Myndaskýringartexti við forsíðuljósmynd:
Í miklu aftakaveðri 1982 flæddi sjórinn yfir eyrina og svona var umhorfs í Hvanneyrarkróknum eftir veðrið, þar sem grjóthnullungar voru komnir á land og inn á Túngötu.” Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Ari… Vissir þú að það er til annar Siglufjörður á Grænlandi?

Spyr Sölvi, níu árum eldri bróður sinn sem er djúpt sokkinn í skoða myndir af þessu einkennilega rúnasteinabroti sem faðir þeirra hafði fundið fyrir hálfri öld í Hvanneyrarkróknum daganna eftir að mikill norðan háflóðastormur hafði kastað helling af grjóti yfir kambinn og alla leið upp á Túngötu.

Ha, svara Ari. Hvað meinarðu Sölvi.

Jú sjáðu, ég fann hérna kort í fræðigrein á Wikipedia yfir landnámssvæði Eiríks Rauða og suð- austur af Brattahlíð sem var hans aðalból er þessi langi þröngi fjörður sem heitir Siglufjörður segir Sölvi og réttir Ara spjaldtölvuna sína og bendir á myndina.  

Wikipedia: Norse colonization of North America

Já, þú segir nokkuð…. en pabbi hefur alltaf sagt að rúnasteinninn sé líklega höggvinn í sænska eða norska graníthellu…. getur það virkilega verið að þessi dularfulli rúnasteinn hafi borist alla leið hingað á Sigló frá Grænlandi.

Tja… Víkingarnir sem námu Ísland endurnotuðu þau staðarheiti sem þeir þekktu frá sínum heimahögum og notuðu á fjöll og firði hér svo það væri svo sem ekkert skrítið að þeim sem Eiríki Rauða tókst að lokka til sín hafi gert það sama þegar þeir komu til Grænlands.

En þá hefur einhver af þeim sem féllu fyrir þessari flottu túristaauglýsingu Eiríks átt ættir sínar að rekja til Siglufjarðar eða líklega á Siglunes. En þar var farsæl byggð allt frá landnámi Íslands.

Túristaauglýsingu? Hvað meinarðu,  skaut Sölvi inn eftir þessa löngu fræðimannaræðu Ara.
Þú veist, kalla ísilagt land fyrir „GRÆN-land“ svaraði Ari og hló og bætti svo við.

Förum niður í kjallara og kíkjum betur á þetta stóra rúnsteinabrot og svo dröslum við þessu út í garð og gerum allt klárt fyrir flutning niður á Síldarminjasafn… eða Þjóðminjasafnið passar kannski betur.   

Þeir bræðurnir voru loksins sammála að það væri komin tími á að selja ættaróðalið á Siglufirði og voru mættir þetta sumar í að tæma húsið þegar þeir urðu áminntir um og drógust inn í skemmtilegar minningar um þennan dularfulla stein sem pabbi þeirra hafði fundið og af einhverri ástæðu ákveðið að rannsaka sjálfur uppruna hans og sögu og þeir bræður minntust marga ferða um fjörur fjarðarins í leitarleiðöngrum með föður sínum.

Á vorin, þau ár sem sterkir norðanvetrarstormar með fullu tungli og háflóði geisuðu með tilheyrandi flóðum yfir eyrina. En þá kastaði hafið upp ýmsu sem lengi hafði legið geymt, gleymt og falið í sandfylltum botni fjarðarins.

Það er ekki bara ofsaveður í loftinu strákar“, hafði pabbi þeirra sagt spekingslega, „ó nei, það er alveg brjálað veður á hafsbotninum líka.“

Hej Sölvi! Sjáðu myndaskýringar textann við þessa stórflóðamynd af eyrinni 1934 segir Ari ákafur og sýnir litla bróðir sínum mynd sem hann fann á Ljósmyndasafni Siglufjarðar og taktu sérstaklega eftir þessu sem gerist í þessu ofsaveðri úti á Siglunesi. Krafturinn í þessum stormum er alveg ótrúlegur.

Ljósmyndari: Ókunnur.
Úr safni Sillu – Flóð á Siglufirði. séð upp Aðalgötu Úr safni Sillu – 1934 – Aðfaranótt fyrsta vetrardags, 27. október, gekk mikið sjávarflóð og brim meðfram öllu Norðurlandi og olli miklu tjóni. Einna mest tjón varð á Siglufirði. “Sjávarflóðið var svo mikið að flæddi yfir nærri því alla eyrina. Gekk sjórinn inn í fjölda húsa svo fólk varð að flýja heimili sín í dauðans ofboði,” segir í Morgunblaðinu 28. október. Svo hátt var flóðið að á Lækjargötunni “var vatnið mittisdjúpt”. “Í sumum húsum varð vatnið svo hátt að rúmstæði flutu upp,” segir í Einherja 2. nóvember. Í Siglfirðingi segir 3. nóvember: “Braut sjórótið ásamt stórflóði meirihluta allra bryggja og söltunarpalla á austanverðri Eyrinni og víðar.” Morgunblaðið segir: “Á Siglunesi tók sjórinn alla báta, sem þar voru, braut nokkur hús og eyðilagði vergögn.” Ennfremur eyðilagðist þar ný bryggja. Aðrar heimildir herma að sjór hafi fallið yfir Siglunes og ekki munað miklu að bryti að fullu burt eiðið þar sem nesið er lægst. Þá brotnaði einnig norðan af strönd nessins og vestan af því. Sagt er frá því í Siglfirðingi 1. desember að tjón “af völdum veturnóttafárviðrisins” hafi verið metið og að 68 tjónþolar hafi gefið sig fram.” (Þ. Ragnar Jónasson: Siglfirskur annáll, 1998.)

Mikið rétt, þeir fundu ýmislegt merkilegt í þessum feðgafjöruferðum, mest gamlar fjalir úr sokknum skipum sem víða lágu í votri gröf í þessum fræga síldarfirði. Eitt það merkilegasta var hlutur af kjöl sem talin var koma frá Tordenskjold herskipinu fræga sem var dregið hingað alla leið frá Danmörku, notað sem fljótandi geymsluskemma um stundarsakir og síðan fyllt af grjóti, sökkt og notað sem bryggja.
En auðvitað átu stormar og hafís allt sem ekki var rækilega landfast.

Fleiri rúnasteinabrot fundu þeir aldrei, en ýmsa aðra merkilega og skrítna útlenska steina sem bárust hingað sem barlast í útlenskum skútum sem höfðu strandað eða brunnið innan fjarðar.

Bræðurnir báru steinhelluna, sem ekki var svo þung eða þykk út í dagsbirtuna í garðinum og skoluðu af steininum margra ára ryk.

Rúnirnar á steininum voru vart læsilegar. Tönn tímans og kannski nokkur hundruð ár af sandslípun hafsins hafði ekki skilið mikið eftir.
Pabbi þeirra hafði einhvern veginn lesið þetta úr sjáanlegum máðum rúnum sem voru innrömmuð í bogadregnu drekamunstri:

…hún barðist… við skr…. í …nland… og svo rétt sást í kross og Guð verð… henni náð… þar á eftir.

HÚN… hver er þessi hún?
Einhver er nægilega efnaður og viljugur í að reisa rúnastein yfir minningu um konu en það er frekar óvanalegt. Ekki margir rúnasteinar til þar sem minnst er á konur. Þetta er greinilega neðri hluti stærri rúnasteins segir Ari sem hafði grúskað lengi og mikið í öllu mögulegu sem tengist rúnasteinum.

Er þetta Grænlenskt eða Skandinavískt granítgrjót?
Hvernig getum við komist af því?
Kæri bróðir, auðvitað verðum við að taka tillit til að víkingarnir ferðuðust víða um heim eins og sést vel á þessu gamla Skálholtsheimskorti sem ég sýndi þér um daginn segir Ari og er nú komin í mikinn sagnfræðimóð.

The 1590 Skálholt Map showing Latinized Norse placenames in North America:[23] * Land of the Risi (a mythical location) * Greenland * Helluland (Baffin Island) * Markland (the Labrador Peninsula) * Land of the Skræling (location undetermined) * Promontory of Vinland (the Great Northern Peninsula)
Wikipedia: Norse colonization of North America

Ari! Hringdu bara í Palla, gamla íslenskukennarann þinn, hann er vel að sér í jarðfræði og veit allt um stokka og steina svarar Sölvi og reynir að ná Ara úr þessum endalausu sagnfræðipælingum.

Palli gamli með allt sitt mikla gráa skegg, sem gerir hann miklu fornari en hann er í rauninni, birtist fljótlega í garðinum. Hann varð svo forvitinn þegar hann fékk að heyra söguna um þennan stein í stuttu máli gegnum síma frá Ara. Palli hafði reyndar heyrt sögu um aðra svipaða grænlenska steinhellu sem á að vera falin inn í gamalli grasigróinni steinhleðslu í garði við hús sem stendur á horinu á Túngötu og Hvanneyrarbraut.

