Auknum fjármunum verður veitt í Ofanflóðasjóð á næstu fimm árum til þess að hraða uppbyggingu ofanflóðavarna. Þetta kom fram í ávarpi Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við setningu málþings um snjóflóð og samfélögs em hófst á Ísafirði í dag.

Jóhann Páll minntist þeirra sem létust í snjóflóðum á Súðavík, Flateyri, Neskaupsstað og Patreksfirði. Sagði hann flóðin hafa rist djúp sár í íslenskt samfélag og meðvitund þjóðarinnar, en málþingið er haldið í tilefni af að 30 ár eru nú liðin frá snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri. 

Sagði Jóhann Páll gerð varnargarða þegar hafa sannað gildi sitt, en að atburðir undanfarinna fimm ára í Neskaupstað, á Flateyri, Seyðisfirði og Patreksfirði séu áminning um að verkinu sé ekki lokið og að uppbygging hafi um langt skeið hafi verið hægari en stefnt var að.

„Þetta er eitthvað sem ný ríkisstjórn horfist í augu við. Og áherslur okkar í þessum efnum eru skýrar. Nýlega kynntum við okkar fyrstu fjármálaáætlun, og þrátt fyrir að þar sé lögð áhersla á aðhald í útgjöldum á flestum sviðum, þá erum við ekki að skera niður heldur að gefa í þegar kemur að ofanflóðavörnum. Við erum að setja meiri fjármuni í ofanflóðavarnir heldur en áður var gert ráð fyrir, til þess einmitt að flýta brýnum framkvæmdum. Samhliða þessu erum við að vinna að heildstæðri stefnu um náttúruvá á Íslandi — með það að markmiði að tryggja forgangsröðun, samræmingu og markvissari nýtingu fjárheimilda. Við ætlum að efla getu Veðurstofunnar til að greina og leggja mat á áhættu, því hún gegnir lykilhlutverki í þeirri vegferð að vera einu skrefi á undan vánni,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Auknum fjármunum verði veitt í Ofanflóðasjóð til þess að hraða uppbyggingu ofanflóðavarna, sem áætlanir geri ráð fyrir að ljúki að stærstum hluta um 2030.

„Við vitum líka að uppbygging varna gegn ofanflóðum er sífelluverkefni. Við þurfum að viðhalda varnarmannvirkjum, og skapa rými — bæði fjárhagslega og skipulagslega — fyrir endurskoðun og uppfærslu varna með tilkomu nýrrar þekkingar, þróaðri reiknilíkana og aukinnar gagnasöfnunar,“ sagði Jóhann Páll. „Það gleður mig að hér hafi safnast saman fólk úr öllum helstu stofnunum, sveitarfélögum og fagsamfélaginu. Það er á grunni þessarar samvinnu og samtals sem árangur næst.“

Snjóflóð og skriðuföll hafa valdið mörgum slysum, stórfelldu efnahagslegu tjóni og margs konar röskun á starfsemi og mannlífi hér á landi allt frá landnámi. Á málþinginu er sjónum beint að samfélögum á hættusvæðum, öryggi á vegum, uppbyggingu á ofanflóðavörnum í landinu og þeim áhrifum sem sú uppbygging hefur á þróun byggða. Einnig verður fjallað um endurskoðun á mögulegri hættu undir varnargörðum og þann lærdóm sem dreginn hefur verið af snjóflóðunum sem féllu á varnargarða á Flateyri í janúar 2020, þar sem hluti flóðanna barst yfir garðana, og í Neskaupstað í mars 2023 þar sem snjóflóð lentu á varnargörðum og keilum.

Hægt er að fylgjast með málþinginu í streymi á vef Stjórnarráðsins.