Í gær, miðvikudaginn 26. júní fengu 13 nýútskrifaðir lögreglumenn setningu í starf hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra.

Lögreglunám er nú á háskólastigi og útskrifaðist þessi hópur frá Háskólanum á Akureyri nú í vor. Hópurinn er lögreglunni á Norðurlandi eystra að góðu kunnur því þau hafa öll verið í starfi hjá embættinu til nokkurs tíma.

Á Íslandi hefur almennt verið skortur á fagmenntuðum lögreglumönnum á síðustu árum og allt of margar stöður mannaðar ómenntuðu afleysingafólki. Þessi viðbót af fagmenntuðum lögreglumönnum er því afar kærkomin, þótt hún feli ekki í sér fjölgun í útkallsliði embættisins.

Á myndinni er hópurinn ásamt hluta af yfirstjórn embættisins. Á hana vantar tvo af nýju lögreglumönnunum.

Mynd/Lögreglan á Norðurlandi eystra