Íslenskur aðili sem gefur sig út fyrir að flytja inn og selja hús frá austur Evrópu, hefur svikið um 90 milljónir af 16 manns sem vitað er um og er Árni Björn Björnsson á Sauðárkróki einn af þeim sem tapað hefur umtalsverðri fjárupphæð.

Árni Björn átti að fá hús í desember, en nú er komið í ljós að ekki er farið að byggja húsið og ber söluaðilinn endalaust fyrir sig allskonar afsakanir og skýringar sem hafa ekki staðist.

Vinur Árna Björns úr Skagafirði sem átti að hafa byggingarkrana tilbúinn til að setja húsið upp í desember, var fyrir skömmu orðinn leiður á biðinni og fór út til Lettlands til að skoða húsið í verksmiðjunni. Þá komst hann að því að ekkert hús var þar í smíðum.

Árni Björn hefur haft spurnir af 15 manns sem ekki hafa fengið hús sín afhent og einum aðila sem fengið hefur hús sitt. Hefur hann áhyggjur af því að áðurnefnd upphæð eigi eftir að hækka.

Árni Björn sem er í forsvari fyrir hóp aðila sem lent hafa í þessu birti í gær á facebook viðvörun um þennan söluaðila, sem er með margar facebooksíður í gangi undir mismunandi nöfnum.

Þar skrifar Árni Björn meðal annars og nefnir einnig þar nöfn pars sem eiga hlut að máli:

“Varúð !!!

Svikastarfsemi hér á ferð.

Ég tilheyri síðu hér á FB sem er með fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á þessum svikurum.

Þau eru með skrifstofu uppi á Ásbrú og eru með fleiri síður:

Smart timber Solution

Smart modular Ísland

Sigurþing Solution

Og áreiðanlega fleiri síður.

Getið sent mér skilaboð ef þið hafið lent í þeim og viljið komast í þennan hóp og fá aðstoð. Það þarf að kæra strax til lögreglu. Lögreglan í Keflavík getur gefið upplýsingar um hvernig á að bera sig að og hvaða gögn þurfa að liggja fyrir.

Nú þegar vitum við af 88.000.000

Það eru bara upplýsingar frá 8 aðilum af 16 sem nú þegar eru í grúbbunni, ég er hræddur um að þetta slagi í 200 milljónir þegar og ef allir gefa sig fram”.

Einnig er söluaðilinn með vefsíðuna icesmartmodular.net og auglýsir Ferðaþjónustulausnir á facebook.


Mynd/samansett