Nýkomin heim úr jarðarför móður sinnar inn á Akureyri. Hvítasunnuhelgina 2020, situr Þorvaldur Sigurður Guðmundsson 59 ára gamall úti á svölum í blankalogni í sumarhúsi fjölskyldunnar á Siglufirði.
Þorvaldur eða Valdi eins og hann ætíð var kallaður var svolítið eftir sig, því þetta var að mörgu leyti merkileg og öðruvísi jarðarför.

Í dag var settur endir á langa sögu sem fáir vissu um, þessi endalok voru honum vissulega léttir, því nú þurfti hann ekki lengur að lifa í lyginni.
En þung og sár sorg var þarna með honum á svölunum líka, því móðurmissir er alltaf sár.

Valdi dróst inn í hugsanir um hvernig þessi ævilygasaga hans byrjaði:

Fimmtudags seinnipart 2 apríl 1981, upp í litlu risíbúðinni við Helga Magrastræti sem hann leigði með henni Unni sinni, þá bekkjarfélaga sínum í Menntaskólanum á Akureyri.
Hann mundi þetta allt saman eins og þetta hefði gerst í gær.

LJÓSMYND!

Þegar hann kom heim í litlu íbúðarholuna þá sér hann skilaboð til sín frá Unni, sem var nýfarin í helgarfrí heim til fjölskyldu sinnar á Sigló.
 „Kíktu á þessa þessa gömlu ljósmynd, það er með ólíkindum hvað þessi maður er líkur þér… eða þú honum. Fyndið, haha. Sjáumst á sunnudaginn og þá segi ég þér hvar ég fann þessa ljósmynd. Kossar og knús. Þín eilífðar vinkona. Unnur.“

Þegar Valdi kíkir á þessa gömlu ljósmynd þá fær hann næstum taugaáfall með tilheyrandi skyndilegum og áköfum hjartslætti:
Því á svarthvítri myndinni er ungur ljóshærður stoltur maður með stúdentshúfu og blóm í fanginu og hann lýtur nákvæmlega eins út og hann sjálfur mun gera á litmynd eftir um það bil tvo mánuði sem eftir eru af hans síðustu menntaskóla önn. 

„Hvaða andskotans fíflagangur er þetta… á þetta vera eitthvað fyndið 1 apríl gabb hjá Unni.

Hvernig ætli hún hafi farði að þessu… ha, sett andlitið á mér inn í þessa gömlu mynd.“

En samtímis komu upp í huga hans hugsanir og tilfinningar sem hann reyndar hafði borið í sér alla ævi.
Sterkar tilfinningar sem snérust um að passa ekki inn í lífið og sína eigin fjölskyldu.

Þessum hugsunum og tilfinningum hafði hann ýtt úr sjálfum sér með valdi þegar hann ákvað að flytja…
eða réttara sagt flýja, út úr húsi móður sinnar strax á öðru ári menntaskólanámsins.

Mamma hans skildi ekkert í þessari vitleysu. „Hvaða della er þetta í þér drengur. Þú býrð hér á Akureyri og þú þarft ekkert að leiga þér úti í bæ eins og einhver dreifbýliskrakki.“

En síðan sætti hún sig einhvern veginn samt fljótlega við þessa vandamálalausn. Hún sem var nú einstæð tveggjadrengja móðir var komin í andlegt þrot yfir því leiðinda ástandi sem ríkti þeirra á milli. Þessi óþæginda tilfinning með tilheyrandi leiðindarifrildum hafði magnast með hverju gelgjuári eldri sonar hennar og hún bar von um í sínu stóra móðurhjarta að tímabundinn aðskilnaður gæti kannski bundið enda á þetta ástand og að þau tvö myndu kannski ná aftur saman sem þau nánu móðir og sonur sem þau voru í hans barnæsku.

SPEGILMYND!

Valdi fór inn á baðherbergi og festi myndina við hliðina á speglinum og horfði til skiptis á sína eigin spegilmynd og á þennan ókunnuga mann. Eini sjáanlegi munurinn á þeim var að Valdi greiddi toppinn til vinstri og hinn til hægri. Annars voru þeir nákvæmlega eins.

Þeir voru fullkomin spegilmynd hvors annars.

Hver er þessi maður ???

EFI OG ERFIÐLEIKAR!

Það koma stundir í lífinu þar sem dularfullir og óskiljanlegir hlutir einhvern veginn detta allt í einu í rétt upplifunar og minningarhólf í heilanum á manni… hugsar Þorvaldur í þungum minningar þönkum á svölunum á Sigló.

Hann minnis þess að snemma í barnæsku var fólk að benda á hvað hann og tveimur árum yngri bróðir hans voru ólíkir. Stolt móðir roðnaði og svaraði bara flissandi… „Hann er allur í móður ættina, svakalega líkur langafa sínum heitnum á Ólafsfirði.“

En svo gerist þetta skrítna þegar ungir drengir henda af sér barnalegum kringlóttum krúttlegum andlitsgrímum og byrja að stækka bæði uppá við og þversum og breytast skyndilega mikið í útliti eftir 12- 13 afmælisdaginn sinn. Þeir fá sitt framtíða karlmanna andlit í afmælisgjöf og annaðhvort sverja þeir sig sterkt í aðra hvora ættina eða svo verða þeir bara eigin góð blanda af móður sinni og föður.

