Í dag eru átta ár frá opnun Héðinsfjarðarganga.
Ögmundur Jónasson þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri opnuðu þennan dag fyrir átta árum Héðinsfjarðargöng fyrir almennri umferð. Heildarkostnaður við jarðgangagerðina var um tólf milljarðar króna, en þetta var þá stærsta framkvæmd í samgöngumálum á Íslandi.
Göngin voru grafin úr báðum áttum og hófust gangasprengingar Siglufjarðarmegin í september 2006 og í byrjun nóvember sama ár frá Ólafsfirði. Gröftur frá Siglufirði gekk almennt vel og sprengt var út til Héðinsfjarðar 21. mars 2008. Í byrjun maí 2008 var síðan byrjað á gangagreftri í austanverðum Héðinsfirði og voru tæplega 2 km grafnir frá Héðinsfirði og í átt til Ólafsfjarðar en þar var greftri hætt í lok janúar 2009.

.
Frá Ólafsfirði gekk gröftur misvel og á köflum afar hægt vegna mikils vatnsinnrennslis og tímafrekra bergþéttinga. Sprengt var í gegn til Héðinsfjarðar þann 9. apríl 2009 og tók því gangagröfturinn alls um tvö og hálft ár.
Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að heildarkostnaður við Héðinsfjarðargöng yrðu 7,6 milljarðar króna en áætlunin var gerð í janúar 2006.
Uppreiknuð upphafleg áætlun er 12,1 milljarðar króna en uppreiknaður heildarkostnaður nam 14,2 milljörðum króna.

.
Héðinsfjarðargöngunum var ætlað að leiða til fjölbreyttari starfa og minna atvinnuleysis, hærri launa, lægra vöruverðs og fjölbreyttari verslunar og þjónustu og snúa við neikvæðri byggðaþróun á norðanverðum Tröllaskaga.
Háskólinn á Akureyri og Vegagerðin létu gera rannsókn á samfélagslegum áhrifum Héðinsfjarðarganga. Rannsóknin í heild: Sjá hér
Þann 1. október 2018 fóru alls 804 bílar í gegnum Héðinsfjarðargöng.

.
Vefmyndavélar vegagerðarinnar við Héðinsfjarðargöng: Sjá hér
Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Gunnar Smári Helgason