Nú eru áramótin framundan og áframhaldandi veisluhöld hjá okkur mannfólkinu. Margir fagna áramótunum með skoteldum, með tilheyrandi hvellum og blossum. Fæstum dýrum er hinsvegar vel við slík læti og geta bæði hljóðin, höggbylgjan og blossinn valdið sumum þeirra ofsahræðslu sem getur leitt til slysa á þeim sjálfum og öðrum. Þann 28. desember mátti hefja sölu á flugeldum og eru hvellir og sprengingar farin að heyrast víða.
Mikilvægustu skilaboðin til þeirra sem eru að nota skotelda og forráðamanna þeirra, er að virða reglugerð um skotelda og leyfilegan notkunartíma! Þannig geta dýraeigendur með hrædd dýr gert ráðstafanir fyrir dýrin sín á þeim tíma. Undanþága frá banni við notkun á skoteldum er frá 28. desember til 6. janúar en öll notkun er bönnuð frá klukkan tíu að kvöldi til klukkan tíu að morgni alla þessa daga nema á nýársnótt. En þó heimilt sé að nota skotelda yfir daginn þessa daga, þá er eindregið ráðlagt að takmarka notkunina eins og hægt er, helst að nota þá einungis á gamlárskvöld og þrettándanum af tillitssemi við öll dýr. Sér í lagi er mikilvægt að sprengja ekki á daginn í nálægð við hesthúsahverfi þar sem slysahættan er mjög mikil ef flugeldur springur rétt hjá fólki í útreiðum. Hestar eru flóttadýr í eðli sýnu og taka oftast á rás ef þeir verða hræddir með tilheyrandi hættu fyrir knapa og nærliggjandi umferð.
Fyrir gæludýraeigendur eru mikilvægustu skilaboðin að halda köttum alfarið inni þessa dagana og hafa hunda alltaf í taumi þegar farið er út með þá í þéttbýli eða nálægð við þéttbýli, líka þó bara sé farið út í garð. Jafnvel dagsfarsprúðustu dýr geta skyndilega orðið hrædd. Á hverju ári hafa margir hundar týnst vegna flugeldaskota, og sumir hafa aldrei fundist aftur. Hundur sem verður ofsahræddur, getur hlaupið blint, bæði í veg fyrir bíl eða langt í burtu frá heimili, jafnvel til fjalla.
Hestaeigendur í þéttbýli ættu að varast að ríða út eftir myrkur á meðan á þessari vertíð skotelda stendur. Eftir myrkur er gott að hafa ljós í hesthúsum og útvarp í gangi. Hestum og búfénaði á útigangi er rétt að gefa vel og halda þeim á svæðum sem þau þekkja vel svo þau fari sér síður að voða ef hræðslan grípur um sig. Mikilvægt er að vitja svo dýranna oft og reglulega fram yfir þrettándann.
Nánari ráð til gæludýraeigenda og annarra dýraeigenda varðandi áramótin og hátíðarnar almennt, er að sjá á heimasíðu Matvælastofnunar.