Trölli.is birtir öðru hverju gamlar fréttir af vefnum Siglo.is. Hér kemur frétt frá 9. janúar 2012, Guðmundur Skarphéðinsson setti inn fréttina, Jónas Ragnarsson ritaði texta og Kristfinnur Guðjónsson tók myndirnar.

Gamla myndin: Elín og Óskar

Vitað er um fimm Siglfirðinga sem hafa orðið hundrað ára. Enginn hefur þó náð jafn háum aldri og Elín Jónasdóttir, sem er orðin rúmlega 103 ára og er í sjötta sæti yfir elstu núlifandi Íslendingana.

Elín Jónasdóttir fæddist í Efri-Kvíhólma í Ásólfsskálasókn í Vestur-Eyjafjallahreppi 16. maí 1908 og var fjórða í röð níu systkina. Móðir hennar varð 98 ára, ein systir 96 ára, önnur systir 93 ára og bróðir 92 ára. Ein systir hennar er á lífi, Guðný Bergrós, orðin 99 ára.

Elín var mikil handavinnukonu. Á efri árum tók hún sig til og prjónaði og saumaði mikið af flíkum sem hún sendi til fátækra barna víða um heim, m.a. í Austur-Evrópu, Asíu og Afríku. „Ég kom í Siglufjörð 1939 og hef verið hér síðan, gerðist húsmóðir en starfaði líka við síldarsöltun á sumrin þegar það var í boði,“ sagði Elín í viðtali við Sigurð Ægisson, sem birt var í Morgunblaðinu á aldarafmælinu. Elín er mjög trúuð kona „Ég ákalla Drottin á hverjum degi og stundum oft á dag,“ sagði hún í viðtalinu. „Og hann hefur aldrei brugðist mér, þó maður skilji ekki allt sem hefur komið í manns veg.“

Elín Jónasdóttir (f. 1908, d. 2013) og Óskar Sveinsson (f. 1903, d. 1983).

Elín giftist, 28. nóvember 1941, Óskari Sveinssyni sjómanni og verkamanni og áttu þau lengst af heima á Suðurgötu 68, en það hús byggðu þau. Þau eignuðust saman þrjú börn, Hauk Óskarsson húsgagnabólstrara í Reykjavík (f. 1941), Guðlaugu Óskarsdóttur leikskólakennara á Siglufirði (f. 1942) og Guðfinnu Óskarsdóttur sjúkraliða í Vestmannaeyjum (f. 1946, d. 2009, 62 ára).

Óskar Sveinsson fæddist í Reykjavík 24. október 1903 og ólst þar upp. Hann lést 14. desember 1983, 80 ára. Faðir hans var ættaður af Snæfellsnesi en móðir hans úr Vestur-Skaftafellssýslu. Ein systra hans, Margrét Sveinsdóttir í Kanada, varð 100 ára.

Fyrri kona Óskars (18. júlí 1925) var Guðlaug Sveinsdóttir (f. 1903, d. 1933, 29 ára). Börn þeirra voru Helgi Óskarsson skipstjóri í Noregi (f. 1925) Sveinn Óskarsson (f. 1926, d. 1927), Sigurjón Hólm Óskarsson verkamaður (f. 1929, d. 2009, 79 ára) og Kristján Hólm Óskarsson skipstjóri í Þýskalandi (f. 1929).

Guðlaug var dóttir Sveins Sveinssonar og Gunnhildar Sigurðardóttur á Steinaflötum á Siglufirði. Mörg systkinanna níu bjuggu á Siglufirði og má þar nefna verkstjórana Rögnvald og Sigurbjörn og lögreglumennina Friðrik og Ármann.

Áður en Óskar giftist Elínu átti hann tvö önnur börn, Guðlaug Óskarsson skipstjóra og útgerðarmann í Grindavík (f. 1935) og Guðmundu Sigríði Óskarsdóttur nuddara í Garðabæ (f. 1938, d. 2003, 65 ára).

Á efri árum fékkst Óskar við hænsnarækt í sérstöku húsi sem var nótabátur á hvolfi. Húsið skemmdist mikið í snjóflóði í desember 1973.

 

Texti: Jónas Ragnarsson (jr@jr.is).

Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson, Ljósmyndasafn Siglufjarðar.