Það var alltaf mikil spenna í kring um áramótabrennur. Ég man fyrst eftir mér, líklega 4 til 5 ára að potast upp í hlíðina fyrr ofan byggðina á bökkunum, með skókassa fullum af efni í brennuna. Pabbi hafði sett dagblöð í kassann og bundið um með snæri. Ég man vel að kassinn var þungur fyrir mig sem var ekki hár í loftinu og það tók talsverðan tíma að komast alla leið uppeftir. En ánægjan var mikil þegar ég fékk að setja skókassann í bálköstinn. Þá voru margir eldri krakkar á fullu við að bera efni uppeftir og hlaða köstinn.

Eitt árið er mér sérstaklega minnisstætt. Þá var ég orðinn níu eða tíu ára og virkur í að safna. Okkur hafði gengið vel að fá allskonar efni, umbúðir og spítnabrak, sem var geymt í skúrum hingað og þangað. Svo fengum við slatta af síldartunnum frá síldarplani sem þurfti að rýma fyrir öðru. Í minningunni voru þetta mjög margar tunnur, fleiri vörubílafarmar.

Við fengum einn af vörubílstjórunum í bakkahverfinu til að hjálpa okkur að sækja tunnurnar á planið. Þegar við höfðum losað fyrsta farminn úti í bakka og komum til að sækja meira mættum við öðrum vörubíl fullum af tunnum og krökkum úr Reitnum. Okkur tókst ekki að stöðva bílinn og sáum eftir tunnunum upp í Reit.
Reiðin ólgaði í okkur. Það var eitthvað eftir af tunnum sem við fórum með úteftir. En við svo búið mátti ekki standa.

Það var gott veður, stilla og snjór yfir öllu. Við lögðum á ráðin. Það voru stærri strákar sem stýrðu aðgerðum. Okkur minni krökkunum var skipt í hópa, svona þrjú og fjögur í hóp, og hver hópur hafði fleiri sleða. Við útveguðum hnotu með snæri og skárum upp í spotta og skiptum á milli hópanna. Svo var annar hópur með eitthvað eldri krökkum.
Sá hópur útbjó sig með slatta af frosnum snjókúlum.

Aðgerðin var sú að um kvöldið færu sleðahóparnir um hlíðina ofan við Hólaveginn, sunnan við Rafstöðina, og nálgaðist Reitar-brennuna, sem var ofan við gryfjurnar. Á meðan færi hinn hópurinn um Hólaveginn og dúndruðu snjókúlum í perurnar í götuljósunum og myrkvuðu hverfið. Sleðakrakkarnir komust óséð að brennunni og tóku til við að hlaða tunnum á sleðana, binda þær fastar með snæri og halda síðan sömu leið til baka í myrkrinu, sem nú var talsvert meira þar sem engin götuljós lýstu.

Auðvitað kom fólk aðvífandi og reyndi að ná í sökudólgana sem höfðu stútað öllum perunum, en þeir voru á bak og burt. Sleðakrakkarnir komust óhult alla leið út í hlíð að bakkabrennunni og þar var tekið við að hlaða tunnunum á köstinn í einhverri birtu frá fáeinum blysum og vasaljósum.

Okkur tókst að ná aftur mest öllum tunnunum sem „stolið“ var frá okkur. Reyndar heyrðum við af því eftirá, að sá sem gaf tunnurnar hafi séð að sér og viljað skipt tunnunum á milli hverfanna, en það var of seint þegar þær voru brunnar á stærsta bálkestinum á Siglufirði það árið.

Annar leikur í keppninni um stærstu brennuna og mesta bálið var að útvega nógu mikla olíu til að ausa á bálið. Það var hefð að olíufélögin gæfu olíu, þ.e. BP og ESSO. Og af því að BP var eiginlega okkar félag þar sem Gústi, sem keyrði BP olíubílnum, átti heima í hverfinu, þá væntum við þess að við fengjum meira þaðan. Stórum olíutunnum var komið fyrir og svo komu olíubílarnir og fylltu á. En hvers vegna við áttum stundum þrjár fullar olíutunnur veit ég ekki. Kannski var Gústi þar að verki? Kannski er þetta bara vitleysa og allar brennurnar fengu jafnt. Samt situr þetta í mér.

Okkar brenna, bakkabrennan átti að vera stærst. Mér fannst alltaf mikið koma til þeirra sem fengu að ausa olíu á bálið. Það var í mínum augum mesta virðingarstaðan. Þeir sóttu fulla fötu af olíu og nálguðust bálið hægfara, það var ansi heitt að nálgast, og sveifluðu svo fötunni og þegar olían náði eldinum gaus upp mikið bál. Þá heyrðist undrunarómur í áhorfendum, sem oft voru margir þarna uppi í hlíðinni.

Það var kveikt í brennunni og fólkið safnaðist saman. Flugeldar skutust upp í kvöldmyrkrið og strákar skemmtu sér við að sprengja kínverja.

Bálið brann vel og var að mestu brunnið fyrir klukkan 12 þegar ómurinn frá kirkjuklukkunum barst alla leið úteftir. Þetta voru miklir viðburðir í lífinu, að brenna gamla árið. Ég gerði mér eiginlega ekki grein fyrir hvað það merkti, en miðað við alla þá vinnu, öll sporin uppeftir með brennudót, þá hlaut þetta að vera einn mikilvægasti
atburður ársins.

Ég segi „við“ í þessari frásögn, en ég var bara lítill strákur sem fékk að vera með öllum hinum og hvort þetta var svona í raun og veru, eins og ég man það, er annað mál, ég man bara ekki annað.

Gleðilegt nýtt ár allir Siglfirðingar, heima og heiman!

Mynd/Ljósmyndasafn Siglufjarðar