Rétt um fermingu leið Valda eins og að mömmu hans yrði oft brugðið þegar hún mætti honum. Sínum eigin eldri syni, á óvæntum augnablikum í heimilis hversdagsleikanum.

Það var eins og hún sæi óvænt einhvern annan… í honum.

Þetta magnaðist með hverju ári og þau byrjuðu að fjarlægast hvort annað á einhvern óskiljanlegan máta, þetta gerðist samfara erfiðleikum með illa slasaðan og sjúkan föður á heimilinu.

Valdi mundi vel þann hörmungardag, þá nýorðinn 10 ára að fá þær fréttir að faðir hans hafi slasast illa við vinnu í Slippstöðinni.
Faðir hans varð aldrei sami maður eftir það. Við tók yfir þriggja ára helvíti, þar sem þessi fyrir honum ætíð elskulegi mikilvægi maður breyttist úr umhyggjusömum pabba yfir í óútreiknanlegt skrímsli sem blandaði saman sterkum verkjatöflum og áfengi í leit sinni að frið frá verkjum og sálrænni vanlíðan.

Daginn fyrir fjórtánda afmælisdag Þorvaldar varð faðir hans „bráðkvaddur í svefni“ eins og það var látið heita á opinberum vettvangi.

Eftir þetta áfall fjarlægðist Þorvaldur Guðmundsson sorgmædda og þreytta móður sína enn þá meira, sem og sjálfum sér svo ólíkum bróður sinn líka. Honum í rauninni mikið kær, nú föðurlaus bróðir, sem var eins og spýttur út úr nösinni á pabba sínum… mínum? 

FJARLÆGÐ í NÁLÆGÐ!

Þessi tilfinning um að passa ekki inn í lífið og sitt eigið heimili magnaðist bara og flóttinn til Unnar vinkonu sinnar í risíbúðina litu við Helga Magrastræti sá hann sem sína einu björgun.

Loforð voru vissulega gefin um að koma reglulega heim og þá sérstaklega í sunnudags hádegis steikina. En þessi loforð voru oftast svikin þrátt fyrir ákafar bænir frá mömmu og nú síðasta árið frá bróður sem var byrjaður í sama skóla.  

DJÖFULLEGIR DRAUMAR!

Frá þeirri stundu sem Valdi sá þessa ljósmynd hafði hann enga ró í sinni ungu sál, komandi daga og nætur.
Næturlangar martraðir með efasemdatilfinningu um sinn eigin óljósa uppruna blönduðust saman við hræðileg og hörð særandi þvoglukennd vímuefna orð sem féllu úr draugamunninum á sárþjáðum látnum föður.

Þessi ORÐ ásóttu hann mikið og gáfu engan næturfrið.

VIÐ EIGUM ÖLL OKKAR EIGIN SANNLEIKA!

Á sunnudagsmorgni var hann harðákveðin í að fara í hádegismat til móður sinnar og krefja hana um svör….. og þar á eftir sama dag mæta Unni vinkonu sinni við rútubílastöðina þegar hún kæmi til baka frá Siglufirði og fá hjá henni allan sannleikann um þessa ljósmynd.

Það var dágóður spotti fyrir hann að ganga heim á sínar æskuslóðir og á leiðinni rann af honum mesta reiðin sem hann hafði út í móður sína. Valdi sá að best væri að fara varlega að henni, því EF einhver fótur var fyrir þessari grunsemd hans um að vera rangfeðraður þá væri það víst að þetta „tilveru hliðarspor“ eða skyndikynnanótt“  hjá henni eða hvað maður á að kalla þetta gæti verið mjög viðkvæmt mál fyrir hana að viðurkenna eða ræða um.

Valdi stóð langa stund fyrir utan dyrnar á æskuheimili sínu og þorði vart að klífa inn í þennan heimilis heim sem hann hafði valið að flýja frá fyrir liðlega tveimur árum.

Svo hringdi hann á dyrabjölluna með hnút í maganum eins og hver annar ókunnur maður.

Nú, ert þetta þú elsku Valdi minn“, segir móðir hans hissa og faðmar hann og kyssir hálf vandræðalega.

„Bróðir þinn er ekki heima, svo ég nennti ekki að setja hrygg í ofninn fyrir mig eina. En ég á góðar kjötbollur í brúnsósu með kartöflustöppu frá í gær sem ég get hitað upp handa okkur.“

Valda var það léttir að heyra að bróðir hans væri ekki á staðnum. Síðan vissi hann ekki hvernig hann ætti að komast úr þessu hversdags kurteisi hjali og yfir í það alvarlega mál sem lá eins og mara yfir hjartanu.

