Siglfirðingur.is birti frétt í gær þar sem farið var yfir ótíðina síðustu tvo mánuði og áhrif hennar á samgöngur.

Segir þar að síðustu tveir mánuðir rúmir hafa verið erfiðir þeim sem búa yst á norðanverðum Tröllaskaga, þeir hvorki komist lönd né strönd langtímum saman, og eru íbúarnir nú teknir að velta því fyrir sér hversu oft vegirnir til og frá Siglufirði hafi eiginlega verið lokaðir á því tímabili.

Siglfirðingur.is ákvað að senda fyrirspurn þessa efnis til Vegagerðarinnar og fékk svar litlu síðar. Þar kom í ljós að frá 10. desember 2019 til 17. febrúar 2020 hefur Siglufjarðarvegur verið lokaður 22 sinnum og frá 10. desember 2019 til 10. febrúar 2020 Ólafsfjarðarvegur 13 sinnum.

Inni í þessum tölum eru ekki tilkynningar á heimasíðu Vegagerðarinnar um óvissustig vegna snjóflóðahættu á Siglufjarðarvegi og ekki heldur SMS-sendingar um óvissustig á Múlavegi, sem hafa verið fjölmargar, þar af ein í fyrrakvöld, þegar óvissustig var beggja vegna.

Nánari upplýsingar um lokanirnar má sjá í meðfylgjandi töflu.

Smella á myndina til að skoða hana stærri.

Forsíðumynd tók Halldór Gunnar Hálfdánsson þegar verið var að loka Siglufjarðarvegi.