Björn Þórir Sigurðsson

Björn Þórir Sigurðsson „Bangsi“ fæddist í norðurherberginu á þinghúsloftinu á Hvammstanga 18. febrúar 1935. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga 22. september 2018.

Foreldrar hans voru Ósk Jónsdóttir frá Ánastöðum, f. 10. júlí 1893, d. 21. febrúar 1964, húsmóðir, og Sigurður Davíðsson kaupmaður, f. í Syðsta-Hvammi 13.9. 1896, d. 27. mars 1978.

Bangsi var ókvæntur og barnlaus en átti einn albróður; Jón, f. 1930, d. 2008, og fimm hálfsystkini samfeðra: Davíð, f. 1919, d. 1981, Önnu, f. 1921, d. 1996, Halldór, f. 1923, d. 2011, Garðar, f. 1924, og Guðmann, f. 1928, d. 2004.

Bangsi var verkmaður af guðs náð, vann þau störf sem til féllu. Áhugi hans var mjög bundinn við sjóinn, hann stundaði veiðar á ýmsum fisktegundum, þó aðallega rauðmaga og grásleppu, á trillunni sinni sem hann smíðaði 1958.

Síðastliðið sumar þegar fréttamenn Trölla voru á ferð um Húnaþing vestra náðist viðtal við Bangsa.

Viðtalið verður flutt á FM Trölla á nýársdag kl. 16:00. FM Trölli næst á FM 103.7 á Tröllaskaga og FM 102.5 á Hvammstanga, auk þess er hægt að hlusta á FM Trölla hér á vefnum trolli.is

 

Gunnar Smári Helgason að taka viðtal við Bangsa í Gallerí Bardúsu sumarið 2018