Gunnhildur Ásta Ásmundardóttir eða hún Gunný saumakona eins og hún oft var kölluð verður 94 ára á morgun, en hún býr samt enn ein í gamla bárujárnshúsinu sínu í suðurbænum. Hún hafi nú verið ekkja í yfir 25 ár.

Hún var bara nokkuð ern, nægjusöm, glöð og þakklát fyrir allt sem lífið hafði gefið henni og nokkuð sátt líka við það sem lífið tók frá henni.

Hún bar enga biturð í brjósti sér, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem alltaf fylgja löngu lífi.
En hún bar í hjarta sér, aðeins eina…

… STÓRA SORG.

Þessi sorg var ennþá bæði þung og stór, þrátt fyrir að það séu liðin mörg herrans ár frá því að elsku drengurinn hennar dó.
Hún grét saknaðar og líka gleðiminningartárum daglega í hljóði fyrir sjálfa sig.

Í tilefni afmælis síns hafði Gunný verið að hugsa um það í fleiri daga, að unna sér kannski að kaupa rándýra góða sviðasultu í Kaupfélaginu á eyrinni. En í dag tók það hana langan tíma að finna eigingerða gamla slitna blómabróderaða innkaupapokann sinn sem var næstum jafn gamall og hún sjálf. Ég verð þá bara að leggja aur í plastpoka… en það eru reyndar allir að tala um þessa plastpokamengun út um allt og ekki hef ég nokkur tíman keypt svona drasl og fer varla að byrja á því núna….

Hún var við það að gefast upp á leitinni og hún tók eftir því núna meira en vanalega að minnið var stundum að svíkja hana.

Ástarminnig

Vel úti á göngu í einstöku Siglfirsku vorblíðulogni á Suðurgötunni horfir Gunný yfir fjörðinn sinn og það grípa hana hugsanir um hvað allt er orðið breytt en samt einhvern veginn sér líkt samt. Fjöllin eru að frátöldum snjóflóðavarnargörðum allavega næstum eins og á þeim árum þegar hún kom hingað sem ung stúlka í síldina á Sigló. Þarna niður frá við Síldarminjasafnið á Ísfirðingaplaninu hitti ég hann Láka minn… mér 15 árum eldri barnlausan ekkjumann.
Ja hérna… þvílík ást.

Á horninu þar sem Suðurgata mætir bæði Laugarvegi og Hverfisgötu er skyndilega hrópað á hana.
Gunnhildur… Gunný mín, bíddu aðeins, ég ætla að gera þér samleið elskan.

Mundý vinkona mín er hreinskilin góðhjörtuð kona

Nú ert þetta þú Mundína mín, svarar Gunný tveimur árum yngri vinkonu sinni… gaman að sjá þig elsku Mundý mín og svo kræktu þær Ý enda bókstafs gælunafns nöfnurnar og vinkonurnar sama örmum og gengu þétt sama niður á eyrina.

En merkilegt að ég skuli hitta einmitt þig núna elskan mín.
Hann Guðmundur þinn Góði, blessaður Guðsgjafardrengurinn okkar allar kom til mín í draumi hér um daginn.
Segir Mundý og heldur síðan áfram.

Þetta var svo yndislegur og alveg ótrúlega sterkur draumur, hann söng svo fallega fyrir mig og ég vaknaði brosandi út af eyrum og svei mér þá… ég er glöð enn þá. Ótrúlegt.

Hvaða lag söng hann?

Þú ert yndið mitt yngsta og besta…
Hvað annað!

Gunný tókst að fela tárin og hún reyndi að kyngja stórum sorgarklökk, en það bara gekk ekki.

Jæja elskan, þá eru við komnar í Kaupfélagið, en eigum við ekki að fá okkur kaffi og hunangsköku saman í bakaríinu áður en við spásserum heim aftur?

Gunný harkar sig og stynur síðan upp… Því miður elskan, ég verð að flýta mér til baka.
Heimilishjálpin er að koma til mín á eftir og við ætlum að taka niður gardínurnar í stofunni, heyrði hún sjálfa sig ljúga að Mundý vinkonu sinni.

Þetta samtal eyðilagði alveg þessa fyrir löngu skipulögðu afmælis innkaupa ánægjustund og Gunný flýtti sér svo mikið að hún gleymdi að kaupa sviðasultuna góðu en greip þó með sér mjólk og hunangskökupoka frá bakaríinu á Akureyri þrátt fyrir að hún efaðist um að þær væru jafn góðar og þær sem Kobbi bakari galdrar fram daglega í Aðalbakaríinu sínu.