Mamma! Elsku mamma…. sestu niður, ég þarf að ræða svolítið mikilvægt og viðkvæmt mál við þig.“  

Svo sagði hann henni að hann væri ekki hér til þess að dæma hana fyrir eitt eða neitt og síðan sagði hann hreinskilnislega alla söguna um sína líðan síðustu ára og dró síðan fram spegilmynda ljósmyndina og sýndi móður sinni þennan ókunnuga mann.

„Axel“… hrökk ósjálfrátt út úr henni. Síðan runnu svört maskara tár í stríðum straumi niður kinnarnar og hún kom ekki upp orði í dágóða stund.

GETUR EITTHVAÐ FALLEGT SAMT VERIÐ SYND?

Þú skalt vita Valdi minn að þetta átti aldrei að gerast, en ég var bara 17 ára, rétt að verða 18 sumarið 1961. Nýflutt til Akureyrar frá Dalvík og ég þekkti eiginlega engan hér innfrá því ég fór aldrei i menntaskóla eins og þú veist. Fór í heimavist í húsmæðraskólann á Laugum og nýútskrifuð þaðan var ég hér á Akureyri að bíða eftir pabba þínum… Guðmundi…. Já…
Alla veganna,  þetta sumar, var hann úti á sjó í afleysingatúr sem vélstjóri á togara frá Ólafsfirði. Við voru að byrja að búa saman og við höfðuð leigt okkur litla íbúð hér inná Akureyri og lífið var bara dásamlegt og allt var gott okkar á milli.

Svo hringir æskuvinkona mín frá Dalvík eitt föstudagskvöldið og segir að það sé sveitaball í Freyjulundi daginn eftir og hún vill að ég hitti hana þar, því það voru sætaferðir frá báðum stöðum.

Ég sá hann fyrst í rútunni og var ekkert að pæla í honum eða öðrum strákum en svo eftir ballið sest ég óvart við hliðina á honum í rútunni.

Við spjölluðum saman á heimleiðinni og hann var voða skemmtilegur og góður strákur fannst mér og svo gengum við saman áleiðis upp frá eyrinni í ótrúlega fallegu miðnætursólar logni í áttina að spítalanum. Ég átti heima þar rétt fyrir ofan og hann sagðist líka eiga heima þarna uppfrá.

Við fórum svo inní Listagarðinn og settumst í grasið og bara kjöftuðum saman eins og ungt fólk gerir…. þú veist. Svo segir hann allt í einu: Ertu ekki svöng og þyrst? Bíddu hérna smá stund, ég hleyp heim og næ í eitthvað gott í gogginn. Ég var staðin upp hálfþreytt og ætlaði að fara heim þegar hann birtist allt í einum með tvö teppi og stóra lautaferðatösku með fullt af mat og tveimur flöskum af svakalega góðu hvítvíni… Hann var svo fljótur að hann hlýtur að hafa átt heima mjög nálægt.

Kannski á Spítalaveginum“? Segir Valdi og reynir að sýna móður sinni stuðning í þessari erfiðu játningarfrásögn. Nei… hann sagði eitthvað annað götunafn, lítil stutt gata sem ég hafi aldrei heyrt talað um.

Nú jæja… við drukkum hvítvínið og … já þú skilur… svo elskuðumst við og síðan gekk ég ein heim í morgunsólinni og ég hitti hann aldrei aftur og það skrítna í þessu er að ég sá hann ekki heldur nokkur tíman í bænum eftir þessa nótt sem við áttum saman. En auðvitað voru þetta bara unglingsleg heimskuleg svik og mín mistök. En samt einhvern veginn fallegt alltsaman og svo ég fékk þig elsku Valdi minn, sem fallega eilífðar áminningu um þessa nótt.

ER ÉG FALLEG EINNAR NÆTURÁSTAR MISTÖK?

Valdi gat ekki að því gert að hugsa til þess með hryllingi um hvernig hann hefði brugðist við ef hann hefði þurft að upplifa það að mæta þessum leyni tvífaraföður sínum úti á götu hér í þessum litla samfélagi….

Hann tók utan um móður sína og faðmaði hana vel og lengi, kyssti hana á ennið og þakkaði henni fyrir að segja sér allt svo hreinskilnislega.  

Svo spurði hann blátt áfram. Axel? Hét hann það og manstu hvers son hann var?

Axel, já, og svo eitthvað langt skrítið útlenskt ættarnafn sem ég bara get alls ekki munað.

Við höldum þessu öllu bara fyrir okkur tvö mamma, sagði Valdi ákveðinn á svip og kvaddi móður sína með kossi og honum fannst eins hann hefði fundið móðurást sína aftur. Þessi æskumistakajátning hafði snert hann djúpt.

UNNUR EILÍFÐAR VINKONA!

Unnur varð hissa en gladdist við að sjá Valda bíða eftir henni við rútuna.

Að loknu faðmlagi sem Valdi hafði mikla þörf fyrir sagði hann Unni allt um stöðu mála og loksins líka um þau vandræði sem ráku hann að heiman og til hennar.

Elsku hjartans Valdi minn, ég vissi ekki að þér liði svona illa og fyrirgefðu þetta djók með ljósmyndina. Okkur Sillu vinkonu minni fannst þetta bara svo ótrúlega fyndið að finna þennan gamla tvífara þinn í myndaalbúmi heima hjá ömmu hennar… við stálum myndinni þar. Ég meinti ekkert illt með þessu. Fyrirgefðu vinur, sagði Unnur og kyssti Valda á kinnina.

Já, ég veit… en hvar á þessi amma heima?

Rétt fyrir neðan Fjórðungssjúkrahúsið í risastóru gömlu flottu húsi.

Við Spítalaveg?

Nei, þetta er lítil og stutt botnlangagata ofan við Spítalaveginn… Tónatröð heitir gatan minnir mig.  

Aldrei heyrt þetta götunafn. Getum við kannski skroppið í heimsókn og spjallað aðeins við ömmuna um þennan mann á myndinni?

ÖLDRUÐ AMMA SEGIR SÖGU!

Sigurlaug, vinkona Unnar, tók á móti þeim í anddyrinu á stóru virðulegu húsi sem greinilega mundi tímana tvenna. Silla varaði þau við og benti á að amma hennar var að verða 94 ára og ekki alveg alltaf með í nútímanum, en í samtölum um eldri minningar er hún með allt á hreinu.

Amma Lauga situr úti á fallegum innglerjuðum tréútskurðar skreyttum svölum og nýtur síðustu sólargeisla sunnudagsins 5 apríl 1981. Henni bregður nokkuð þegar hún sér ungmennin þrjú og henni verður starsýnt á Þorvald Guðmundsson.

Axel minn, ertu loksins komin heim elskan?

Amma, þetta er Þorvaldur vinur minn og hann er svakalega líkur þessum Axel sem þú ert að tala um og honum langar að vita meira um hann og síðan réttir hún ömmu sinni gömlu svarthvítu stúdentaljósmyndina.

Ja hérna, Jesús minn eini hvað þeir eru líkir, segir hún hissa og virðist dragast eitt augnablik inn í nútímann.

Amma, geturðu sagt okkur frá þessum Axel, spyr Silla og unglingarnir þrír setjast síðan hjá Laugu gömlu og búa sig undir langa sögustund hjá aldraðri ömmu.

Hann Axel minn kom til okkar 1944 tveggja ára gamall. Honum var smyglað hingað í miðju stríði af góðum Dansk/þýskum vinum Schönenberg fjölskyldunnar hans.

Valdi gat ekki að því gert að detta strax úr sögunni og inn í hugsanir um að máta þetta virðulega útlenska ættarnafn.
Þorvaldur Schönenberg. Já, það gæti alveg gengið upp….

… Þessi fjölskylda var fjarskyld okkur gegnum pabba sem var líka af dansk/þýskri kaupmanna ætt og við systurnar, allar þrjár fórum á hverju sumri í heimsókn í sumarhúsið þeirra í  bænum Himmelreich fyrir stríð en eftir stríðið tilheyrir þetta svæði helvítis kommúnistunum í Austur-Þýskalandi.

Hugsið ykkur krakkar, bærinn heitir Himnaríki og það voru þrjár kaþólskar kirkjur þarna og við systurnar fórum í messu á hverjum sunnudegi með fjölskyldunni. Þarna bjuggu líka nokkrar gyðingafjölskyldur og foreldrar Axels reyndu að bjarga vinum sínum og þeirra börnum undan ofsóknum Nasistana. Öll fjölskyldan Schönenberg hvarf síðan skyndilega. Allir nema hann Axel okkar.

Þegar strákgreyið komst til vits og ára og fór að skilja sína eigin sögu þá fundum við öll að hann dró sig undan og var mikið einn með sjálfum sér.

Það var eins og að hann gæti ekki eða vildi ekki lengur binda nein ástar- eða fjölskyldubönd við okkur eða þennan bæ.

Axel sótti sér huggun í að lesa mikið um kaþólska  trú. Hvort sem þær bækur voru á íslensku, dönsku eða þýsku skipti ekki máli , því í denn voru þessi þrjú tungumál töluð daglega hér í þessu húsi. Axel ákvað síðan að fara í Menntaskóla Reykjarvíkur og hann vildi líka ganga í kaþólska söfnuðinn fyrir sunnan.

Síðasta skiptið sem hann kom hingað norður var vorið sem hann tók stúdentinn og þá var þessi ljósmynd tekinn. Hann var glaðari en vanalega og tilkynnti okkur fjölskyldu sinni að hann væri að fara í klaustur í Þýskalandi og vissi ekki hvenær hann kæmi til baka.

Síðan höfum við hvorki séð hann eða heyrt neitt frá honum, sagði amma Lauga og þurrkaði gömul sölt sorgartár með fínum fallegum bróderuðum vasaklút.

ÁST VEX BEST Í VINÁTTU!

Valdi og Unnur ákveða að lengja sína sambúð sem góðir vinir suður í Reykjavík.

Bæði komin í langt háskólanám. Hann í sálfræði og hún í lögfræði.

Lífið gengur sinn vanalega námsmanna gang og Valdi er ekki mikið að eyða tíma í að elta þetta með að vera rangfeðraður.
Sambandið við móður hans hafði batnað mikið og hann átti sér margar góðar stundir með yngri bróður sínum líka sem nú var komin suður, nýbyrjaður í læknisfræði. Bróðirinn var samt enn þá blessunarlega óvitandi um afleiðingar skyndikynnaástar móður sinnar.

Eina fallega ágústsólarlagsnótt í Reykjarvík 1983 eru þau eilífðarvinirnir Valdi og Unnur á leiðinni heim af djamminu og þau ganga að gamni sínu í gegnum gamla kirkjugarðinn. Í glaðlyndri rauðvínsvímu rómantík fara þau í leik þar sem þau þykjast vera látinn hjón og lesa hin og þessi fallegu orð á legsteinunum.

Hér hvílir ástkær eiginkona og húsmóðir… en svo voru alltaf virðulegir atvinnu- og stöðutitlar undir karlmannsnöfnunum.

Valdi tekur eftir þessu og spyr Unni: Ef þú fengir að ráða, hvað myndir þú vilja að stæði á leiðinu mínu?

ÉG MYNDI SKRIFA SANNLEIKANN!

Hér hvílir verðandi sálfræðingur… ástkær eiginmaður og barnsfaðir minn…
ÞORVALDUR SIGURÐUR SCHÖNENBERG.

Valda brá mikið, bæði við að heyra þetta ættarnafn sett aftan við sig og þetta með ELSKULEGUR eiginmaður líka.

Hvað! Langar þig til að giftast mér og eignast börn með mér spyr Valdi með undrunar svip.

Já, ég hef elskað þig frá þeim degi sem ég sá þig fyrst í skólanum á Akureyri og það er að verða svolítið þreytandi og sárt fyrir mig að þú takir ekki eftir eftir því hvað ég elska þig mikið sagði Unnur með tárin í augunum.

Hálffullur neyðist Valdi til að sálgreina sjálfan sig og hann áttar sig á því að hann elskar þessa grátandi stelpu meira en lífið sjálft. Gengur að henni og kyssir hana lengi og innilega.

Fyrirgefðu elsku hjartans Unnur mín. Ég var svo tíndur í minni eigin vanlíðan og leit minni að sjálfum mér og mínum uppruna að ég hreinlega sá þetta ekki.. eða réttara sagt, forðaðist meðvitað að sjá þína endalausu ást og umhyggju. Þorði ekki að bindast einu eða neinum.

Þessi rótleysisflótti og leit minni að meiningu lífs míns verður að ljúka. Annars verð ég hvorki heill né hálfur maður um alla framtíð.

EF ÞÚ VEIST EKKI HVAÐAN ÞÚ KEMUR ÞÁ VEISTU HELDUR EKKI HVERT ÞÚ ERT AÐ FARA!

Það tók heilan vetur í viðbót fyrir Valda að safna kjarki í að fara í alvöru út í að leita uppruna síns.

En aftur tekur Þorvaldur Guðmundsson velútsofinn góðar ákvarðanir á sunnudagsmorgni vorið 1985 og hann drífur sig þá í forvitnisgöngutúr og gengur í hægum hugsandi skrefum í áttina að Landakotskirkju sem eru höfuðstöðvar kaþólskrar trúar á Íslandi í hans huga.

Rétt eins og þegar hann fór til að krefja móður sína um svör heima á Akureyri var stór efahnútur í maganum á Valda og í rauninni vissi hann ekki hvað hann væri að gera þarna.
Því það var ekkert sem sagði honum að hinn horfni Axel Schönenberg væri hér en samt var von um að einhver í söfnuðinum myndi muna eftir honum.

Hann gengur beit í fangið á eldri virðulegri nunnu í anddyrinu og henni verður brugðið þegar hún sér hann og spyr Valda hvort hún geti eitthvað aðstoðað hann á hollenskt klingjandi Íslensku.

Eldrauður í framan og með titrandi rödd stynur Valdi upp spurningu sinni:

Ég var bara að spá í hvort að einhver hér í söfnuðinum kannaðist við mann sem heitir Axel Schönenberg?  

Þið vera frændur? Þú vera mjög svo líkur Faðir Axel.

Tja… já við erum kannski frekar mikið skyldir, heyrir Valdi sjálfa sig segja út í alvarsþungt kirkjuloftið.

Þú vera heppinn, hann þarna inni að undirbúa messu. Farða bara inn og tala við hann.

Ha, er hann hér og sagði hún Faðir Axel… er hann prestur? Hugsaði Valdi, óöruggur og taugaveiklaður og var við það að snúa við og láta sig hverfa út aftur. En nunnan horfði enn þá á hann með sínum furðu svip og svo opnaði hún fyrir honum hurðina og benti honum á að klífa inn í það allra heilagasta í kirkjunni og svo lokaði hún hljóðlaust aftur.

Valdi stóð stjarfur innan við hurðina og hann sér ljósgráhærðan virðulegan mann í prestsskrúða vera að deila út sálmabókum við bekkina lengst fram í kirkjuskipinu.

Valdi læðist um og sest í hálfgerðum skugga í öftustu bekkjaröðina og fylgdist með þessum presti sem kannski er ekki bara faðir safnaðarins heldur faðir hans líka. En hann nær aldrei að sjá almennilega framan í manninn.

Eftir dágóða stund tekur presturinn eftir honum og Valdi fær algjört áfall og grefur andlitið í hendur sínar og þykist vera í ákafri trúarlegri kaþólskri bæn. Hann efaðist um að hann væri tilbúinn hér og nú í að leggja síðasta púsluspils bitann í leitinni að sínum uppruna.  

Czy ty jesteś Polakiem segir Faðir Axel á pólsku og bætir síðan við… eða ertu kannski Íslendingur?

MEININGIN MEÐ LÍFINU?

Þorvaldur sem er enn þá formlega Guðmundsson veit alveg að hann sjálfur mun sjá eldri útgáfu af sjálfum sér í andliti Faðir Axels þegar hann loksins lítur upp og svarar stutt og laggott:

Já, ég er Íslendingur.

Axel hins vegar missir sálmabækurnar í gólfið og stendur stjarfur og horfir á íslenska útgáfu af sjálfum sér. Anddyris nunnan elskulega opnar skyndilega hurðina og spyr hissa. Er ekki allt í lagi Faðir?

Veraldarvanur presturinn nær á ljósleiðarahraða tökum á hugsunum sínum og minningum og svarar blíðlega. Ég þarf að fá að ræða við þig í trúnaði eftir smástund systir Agnes, segir Faðir Axel án þess að taka augun af Valda og svo beinir hann orðum sínum til hans í sömu stund sem nunnan lokar aftur hurðinni jafn hljóðlaust og síðast.

Ég veit ekki hvað þú heitir sonur sæll!
En ég veit hver þú ert og hvaðan þú kemur….

Þú verður að fyrirgefa mér vinur, en þetta kom mér virkilega á óvart…. ég vissi ekki að þú værir til.

Ekki ég heldur… eða ég meina… Svaraði Valdi með tárin í augunum og Faðir Axel Shönenberg settist hjá syni sínum og faðmaði hann. Þorvaldur, sem var allt í einu ekki lengur bara Guðmundsson, grét loksins burtu, reiði, biturð og óvissu síðustu ára.
Allar þessar tilfinningar runnu úr honum á sekúndubroti.

Fyrir hin mjög svo trúaða faðir Axel var þetta augnablik mikil Guðdómleg opinberun því hann fann skyndilega að hann var að faðma einhvern sem kom úr hans eigin holdi og blóði. Hann var ekki trúarlegur Faðir þessa unga manns. Þetta var hans eigin SONUR og þá verður starfstitillinn FAÐIR svo miklu stærri og þyngri að bera.

Það sló hann líka allt í einu að hann munkurinn og seinna presturinn sem hafði VALIÐ þá flóttaleið frá sínu eigin rótleysistilfinningum með því að lifa skírlífs lífi allt sitt kristna líf og þar með sleppa við að bindast öðrum manneskjum nánum ástarböndum og með því vali slapp hann líka við að vera staðbundin allt sitt líf í einhverju ákveðnu landi eða borg. Hann var í þjónustu almættisins og þá er maður svona eins og maðurinn í Ríkisútvarpinu söng um í laginu sem hann heyrið hér um daginn:

Wherever I Lay My Hat (That’s My Home)

Hann leit upp til Guðs og sagði upphátt:
Takk góði Guð fyrir að gefa mér óverðugum syndara þennan fallega son sem áminningu um mína stóru synd. Sem var samt svo saklaus, manneskjuleg og hrein og snérist um að unna sjálfum sér því að hafa hitt og elskað móður hans þessa einu sælunótt lífs míns.

Trúarlegar efasemdir komu upp í huga hans líka. Djúpar sárar hugsanir og spurningar um hvort skírlífi sem inniheldur afneitun á manneskjulegri þörf fyrir líkamlega ást og nálægð geri mann virkilega að betri manneskju? 

Hver skapaði þessa sterku manneskjulegu þörf og til hvers?
Var það ekki GUРsjálfur… eða?

Þó líði ár og öld!

Þeir feðgar gerðu með sér svipað samkomulag og Valdi og móðir hans. Faðir Axel var nýkomin til baka til landsins eftir áratuga störf fyrir kaþólsku kirkjuna í bæði Þýskalandi og Póllandi og hann tók í upphafi ekki vel í þá beðni um að taka við söfnuðinum í Reykjavík. Hann hafði aldrei einhvern veginn fundið sjálfan sig í þessu kalda litla landi. En á þessum árum fjölgaði nokkuð jafnt og þétt í söfnuðinum.
Íslendingar höfðu áttað sig á því hversu frábærlega klárir og vinnusamir Pólskir iðnaðarmenn voru og byrjuðu að flytja þá inn í nokkur magni.

Það bráðvantaði pólsku mælandi prest til starfa og Axel lét að lokum eftir þrýstingi frá háttsettum biskup og flutti hingað aftur.

Það var reyndar Þorvaldur sjálfur sem stakk upp á því að halda öllu leyndu áfram. Honum sjálfum nægði að vita sannleikann um mistaka uppruna sjálfs síns. Það væri líka af skiljanlegum ástæðum slæmt fyrir starfsferil Axel föður hans að nýráðin presturinn ætti lausaleiksbarn hér á íslandi.

Faðir Axel sjálfur, benti á að í mörgum kaþólskum löndum séu reyndar margir kaþólskir prestar giftir og eigi börn eins og annað venjulegt fólk. En, jú, það gæti verið viðkvæmt mál að ég af öllum eignist óvænt barn utan hjónabands akkúrat núna.

Árin liðu og síðan áratugir. Ósýnileg huldubörn og barnabörn fæddust leynilega inn í nýja grein Schönenberg ættarinnar.
Það fór vel á milli þeirra feðga og þeir töluðu oft klukkustundum saman í síma en þeir forðuðust að hitta hvorn annan á almannafæri.

Það vakti svo margar spurningar hjá fólki sem sá þá standa hlið við hlið.

Móðir Valda gladdist mjög yfir þessu öllu og Valdi sagði henni að þetta væri mikið kraftaverk.
Því hann hafi misst góðan pabba og svo skyndilega eignast annan í staðinn.

Í DAUÐANUM DYLJUM VIÐ EKKERT!

Rétt fyrir páska þá hringir móðir Valda, en hún hafði þennan snjóþunga vetur átt við einkennilegan slappleika að stríða og segir:

Ég vill að þú og Axel pabbi þinn komi hingað norður til mín. Ég á víst ekki svo langt eftir elsku Valdi minn og ég vil að þið tveir getið lifað sem frjálsir stoltir feðgar og að þú og þín börn geti borði hans ættarnafn opinberlega án þess að allskonar vitleysa og ósannar gróusögur fari af stað.

Reynið að koma sem allra fyrst meðan ég er heil í hausnum, þetta er mér svo mikilvægt og mín síðasta ósk.

Þegar þeir leynifeðgar lentu á Akureyri þá var bara tæp vika í andlát áskærar móður og Axel hitti barnsmóður sína í annað skiptið á ævinni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, rétt hjá Lystigarðinum sem þau elskuðust í eina nótt fyrir meira en hálfri öld.

Já strákar mínir, það þíðir ekkert fyrir ykkur að malda í móinn!
Þetta verður gert svona!  Sagði hún ákveðin og horfði strangt á sína menn…..

JARÐARFÖR SAKLAUSAR KONU?

Um 300 manns var samankominn upp á hæðinn í Akureyrarkirkjunni fallegu og engin átti von á öðru en fallegri „business as usual“ jarðarför.

Í upphafi jarðarfararinnar standa Valdi og ólíkur bróðir hans þétt saman við fallega blómaskreytta kistu móður sinnar. Síðan við fyrstu orgeltónana stígur grásprengdur virðulegur prestur fram og stillir sér við hlið sonar síns. Það fer mikill kliður í hálfum hljóðum á milli kirkjugesta og orð eins og „hvaða prestur er þetta?… heyrðust vel og síðan bættist við enn þá hærra hvíslkviður með orðunum… „ mikið ofboðslega eru þeir líkir“….

Axel leyfir öllum að horfa með undrun á þá þrjá dágóða stund og bera þá saman og stígur síðan fram og ávarpar kirkjugesti með orðunum:

SÁ YKKAR SEM SYNDALAUS ER! KASTAR FYRSTA STEININUM!

Steinhljóð og undrunarsvipur jarðarfaragestanna segir það sem er orðið augljóst fyrir öllum akkúrat núna.

Þetta er enginn venjuleg jarðarför!

Síðan heldur Faðir Axel áfram:

Lífið getur oft verið eins og tröppurnar hér neðan við kirkjuna. Langt og oft erfitt, en svo koma flatir stallar með jöfnu millibili og við náum okkur á strik í hvíld og á gleðistundum.

Á sumum stöllum gerist eitthvað óvænt og jafnvel eitthvað sem átti aldrei að gerast en það þýðir ekki að það sé endilega eitthvað ljót eða syndugt. Tilheyrir oftast einfaldlega bara meðfæddu manneskjulegu eðli og þörfum.

Ég heiti Axel Schönenberg og ég elskaði þessa konu aðeins eina nótt og afurð þessarar stuttu ástarstundar stendur hér og hann heitir Þorvaldur Sigurður Guðmundsson.
Hann er sonur minn, þrátt fyrir að hann sé og verði samt alltaf líka Guðmundsson. Sonur sem elskaði föður sinn mikið.

Hávært hvíslkviður bergmálar aftur um alla kirkjuna….

Ást er alveg jafnfalleg hvort sem hún endist aðeins eina nótt eða heila ævi, heldur Axel ótrauður áfram og hækkar bara tóninn í sinni Guðsmannalegu velþjálfuðu messurödd.

Var þessi stutta ástarstund okkar syndug mistök?
Nei, ást og nálægðarlöngun getur aldrei verið synd og ekki beinlínis mistök heldur þegar eitthvað er gert með vilja og samþyki beggja aðila.
Vissulega ástarsvik samtímis við annan alsaklausan mann en hann fékk aldrei möguleikann að fá að fyrirgefa það sem enginn vissi neitt um.

Hvorki ég sjálfur eða stolt barnsmóðir mín sem fer nú í sitt hinsta ferðalag óttumst að verða dæmd af sjálfum Guði.
En ástæðan fyrir því að fallegum afleiðingum ástarstundar hefur verið haldi leyndum svona lengi snýst miklu meira um það sem Jesús var í rauninni að reyna að fá okkur til að skilja þegar hann sagði þetta um að sá syndalausi kasti fyrsta steininum.

Það eru miklu meira við manneskjur sem dæmum og við dæmum okkur sjálf og aðra oft mjög hart. Óttinn við að verða dæmdur og útskúfaður úr manneskjulegu samhengi skapar bara hræðslu í okkur öllum og raunveruleikaflótta og lygavefslíf sem gagnar engum.

Sama hræðsla getur líka refsað alsaklausum börnum illa og lengi, samt er þeirra eina synd að þau fæddust óspurð inn í falleg leyndarmál.

Varla erum við komin í þessa hinstu kveðjustund til þess að dæma þessa ótrúlega hugrökku konu á hennar dauðastund. Því það er ekki okkar að dæma eða fyrirgefa eitt eða neitt og enginn er í rauninni að biðja um það heldur. Eiginkonan í kistunni mun sjá um það sjálf að ræða við þann eina sem henni finnst hún virkilega þurfa að biðja fyrirgefningar þegar hún nú loksins hittir sinn ástkæra maka í himnaríkislandinu góða.

Hún var rétt eins og við sjálf bara manneskja að reyna að finna sig í lífinu. Hún var góð eiginkona, síðan ekkja og hugrökk og góð einstæð móðir. Amma, langamma, vinkona og…. frænka okkar allra sem skiljum lífið og vitum hvað það getur oft verið hverfult og skrítið.

Það hlýtur að vera þannig í dag að allir vilja geta lifað opið og óáreitt með þeim sem við elskum og standa okkur næst og einmitt þess vegna verður þessi jarðarför mitt síðasta embættisverk sem prestur.

Ég mun héðan eftir, ekki gera neitt annað en vera nálægur opinber alvöru faðir, afi og langafi.

Guð blessi ykkur öll og takk fyrir að þið eruð öll skilningsríkar manneskjur.

Þegar kistan var borin út ómaði rödd Edit Piaf með fallega fransk-enskubjöguðum hreim um alla kirkjuna með orðunum.

No Regrets“ (English version)

Sálin hennar mömmu syngur örugglega með alla leið upp í kirkjugarð sagði Valdi brosandi og faðmaði litla bróður sinn.

Á kirkjutröppunum kom til hans gömul vinkona og faðmaði hann og hvíslaði:
Elsku hugrakki Valdi minn… ég öfunda þig svo mikið núna, því þú ert ekki einn um að eiga þér svona sögu….

HERRA OG FRÚ „FAGURFJALL“

Þorvaldur Sigurður Guðmundsson / Schönenberg situr enn í þungum minningarþönkum á svölun í sumarhúsinu á Siglufirði sem þau erfðu eftir andlát foreldra Unnar.

Hann rankar við sér þegar Unnur kemur út með kaffibolla handa honum og þau haldast í hendur og horfa saman á Axel, pabba, tengdapabba, afa og langafa í villtum leik við barnaskarann í garðinum fallega.

Herra Schönenberg! Er ekki lífið dásamlegt núna?
Jú og mér finnst það mjög svo passandi að þú af öllum hafir þetta fallega ættarnafn líka og að það þýðir „Fagurfjall“ á Íslensku.  

Passar þér eitthvað svo vel hér í þínum fagra Siglufjarða-fjallahring.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Ljósmyndir eru lánaðar úr opnu myndasafni:
Microsoft Word.

Vísað er i heimildir og tónlist í slóðum í sögunni.

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar smásögur eftir sama höfund:

STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

AFGLAPASKARÐ

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”