Tilboð voru opnuð í viðbyggingu við grunnskólann á Ólafsfirði þriðjudaginn 5. september. Lagt var fram minnisblað hönnuða vegna mats á tilboðinu. Aðeins barst eitt tilboð í verkið og var það 55% yfir kostnaðaráætlun.

Í samræmi við tilmæli minnisblaðs hönnuða hafnaði bæjarráð því tilboði sem kom í verkið.

Á fundinum lagði Helgi Jóhannsson aðalmaður, H lista fram eftirfarandi bókun:

“Það eru veruleg vonbrigði að ekki skuli hafa fengist ásættanleg tilboð í viðbyggingu grunnskólans í Ólafsfirði, þrátt fyrir að verktími hafi verið lengdur í seinna útboði.

Undirritaður leggur til að kannað verði með að bjóða verkið út í smærri verkþáttum. Það má hugsa sér að jarðvinna og grunnur verði boðin út saman eða í sitthvoru lagi. Jafnframt að kannað verði hjá hönnuðum byggingarinnar að annað byggingarefni verði fyrir valinu t.d. límtréseiningar. Kosturinn við það er að hægt er að reisa bygginguna á hvaða tíma ársins sem er. Nú þarf að leita allra leiða til að byggingin rísi sem fyrst og komist í notkun”.