Strákar mínir, það fer ekkert á milli mála að þetta er grænlenskur granít og ég skil ekkert í að pabbi ykkar hafi falið þessar fornminjar niðri í kjallara í um fimmtíu ár.

Æ… þú veist… hann var svo þrjóskur og vildi leysa allt sjálfur… já, þú skilur…. svo geymdist þetta bara. Svaraði Sölvi afsakandi.

Eins og ég nefndi í símanum þá hef ég heyrt um annan álíka stóran granítstein en ég gat aldrei fengið mig til þess að biðja frúnna á heimilinu um leyfi til að rífa upp garðinn hennar. En nú hún er löngu dáinn og við ættum kannski að spyrja afkomendur hennar sem eiga húsið núna að fá að kíkja á þennan stein.

Ég þekki Þorkel son hennar vel segir Ari og leyfi fyrir garðgreftri var auðfengið. Keli minntist þess að afi hans sem var bátasmiður og vann lengi í Slippstöðinni við Hafnarbryggjuna hafði oft tekið með sér einkennilega útlenska barlaststeina sem hann fann þarna í fjörunni við slippinn. En hann mundi líka að afi hans hafði sagt frá þessum stóra granítsteini og að á honum voru líklega máðar rúnir eða bókstafir.

Amma mín var fædd og uppalin á Siglunesi og hún hafði fundið steininn hátt uppi í fjöruborðinu langt úti á sunnanverðu Siglunesinu þegar hún var barn, sumarið 1935 minnir mig segir Keli stoltur. Henni fannst hann víst mjög sérstakur og fallegur á litin og vildi fá hann til sín í steinhleðsluna sína sem í dag er meira grasi vaxin hóll með smá laut sunnanvið. Einhverskonar skjólveggur fyrir viðkvæm blóm sem áttu erfitt með að vaxa og dafna í kaldri norðangjólunni.

Siglunes. Ljósmyndari Ókunnur.

Strákarnir og Keli voru fljótir að finna graníthelluna sem var af svipaðri þykkt og lík hellu bræðranna. Þeir skoluðu vel af henni og mikið rétt það mótaði fyrir letri og öðrum myndskreytingum á annarri hliðinni í einhverskonar drekamunstri.

 Sölvi sótti Sony speglalausu myndavélina sína og tók góðar nærmyndir og síðan skoðuðu þeir myndirnar saman í tölvunni heima í hálftómu föðurhúsi og notuðu allskyns „litað ljós“ til að sjá betur máðar rúnirnar og Ari og Páll kennari rýndu í þetta saman og voru nokkuð sammála að það sem læsilegt væri nokkurn veginn svona:

Drekahaus í byrjun og síðan, Ég Leif… reis… an stein… minni.. um Freydí… syst…

Ja, hérna segir Ari hissa það fer ekkert á milli mála að þessi hluti er um minningu um valdamikla konu eins á og steininum hans pabba.

Hvernig hljómar þýðing pabba ykkar, spyr Palli gamli og strýkur sér ákaft um skeggið.

Pabbi vildi meina að hann hafi náð þessum orðahlutum: hún barðist… skr…. í …nlandi… og svo endar þetta með Guð verð… henni náðug…

Ja, hérna segir Páll dolfallin… nei það getur ekki verið… of langsótt og ólíklegt en samt ekki… og vissulega ekki um mikið að velja heldur.

Ef þetta er um konu sem ég þekki til úr Grænlendingasögu þá gæti staðið þarna eitthvað í þessum stíl:

„Ég Leifur, reisti þennan stein í minningum um Freydísi systur mína sem barðist frækilega við skrælingja í Vínlandi.
Guð verði henni náðugur
.“

Strákar, ég veit að þetta hljómar allt mjög einkennilega en þessi Freydís Eiríksdóttir var hálfsystir Leifs heppna og hún fór með forystuhlutverk í leiðangri frá Grænlandi til Vínlands árið 1009 en Leifur Heppni var ekki með í þessari ferð.
Sagan segir að skrælingjar réðust á búðir þeirra og allir flúðu. En Freydís sem var háófrísk og komin átta mánuði á leið, stóð ein eftir með sverð í hendi og hún beraði annað brjóst sitt og barði sverðinu á það og æpti að skrælingjunum sem urðu svo skelkaðir við þessa sýn að þeir flúðu allir með tölu.

Leifur Heppni á siglingu við Vínland. Leif Erikson traveling to North America Christian Krogh (1893).
Wikipedia: Norse colonization of North America

Ég kannast bara við þessa Freydísi sem uppskáldaða valkyrju í Games of Thrones og Vikings  þáttunum segir Sölvi sem er yngstur í þessum áhugamannasagnfræðihópi. Ég vissi ekki að hún hafi verið til í alvörunni og er þetta ekki bara seinni tíma uppspuni og vitleysa með þessum kristilegu táknum á rúnasteini og allt.

Nei, Ari minn, flestir rúnasteinar frá þessu tímabili eru reyndar með kristilegum táknum. En hún Freydís var umdeild og líklega ekki kristin.
Það var kannski ekki alltaf farið rétt með söguna þegar kemur að lýsingum á valdamiklum og ákveðnum konum fyrri alda svarar Páll hugsi.

Nú, hvað meinarðu Páll? Spyr Ari.

Sagan segir að Freydís hafi logið upp á nokkra samferðamenn sína í þessari Vínlandsferð að þeir hefðu lamið hana illa og síðan plataði hún eiginmann sinn í að hefna fyrir þessa niðurlægingu með því að láta drepa þessa menn og sagt er að Freydís sjálf hafi drepið fimm konur sem urðu vitni af þessu lygaódæði. Það gæti passað vel við þetta „Guð verði henni náðugur

Þegar þessi frækni leiðangur kom aftur heim til Grænlands er sagt að Freydís hafi sagt við bróður sinn, hinum þá kristna Leif Heppna EiríksRauðason að þetta fólk hafi ákveðið að verða eftir í Vínlandinu góða og hún hafði víst hótað öllum sem myndu segja frá þessu með lífláti. Leifur var ekki sannfærður um þessa sögu og lét pína einn af samferðamönnum Freydísar og leysti hann frá skjóðunni.
Leifur heppni var víst ekki par hrifinn af þessum lygahefndaraðgerðum systur sinnar en lét þó allt kyrrt liggja því honum þótti þrátt fyrir allt vænt um hálfsystur sína.

Víkingaskip við Grænlandstrendur. Summer in the Greenland coast circa year 1000 by Jens Erik Carl Rasmussen (1841–1893)
Wikipedia: Norse colonization of North America

En af hverju ætti þessi rúnasteinn að hafa komið alla leið hingað til Siglufjarðar frá Grænlandi spyr Sölvi jafnt sjálfan sig sem hina með undrunarsvip.

Granítið er grænlenskt, það er engin spurning segir Páll kennari ákveðinn. Textinn og myndrænar skreytingar eru mjög í takt við tímann og mér dettur einna helst í hug að einhver ættarbönd hafi verið á milli Freydísar heitinnar og einhverra stórhöfðingja á Siglunesi sem kannski vildu fá þennan stein til sín og við vitum lítið hversu tíðar siglingar og önnur samskipti voru á milli Íslendinga og nýbúa Grænlands. Þessi íslendinga nýlenda hvarf svo á dularfullan máta af yfirborði jarðar um miðja 15 öld… eða svo fluttu kannski allir aftur heim til fjarskyldra ættingja hér á Íslandi.

En eins og þú réttilega bentir á Sölvi minn, þá er til annar Siglufjörður í þessu fræga landnámssvæði Eiríks Rauða sem er merkileg tenging sem engin veit neitt um í dag.

En hafið skilar sögunni á land þegar því þóknast og skrítnari hlutir hafa gerst en vonandi verður þetta ekki nýtt upphaf af sagnfræðilegu riflindi eins og þetta með „The Kensington Runestone sem sænski innflytjandinn Olof Öhman fann í Minnesota 1898.

Þetta er 120 ára gömul vitleysa frá Minnesota, segir Páll hneykslaður en það er samt alveg á hreinu og löngu búið að sanna að við Íslendingar fundum Ameríku og höfðum vit á því að týna þessari nýfundnu heimsálfu aftur, eins og Orson Welles á að hafa sagt á sínum tíma.

En strákar, kannski var einhver af siglfirskum ættum með í för.

Hver veit… og Siglufjarðarsagan, með sína, yfir 1000 ára byggðarsögu, segir okkur að þessi fjörður geymir örugglega fleiri leyndarmál á sínum sandfyllta hafsbotni.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðumynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. 

Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar og vitnað er í heimilir með slóðum í greininni og aðrar ljósmyndir í viðeigandi myndatexta.

Þakklætiskveðjur til Solveigar Jónsdóttur fyrir ýmsar hugmyndir og yfirlestur sögunnar.

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

HJÄLP! SÍLDIN RÆÐST Á OKKUR.

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

ÁLFHÓLLINN OKKAR OG ÁLF- HYRNAN HANS!

AFGLAPASKARÐ

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!