Félagsleikar Fljótamanna voru haldnir um síðastliðna verslunarmannahelgi. Þar var efnt var til ýmissa viðburða, s.s. morgunfundar um félagssögu Fljóta. Meðal þeirra sem töluðu þar var Örlygur Kristfinnsson og nefndist erindi hans Bakkabræður og áhrif þeirra í nútímanum. Þar lagði hann út af því að þeir bræður eru í flestum þjóðsagnasöfnum kenndir við Fljót og sagði hann nokkrar sögur af mögulegum afkomendum þeirra. Rúsínan í pylsuendanum var saga sem fáir hafa áður heyrt. Þar segir frá því að Bakkabræður hafi verið brautryðjendur í saltfiskviðskiptum við Spánverja og annað óvænt leynist í sögunni.

Trölli frétti af þessum viðburði og fékk leyfi Örlygs til að birta söguna. 

Örlygur Kristfinnsson

 

Sögurnar af Bakkabræðrum eru fjórtán í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar en nýlega fannst í Þjóðskjalasafni Spánar í Madríd rituð frásögn sem um aldir hafði lifað á vörum spænskra fiskimanna. Og spyrja má hvort ekki sé þar kominn efniviður í 15. Bakkabræðrasöguna. Fjallar hún um það hvernig fyrstu fiskviðskipti Spánverja og Íslendinga byrjuðu. Þessi forna munnmælasaga er talin hafa verið skráð um miðja 19. öld en gleymst og grafist uns rykið var nýlega dustað af handritinu. Í henni má ráða í margt sem snertir bræðurna á Bakka þótt sagan fjalli fyrst og fremst um það sem að Spánverjunum laut.

Þarna kemur við sögu örnefni sem tengist sjávarbökkum neðan Bakkabæjar og er skammt ofan við uppsátur og naust þeirra Bakkabræðra. Þarna á bakkanum er bolli nokkur eða hvilft þar sem enn má greina leifar af grjóthleðslu í kring. Mun staðurinn hafa verið nefndur Bakkahvilft – en fleiri útgáfur örnefnisins hafa verið við lýði. En í þessari lág söltuðu þeir þorskafla sinn. Svolítið grjótbyrgi hlóðu þeir í kring til varnar lágfótu og strekktu húðina af Brúnku yfir fiskstabbann.
Í fyrstu snöpuðu þeir saltið af spænskum skipum sem þeir hittu fyrir á Fljótagrunni. En brátt jukust samskiptin við Spánverjana og urðu að beinum viðskiptum eftir fáein sumur þegar saltþörfin jókst á Bakka og bræðurnir fóru að leggja fram alls kyns prjónles í skiptum fyrir þessa nauðsynjavöru sem saltið var.

Og er nú komið að kjarna sögunnar:
Einhverju sinni síðla sumars gerðist sá óvenjulegi atburður að spænsk dugga lagðist að akkerum skammt undan Bakkafjöru og hóuðu skipverjar til kunningja sinna í landi sem reru óðara út í skipið. Með bendingum og einföldu látbragði var Bakkabræðrum komið í skilning um að ördeyða væri á miðunum og sama og ekkert hefði aflast. Skemmst er frá að segja að bræðurnir fluttu allan vetrar- og vorfisk sinn úr láginni til skips og munu það hafa verið einar fjórar ferðir á Bakkabátnum.

„Hér fáið þið saltfiskinn góða úr henni Bakkalág okkar“ – kölluðu þeir einum rómi, Gísli Eiríkur og Helgi.
„Que?“ – spurði þá dugguskipstjórinn.
„Bakkalág, góurinn – hvergi verkast betri saltfiskur en í henni Bakkalág!
”Comprendo!”
Tóku nú þeir spænsku gleði sína og greiddu fyrir fiskinn með dýrindis suðrænum matföngum og þremur rauðvínskútum auk nokkurs silfursjóðs.

Þegar fram liðu stundir varð þetta að árlegu vinamóti þarna utan Bakkafjörunnar og fóru æ fleiri fiskimenn úr Fljótum að taka þátt í fisksölunni – með skreið og saltfiski.
Þannig æxlaðist það að meðan Bakkabræðrum entist líf og heilsa dugði þeim spænsku að nefna Bakkalág til þess að hin árlegu og ærlegu saltfiskviðskipti þeirra og Fljótamanna færu fram.

Hér má varpa fram þeirri kenningu að á ‏‏þennan veg hafi Bakkabræður komið á fyrstu saltfiskviðskiptunum milli þjóðanna tveggja – auk þess að þarna varð til veraldarinnar þekkasta nafn á saltfiskinum: bacalao! – og þannig gætir áhrifa Bakkabræðra í nútímanum langt út í hinn stóra heim um alla framtíð – eða svo lengi sem þorskur verður úr sjó dreginn og saltaður og etinn!

 

Frá Félagsleikum Fljótamanna

 

Ath. – rétt er að taka fram að engar áreiðanlegar heimildir eru fyrir hendi um ofangreinda frásögn – höf.

Myndir: Sjöfn Guðmundsdóttir