Bananarúlluterta – uppskrift fyrir 8

4 egg
160 g sykur
65 g kartöflumjöl
2 tsk. lyftiduft
3 msk. kakó

4 bananar
4 dl rjómi

20 g súkkulaði, saxað eða rifið gróft

Sítrónusafi til að kreista yfir bananana


Hitið ofninn í 250°C, 220 á blástur. Þeytið egg og sykur mjög vel saman eða þar til það er létt og loftmikið. Blandið kartöflumjöli, lyftidufti og kakó saman og sigtið út í eggjamassann, blandið varlega saman með sleikju.

Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, smyrjið pappírinn með matarolíu. Hellið deiginu í formið og bakið kökuna í miðjum ofni í 4 -5 mín. Setjið örk af bökunarpappír á borðið, stráið svolitlum sykri á hann. Hvolfið kökunni á pappírinn, látið kólna smástund og flettið pappírnum síðan varlega af. Ef það reynist erfitt að ná pappírnum af er ráð að setja rakt viskustykki ofan á smástund og fletta kökkunni af pappírnum með hníf. Látið kökuna kólna.

Þeytið rjómann, takið smávegis frá til að skreyta með. Stappið 3 banana og blandið saman við rjómann sem fer í fyllinguna. Smyrjið bananarjómanum á kökuna og rúllið henni upp. Sprautið eða setjið rjóma ofan á rúlluna með skeið og skreytið með banananasneiðum. Kreistið sítrónusafa yfir bananana svo þeir verði ekki brúnir. Stráið súkkulaði ofan á.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit