Í þessum seinni hluta byrjum við með að kíkja á þetta…

…BÆJARSKIPULAG OG BEINAR LÍNUR.
FRÁ AÐALGÖTUNNI… TIL GUÐS?

Síðan koma kaflaheitin:

Á MILLI AÐALGÖTU OG GUÐS…

VANDRÆÐAGATNAMÓT ÞÁ OG NÚ?

FRAMTÍÐ TORGSINS OKKAR?..

… og þar er greinarhöfundur sko ekkert að skafa af því hvað honum finnst um vissa hluta af þessum framtíðardraumum.

ÚT UM GLUGGANA HJÁ GESTI FANNDAL

MINNINGAR FRÁ TORGINU

OG … mynd af… hmm.. hmm… SEM HVARF…

og þar á eftir stutt lokaorð til ykkar allra.

ATH. Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla myndatexta og söguna í heild sinni. Ef þú, lesandi góður, villt skoða myndirnar betur með því að stækka þær er best að fara beint inn á vefinn trolli.is og finna greinina þar. Ef slóðin er opnuð í gegnum Facebook getur verið lokað á að skoða myndirnar í stærra formi.

Bæjarskipulagsteikning frá 1969. Mynd lánuð úr greinarseríunni: Furðulegar götur 1 – 4 Hluti. HÚS
Falleg vetrarmynd frá Torginu okkar. Ljósmyndari Hinrik Andrésson.

Greinarhöfundi, sem og mörgum öðrum hefur þetta einstaka Siglfirska miðbæjarskipulag lengi verið kært umtalsefni og ég lána eftirfarandi orð frá sjálfum mér í fyrsta hluta greinarseríunnar Furðulegar götur:

Maður sér framtíðartrú í stóru miðbæjartorgi og Aðalgötu með risastórri kirkju í öðrum endanum.

En á eyrinni eru líka hús sem pössuðu ekki alveg inn í þessa heildarmynd og standa á ská við götuna eða á milli gatna.
Líklega vegna þess að þau stóðu þarna áður en Séra Bjarni tók málið í sínar hendur.

Þessi greinarsería fjallar nú reyndar ekki svo mikið um skipulagið á eyrinni, heldur meira um furðulegar götur sem eru í tveimur og þremur hlutum upp í fjalli, byrja, slitna og byrja aftur og það er ekkert einfalt fyrir ókunnuga að finna þessar slitnu götur.

En Siglfirðingar kunna þetta og það er ákveðinn sjarmi yfir þessari “gatnamála vitleysu”.

Bein lína frá Aðalgötunni og heim til Guðs! Ljósmyndari: Sigurður B Jóhannesson. Mynd lánuð úr myndasyrpusögunni: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

Siglufjörður. Ljósmyndari: Kristín Sigurjónsdóttir.
Séð úr kirkjuturninum yfir torgið á Siglufirði. Ljósmyndari: Gunnar Smári Helgason.

Sagan segir að Séra Bjarni hafi frá fyrstu byrjun séð fyrir sér stóra glæsilega kirkju miðsvæðis á eyrinni.
Greinarhöfundur hefur einnig haft hugleiðingar um staðsetningu Siglufjarðarkirkju áður og lánar hér texta og gamla ljósmynd frá sjálfum sér úr ferðasögugreininni:

SUNNUDAGSPISTILL: FALLEG SÖGUFRÆG KIRKJA (20 LJÓSMYNDIR)

… í leit minni að síldarsögum hér á vesturströnd Svíþjóðar sem tengjast mínum fagra Siglufirði get ég ekki að því gert að ég verð oft mjög svo forvitinn um einmitt kirkjuna í bænum og í huga mér koma upp allskyns spurningar.

Af hverju stendur þessi risastóra kirkja akkúrat þarna og ekki í miðbænum í þessum litla samfélagi ?
Af hverju snýr hún svona norður/suður og ekki austur/vestur ?
Mega kirkjur snúa hvernig sem er ?

Ég kemst ekki hjá því að bera þær allar saman við kirkjuna mína á Sigló en hennar sögu kann ég vel. Skírður og fermdur þarna í þessu “í dag” of stóra fallega Guðshúsi og svo man ég þann tíma líka þar sem ég var í sjóvinnuskóla uppi á kirkjuloftinu.”

Siglufjarðarkirkja er á réttum stað og snýr “RÉTT”
Séð upp Aðalgötuna, í vesturendanum blasir við risastór kirkja og í austurendanum söltunarplan og glæsilegur hraðbátur við bryggju. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Beinar línur. Á þessari gömlu mynd sjást þessir ferhyrningar vel, því það er ekki búið að fylla upp í þá alla með húsum eða verksmiðjum. Ljósmyndari óþekktur.

