Allt fé frá bænum Bergsstöðum, þar sem riða greindist í síðustu viku hefur nú verið skorið niður. Samtímis niðurskurðinum voru kindur af nokkrum öðrum bæjum sem keyptar höfðu verið frá Bergsstöðum aflífaðar og sýni tekin úr þeim. Við rannsókn á sýnunum reyndist ein þeirra vera jákvæð. Hún var frá bænum Syðri-Urriðaá sem er nágrannabær Bergsstaða. Endanleg staðfesting á greiningunni barst frá Tilraunastöð HÍ að Keldum nú síðdegis. Matvælastofnun hefur lagt til við Matvælaráðuneytið að fyrirskipaður verði niðurskurður á öllum kindum á bænum sem eru um 720.
Mikilvægt er að hraða aðgerðum þar sem komið er fast að sauðburði. Því miður er bilun í sorpeyðingarstöðinni Kölku á Suðurnesjum þar sem hræ af riðubæjum eru venjulega brennd. Umhverfisstofnun vinnur nú að því að finna aðra ásættanlega leið til að farga hræjunum. Takist ekki að skera niður á allra næstu dögum verður að fresta aðgerðum fram á sumar. Það kallar á ýmsar kostnaðarsamar og flóknar ráðstafanir til að hindra útbreiðslu smitsins.
Húnaþing vestra hefur boðað upplýsingafund fyrir íbúa á svæðinu þriðjudaginn 18. apríl kl. 20 á Laugarbakka. Fulltrúar Matvælastofnunar verða með erindi á fundinum og sitja fyrir svörum.