Eins og fram hefur komið fór aðalfundur Einingar-Iðju fram í gær þar sem Björn Snæbjörnsson lét af formennsku eftir 31 ár í formannsstólnum.
Anna Júlíusdóttir, sem hefur verið varaformaður, er nýr formaður félagsins og Tryggvi Jóhannsson, formaður Matvæla- og þjónustudeildar verður starfandi varaformaður út starfsárið. Tryggvi mun hefja störf á skrifstofu félagsins þann 15. maí nk.
Í lok fundar sagði Anna nýkjörinn formaður félagsins eftirfarandi orð. „Kæru félagar, nú er komið að lokum þessa fundar og langar mig að segja nokkur orð. Að taka við sem formaður í stærsta stéttarfélagi á landsbyggðinni er stórt verkefni og mikil áskorun. Því vil þakka ykkur traustið.
Þið félagsmenn eruð félagið, ekki formaðurinn og því er mikilvægt að þið séuð í samskiptum við félagið, takið þátt og mætið á fundi. Mín helsta von er að verkalýðshreyfingin sameinist um að standa saman, en með því náum við bestum árangri.
Ég vil þakka frábærri stjórn, starfsfólki og trúnaðarmönnum fyrir mikilvæg störf, síðast en ekki síst vil ég þakka mentornum mínum honum Birni Snæbjörnssyni fyrir farsælt samstarf sem mun halda áfram fram á haust, en ég er afar heppin með það. Einnig vil ég bjóða Tryggva Jóhannsson velkominn til starfa sem varaformaður félagsins.
Ég minni á að skrifstofan mín er ávallt opin og öllum velkomið að koma og ráða málin.
Fundi er slitið og ég þakka ykkur fyrir komuna.“
Mynd/Eining-Iðja