Gunný flýtti sér heim og flúði inn í táravotan minningarheim um Gummann sinn góða og henni varð það ferskt í minni að Mundý hafði sagt einmitt þessi fallegu orð:

„Blessaður Guðsgjafar drengurinn okkar allra….“

Já, hann var svo sannarlega góður og okkur öllum þvílíkt síbrosandi gleðigjafaljós sem lýsti upp allan fjörðinn, en Gunný minntist líka þeirra erfiðleika sem fylgdu með fæðingu hans.

Hún og Láki höfðu lengi reynt að eignast barn en það gekk ekkert lengi vel, en skyndilega þegar þau í rauninni voru búinn að gefast upp varð hún ólétt 38 ára gömul.

Þvílíkt kraftaverk!
Meðgangan var að öllu leyti eðlileg og sjálf fæðingin gekk leikandi létt, en Gunný sá strax á svip elskulegrar ljósmóður með mikla reynslu að eitthvað var að… en ljósan sagði ekkert og lagði soninn í faðminn á hamingjusamri móður.

GLEÐIDAUÐASTUND

Fljótlega kom líka virðulegur eldri læknir og skoðar barnið hátt og lágt.

Gunný sjálfri fannst hann bara vera venjulegur dásamlega fallegur drengur… jú, hún tók eftir því að hann var með óvanalega breytt og flatt andlit. Puttar þykkir og stuttir og tærnar líka, en krúttlegar og svo var hann líka með stórt bil á milli stóru tánna og þeirrar næstu… eins og hann hafi gengið mikið í svona Jesús biblíusögu sandölum. Hugsaði athugul brosandi glöð móðir. 

Þegar stoltur faðir kom til að sækja konu og barn eftir vikulegu á fæðingardeildinni voru þau kölluð inn á skrifstofu Héraðslæknisins og þrátt fyrir velmeint og varkár orð frá lækninum þá varð þetta samt stærsta gleðidauða stund lífs þeirra beggja.

Greining og gamlir fordómar

Velkomin og til hamingju… huh, hum… mér ber skylda til sem ábyrgur læknir að vera hreinskilinn við ykkur.
Drengurinn ykkar er í alla staði velskapaður, en þetta er ein af gátum Guðs sem enginn skilur í rauninni segir alvarsfullur læknirinn og ræskir sig aftur áður en hann heldur áfram.

Þessi myndarlegi snáði hefur í rauninni fengið of mikið í fæðingargjöf, því hann hefur fleiri litninga en við hin…
Hann er fæddur með það sem á fræðimáli er kallað Downs syndróm.

Ég verð því miður að benda ykkur foreldrunum á og vara ykkur við ýmsu sem fylgir þessari meðfæddu fötlun og það að henni fylgja oft duldir hjartagallar og mörg af þessum börnum verða ekki langlíf. Síðan fylgja þessu ýmsir aðrir líkamlegir kvillar og alltaf þroska og gáfnafarsleg vandamál.
Þið megið eiga von á að drengurinn ykkar nái kannski þroska á við 10 ára barn… en þetta er mjög mismunandi frá einu tilfelli til annars.
Margir foreldrar velja að láta frá sér svona börn inn á stofnanir og ég get hjálpa ykkur með það ef það er ykkar ósk?

ALDREI að við látum hann frá okkur.
Svöruðu bæði í kór með tárin í augunum, snérust um hæl og gengu út án þess að hvorki þakka fyrir sig eða kveðja.

HAMINGJUÓSKIR?

Gunný komst fljótlega yfir versta áfallið og hún og Láki voru lukkuleg með sinn heittelskaða langþráða dreng.

Vissulega var það skrítið að fá meira af vorkunnarorðum en hamingjuóskum frá vinum og ættingjum og víst, það var hvíslað ýmislegt út í bæ um þennan blessaða nýfædda dreng.

Árin liðu þroskalega hægar í húsinu við Suðurgötuna en í öðrum húsum í fallegum þröngum firði, en fólkið þarna var alls ekki þröngsýnt og var eitthvað svo óvenjulega vant við öðruvísi manneskjur og allskyns snillinga sem síldin og atvinnan í kringum hana hafði dregið hingað í áratugi.

Guðmundur litli var lágvaxinn í samanburði við önnur börn en hann hafði þetta einstaka bros í sínu stóra flata andliti, sem bræddi öll hjörtu.
Allir sem kynntust honum fundu að það var ekki til í honum eitt einast illt bein eða mein.

Hann bara brosti, söng og hló framan í allan heiminn frá morgni til kvölds.

Hann varð snemma kallaður Guðmundur Góði eða Gummi Glaði út um allan bæ.

Gunný sem hafði hætt að vinna úti að ósk síns elskulega og skilningsríka Láka, lagði nú allan sinn tíma, ást, umhyggju og þolinmæði í uppeldið á drengnum sínum og hún fékk líka góða hjálp frá afa Pétri, öldruðum föður Láka sem var innibúandi hjá þeim fyrstu 10 æviár Guðmundar.

Þegar kom að áhyggjum Gunnýjar um mótmæli frá öðrum foreldrum eða kennurum varðandi komandi skólagöngu Gumma, þá sýndi það sig að það var algjör óþarfi. Allur bærinn elskaði nú þegar þennan glaðlynda góðhjartaða dreng og allir lögðu sig fram við að aðlaga aðstæður og lærdómsefni eftir þörfum Guðmundar Góða.

Gunný var sú sem sá þetta þegjandi samstöðu samkomulag bæjarbúa minnst í byrjun og hún hafði stórar áhyggjur af syninum sem snemma að lokinn skólagöngu byrjaði að fara einn í reglulega göngutúra og heimsækja hina og þessa vinnustaði út um allan bæ.

Allt byrjaði daginn eftir síðustu skólaslit Guðmundar.
Þá tilkynnti hann mömmu sinni að hann ætlaði að fara niður á eyri og sækja um vinnu.

ÁSTÚÐ OG UMHYGGJA

Sem ábyrg mamma vildi Gunný ekki að hann Gummi sinn væri að trufla eða þrengja sér upp á vinnandi fólk svo hún elti hann leynilega í eitt skipti alla virka vikudaga.

Úr fjarlægð sá hún „seinþroska“ son sinn kíkja vel og lengi á armbandsúrið sem hann erfði eftir afa sinn. Síðan fór það eftir því hvaða vikudagur var, hvert hann tók stefnuna.

Gummi glaði var nefnilega búinn að reikna út að fyrirtækin á eyrinni voru með kaffitímana á mismunandi tíma, svo hann var með breytilega rútínu á þessu frá einum degi til annars.

Stoltri móður fannst það stórkostlegt að fá að sjá þetta en hún vildi samt til öryggis tala við kaffipásufólkið sem Guðmundur heimsótti.

Súkkulaðisnúður

Halli frystihúsverkstjóri hlustaði á vandræðalegar spurningar Gunnýjar um heimsóknir sonar hennar.

Elsku besta Gunnhildur mín, hafðu nú ekki áhyggjur af þessu….
Hann Guðmundur okkar er sama Guðsgjöfin og Gústi Guðsmaður.

Það skynja það allir að hér er eitthvað stórkostlegt og fallegt á ferðinni og kannski liggur Guðdómleikinn í því að hvorki hann eða Gústi eru meðvitaðir um að það spila allir með…

ALLIR, Gunný mín, vilja gera lífið léttara fyrir akkúrat þessa tvo og þú skalt vita að við erum farinn að bíða eftir honum með miklum áhyggjum ef hann er seinn… sem er sjaldan reyndar… Nema kannski í fyrravetur.
Þarna þegar hann datt svo illa í hálkunni og þá var hreinlega öll vinna lögð niður hér á meðan við leituðum að honum Guða-Mundanum okkar.

Við erum líka með rúllandi ábyrgð á innkaupum á súkkulaðisnúðum sem honum finnst svo góðir.

Svo syngur hann alltaf sama fallega lagið þegar einhver á afmæli.

Dásamlegt bara að svona drengur sé til…

Gunný sá að þegar hann yfirgaf frystihúsið, þá gekk Gummi í áttina að rækjuvinnslunni og eftir að hún sá hann faðma og kyssa alla í kveðjuskyni, gekk hún að Bylgju verkstjóra sem var að fela sig reykjandi bak við kaffistofuna.
Bylgju brá nokkuð og sagði.
Þú rétt misstir af honum Guðmundi þínum… og svo var það sama sagan þarna.

HUNANGSKAKA

Sko, trúðu mér Gunný mín, áður en Gummi byrjaði að koma hingað í kaffitímanum okkar þá var hér skítamórals-stemming alla daga vikunnar. Núna eru miðvikudagskaffipásan okkar eitthvað sem fólki hlakkar til og enginn vill missa af honum.
Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu… en það er eins og að þessi brosandi glaðværa einlægni hans Gumma geri að fólk vilji einfaldlega verða betri manneskjur. Hann lyftir einhvern veginn öllum úr gráum köldum hversdagsleikanum…

Og hvað vill hann fá með kaffinu hér?

Alltaf hunangskökur.
Það þýðir ekkert að bjóða honum eitthvað annað og kökurnar verða að koma úr Aðalbakaríinu… ekkert annað dugir ofan í þessa elsku.
Einu sinni voru kökurnar búnar í Aðalbakarí og þá datt einum í hug að setja Akureyrar hunangskökur í poka frá bakaríinu hér… en Nei, hann lét ekki plata sig og spítti kökunni í lófana og sagði vonsvikinn:

OJ barasta… þetta eru gamlar kökur.

Mjólk og kleinur

Saumastofan Salína er frekar lítill vinnustaður og þar hafði Gunný sjálf unnið lengi áður en hún varð heimavinnandi Gumma-mamma.
Þarna unnu bara konur og gömul samstarfsvinkona tók utan um Gunný og huggaði hana og sagði að hún skildi ekki hafa neinar áhyggjur af þessu.

Ef þú bara vissir hvað hann getur verið skemmtilegur og hnitmiðaður í svörum og við eigum stundum svo bágt með okkur… en við viljum ekki særa hann og höldum gleðihlátrinum oft inni þangað til hann er farinn þessi elska…

Um daginn vorum við eitthvað að spjalla um fjallgöngur og fjöll og svo spurði einhver Gumma hvort hann hafi farið upp í Skollaskál og hann svarar strax…

Nei, ég vill ekki, þetta er Tröllaklósettskál og ég vill ekki að tröllin kúki á mig…

Jesús minn eini….
… og svo spurði önnur. En Hvanneyraskál?
Nei vill ekki, þetta er húsbóndastóll fyrir Tröllapabbann, ég vill ekki að hann setjist á mig… kremja mig bara…

Hvernig veistu allt svona Gummi?

Afi Pétur sagði mér þetta. Afi kann ekki að ljúga og ekki ég heldur….

Já ég segi það bara… þetta er Guðdómleg stund þegar hann kemur í heimsókn og alltaf skal það vera köld mjólk og nýbakaðar kleinur í kaffitímanum okkar á fimmtudögum.

Gleðigjafarútína og MÖMMUKÖKUR

Gunnhildur sá son sinn í nýju ljósi eftir þessa heimsóknir og hún áttaði sig líka á því að hann hafði skapað flókið, en reglulegt heimsóknarmunstur. Ákveðnir vinnustaðir voru heimsóttir í réttri kaffitímaröð fyrir hádegi og svo kom hann heim í hádegismat og hún skyldi núna af hverju hann sjaldan var svangur. Að lokinn smá hvíldtíma tók hann nýja bæjarbunu í síðdegiskaffitíma heimsóknir.

Guðmundur afþakkaði þó aldrei mjólk og mömmuköku í eftirrétt í hádeginu. Það var löng hefð fyrir því að hann fengi eina jólamömmuköku á dag allt árið um kring. Ein af þessum sérstöku föstu venjum sem hann ávann sér hægt og rólega.

Þegar hann var lítill gat hann orðið öskureiður ef hann fékk ekki mömmukökuna sína.
Held ég hafi ekki séð hann reiðan síðan… hugsaði mamma Gunný.

Sem ábyrgðarfull og umhyggjusöm móðir reyndi hún eftir bestu getu að halda honum Gumma sínum á hollri og fitusnauðri fæðu.
Hún óttaðist mjög hversu auðveldlega hann fitnaði og var áhyggjufull yfir meðfæddum hjartagalla.

Þessi vinnustaða heimsóknarrútína hjá honum Guðmundi GlaðGóða hélst óbreytt í tæp 10 ár.
Öllum til mikillar gleði og ánægju.

Aðeins einu sinni vék hann frá þessari rútínu og það gerðist óvænt rétt eftir hádegi einn aldeilis venjulega þriðjudag, en þá sagði Guðmundur skyndilega við mömmu sína.

Pabbi koma í land, ég ætla að drífa mig og mæta honum niður á bryggju… 

Elsku besti vinur, pabbi þinn fór út á sunnudaginn var og þeir koma ekkert heim fyrr enn eftir 10 daga.
Manstu? Ég var búinn að sýna þér þetta á dagatalinu. Gummi kíkti á afaklukkuna sína og svarar.
Báturinn bilaður, þeir koma núna.
Bless mamma og svo labbaði hann ákveðinn af stað niður á Hafnarbryggju.

Mamma Gunný horfði á eftir honum út um eldhúsgluggann og skildi ekkert í þessu og hún kíkti út fjörðinn til öryggis, en sér engan bát.
Hálftíma seinna, við sama eldúsglugga var hún í djúpum uppvöskunar-þönkum og henni brá mikið.

Guð minn eini…Gústi Guðsmaður og allir hans vinir!
Þarna kemur Dagný inn… hvernig gat drengurinn vitað þetta?

Sorgar og gleðiminninga-TÁR

Gunnhildur vissi vel að hún var bara með blessaðan drenginn sinn í láni frá Guði og að líklega yrði hann ekki langlífur. Í dag veit hún miklu meira um þennan merkilega fæðingargalla og flestir með Downs syndróm geta lifað mun lengur en Gummi hennar gerði.
Hún var líka vel meðvituð um að þessi englabörn eru í útrýmingarhættu. Niðurstöður úr nútíma fósturvatnsskimun leiða oftast til fóstureyðingar þegar maður finnur þennan einkennilega guðsgjafar litningagalla.

Það var eins og að hann Guðmundur okkar allra eltist hraðar en aðrir og hann var orðin nauðasköllóttur fyrir tvítugt. Gunný tók líka eftir því að hann haltraði meira og meira, en aldrei klagaði Gummi Glaði.
Hann varð líka mjög móður og þreyttur eftir kaffipásugöngutúrana sína og þurfti oftast að leggja sig í hádeginu til þess að hafa orku í seinniparts vinnustaðaheimsóknirnar sína.

Tveimur dögum fyrir 25 ára afmælisdaginn sinn fékk elsku Gummi hjartaáfall sem tók hann frá okkur. Öll fyrirtæki og stofnanir á Siglufirði flögguðu í hálfa stöng þann daginn. Við jarðarförina var kirkjan full út af dyrum af fólki á öllum aldri sem vildi kveðja þennan yndislega dreng.

Söknuðurinn og sorgin var slík að sumir voru vart vinnufærir…
… Allt var eitthvað svo tómt og kaffitímarnir urðu soglegar stundir.

Skrítið að geta bæði hlegið og brosað hágrátandi… hugsar mamma Gunný og þurrkar burt minningatárin sín og síðan gengur hún að gamla plötuspilaranum sínum og setur á lagið sem alltaf er tilbúið til spilunnar.
Hún vandar sig mikið því hún vill ekki að hennar skjálfhentu hendur rispi þessa gömlu góðu hljómplötu.

Lagið þeirra Gumma og afa Péturs

Gunný minnist söngraddar afa Péturs og hans óendalegri ást á þessu lagi og sínum eina afastrák.
Þeir sungu þetta lag saman minnst 10 sinnum á dag í fleiri ár og einmitt þess vegna kunni Gummi þetta lag utan til.

Þú ert yndið mitt!

Þú ert yndið mitt yngsta og besta,

þú ert ástarhnossið mitt nýtt,

þú ert sólrún á suðurhæðum,

þú ert sumarblómið mitt frítt,

þú ert ljósið sem lifnaðir síðast,

þú ert löngunnar minnar Hlín.

Þú ert allt sem ég áður þráði,

þú ert ósk, – þú ert óskin mín.


Þórarinn Guðmundsson / Gestur
(Snerpa.is. Allt hitt. Textasafn)

Youtube. Lag og texti:
Þú Ert Yndið Mitt Yngsta og Besta
(Þórir Baldursson · Geir Ólafsson)

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Forsíðu ljósmynd:
Skollaskál og hjartalaga ský.
Kristín Sigurjónsdóttir.

Þakklætiskveðjur til Sólveigar Jónsdóttur góð ráð og yfirlestur.

Vísað er i heimildir og tónlist í slóðum í sögunni.

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar smásögur eftir sama höfund:

SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR

STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

AFGLAPASKARÐ

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”