Njörður Sæberg Jóhannsson

Enginn núlifandi Íslendingur þekkir betur til báta- og skipasögu Norðlendinga fyrr á öldum en hagleiksmaðurinn Njörður Sæberg Jóhannsson, enda hefur hann um áratbil leitað heimilda og grandskoðað það sem fundist hefur, einkum í Fljótum í Skagafirði, en einnig austar, við utanverðan Eyjafjörð, og vestar, allt að Skagaströnd.

Njörður hefur á síðustu árum fengist við það í frístundum að smíða líkön gamalla, sögufrægra fiski- og hákarlaskipa á téðu landsvæði og skrá þannig ævisögur þeirra á nýjan og athyglisverðan hátt, í hlutföllunum 1 á móti 12. Og handverkið er ekkert venjulegt, heldur allt unnið ofan í minnstu smáatriði.

Njörður, sem er fæddur á Siglufirði 4. apríl 1945, hefur búið þar alla tíð og á ættir að rekja til mikilla skipasmíða og hákarlasjómenna í Fljótum. Einn þeirra, langafi hans í móðurætt, Kristján Jónsson í Lambanesi, var t.d. á Fljóta-Víkingi í um áratug, þar sem róið var allt norður fyrir Kolbeinsey.

Með þessum listaverkum skilur Njörður eftir sig mikinn fjársjóð handa núlifandi kynslóð, sem og hinum ófæddu, gjöf, sem aldrei verður að fullu hægt að þakka nógsamlega.

Vonandi fær lesandinn notið þess sem fyrir augu ber, jafnt myndanna, sem eru að stærstum hluta af þessum líkönum Njarðar, sem og textans. Saga fiski- og hákarlaskipanna er þó ekki alltaf gleðiefni, því miður. Mannanna sem fórust og aðstandenda þeirra, unnusta eða eiginkvenna og barna, sem eftir lifðu, en tvístruðust í allar áttir, sökum fátæktar. Það er engu að síður afar dýrmætt og lærdómsríkt að fá að vera andlit á þessum glugga.

Sigurður Ægisson ritaði bókina og Hólar bókaútgáfa gefur bókina út.

Mynd/aðsend