Greinarhöfundur u.þ.b. 10 ára. Ljósmynd: Haukur Stefánsson.

Þetta gerðist um haustið 1965 og ég var enn þá bara níu ára.

Frá því að ég mundi eftir mér hafði veröldin verið í smærra lagi miðað við það sem síðar varð, en um þetta leiti fór hún þó ört stækkandi.

Lengi vel hafði hún ekki verið mikið meiri að vöxtum en nyrðri hluti Hverfisgötunnar sem endaði einhvers staðar fyrir sunnan Sillu á Steinaflötum í girðingunni hjá honum Gæa litla og Jóni skóara öðrum megin, en í suðausturhorni hins mikla kirkjugarðsmúrs fyrir ofan fallega húsið hans Jónasar rakara hinum megin.

Þetta var um það leyti sem ég fór að tengja hugtökin “úteftir” og “suðreftir” sem ég hafði þá oftlega heyrt fullorðna fólkið tala um, við norður og suður.

Þetta var líka um það leyti sem ég áttaði mig á því að Siglufjörður var ekki sú miðja veraldarvafstursins og sá nafli alheimsins sem mér fannst að þessi merkilegi bær hefði þó alla burði til að vera. Saga sú sem á eftir fer átti sér stað fáeinum misserum eftir að ég komst að því að heimurinn var stærri en ég áður hafði haldið.

Rauðkuverkstæðið þar sem Halli Þór réði ríkjum og ég heimsótti oft. Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins

Stundum stalst ég niður í bæ og fór þá gjarnan um stuttuleiðina sem kölluð var, skammt þar frá sem Jón Bratti bjó og Ægir Jóakims og fleiri góðir menn og konur, svo og auðvitað Ari vinur minn sem var gjarnan kenndur við þessa leið og því kallaður Ari í stuttu leiðinni.

Þaðan var komið niður á Suðurgötu milli búðarinnar hans Gests Fanndals og rakarastofunnar hans Jónasar. Þá lá leið mín gjarnan beint niður Gránugötuna og niður í Slipp þar sem Leó afi vann með þeim Jóni Páls og Sigga Björns.

Þar var gott að koma þó mig hafi nú stundum grunað svona í seinni tíð að nokkuð hafi reynt á þolinmæðina hjá þeim Jóni, Sigga og líklega ekkert síður Halla Þór á Rauðkuverkstæðinu, en þangað fór ég stundum þegar mér fannst ég ekki fá næga athygli hinum megin götunnar.

Einu sinni gaf Halli mér fimmkall og sagði mér að drífa mig upp í bæ og kaupa nammi á leiðinni heim. Ég þáði að sjálfsögðu fimmkallinn sem í þá daga var bréfpeningur en sagði “Ertu vitlaus maður, heill fimmkall í slikkerí,“ og ég stakk fimmkallinum djúpt í hægri buxnavasann, klappaði síðan létt utan á hann og fór hvergi.

Ég man að allir viðstaddir hlógu dátt en ég skildi ekki hvað var svona fyndið. Það var síðan sá ágæti nágranni Helgi Hafliða í Útvegsbankanum sem fékk það hlutverk að taka fimmkallinn til varðveislu næst þegar sparibaukurinn var tæmdur. Mér hafði nefnilega verið sagt og að ráðdeild og sparsemi væri dyggð og sú skoðun afa og ömmu hafði tekið sér bólfestu í barnssálinni og ég var auðvitað mjög ákveðinn talsmaður minnar sannfæringar.

Jói Sovét á torginu. Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins

Einhverju sinni þegar ég var að koma úr slíkri slippheimsókn staldraði ég við niður við torg því þar var eitthvað að ske.

Jói Sovét sem bjó uppi í bankanum sat á nýja grindverkinu sem var í kring um torgið, en þar hafði ég oft séð hann sitja.

Gústi Guðsmaður, Ljósmynd Steingrímur Kristinsson / Ljósmyndasafn Síldarminjasarnsins

Hjá fiskbúðunum tveimur, þeirra Jósa og Bödda og Denga í næsta húsi sem þá voru starfræktar í bænum, stóð þessi maður og las upp úr bók. Ég gekk svolítið nær og lagði við hlustir. Rödd mannsins var hrjúf, en mikill kraftur var auðheyrilega í henni fólginn. Honum var mikið niðri fyrir og hann talaði eins og af áfergju. Ég hafði svo sem heyrt talað um hann áður og vissi að hann var ekki bara kallaður Gústi, heldur guðsmaður í ofanálag.

Ég velti því fyrir mér hvað honum gengi til með þessu tiltæki sínu, en gat ekki meðtekið neina skynsamlega skýringu á þessu framferði hans.

Mér hafði verið sagt að stundum væri undarlegt fólk og fullir karlar á ferli niður í bæ, og það jafnvel um hábjartann daginn í glaða sólskini. Svo væri til fólk sem hefði ruglast eitthvað í ríminu einhvestaðar á lífsleiðinni og væri eftirleiðis allt öðruvísi en venjulega fólkið.



Einnig væru einhverjir í heiminn bornir að því er virtist á öðrum forsendum en aðrir og við því væri ekkert að gera annað en að lifa með því.

Allt þetta hafði mér verið sagt og sjálfsagt miklu meira, en mér fannst ekkert af öllu þessu eiga við þar sem ég stóð og hlustaði á prédikarann á torginu. Fólk gekk hjá og tók honum misjafnlega.

Sumir lögðu lykkju á leið sína til að þurfa ekki að koma of nálægt honum en aðrir stöldruðu við og lögðu við hlustir. Nokkrir brostu út í annað eða jafnvel bæði, en einhverjir voru alvarlegir og allt að því hátíðlegir að sjá.

Færeyingarnir sem voru alltaf auðþekkjanlegir af ullarpeysunum og klossunum, voru einmitt þannig. Svo fór hann að syngja sálm og ekki verður sagt að söngurinn hafi verið fagur eða áferðarfallegur, enda fóru þá sumir að flissa eða hlógu jafnvel dátt. Færeyingarnir tóku sumir undir á sínu móðurmáli og hljómaði það einkennilega í bland við söng Gústa vestfirðings sem tekið hafði land á Siglufirði fyrir mörgum árum samkvæmt samkomulagi við almættið.

Amma Sóley bakaði oft kleinur. Ljósmynd: LRÓ.

Þegar ég kom heim spurði ég ömmu hvað væri að þessum manni.

Hún var einmitt nýbyrjuð að baka kleinur þennan eftirmiðdag og svaraði mér ekki alveg strax. Ég settist við eldhúsborðið, hallaði mér fram á það með hönd undir kinn og setti mig í þannig stellingar að ekki varð misskilið að hér sæti ég og vildi fá svar við áleitinni spurningu.

Það snarkaði í feitinni í pottinum og amma hamaðist við að fletja út kleinudeigið með kökukeflinu og bjóst til að fara að skera það með kleinujárninu.

Ég hóf þá upp raust mína að nýju og endurtók spurninguna.

Varstu niður í slipp hjá honum afa þínum? Já, en af hverju er Gústi guðsmaður eiginlega að halda ræðu niður á torgi? Er eitthvað að honum? Af hverju er hann ekki að vinna í síld eða eitthvað?

Í því kom Balda inn um dyrnar. Balda bjó upp á Hávegi 12b hjá Ingibjörgu frænku minni og Guðmundi frænda sínum sem bjó til Guðmundartúnið þar sem hafði verið gróðurlítill melur áður, en það var síðan við hann kennt.

Hún hafði víst heyrt eitthvað til mín því hún hló mikið og sagði. Blessað barnið, það eru aldeilis spurningar, ja hérna, blessað barnið.

Barnið var víst ég sem var næstum því orðið tíu ára, en Balda stoppaði stutt og eftir að hún fór settist amma niður og sagði mér það sem hún vissi um Gústa guðsmann.

Hann hafði víst átt erfiða æsku og trúði meira á guð en allir aðrir sem hún þekkti, og hún sýndi mér litla miða sem hann hafði skrifað upp úr biblíunni og látið hana og aðra vegfarendur hafa niður í bæ þegar hann var þar að prédika.

Hún geymdi þá ofan í skúffu í eldhúsborðinu sem afi hafði smíðað, innan í snjáðri sálmabók sem þar var geymd. Hún sagði mér að hann gæfi næstun því alla peningana sína til fátækra og ætti sennilega lítið eftir fyrir mat handa sjálfum sér.

En af hverju gefur ekki einhver honum eitthvað ef hann er svona góður?

Mér varð litið á kleinupottinn og andaði að mér ilminum af fyrstu kleinunum sem upp úr honum komu. Mér fannst amma vera orðin öllu fámálli en venjulega og einkennilega hugsandi á svipinn og barnshjarta mitt fylltist samúð í garð Gústa fyrir hlutskipti það sem hann hafði kosið sér, en jafnframt réttlátri reiði út í allt það ranglæti sem til var í öllum heiminum.

„Ég vil gera eitthvað fyrir hann Gústa“ sagði ég fastmæltur.

„Hvað ætti það svo sem að vera“ spurði amma meðan hún slakaði meira kleinudeigi ofan í feitina.

„Ég vil gefa honum kleinur“ sagði ég og horfði á pottinn.

„Hann fær örugglega aldrei kleinur“ bætti ég við.

„Já, já. Gefðu honum kleinur“ sagði amma fljótmælt og litaðist um eftir einhverju til að setja þær í.

Þau afi söfnuðu nefnilega saman umbúðum úr verslunum bæjarins sem hægt var að nota aftur, brutu snyrtilega saman og geymdu í litlu hólfi milli veggjar og ísskáps. Þar var einnig hægt að ganga að vísu innkaupaneti heimilisins sem var búið til úr ljósgrænu nylonbandi sem minnti ofurlítið á einhvers konar fiskinet.

Ég stóð stoltur upp úr eldhússtólnum og fannst ég hafa farið með sigur af hólmi í baráttunni við hin myrku og illu öfl.

Amma dró fram brúnan bréfboka sem ég held svei mér þá að hafi verið ættaður úr búðinni hans Sigga Sófusar og setti í hann eins margar kleinur og þar komust fyrir með góðu móti.

Ég lagði síðan glaðbeittur af stað niður stíginn fyrir sunnan Hverfisgötuna, framhjá Steinaflötum þar sem þá bjuggu Johansen kafari á Birninum á efri hæðinni, en Raggi Gísla trillukarl ásamt sínu fólki niðri, og ég hélt afram niður að Lindargötunni og fram hjá húsi Ólöfu og Eyþórs skipstjóra.

Þegar ég ætlaði yfir Suðurgötuna fyrir sunnan Bakkabúðina, sá ég að það kom maður hjólandi neðan úr bæ. Ég vissi að þessi maður var kallaður “Gvendur í bænum” og einhvern tíma hafði ég heyrt að hann ætti annað hvort riffil eða haglabyssu nema það hafi verið hvoru tveggja.

Ég hinkraði við, því ekki vildi ég þvælast fyrir honum en Gvendur leið mjúklega framhjá á hjólinu sínu og veitti mér enga athygli. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég vissi að þetta var fínasti karl og ekki nokkur átæða til að vera neitt smeykur við hann.

Mér létti þó svolítið þegar hann var kominn fram hjá litla húsinu hennar Völlu með hárnetið, stigin af baki og leiddi hjólið framhjá húsinu hennar Jónu Möller sem sat svo oft við gluggann og talaði í símann. Ég hélt þá áfram niður sneiðinginn af Suðurgötunni, yfir Tjarnargötuna og fram á gamla síldarplanið.

Gvendur í bænum átti leið um Suðurgötuna. Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins

Þegar ég fetaði mig upp tröppurnar utan á Antonsbrakkanum og opnaði hljóðlega hurðina á annarri hæðinni var mér farin að hægjast ferðin.

Ég hafði aldrei komið inn í alvöru síldarbrakka og dokaði örlítið við þegar inn kom og horfði upp tröppurnar sem lágu upp í myrkrið á loftinu fyrir ofan.

Ég heyrði til hans tala við einhvern. Fyrst lágum rómi og ég fann kjarkinn þverra úr huga mínum og hjarta. Það eru sennilega gestir hjá honum og kannski ekki rétt að ónáða núna.

Ég gekk út á tröppurnar og hugsaði ráð mitt um sinn. Ég vissi innra með mér að þetta var ekki þannig. Gústi gat aldrei fengið neina gesti. Hann var stundum gestur sjálfur en þá bara í Færeyingskútunum, eða það hafði ég heyrt.

Ég gekk aftur inn eða öllu frekar læddist, og heyrði þá að hann var að fara með bænir. Ég fetaði mig upp stigann og fann til óttans við hið óþekkta.

Eina tröppu í einu og gerði svolítið hlé á milli og þrýsti ilmandi kleinupokanum þétt að mér. Mér fannst freistarinn koma til mín og segja: Af hverju borðar þú bara ekki kleinurnar sjálfur? Þær munu bragðast vel og enginn mun nokkru sinni vita hvað af þeim varð.

Ég losnaði við þessar vondu hugrenningar þegar röddin að ofan hækkaði skyndilega og nú ákallaði prédikarinn drottinn sinn hárri röddu og bað hann að huga að fólki í fjarlægum löndum þar sem sóttir herjuðu og fátækt og fáfræði væru landlæg. Hann hafði ýmislegt til málanna leggja um hvað betur mætti fara í mannheimum en allt í einu þagnaði hann og í sama mund marraði hátt í þrepi sem ég steig á og hjartað í mér hætti að slá.

„Hver andskotinn er að læðupokast þarna“, drundi í guðsmanninum hvellum og rifnum rómi.

„Þetta er bara ég, og ég er með kleinur“, svaraði ég og hjartað byrjaði að starfa aftur. Mín rödd var hins vegar ofurmjó og skjálfandi.

„Hver ert þú“, drundi röddin að ofan.

„Ég heiti Leó og ég sá þig í dag niður á torgi og hlustaði líka á þig“.

„Komdu þá hérna“, heyrðist af loftinu og röddin var orðin nokkuð blíðari í grófleika sínum.

Ég sá að ekkert lá fyrir annað en að ganga á fund prédikarans og afhenda honum kleinurnar svo ég gekk ákveðnum skrefum upp þær tröppur sem eftir voru og inn í kvistherbergið.

Þegar þangað kom hætti ég næstum því að anda því þar var loftið þykkra en ég áður hafði þekkt og súrefnishlutfall eflaust mun lægra en gengur og gerist í mannheimum.

Gústi sat í fleti sínu undir súðinni og starði á mig koma inn. Þar sem framrétt höndin sem hélt á kleinupokanum kom á undan og angan hans hefur eflaust lagt fyrir vit Gústa var hann mjög vinsamlegur strax og sagði að ég væri vellukkaður, hvað svo sem það táknaði.

Sjáðu nú hérna sagði hann og stóð snöggt upp og sveiflaði ábreiðunni af sér. Hér á ég svolítinn kandísmola handa þér. Við þessa hreyfingu myndaðist undarleg lyktarbylgja sem leið yfir kvistherbergið eins og fallandi veggur og ég var næstum því dottinn.

Gústi prédikar á torginu, en það var Ragnhildur Stefánsdóttir myndhöggvari sem gerði þessa glæsilegu styttu af Gústa . Ljósmynd: LRÓ.

Sennilega hefur mannvinurinn Gústi guðsmaður áttað sig á því að hér var á ferðinni lítill strákur af brekkunni með rjúkandi kleinur í brúnum bréfpoka, vilja sem enn mátti virkja til skárri hluta og réttlætiskennd í bland við jákvæða siðgæðisvitund sem einnig mátti bjarga fyrir horn með góðum vilja hvernig svo sem til tókst.

Gústi tók upp úr kistli klút sem hann vafði utan af kandíshrauk utan á spotta. Hann tók upp allstóran hníf sem hafði greinilega verið notaður í svona eitt og annað og ekki þrifinn mikið á milli, lagði hann ofan á kandísinn og ýtti vel á eftir. Kandísinn hrökk í sundur en hlutarnir héngu saman á spottanum sem nú var sargaður í sundur með hnífnum sem skildi eftir sig leifar af einhverju öðru sem hann áður hafði verið notaður í.

Ég vissi svo sem að Siggi Sófusar seldi kandís en hann hafði talsvert aðra áferð liturinn var ekki alveg eins. Ég taldi að þaðan hlyti hann þessi að vera kominn en síðan hvenær? Það var annað mál.

Eftir þónokkuð mörg blessunarorð gekk ég af fundi þessa merkilega manns og niður stigann nokkru hraðar en ég hafði gengið upp.

Ég komst til fullrar meðvitundar á ný fyrir utan brakkann skömmu síðar með kandísinn í vasanum og velti því fyrir mér hvaða vinur minn ætti skilið að fá slíkt sælgæti að gjöf frá mér án einhverrar sérstakrar ástæðu. Hvaða ár ætli hann hafi svo sem verið framleiddur?

Hugmyndin að merkja vörur “síðasti söludagur” kom til einhverjum áratugum síðar, en nú þegar ég hugsa til baka finnst mér ég hafa verið einn af þeim fyrstu sem áttuðu sig á ágæti hennar.

Gjöfin sú arna var gefin af eins góðu hugarfari og verða má og þó að gjafarinn hafi haft á þeim tíma komið sér upp sínum eigin gæðastaðli, tók það þiggjandann nokkurn tíma að koma kandísnum í gegn um meltingarfæri sín en það hafðist þó að lokum og hann var hreint ekki sem verstur.

Leó R. Ólason.

Forsíðumynd af Gústa Guðmanni, Mynd: Steingrímur Kristinsson / Ljósmyndasafn Síldarminjasarnsins.

Söguseríuna “Poppað á Sigló” og fjölmargar fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.