Katrín Jakobsdóttir bauð upp á svokallaða beina línu forsætisráðherra á samfélagsmiðlum í gær, mánudaginn 15. febrúar í hádeginu. Fólki gafst tækifæri til að senda forsætisráðherra spurningar fyrirfram, og nýtti fjöldi manns sér það tækifæri. Hér fara svör Katrínar.

Þó fjölmargar spurningar hafi borist, dró forsætisráðherra svör sín saman í eitt langt.

“Nú hér eru ansi margar spurningar sem varða örorkubætur, almannatryggingar, ellilífeyri og fleira. Og þá vil ég í fyrsta lagi segja það að við erum auðvitað búin að vera að vinna að þessum málum, ég rifja það upp að árið 2016 var almannatryggingakerfinu breytt, þá var farið í ákveðna kerfisbreytingu þegar kemur að málefnum eldri borgara, og þessu kerfi breytt. Það hefur staðið vinna við að rýna það hvernig þetta kerfi hefur gefist. Það sem þessi ríkisstjórn hefur gert til að ráðast í breytingar á kerfinu þegar kemur að eldri borgurum, það er í fyrsta lagi það að við ákváðum að hækka frítekjumark atvinnutekna, það fór strax úr 25þ krónum upp í 100þ krónur af því við vildum hvetja eldri borgara til að geta sótt sér atvinnutekjur. Síðan var samþykkt á þingi, líklega var það bara í fyrra, frumvarp um félagslegan viðbótarstuðning við þá sem veikast standa í þessu kerfi, það er fólk sem á ekki fullan rétt í almannatryggingakerfinu. Það hefur verið unnið ótrúlegt verk í því að lækka kostnað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og þar hefur öryrkjum og eldri borgurum verið forgangsraðað að hálfu heilbrigðisráðherra til að draga úr þeirra kostnaði, enda er hann meiri en margra annara, og þar munar ekki síst um breytta þátttöku í tannlæknakostnaði. Þannig að þetta snýst um aldraða, ég vil líka minna á að hér voru samþykktar breytingar á skattlagningu á arð af frístundahúsum sem raunar hefur verið baráttumál eldri borgara um árabil. Það stendur svo yfir vinna við það að skoða þetta kerfin heildstætt, þar eð að segja kerfisbreytinguna sem gerð var 2016, hvað hefur gefist vel og hvað síður. En ég vil minna á  það að mér finnst erfitt að tala um eldri borgara og öryrkja í sömu andrá því þetta eru mjög ólíkir hópar, ólík samsetning og ólíkar þarfir. Þegar kemur að örorkulífeyrisþegum, þá voru gerðar breytingar núna um áramótin. Dregið var úr innbyrðis skerðingum sem skilar tekjulægstu örorkulífeyrisþegum tæplega 8000 króna viðbótarhækkun á mánuði, til viðbótar við hefðbundna vísitöluhækkun upp á 3,6%. Sömuleiðis var ráðist í 50 þúsund króna eingreiðslu til örorkulífeyrisþega. Þetta kemur í kjölfar þess að við drógum úr skerðingum í kerfinu 2019, til þess var varið umtalsverðum fjármunum, til að draga úr skerðingum, því það hefur verið höfuðatriði í baráttu talsmanna öryrkja, að draga úr skerðingum, bæði þegar kemur að atvinnutekjum, en ekki síður innbyrðis í kerfinu. Og í þessar breytingar hefur verið varið u.þ.b. fjórum milljörðum á árs grunni. Þá er ótalið sömuleiðis kostnaðarþátttaka öryrkja í heilbrigðiskerfinu, þar sem eins og hjá eldri borgurum þetta hefur verið forgangsmál að draga úr kostnaði þessara hópa. Við höfum verið að hækka barnabætur til tekjulægstu hópa og þær skattkerfisbreytingar sem ráðist var í og hafa verið innleiddar núna, þar sem tekið var upp þriggja þrepa skattkerfi, þær koma sömuleiðis best út fyrir tekjulægstu hópana. Þannig að margt hefur verið gert fyrir þessa hópa það er mikið spurt og ég veit að þetta er mikið kappsmál og verkefni sem ekki er lokið. Við höfum sagt að það sé mikilvægt að ráðast í heildarendurskoðun á kerfinu, en allar þær breytingar sem við höfum gert hafa miðað að því að draga úr skerðingum og bæta stöðu hinna tekjulægstu.”

Athyglisvert að að heyra forsætisráðherra tala um “hefðbundna vísitöluhækkun” þegar kemur að árlegum endurútreikningi upphæða almannatrygginga, sem 69. grein laga um almannatryggingar mæla fyrir um. Til fjölda ára hefur þar verið baráttumál ÖBÍ að þeirri grein verði beitt eins og upphaflega var til ætlast, og fræðast má betur um í ítarlegri skýrslu Kolbeins Stefánssonar um 69. greinina, sem finna má hér.

Annars má segja að lítið hafi komið fram í svari forsætisráðherra um framtíðaráform, annað en að ráðast þarf í heildar endurskoðun.

Heimild og mynd í frétt/ÖBI
Forsíðumynd/pixabay