Stundum er sagt að það séu til tvær tegundir af fólki, það sem trúir, og það sem trúir ekki á eitthvað yfirnáttúrulegt og óútskýranlegt.

Stundum finnst manni að ekki sé gott eða auðvelt að segja til um hvaða raunveruleiki gæti hugsanlega búið að baki sögum af einhverju yfirskilvitlegu, því oft eru sögumenn og konur trúverðugt og vandað fólk sem er ekki þekkt að því að fara með fleipur, og ólíklegt til að segja einhverjar slíkar sögur einungis til að upphefja sjálft sig og ná athygli hlustenda sinna.

Stundum er líka sagt að helmingur áheyranda fái gæsahúð um allan skrokk, á meðan hinn helmingurinn hlustar með öðru eyranu, aulaglotti á andlitinu og hugsar með sér að nú sé kominn tími á að vista þann sem söguna segir á viðeigandi stofnum.

Ég er hins vegar einn af þessum efasemdarmönnum sem trúi aldrei neinu fyrr en ég hef eitthvað í hendi og hef aldrei orðið var við neitt dularfullt sem ég treysti mér ekki til að útskýra á einhvern hátt. Samt finnst mér eitthvað undarlegt við að þau sem segja eftirfarandi sögur höfðu aldrei hist eða talað saman.

Aage Schiöth í Apótekinu. Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Dropi á nefið um miðja nótt.
Um mitt ár 1981 flutti ég ásamt þáverandi eiginkonu minni og þremur börnum inn á eftri hæð Aðalgötu 28 á Siglufirði sem við höfðum keypt þá skömmu fyrir áramótin.

Íbúðin hafði ekki fengið nægilegt viðhald um árabil og við fluttum til að byrja með aðeins inn í eitt herbergi, eldhús og bað. Fyrstu nóttina sem við gistum í húsinu fór að rigna, og það rigndi í gegn um þakið og milliloftið og ofan í mitt rúmið þar sem við sváfum öll.

Ég vaknaði við að fá dropa á nefið og fyrst hélt ég að einhver óviðkomandi væri inni í herberginu, en komst þó fljótlega að hinu rétta og sanna í málinu. Ég skrapp fram í eldhús og náði þar í pott sem ég setti undir lekann, en það gerði bara illt verra því þá splundruðust bara droparnir á botni pottsins og ýrðust yfir alla.

Ég stóð aftur upp og náði í handklæði og setti það ofan í pottinn, en þá fyrst var hægt að fara að sofa aftur. Ég fékk einhvern vegin á tilfinninguna að húsið hefði verið að senda okkur einhvers konar skilaboð en fannst það þó pínulítið skondið svona innra með mér. Þó hefur mér alla tíð fundist þetta virðulega hús hafa sinn sérstaka karakter og hef á einhvern hátt bundist því æ sterkari böndum eftir því sem árin hafa liðið.

Stigaopið sem staðið var fyrir. Ljósmynd: LRÓ.

Maðurinn sem sem stóð fyrir stiganum.
Þvottahúsinu hafði verið fundinn staður uppi í risinu einhverjum árum eftir að Aage Schiöth byggði húsið, en þangað hafði þá verið lagt fyrir köldu vatni og frárennsli og Siggi múrari fenginn til að steypa í gólfið og útbúa einhves konar þvottalaug sem leit út eins og baðker.

Það þurfti því að fara upp á loft með þvottinn, en þar uppi var reynar ekkert allt of mikil lýsing hér á árum áður.

Það var eitt kvöldið að ég kom nokkuð seint heim af hljómsveitaræfingu að húsfreyjunni var greinilega mjög brugðið. Hún sagðist hafa farið að sækja þvott upp í risið eins og svo oft áður, en þegar hún ætlaði að fara niður stigann var það hægara sagt en gert því að þá stóð maður í gangveginum sem vildi þaðan hvergi fara.

Hún reyndi að komast fram hjá honum, en lengi vel gekk það alls ekki. Eftir nokkrar tilraunir hafðist það þó og hún slapp fram hjá honum og niður á íbúðarhæðina. Ég fór upp í risið og svipaðist um eftir þessum óboðna gesti, en hann var þá hvergi sjáanlegur og hún varð hans ekki vör eftir þetta.

Árið 2002 var skipt um þak á húsinu og innveggir í risinu voru þá einnig fjarlægðir. Á myndinni má sjá Baldvin Kárason vera að brjóta niður steyptu þvottalaugina sem Siggi múrari bjó til, en Birgir Ingimarsson horfir hugsandi yfir svæðið. Ljósmynd: LRÓ.

Upp og niður stigann alla nóttina.
Síðla sumars sama árs fengum við næturgesti.

Forsaga þess máls var sú að ég hafði haustið áður sent inn lag í Söngvakeppni sjónvarpsins sem komst alla leið í undanúrslitin.

Ég var að vonum hæstánægður með þann árangur, því það hafði spurst út að alls hefðu borist 550 lög. Að keppninni lokinni þótti okkur rétt að láta reyna á hvort hægt væri að fylgja málinu eitthvað eftir og fórum til Akureyrar það sem lagið var tekið upp, en Erla Stefánsdóttir sem hafði áður sungið með hljómsveitinni Póló féllst á að vera gestasöngkona.

Það var svo um sumarið að hún kom frá Akureyri ásamt Leó Torfasyni gítarleikara og Viðari Eðvarðssyni saxófónleikara og söng með okkur á Hótel Höfn.

Stækkuðu Miðaldamenn við þetta talsvert að mannafla, gæðum og umfangi, en hljómsveitin var um þetta leiti aðeins tríó. Fleiri voru með í för Akureyringanna, og þar á meðal ein vinkona Erlu.

Um nóttina var svo mannskapnum skipt niður á bæina til að gista, og kom það í minn hlut að hýsa m.a. vinkonuna. Hún gisti í herbergi í norðausturhorni íbúðarinnar og urðum við ábúendur ekki vör við neitt óeðlilegt fyrr en um morguninn, en þá kom vinkonan fram, greinilega ósofin með öllu og heldur illa til reika.

Við spurðum forviða hverju sætti, en hún sagði okkur þá að hún hefði ekki fest blund vegna mannsins sem hefði verið að ganga upp og niður stigann sem lá upp við vegginn á herberginu í alla nótt. Hún skildi ekki hvað þessum manni hafði getað gengið til með svo undarlegu háttarlagi, horfði svolítið eins og ásakandi í áttina til mín og vildi greinilega gjarnan fá skýringar á þessu fáránlega framferði hans.

„Það er enginn stigi þarna“ svaraði ég.

„Jú víst“ svaraði hún ákveðin, stóð upp og togaði mig eftir ganginum. Hún skimaði í kring um sig eftir stiganum sem hvergi var sjáanlegur, og virtist verða mjög hissa á því að sjá hann ekki.

Fyrst varð svolítið vandræðaleg þögn, en svo fór ég að segja henni frá stiganum sem hafði einu sinni legið upp á loft einmitt þar sem herbergisveggurinn stóð núna og viðbrögðin létu ekki á sér standa.

Fyrst var eins og hún frysi föst við gólfið í þeim sporum sem hún stóð í, en svo fór um hana svolítill skjálfti, skelfingarsvipur breiddist yfir andlitið og einhver undarleg hljóð bárust frá hinum syfjaða næturgesti.

Þegar nokkuð hafði slegið á mesta eftirskjálftann vegna upplýsinganna um að ónæðið væri hugsanlega annars heims, stökk hún inn í herbergið, sópaði öllu sínu dóti ofan í íþróttatösku sem hún hafði meðferðis, hljóp við fót eftir ganginum og niður stigann.

Að lokum lokuðust útidyrnar með svolitlum skelli, en síðan þá hef ég hvorki heyrt eða séð, né haft nokkrar spurnir af stúlkunni þeirri arna.

Hann gekk upp og niður stigann alla nóttina. – Mynd af netinu.


Það var um aldamótin síðustu að Birgir Schiöth kom til Siglufjarðar og hélt sýningu á verkum sínum á miðhæð Ráðhússins.

Birgir hafði verið handavinnu- og teiknikennari minn í Gagganum meðan hann bjó enn á Siglufirði og er það svo sem ekkert ofsagt að við áttum ekki beinlínis skap saman á þeim unglingsárum mínum.

Ég mætti auðvitað á sýninguna og heilsaði upp á minn gamla kennara, en hann tók mér svolítið dræmt í fyrstu, sennilega minnugur okkar fyrri samskipta. Ég spurði hann hvort hann vildi ekki kíkja í svolítið kvöldkaffi og líta aðeins á æskustöðvarnar í leiðinni.

„Ertu einn hérna í bænum núna“ spurði hann með eins og svolitlum semingi og ég sá að hann var á báðum áttum.

„Nei, mamma er líka stödd hérna“ svaraði ég.

„Nú það væri bara gaman“ svaraði hann þá og hýrnaði allur við.

Og Birgir kom þá um kvöldið og staldraði við fram eftir kvöldi. Við gengum um húsið og hann sagði mér sögur af sínum uppvaxtarárum þar, benti mér á hvar hann hafði fæðst, hvað hefði breyst og einnig hvar hefðu verið tveir stigar sem ætlaðir voru þjónustufólkinu sem bjó á loftinu.

„Hefurðu ekki orðið var við manninn sem er hérna í húsinu“ spurði hann svo allt í einu.

Nei ég sagðist ekki hafa gert það, en sagði honum frá atvikinu með manninn sem gekk upp og niður stigann. Hann sagði mér þá að þessi maður hafi haldið sig í húsinu frá því að það var byggt, en enginn vissi nein deili á honum. Aldrei hafði neinn látist innan veggja hússins frá því að það var byggt árið 1930, en hann bætti því við að ekkert væri að óttast því gesturinn sem fáir sáu eða þekktu hið minnsta til, væri í raun hinn besti karl sem gerði engum mein.

Ég benti honum þá á að áður en húsið var byggt, hafi annað hús staðið á sama grunni og þar gæti auðvitað skýringarinnar verið að leita.

„Þú segir nokkuð“ sagði hann þá hugsandi, en skömmu síðar þakkaði hann fyrir sig og kvaddi.

Þetta reyndist vera í síðasta skiptið sem ég hitti Birgir Schiöth.

Húsið sem stóð áður á grunninum þar sem Aðalgata 28 stendur núna, en það var flutt á baklóð sennilega árið 1929 og hýsti þá gosdrykkjaframleiðslu apótekarans, en þar var m.a. framleitt hið geysivinsæla Valash. Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.


En að lokum skora ég á allar afturgöngur, drauga, móra og skottur sem gætu verið að lesa þetta, að láta nú svolítið meira á sér bera en undanfarna áratugi, því fátt jafnast á við góða draugasögu eða eitthvað sem enginn getur með nokkru móti skýrt með góðum rökum.

Leó R. Ólason.

Forsíðumynd: Aðalgata 28 Siglufirði. Ljósmynd LRÓ.

Söguseríuna “Poppað á Sigló” og fjölmargar fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.