Á MILLI AÐALGÖTU OG GUÐS…

… Standa bæði hótel og hús!

Skátar í skrúðgöngu á leið til kirkju. Á þessari ljósmynd sjást hús sem eru fyrir “Beinu línunni” frá Aðalgötunni og beint að Guðshúsinu flotta. ATH! Mörg horfin hús í bakgrunninum líka. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Næst á myndinni hér fyrir ofan má sjá ofan á þak hússins Lindarbrekku, síðan Hótel Siglunes. þá Túngötu 1 þar sem Ingibjörg Jónsdóttir og Þorgrímur Brynjólfsson ráku lengi verslun og síðar fleiri – Þá Gömlu mjólkurbúðina og Náttúrulækningarbúðina, og aftar Blöndalshúsið, Tórahúsið var það lengi líka kallað og svo má einnig sjá húsið sem Gulli Jóns og fleiri bjuggu í……………

Á milli kirkju og Aðalgötu voru bara tröppur upp að hótel Siglunes í denn. Enginn klukka á kirkjuturninum. Ljósmyndari: Jóhannes Jóssefsson.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Ekki lengur svo mikið á milli Aðalgötu og kirkju. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Þetta glæsilega hús var nú reyndar ekki fyrir einum eða neinum…. en Kaupfélaginu vantaði ljótan lager-lókal. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Það er mér persónulega sárt að þetta virðulega hornhús með þessum flotta turni hafi verið látið hverfa. Því þarna uppi á þriðju hæð leigðu ég og mín fyrrverandi sambýliskona 6-7 herbergja íbúð með glæsilegu útsýni yfir Torgið og Aðalgötuna.

Á miðhæðinni voru skrifstofur Olís og fl. og á jarðhæð gamla verslunarhúsnæði Kaupfélagsins og vörumóttaka í norðurendanum.

VANDRÆÐAGATNAMÓT ÞÁ OG NÚ?

Já, þessar þrjár götur sem leiða okkur að torginu úr suðurátt hafa alltaf átt erfitt með að mætast á þessu einkennilega götuhorni og ekki hefur þetta lagast við að einmitt þessi gatnamót urðu síðan hluti af þjóðveg sem liggur í gegnum bæinn.

Nótabátar á gatnamótum. Gatnamót Suðurgötu, Snorrabrautar og Gránugötu. Ljósmyndari: Gestur H Fanndal.

Lengi vel litu þessi gatnamót út svona. Ljósmyndari: Gestur H Fanndal.

Holur á gatnamótum. Ljósmyndari: Gestur H Fanndal.

Einhverskonar gatnamót og brunalið bæjarins bjargar X ALBERT kosningarskilti. Ljósmyndari: Gestur H Fanndal.

Suðurgata 8 rifið. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.

FRAMTÍÐ TORGSINS OKKAR?

Greinarhöfundi hefur borist til eyrna að stórar og miklar og nú þegar samþykktar framtíðar áætlanir séu til um TORGIÐ okkar og að það séu mjög svo skiptar skoðanir meðal bæjarbúa um ágæti þessara framtíðar drauma.

Persónuleg finnst mér að syðri hlutinn á skipulagsplaninu sé bara nokkuð góð lausn á ofannefndu vandræðagatnamóta málefnum.
Þessir möguleikar eru nú þegar til staðar eftir að Egilssíldarhúsið hvarf og sagt er að við viljum ekki lengur hafa tjaldstæðið inn í miðjum bæ.

En þetta með að Torgið verði skorið niður í Pizzusneið er fáránlegur óþarfi til þess eins að skapa meira ljótt malbik og fleiri bílastæði og það eitt er líka algjör helgispjöll á þessum heilaga stað.

Þarna er í mínum huga verið að yfirgefa FERNINGA og “beina línu” hugmyndafræði Séra Bjarna sem einkenna allt skipulag í miðbænum og á allri eyrinni.

Nei takk og mér er dauðans alvara þegar ég segi:

Fólk getur, andsk… hafi það, gengið 50 metra frá bílnum sínum og yfir í Kaupfélagið……

Burt með bílana eins mikið og hægt er og inn með meiri gróður og grænt. Við skulum frekar skapa lifandi miðbæjartorg þar sem fólk vill hittast og getur talað saman án umferðahávaða. Í dag vilja flestir sem búa í borgum og bæjum minnka bílaumferð með því að bílum er lagt utanvið miðbæjarsvæðið. Stundum finnst mér eins og að Íslendingar vilji helst geta keyrt inn í búðirnar eða hreinlega versla allt í gegnum bílaafgreiðslulúgu.

Í rauninni upplifði ég alltaf mínar bestu stundir á Sigló sem sumardrengur þá örfáu daga sem Aðalgötunni er breytt í göngugötu og lokuð fyrir bílaumferð.

Held við vinnum meira á að skapa gönguvænlegt umhverfi en fleiri bílastæði vestan við torgið og þessi lausn skapar bara umferðatafir með bakkandi bílum út á þjóðveg og það eitt verður einnig mikil slysagildra fyrir göngulata Kaupfélagskúnna.

Eða hvað finnst þér kæri lesandi og velunnari Siglfirskra hefða og sögu ?

Skýrsla: FJALLABYGGÐ – SIGLUFJÖRÐUR. MIÐBÆR, DEILISKIPULAG. Greinagerð og skipulags- og byggingarskilmálar. 2017.

ÚT UM GLUGGANA HJÁ GESTI FANNDAL

Við vorum svo heppin að sá sem bjó lengst af öllum við Ráðhústorgið okkar hafði mikinn ljósmyndaáhuga og hann Gestur okkar Fanndal tók einfaldlega margar skemmtilegar myndir út um gluggana á þessu sögufræga heimili/verslunarhúsi.

Um vetur er Torgið okkar oftast notað sem sjógeymsla. Ljósmyndari: Gestur H Fanndal.

Síldarævintýrið á Siglufirði. ATH! Göngustígur í eina átt yfir Torgið. Ljósmyndari: Gestur H Fanndal.

Samkoma við Torgið/Aðalgötuna. ATH! Takið eftir hvítu “gangið ekki á grasinu” girðingunni. Ljósmyndari: Gestur H Fanndal.

Ráðhús ennþá í byggingu… eða? Þó loksins orði þrjár hæðir. Ljósmyndari: Gestur H Fanndal.

MINNINGAR FRÁ TORGINU

Við eigum okkur öll minningar tengdum Ráð’ “náðhúsartorginu” okkar heima á Sigló og þær minningar eru líklega af ýmsum toga og fara líklega mikið eftir aldri og kyni og í hvaða erindagjörðum maður fór niður á TORG.

En það er örugglega þannig að margar kynslóðir muna mikið eftir því sama og þá held ég að Gústi Guðsmaður sé sá sem við munum best eftir að hafa hitt á Torginu.

Í þessum loka kafla eru nokkrar ljósmyndir sem ég tengi sterkt við minningar tengdar Torginu. Þarna er fólk sem maður sá og hitti oft gegnum öll sín æskuár, eins og t.d. vinirnir Barði og Ægir sem stóðu annaðhvort í Kaupfélagsskotinu eða Bankaskotinu… það fór svona mest eftir því hvernig viðraði.

Gústi Guðsmaður í góðum gír á Torginu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Gústi Guðsmaður er mættur aftur á TORGIÐ. Ljósmyndari: Kristín Sigurjónsdóttir.

Gústi er komin aftur á Torgið í styttuformi og vert er að muna að styttan sjálf er gerð eftir fyrirmynd frá frábærri ljósmynd sem Árni Jörgensen tók á sínum tíma.

Slíkur er máttur góðra ljósmynda að þær geta orðið styttur og okkur um alla eilífð minningar og sögu efni úr horfinn tíð.

Torgið og okkar fræga Nýja Bíó stofnað 1924 með réttu nafni og íklætt fallegum snyrtilegum litum. Ljósmyndari: Guðný Ósk Friðriksdóttir.
En ég á mér margar og góðar minningar tengdum þessu húsi, barnabíó, alskyns skemmtanir og leikfélagsþátttaka o.fl.

Það er sárt að ekki sé hægt að finna þessu húsi nýtt hlutverk í miðbæjarlífinu í dag.

Bíóbarinn. Alltaf gott að koma þangað og fá sér Thóraís eða kannski eina Valash appelsín í gleri með alvöru mjúku lakkrísröri til þess að hægt og rólega sötra í sig ljúft innihaldið. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Torgið og Sigurvin, báturinn hans Gústa Guðsmanns séður út um annan glugga af Gesti Fanndal sem hlýtur að hafa verið í heimsókn hjá sögumanninum okkar Leó Óla í Schötarahúsinu hans við Aðalgötuna.

Góðir vinir á spjalli. Barði Ágústsson (Sæby) og Ægir Jóakimsson. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Frá vinstri Barði Ágústsson, Eysteinn Aðalsteinsson í fiskibúðinni og Ásgeir Björnsson (Á Nesi) vélstjóri. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. ATH. Norðurhlið Ráðhússins er enn ópússað 1990.

Björn Þórðarson og Jósafat Sigurðsson, fyrir utan fiskbúð Jósa og Bödda. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Alltaf gaman að koma í fiskbúðina og ekki síst í hádegismat hjá Eysteini og Abbý í litlu kompunni innan við búðarborðið. Þetta var hálfgerður leyni veitingarstaður og það var kannski lágt til lofts þarna inni, en stórt hjarta og húmorinn hjá þeim hjónum og þeirra gestum fékk mann að gleyma stað og stund. Held ég hafi hvergi annarstaðar upplifað eins sterkt og akkúrat þarna að ég var í HJARTA Siglufjarðar.

Algjörlega í miðjunni á nafla alheimsins og svo sannarlega á RÉTTUM stað.

Guðmundur Davíðsson og Karl Eskil Pálsson ( Verslunin Álfhóll) Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Á unglingsárunum eyddi maður aleigunni í tískuföt og risastórar steríógræjur í Álfhól hjá þeim Kalla Páls og Gumma Davíðs og ef eitthvað var eftir í buddunni þá fór það líka í vasann hjá Guðmundi… og frú á “Billanum” rétt rúmlega 100 metrum innar í Lækjargötunni.

Barnagarðarútan “… og mamma bíður á Torginu... Volli.. volli… volli, Vei. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Skrítið! Stundum vildi maður alls ekki fara suður á Leikskála, en svo vissi maður alltaf að MAMMA BÍÐUR Á TORGINU….

Leikskálarútan við Bifreiðastöðina. ATH. Ekki búið að sletta málningu á hvorki kirkjuturn eða Útvegsbankahús. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

OG AÐ LOKUM.
SÍMAKLEFINN SEM HVARF…

Símaklefi. Þetta var allavega það merkilegt alvöru torg að Póstur og Sími setti upp þennan líka flotta símaklefa á sínum tíma. Maðurinn á myndinni heitir Atli Angantýrsson. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

ATHUGIÐ!

KÆRU SIGLFIRÐINGAR NÆR OG FÆR, SEM OG ALLIR VELUNNARAR ÞESSA EINSTAKA SÖGUFRÆGA OG FALLEGA FJARÐAR.

Í þessari mjög svo Siglfirsku myndasyrpusögu standa 10 þekktir og óþekktir Siglfirskir áhugaljósmyndarar á bak við myndavélar og taka þessar 60 sögulegu ljósmyndir sem birtast ykkur ókeypis hér í dag.

Að greinarhöfundur sem ekki hefur búið á Sigló í yfir 40 ár geti setið við tölvu úti í Svíþjóð og náð saman svona sögu er nánast kraftaverk og það er meira og minna einum ljósmyndarar að þakka.

Því sá sem ekki bara tók myndir heldur líka segir söguna gegnum sjálfan sig og aðra í myndaskýringatextum…
… og já, hann Steingrímur okkar er enn að, nýorðin 87 ára gamall. Hann lagði bæði frítíma sinn og fjármuni í að safna þessu öllu saman og gerði þetta söguform mögulegt og aðgengilegt fyrir okkur öll.

Ég hef sagt það áður og ég segi það enn einu sinni:

Er ekki komið að því að þessi Siglfirski snillingur fái Fálkaorðuna… aðrir hafa fengið hana fyrir minna.

Steingrímur hefur tekið myndir á Sigló í yfir 70 ár og veit allt um sögu bæjarins og ljósmyndun og gömul tæki og tól. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Síðan vill ég minna alla á, sem finnst það mikilvægt að við eigum þennan sögufjársjóð áfram í tiltæku nútíma alnetsformi að við þurfum að aðstoða Síldarminjasafn Íslands sem í dag er formlegur eigandi af þessum stóra sameiginlega ljósmyndafjársjóði við að koma þessum 180.000 myndum í betra gagnabanka form. Þar sem við öll getum á einfaldan máta sett inn leitarorð og líka haldið áfram að segja söguna saman um það sem sést á myndunum.

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI. 60 MYNDA-SYRPUSAGA

Bestu Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra

Nonni Björgvins.

Höfundur og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Gestur H Fanndal.

Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar og frá ættingjum Hannesar P Baldvinssonar.

Heimildir:
Myndir og skýrsla frá Skipulagsstofnun o.fl.

Þakklætiskveðjur fyrir yfirlestur og góðar ábendingar sendi ég þeim:
Steingrími Kristinssyni, og Sólveigu Jónsdóttur.

Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:

UM SIGLFIRSK VIÐURNEFI: ÉG HEITI EFTIR AFA MÍNUM…

FÁEIN ORÐ UM ÞORMÓÐ EYJÓLFSSON

SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“

SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR OG ROTTUR HIMINSINS

SVON´ER Á SÍLD

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 MYNDIR)

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. SEINNI HLUTI (54 MYNDIR)

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

SVONA VAR Á SIGLÓ FYRIR 56 ÁRUM

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA