Með komandi 17 júní hátíðarhöld 2022 og heimþrá í huga, byrjuðu minningamyndir og gamlir smellir að streyma og hljóma inn í haus pistlahöfundar um Karlakórinn Vísir sem var stolt Siglufjarðar í lok sjöunda og byrjun áttunda áratug síðustu aldar.

Minningar um að hafa farið á samkomur í Nýja Bíó og séð einmitt þetta sem forsíðumyndin sýnir okkur, karlakór sem er samtímis risastór popphljómsveit, sem var gríðarlega vinsæl og fræg í óskalagaþáttum Íslenska ríkisútvarpsins. Hljómsveitin Gautar og blandaður kvartett er þarna líka og kórstjórnandinn er reffilegur karl frá Austur- þýskalandi, sem spilar undursamlega undir á trompet.

Úr þessu verður minnst sagt dásamleg og eftirminnileg sér-Siglfirsk tónlistarblanda og ég fæ enn í dag gæsahúð þegar ég heyri Gerhard Walter Schmidt eða (Geirharð Valtýsson) eins og hann hét á þeirra tíma íslensku, taka trompet sóló í hinu fræga og kraftmikla karlakórslagi, CIRIBIRIBIN.

Það var eins og að sjálfur Louis Armstrong og allir hans syngjandi vinir væru mættir hingað heim á Sigló.

Hér urðum við bæjarbúar vitni af nýrri íslenskri tónlistarbyltingu.

Stærsta popphljómsveit Íslands! Karlakórinn Vísir, hljómsveitin Gautar og blandaður kvartett. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

ATH. Hér er ekki ætlun greinarhöfundar að segja ævisögu karlakórsins Vísis, heldur aðeins að rifja upp þetta merkilega tímabil í menningarsögu Siglufjarðar og benda á athyglisvert áður birt efni sem hægt er að finna sér til skemmtunar á alnetinu stóra. Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta stækkuðum ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla myndatexta og söguna í heild sinni.

Gerhard Schmidt/ Geirharður Valtýsson

Mynd af umslagi minningargeisladisks um þennan merkilega kórstjórnenda Vísis sem kom út 2011, enn hann lést í Berlín haustið 2010. Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.

Í texta sem fylgir með þessum skemmtilega minningageisladiski má meðal annars lesa eftirfarandi um Gerhard:

“Segja má að stjarna kórsins hafi risið einna hæst síðari hluta sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar á tímum þeirra Sigurjóns Sæmundssonar formanns kórsins og Gerhards Schmidt stjórnanda. Rétt þykir því, að öllum öðrum ólöstuðum, að færa þeim sérstakar þakkir fyrir störf þeirra í þágu kórsins.

Farnar voru óhefðbundnari leiðir en áður hafði þekkst hvað varðaði lagaval og undirleik. Það var ekki aðeins að félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands kæmu að undirleiknum, heldur heyrðist nú einnig í rafmagnshljóðfærum og fannst þá mörgum unnendum hefðbundinnar kórtónlistar nokkuð langt gengið. En þessi nýja stefna féll fólkinu í landinu vel í geð, haldnir voru tónleikar út um allt land og alltaf fyrir troðfullu húsi og plötur kórsins rokseldust, sem varð til þess að kórinn fór í ársbyrjun 1968 á hina frægu tónlistarhátíð í Cannes í Frakklandi og söng þar. Ástæða þess að ráðist er í útgáfu þessa geisladisks nú á árinu 2011 er fyrst og fremst sú að minnast söngstjórans, trompetleikarans og útsetjarans Gerhards Schmidt eða Geirharðs Valtýssonar.”

Kórfélagar Karlakórsins Vísir í Frakklandi. Frá vinstri : ?, Óli Geir Þorgeirsson, Helgi Hallsson, Sveinbjörn Tómasson, Anna Lára Hertevig, Sigþór Erlendsson, Guðmundur Ó. Þorláksson, Steingrímur Kristjánsson, Sigurður Gunnlaugsson, Gísli Þorsteinsson, fyrir aftan Gísla er Elías Þorvaldsson ?, Þórður Kristinsson, Árni Th. Árnason og Jónmundur Hilmarsson. Ljósmyndari: Ókunnur

“Gerhard kom ásamt konu sinni Gisellu hingað til lands frá Leipzig í Austur – Þýskalandi sumarið 1961, þá 32 ára gamall. Gerhard hafði verið ráðinn sem tónlistarkennari við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar í Siglufirði. Óskar Garibaldason sem var verkalýðsleiðtogi í Siglufirði í áratugi og mikill áhugamaður um tónlistarkennslu mun hafa verið Sigursveini innan handar um ráðninguna. Sjálfsagt þurfti að nota pólitískar leiðir og sambönd til að koma ungu hjónunum frá austrinu og vestur fyrir járntjald.

Tónskólinn starfaði með blóma og sumir af nemendum Gerhards frá þeim tíma gerðu tónlistina að ævistarfi sínu. Má þar nefna Jón Sigurbjörnsson sem lengi var flautuleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Elías Þorvaldsson sem verið hefur skólastjóri Tónskólans í Siglufirði í áraraðir og mikill áhrifavaldur í tónlistarlífi í Siglufirði. Nokkur lægð hafði verið í starfi Karlakórsins Vísis á þessum árum og var Gerhard fenginn sem stjórnandi kórsins. Gerhard starfaði með Vísi allt þar til hann sneri aftur til Berlínar árið 1976.

Gísella Schmidt. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Hann var frábær trompetleikari og oftar en ekki stjórnaði hann kórnum með annarri hendinni og trompetinum með hinni. Kórinn hljóðritaði á þessum tíma þó nokkuð af efni sínu og eru þær upptökur til og vel varðveittar. Gerhard var fjölhæfur tónlistarmaður og spilaði t.d. með hinni vinsælu hljómsveit „Gautar” um árabil, sem bassaleikari. Þegar Íslandsdvöl Gerhards lauk fluttu þau hjón með „siglfirskar” dætur sínar tvær, Söndru og Silju, aftur til Berlínar. Gerhard hóf þar störf við hljómsveit lögreglunnar og var þar til starfsloka sinna. Gerhard lést í Þýskalandi s.l. haust, en ekkja hans Gisella býr í Berlín.”

Blessuð sé minning Gerhards Schmidt. 

Sjá meira hér í pdf skjali á sigló.is.   og

Sala á geisladisk með Karlakórnum Vísi.
sksiglo.is | Almennt | 28.06.2011 |Guðmundur Skarphéðinsson 

ATH: Pistlahöfundur veit að Siglfirski tónlista- og sögumaðurinn Leó Óla er með ýtarlegri grein í smíðum um Gerhard og vonandi fá lesendur trölli.is að lesa meira fljótlega um þennan merkilega tónlistarmann.

Leó hefur einnig skrifað ýtarlega grein um sögu Vísis í Siglfirðingablaðið og í fyrra birtist hér á trölli.is einnig góð grein um hin sögufræga kórstjóra, Þormóð Eyjólfsson. Hann var mikil driffjöður í ýmsum málefnum bæjarins og lokkaði (keypti) til sín góða söngvara víðsvegar að af landinu eins og knattspyrnufélög gera og efldi þannig orðstír Vísis og Siglufjarðar samtímis. Þormóður var ein af stofnendum kórsins og kórstjóri í áratugi.

Fáein orð um Þormóð Eyjólfsson

Sjá einnig Leó skrifar um Karlakórinn Vísir á heimildarsíðu Steingríms Kristins.

Einnig er vert að benda á góða samantekt um sögu karlakórsins Vísir í Glatkistan.com eftir Helga Jónsson:
Karlakórinn Vísir (1923-83)

Karlakórinn Vísir, hljómsveitin Gautar og blandaður kvartett

Það var stórkostleg upplifun að sjá og heyra t.d. Guðmund Gauta syngja dásamlegan texta Bjarka Árna við fallegt Ítalskt lag í Lindin tær, við undirleik hjá Gautum og með bakraddir frá stórum karlakór eða blandaðan kvartett syngja Kveiktu ljós með karlakórnum.

En svo er einhver undarleg fegurð í að heyra Vísismenn syngja með trompetundirleik frá Gerhard. Hreinn og beinn tónlistargaldur og hér undir er hægt að sjá og heyra hvað þetta er falleg blanda í myndbandi sem Siglfirðingurinn Guðjón Björnsson klippti saman og birti á YouTube.

Skjáskot úr myndbandi á YouTube.com, syrpa með Karlakórnum Vísi. Á áttundu mínútu byrjar Gerhard nýtt lag með trompet spili og þar heyrum við greinilega hvað þetta á vel saman, trompet og karlakór. Gaui segist sjálfur ekki vera neitt sérstaklega hrifinn af kóratónlist en hann kynnir myndbandið með eftirfarandi orðum:
“Var að yfirfara og klippa til gömul VSH, rakst ég á myndband af Karlakórinn Vísir á Siglufirði og hljómsveitin Gautar, veit ekki hvar þetta er tekið, er ekkert hrifin af karlakórum en læt þetta hér til gamans :)”
Gautar og blandaður kvartett. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Hljómsveitin Gautar frá Siglufirði er ein af lengst starfandi hljómsveitum Íslands og til eru margar útgáfur af þessu sögufræga bandi. Hljómsveitin Gautar ásamt konum sínum. Fremri röð frá vinstri : Guðný Jónasdóttir, Sigurrós Arthúrsdóttir, Gísela Schmith, Svanhildur Eggertsdóttir og Erna Karlsdóttir. Aftari röð frá vinstri : Jónmundur Hilmarsson, Ragnar Páll Einarsson, Gerhard Schmith, Guðmundur Þorláksson og Þórhallur Þorláksson. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Metsöluplata og frægðarför til Frakklands

AÐFARANÓTT sunnudags, 21. janúar 1968 lagði Karlakórinn Vísir, 47 manna  hópur, af stað frá Siglufirði og var förinni heitið til Cannes í Suður-Frakklandi.
Þá tók Heimir Stígsson ljósmyndari frá Keflavík þessa frábæru ljósmynd sem hér fylgir. Heimild: Enn eitt gullkornið
sksiglo.is | Norðlenskar fréttir | 18.01.2010 |Helga Sigurbjörnsdóttir.

Í texta Helga Jóns á Glatkistunni.com er sagt skemmtilega frá þessari frægðarför til Frakklands og metsöluplötu Karlakórsins Vísis:

“… Skyndilega var karlakórinn orðinn stolt Siglufjarðar og landsþekktur fyrir gæði, talinn meðal bestu karlakóra Íslands. Geirharður var ennfremur óhræddur við að fara nýjar leiðir í nálgun sinni, undir hans stjórn fór kórinn í samstarf við „bítlasveitina“ Gauta sem starfaði á Siglufirði sem Geirharður lék reyndar sjálfur með um tíma. Það samstarf átti eftir að vara í nokkur ár.”

Á árshátíð SR 1963. Guðmundur Þorláksson, Viðar Magnússon, Ragnar Páll Einarsson (Bítla-hljómsveitin Gautar)
Karlakórinn Vísir og Gerhard Schmidt. Tónleikar á Hótel Höfn 1969. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

“… Árið 1966 var á margan hátt hápunkturinn í sögu Karlakórsins Vísis þess utan. Tvær plötur komu út með kórnum, lítil fjögurra laga jólaplata kom út á vegum Fálkans…..

Jólaplata Karlakórsins Vísis komin í sölu

… og einnig breiðskífan Þótt þú langförull legðir: 14 innlend og erlend lög. Sú plata hlaut heldur betur góðar viðtökur, seldist í um þrjú þúsund og fimm hundruð eintökum sem var einsdæmi með kórtónlist og var síðan endurútgefin 1974.

Og í lok ársins (1967) spurðist út að kórnum hefði verið boðið að syngja á MIDEM tónlistarráðstefnunni sem haldin yrði í Cannes 1968, tilefnið var að platan hefði orðið sú söluhæsta á Íslandi á tilteknu tímabili.”

Metsöluplata Vísis. Mynd lánuð frá samantekt á útgáfulista Glatkistan.com á verkum karlakórsins Vísir.  Þetta er óvenjulega langur listi fyrir útgáfu á karlakórstónlist.

… Kórinn þekktist að sjálfsögðu þetta góða boð og fór til Frakklands til að veita viðurkenningu viðtöku, silfurskildi með áletruðu nafni kórsins. Sagan segir að runnið hefðu tvær grímur á andlit stjórnenda hátíðarinnar þegar kórinn mætti á svæðið því þeir hefðu ekki haft hugmynd um að um væri að ræða fimmtíu manna karlakór sem kórinn var þá.

