Íbúar fjallabyggðar eru sérstaklega beðnir um að nota ekki pappapoka undir lífrænan úrgang eins og á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar hafa staðið í þeirri trú að nota skuli pappapoka undir lífrænt efni en líklega hefur sá misskilningur farið af stað vegna auglýsinga Sorpu sem hirðir úrgang m.a. á höfuðborgarsvæðinu.

Ólíkt því sem hefur viðgengist á Norðurlandi ber íbúum á höfuðborgarsvæðinu að nota pappapoka undir sínar matarleifar og mega ekki nota maíspoka. Ástæðan fyrir því er að framleiðsluferlið hjá Gaja jarðgerðarstöðinni sem vinnur lífrænan úrgang fyrir Sorpu er annað en hjá Moltu sem tekur við lífrænu sorpi úr Fjallabyggð frá Íslenska Gámafélaginu. 

Molta notast við annars konar tækjakost og framleiðsluferlið er allt annað en hjá Gaja. Molta notar tækni sem mengar minna, gerir ferlið hraðara og skilar betri moltu. Í ferlinu eru lífpokarnir skildir frá matar úrganginum og urðaðir sér. 

Líf- og eða maíspokar hafa reynst vel fyrir flokkunaraðila á Norðurland og ekki stendur til að breyta yfir í pappann og eru íbúar Fjallabyggðar því sérstaklega beðnir um að hætta notkun pappapoka og nota eingöngu líf-/maíspoka.

Mynd/Fjallabyggð