Í dag eru átta ár frá opnun Héðinsfjarðarganga.
Ögmundur Jónasson þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri opnuðu þennan dag fyrir átta árum Héðinsfjarðargöng fyrir almennri umferð. Heildarkostnaður við jarðgangagerðina var um tólf milljarðar króna, en þetta var þá stærsta framkvæmd í samgöngumálum á Íslandi.
Göngin voru grafin úr báðum áttum og hófust gangasprengingar Siglufjarðarmegin í september 2006 og í byrjun nóvember sama ár frá Ólafsfirði. Gröftur frá Siglufirði gekk almennt vel og sprengt var út til Héðinsfjarðar 21. mars 2008. Í byrjun maí 2008 var síðan byrjað á gangagreftri í austanverðum Héðinsfirði og voru tæplega 2 km grafnir frá Héðinsfirði og í átt til Ólafsfjarðar en þar var greftri hætt í lok janúar 2009.
Frá Ólafsfirði gekk gröftur misvel og á köflum afar hægt vegna mikils vatnsinnrennslis og tímafrekra bergþéttinga. Sprengt var í gegn til Héðinsfjarðar þann 9. apríl 2009 og tók því gangagröfturinn alls um tvö og hálft ár.
Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að heildarkostnaður við Héðinsfjarðargöng yrðu 7,6 milljarðar króna en áætlunin var gerð í janúar 2006.
Uppreiknuð upphafleg áætlun er 12,1 milljarðar króna en uppreiknaður heildarkostnaður nam 14,2 milljörðum króna.
Héðinsfjarðargöngunum var ætlað að leiða til fjölbreyttari starfa og minna atvinnuleysis, hærri launa, lægra vöruverðs og fjölbreyttari verslunar og þjónustu og snúa við neikvæðri byggðaþróun á norðanverðum Tröllaskaga.
Háskólinn á Akureyri og Vegagerðin létu gera rannsókn á samfélagslegum áhrifum Héðinsfjarðarganga. Rannsóknin í heild: Sjá hér
Þann 1. október 2018 fóru alls 804 bílar í gegnum Héðinsfjarðargöng.
Vefmyndavélar vegagerðarinnar við Héðinsfjarðargöng: Sjá hér
Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Gunnar Smári Helgason