Síðastliðið haust auglýsti Fjallabyggð eftir hentugu framtíðarhúsnæði til kaups eða leigu undir starfsemi félagsmiðstöðvarinnar NEON. Á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar þriðjudaginn 20. apríl sl. voru lögð fram drög að kaupsamningi vegna kaupa Fjallabyggðar að annarri hæð fasteignarinnar Suðurgötu 4, Siglufirði “jafnan nefnt Kaupfélagshúsið, Kjörbúðin er til húsa á fyrstu hæð“. Drögin voru samþykkt og fól bæjarráð bæjarstjóra að undirrita kaupsamninginn og tengd skjöl fyrir hönd sveitarfélagsins.

Það hillir nú undir að langþráður draumur um að koma starfsemi félagsmiðstöðvarinnar í eigið húsnæði verði að veruleika. Síðustu ár hefur verið stefnt að því að félagsmiðstöðin fái eigið húsnæði fyrir starfsemi sína og hófst undirbúningur m.a. með því að skoðanakönnun var lögð fyrir unglinga sem sækja félagsmiðstöðina um hvar þeir vildu sjá starf félagsmiðstöðvarinnar staðsett til framtíðar og með hvaða hætti sú starfsemi ætti að vera.

Fyrir liggur að ráðast þarf í ákveðnar breytingar á húsnæðinu þannig að það megi rúma starf félagsmiðstöðvarinnar sem best. Einnig verður aðgengi hreyfihamlaðra tryggt með stigalyftu. Ætlunin er að vanda til verka við framkvæmdirnar og mun félagsmiðstöðin hefja starfsemi sína í hinu nýja húsnæði strax næsta haust.