsreglum muni okkar tröllaeðli óvænt brjótast út.  
Öllum og mest þeim sjáfum til mikillar undrunar og þá er ekkert annað eftir en að þau börn verða að lifa falin hér í hellinum um alla eilífð.

Allt gekk eftir með örfáum undanþágum þar sem lá nærri að líkamlega og andlega of sterk tröllabörn kæmu upp um sig með því að byrja að vaxa of hratt og verða t.d. heimsfræg sem sterkasti maður eða besta Crossfit kona heimsins

En þeim var öllum beint á rétta braut og eru öll grænmetisætur í dag og rétt svo mátulega stórar manneskjur.

Tröllunum fjölgaði hægt og rólega en Kári seiðkarl sem nú hafði búið í kvenmannslíkama í nær tvöhundruð ár og sjálfur borið átta börn undir belti fann að hugarfar hans hafði breyst mikið.

Hann var einhvernvegin orðinn allur mýkri í hreyfingum og hugsunum og í heimspekihugmyndum um lífið og tilveruna.

Hann hafði í gengum árin verið ötull í kosninga og jafnréttisbaráttu Íslenskara kvenna og getið sér gott orð sem mikill kvenskörungur undir ólíkum dulnefnum í þremur bæjarfélögum á Tröllaskaga.

Listinn að breyta útliti sínu og aldri hafði hann lært af öðrum bráðgáfuðum manneskju vinkonum sem hann hafði hitt í leit sinni að kjarna þess að vera kvenmaður í karlrembuheimi og það var eins og að manneskjueðlið í honum væri að verða sterkara en tröllagenin réðu við.

Hann gat í fyrsta skiptið á Jónsmessuhátíðinni sumarið 2020 slappað af og notið þess að sjá að tröllamanneskjusöfnuðurinn hans var nú orðin yfir tvöhundruð frískir, heilsteyptir og velmenntaðir alíslenskir ríkisborgarar.

Brosandi þurrkaði hann sælutár úr augunum svo að maskarinn myndi ekki renna og sýna öllum hans hugarástand og hann gat ekki hindrað hugsanir sem nú birtust í hans klóka þroskaða kvenmannsheila:

Það er kannski alveg óvitlaust að verða bara manneskja…..

En Kári Kaldalón fyrrverandi tröllaseiðkarl sem hét Ásthildur í dag hafði mest áhyggjur af umhverfismálum og framtíð sinna barnabarna og barnabarnabarna….

Höfundur og ljósmyndari:
Jón Ólafur Björgvinsson

Heimildir koma úr ýmsum áttum og mest úr hugmyndum höfundar um tröll og ýmsum sögum um þeirra líf.
Eins og t.d. frá söguna um Ragnhildi og tröllasoninn. Sjá fleiri tröllasögur hér á snerpa.is.

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

ÁLFHÓLLINN OKKAR OG ÁLF- HYRNAN HANS!

AFGLAPASKARÐ

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!

SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI