Þau stórskemmtilegu “mistök” urðu í frétt á trolli.is í gær, að forsíðumynd fréttarinnar – sem var um gamla Suzuki Grand Vitara – er af Suzuki Vitara en ekki Grand Vitara. Reyndar var því hvergi haldið fram að forsíðumyndin væri af Grand Vitara, en nóg um það.
Eitthvað fór þetta fyrir brjóstið á a.m.k. einum lesanda sem gerði athugasemd, þannig að haft var samband við Guðna Sveinsson á Siglufirði til að falast eftir myndum af Suzuki bílum, enda Guðni búinn að gera upp, breyta og bæta ófáar “Súkkurnar”.
Það stóð ekki á svari frá Guðna, sem sendi okkur þessar myndir af Suzuki bílum sem hann hefur gert upp og breytt verulega í sumum tilfellum.
Að sögn Guðna eru á myndunum, þó ekki í þessari röð: Suzuki Vitara japönsk á beltum, Suzuki Fox á 46″ dekkjum, “Bellan” hans Guðna sem er Suzuki Sidekick og er Canada gerðin af Vitara en þó samskonar bílar á 44″ sem hann sagaði í sundur, færði á henni húsið smíðaði pall á hana og setti undir 44″ dekk. Líklega sá eini svona í heiminum.
Verk Guðna er stórmerkilegt og væri efni í heilan bálk ef út í það er farið, þetta er aðeins örlítið brot af verkum hans.
Myndir: Guðni Sveinsson.