En Vísir hlaut ágæta auglýsingu þegar kórinn söng á hátíðinni fyrir fullu húsi, en söng kórsins var útvarpað víða og sjónvarpað reyndar einnig – í lit.” (Glatkistan.com. Helgi J / 03/01/2016)

“Þótt þú langförull legðir”: 14 innlend og erlend lög
Útgefandi: Fálkinn
Útgáfunúmer: CPMA 17
Ár: 1966 / 1974

 1. Þótt þú langförull legðir
 2. Lákakvæði
 3. Kvölda tekur, sezt er sól
 4. Dýravísur
 5. Siglingavísur
 6. Um vorkvöld bjart
 7. Það laugast svölum
 8. Stormur lægist
 9. Hæ, gott kvöld
 10. Ciribiribin
 11. Troika
 12. Kveiktu ljós
 13. Ljóð mitt og lag
 14. Miðnæturstemning

Flytjendur:
Karlakórinn Vísir – söngur undir stjórn Gerhard Schmidt
Sigurjón Sæmundsson – einsöngur
Gerhard Schmidt – einleikur á trompet
Kvartett:
– Guðný Hilmarsdóttir – söngur
– Guðmundur Þorláksson – söngur
– Magðalena Jóhannesdóttir – söngur
– Marteinn Jóhannesson – söngur
Hljómsveit:
– Elías Þorvaldsson
– Gerhard Schmidt
– Jónmundur Hilmarsson
– Tómas Sveinbjörnsson
– Þórhallur Þorláksson
(Samantekið af: Glatkistan.com. Helgi J / 03/01/2016)

Okkar glaða söngvamál. Karlakórinn Vísir 1969. Ljósmynd lánuð frá Glatkistan.com.
Bjarki Árnason. Ljósmyndari óþekktur.

Á vinyl plötunni “Okkar glaða söngvamál” eru nokkur lög sem eru okkur Siglfirðingum einstaklega kær og kemur laga og textahöfundurinn Bjarki Árnason við sögu í nokkrum af þeim, en það eru t.d. lögin “Lindin tær” og “Siglufjörður,” þjóðsöngur okkar Siglfirðinga.

Helgi í Glatkistunni nefnir einnig þessa merkilegu hljómplötu í sinni samantekt:

1969 kom út önnur breiðskífa á vegum Fálkans. Sú fékk heitið Okkar glaða söngvamál og hlaut ágæta dóma í Tímanum og Morgunblaðinu en þá var ekki sjálfgefið að kóraplötur fengju gagnrýni í fjölmiðlum. Platan var tekin upp í sal Ríkisútvarpsins vorið 1969 þegar kórinn var á söngferðalagi sunnanlands, tuttugu lög voru tekin upp í þessari upptökulotu og fimmtán þeirra enduðu á plötunni.

Á umslagi plötunnar segir að „hljómsveit Vísis“ leiki á henni, líklegt er að þar sé um að ræða hljómsveitina Gauta. Laust textablað fylgdi með breiðskífunni en slíkt var ekki algengt á þeim tíma.

Sem fyrr segir naut Karlakórinn Vísir almennrar hylli og vinsælda og söng kórinn m.a. á útihátíð sem haldin var í Húsafelli um verslunarmannahelgina 1970.

Þar var kórinn innan um poppsveitir eins og Trúbrot, Náttúru, Ævintýri og Óðmenn svo dæmi séu nefnd.”
Sjá meira hér:

Karlakórinn Vísir (1923-83)

Helgi J / 03/01/2016

Karlakórinn Vísir – Okkar glaða söngvamál
Útgefandi: Fálkinn
Útgáfunúmer: CPMA 25
Ár: 1969
1. Sjómannalíf
2. Dans úr Zorba / Hora staccato
3. Okkar glaða söngvamál
4. Saga Florians
5. Ár vas alda
6. Siglufjörður
7. Sólskinsbarn
8. Sem lindin tær
9. Aðeins til þín
10. Rifjaðu upp Shakespeare / Wunderbar
11. Allir sveinar af stað
12. Fjalladrottning, móðir mín
13. Í dag
14. Ó, dalur, hlíð og hólar
15. Smalaljóð
(Samantekið af: Glatkistan.com. Helgi J / 03/01/2016)

Karlakórinn Vísir í stjórnartíð Hauks Guðlaugssonar. Haukur situr við hliðina á Guðnýju Fanndal. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Að lokum….

Fyrir utan ofannefndar safnplötur með áður endurútgefnu efni frá Karlakórnum Vísi, er þessi safnskífa í miklu uppáhaldi hjá greinarhöfundi:

40 lög frá liðinni öld með karlakórnum Vísi. 2004. Öll gömlu lögin á tveimur diskum. Þar á meðal hin sívinsælu; Vor í dal, Siglufjörður, Sem Lindin tær, Ciribiribin og Kveiktu ljós. Karlakórinn Vísir ásamt blönduðum kvartett frá Siglufirði. Undirleikarar: Hljómsveit Vísis ásamt félögum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eftir því sem best er vitað voru flest allar upptökur gerðar hjá Ríkisútvarpinu. (Texti lánaður frá bakhlið safnskífunnar.) Ljósmynd: Vigfús Sigurgeirsson.

En það ríður engin feitum Vísis hesti á músík streymiveitunni Spotify, því miður….

Skjáskot frá Spotify með leitarorðunum “Karlakórinn Vísir” En með leit með sömu orðum á YouTube.com koma upp nokkur eldri lög karlakórsins Vísis.

Það er þó ljóst að mikið af efni með karlakórnum Vísi er nú þegar til í stafrænu formi og hafa margir góðir hljóðsnillingar lagt hönd á plóg.
Eins og t.d. Gunnar Smári Helgason, ritstjóri trölli.is.

Í samtali við tónlista- og sögumanninn Leó Ólason, en hann lagði mikinn tíma í útgáfuna á safnplötunni frá 2004, kom fram að það skapaðist þar þó óvænt vinna eftir að STEF samtökin bentu á að útilokað væri að samþykja endurútgáfu án þess að rétt sé getið til um laga og textahöfunda efnisins. Það var því miður algengt hér áður fyrr að rangfeðra lög og texta með orðum eins og “gamalt þjóðlag” eða bara ítalskt dægurlag… o.s.f…

Þessu hefur samt öllu verið kippt í lag og í rauninni ekkert því til fyrirstöðu að gera þessa einstöku Siglfirsku tónlist aðgengilega fyrir alla á t.d. Spotify. En… Úps!, hver á svo sem að sjá um það, því karlakórinn Vísir er ekki lengur til sem kór eða útgefandi.
Reyndar komst greinarhöfundur að því í spjalli við Bjarna Þorgeirsson, eldhressan ellismell og gamlan meðlim í Vísi að hann sé enn prókúruhafi fyrir sjóði sem ber nafn Vísis og voru peningar úr honum settir í endurútgáfu á áðurnefndri jólaplötu 2020. Því miður tókst ekki vel til með að selja þessa 7″ vinylplötu í miðjum veirufaraldi veturinn 2020. Nokkur hundruð plötur eru enn óseldar.

En það væri draumur í dós að við öll, sem dáumst af þessum merkilega karlakór sem svo sannarlega lagði sitt að mörkum í tónlistarsögu Íslands, gætum heyrt þessi lög um alla eilífð gegnum netið.

Því þannig og bara þannig, lifir Karlakórinn Vísir áfram í okkur öllum og framtíða kynslóðir geta þá tekið undir í Okkar glaða Siglfirska söngvamáli.

Bestu Siglókveðjur og gleðilega þjóðhátíð.
Nonni Björgvins

17 júní á Siglufirði. Karlakórinn Vísir. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Já, þessi samantekt er um karla í karlakór, en samt sungu minnst tvær konur með þessu fræga KARLA-kór. Á þessari skemmtilegu loka ljósmynd sem okkar eini og sanni ljósmyndasögu snillingur, Steingrímur Kristinsson tók á einni af fjölmörgu árlegum söngskemmtun í Nýja Bíó. Má sjá að það var og er auðvitað enn til kvennakór líka heima á Sigló og Geirharður Valtýsson var að sjálfsögðu þar og aðstoðaði með stjórnun, undirleik og útsetningu laga.

Á sviðinu í Nýja -Bíó 1969. Silke Óskarsson og Gerhard Schmidt ( Gerharð Valtýrsson ) settu upp söngskemmtun sem hét Sigló- sól. Á sviðinu er Silke og kvennakór Siglufjarðar ásamt hljóðfæraleikurum.

Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir í greinartexta.