Ágætu íbúar Fjallabyggðar, mig langar með þessari grein að kynna mig örlítið fyrir þeim íbúum sem ekki
þekkja mig. Nú í sumar eru þrjú ár síðan við fjölskyldan fluttumst búferlum heim til Siglufjarðar frá Berlin í
Þýskalandi. Það voru vissulega miklar breytingar fyrir okkur en engu að síður mjög góðar.

Við bjuggum í Berlin í sex ár, lengst af aðeins með frumburð okkar Steingrím Árna (fæddur 2009). Jón
Garðar maðurinn minn var í námi í Berlin, fyrst meistaranámi og svo í framhaldinu í doktorsnámi. Ég vann
sem mannauðsstjóri hjá tónlistarhugbúnaðarfyrirtæki og var það mikil reynsla að vinna á tveimur
tungumálum sem útlendingur.

Lífið var ljúft í Berlin en tíminn var af skornum skammti og erfitt reyndist
að samhæfa vinnu og einkalíf með barn. Heiðdís Freyja dóttir okkar fæddist í Berlin 2014. Hún veiktist
alvarlega af flogaveiki þegar hún var fjögurra mánaða og líf okkar tók algjöra u-beygju. Í kjölfarið tókum
við þá ákvörðun að flytja til Siglufjarðar, í heimabæ Jóns Garðars.

Ástæða þeirra ákvörðunar var fyrst og fremst byggð á þeirri þjónustu sem Heiðdísi Freyju bauðst í Fjallabyggð og möguleikum á bættum
lífsgæðum fjölskyldunnar. Við hjónin fengum spennandi vinnu hjá Genís líftæknifyrirtæki, festum kaup á
húsi að Hólavegi 4, sem við höfum verið að gera upp og eignuðum þriðja barnið okkar, Jóhann Snæ í lok
árs 2015.

Móttökurnar við flutninginn í Fjallabyggð voru hreint ótrúlegar. Samfélagið er ríkt af samkennd, hlýju og
hjálpsemi. Leikskólinn og teymið sem tók á móti Heiðdísi Freyju var dásamlegt í alla staði, allir að vilja
gerðir og metnaðurinn ótrúlegur. Hún fær betri þjónustu á leikskólanum hér í Fjallabyggð en víðast hvar
annars staðar á landinu, svo ekki sé talað um þjónustu í öðrum löndum.

Á leikskólanum starfar hópur af sérfræðingum og þurfum við því ekki að sækja þjónustu út fyrir hann nema einstaka ferðir til
talmeinafræðings eða barnalæknis inni á Akureyri. Grunnskólinn tók einnig mjög vel á móti syni okkar
sem þekkti vart annað en þýskt umhverfi, það tók hann stuttan tíma að komast inn í samfélagið.
Ég ólst upp í Vestmannaeyjum og þekki það af eigin raun hversu dásamlegt það er að alast upp í litlu
samfélagi þar sem samkennd ríkir, frelsi og öryggi barna er mikið og nálægðin við náttúruna.

Reynslan sem ég tek með mér frá Berlin er sú víðsýni sem fylgir því að búa í fjölmenningarsamfélagi, áhugi á
umhverfisvernd, þrautseigja og þolinmæði. Berlin er þekkt fyrir ríka hefð af störfum án staðsetningar. Í
borginni er gríðarmikið af fjölnota atvinnuhúsnæðum þar sem fólk úr ýmsum áttum kemur saman og
deilir húsnæði sem hýsir ólíka atvinnustarfssemi.

Ég sé mörg og mikil tækifæri hér í Fjallabyggð í slíku fyrirkomulagi og sveitafélagið gæti t.a.m. stutt við slíka starfsemi meðal annars með að veita húsnæði undir slíkt.
Ég hef mikinn áhuga á samfélagsmálum og langar að leggja mína krafta fram til að gera
samfélagið í Fjallabyggð enn betra en það nú þegar er.

Ég ákvað að slá til þegar mér bauðst að leiða lista sem Jafnaðarmenn í Fjallabyggð áttu frumkvæði að
setja saman. Listinn samanstendur af einstaklingum sem koma úr ólíkum áttum og segja má að spegli
þversnið Fjallabyggðar.

Við erum með fjölbreyttan bakgrunn í pólitík en einnig frambjóðendur sem eru
óháðir stjórnmálaflokkum. Okkar styrkur er breidd okkar í aldri, búsetu og bakgrunni.
Við frambjóðendurnir í Betri Fjallabyggð höfum ólíka sýn á samfélagið sem við búum í en sú sýn sem
sameinar okkur er að bæta það enn frekar með samvinnu og samstöðu.

Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir.