En, þeir vita þetta mennirnir!

Barði Guðmundur Ágústsson Sæby, eða “Barði Sæby” eins og þessi yndislegi karakter var oftast kallaður heima á Sigló í denn.
Fæddist í Siglufirði hinn 18. október 1924. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni í Fjallabyggð 8. mars 2012.
Foreldrar hans voru hjónin: Steinþóra Barðadóttir, f. 1883, d. 1961, og  Ágúst Einar Sæby, f. 1891, d. 1964, og var Barði yngstur fimm systkina.

Barði Ágústsson sem var barnlaus, bjó alla ævi á Siglufirði. Hann vann almenn verkamannastörf bæði til sjós og lands.
(Texti lánaður frá Heimildarsíðu Steingríms Kristins)

Þetta er stórkostleg ljósmynd af Barða, svona man ég hann og líklega margir aðrir Siglfirðingar líka. Á mínum barnæsku og unglinga árum hitti maður Barða oftar en Gústa Guðsmann, á Torginu.
Einna helst í Kaupfélagsskotinu, eða í Bankaskotinu. Það var einnig mikil Guðsgjöf að hafa fengið að vinna með þessu ljúfa heljarmenni í pönnunum í Gamla Frystihúsinu einn sumarpart. Við Krakkarnir bárum öll mikla virðingu fyrir Barða og manni varð oft starsýnt á þessar risastóru og sterku stúaralúkur. Sem fóru létt með að lyfta fullum síldartunnum á hans yngri árum.

ATH. (Greinarhöfundur veit mikið vel að orðið “StúFari “er skrifað með F-i, en orðið er ekki borið fram þannig á Siglfirksu.)

Í minningu minni býr hann alltaf einn og barnlaus uppi á Lindargötu, í bárujárnshúsi með steinsteyptum kjallara, hann var með kindur, minnir mig í kofa rétt ofan við húsið. Barði átti líka litla trillu sem honum þótti vænt um og hét hún Þristur, samkvæmt góðu bátaminni Svenna Björns. Barði var ættstór og elskaður af mörgum.

Greinin byrjar á fleygum spakmælaorðum sem í mínum minningum um Barða, eru orð sem hann fleygði oft fram, þegar honum fannst nóg komið af vitleysu í samtölum, eða ef honum fannst umræðan komin út í öfga:

Já, þeir vita / ráða þessu mennirnir!

Oft voru sumir að reyna að fá Barða til að taka afstöðu um hitt og þetta og stundum tók hann þátt og stundum ekki. Hann var vel lesinn og vel að sér í flestum daglegum umræðuefnum. Barða var illa við stríðnis illkvittni og oft var um sig og aðra, en það er auðvitað verulegur munur á illkvittnis stríðni og saklausu gríni. Barði stamaði pínu og tjáði sig oft stutt og skilort og oft með skondnum orðum.

Eins og t.d.: Nú er hún orðin þetta, þá er hún ekki lengi að vera hitt, mælti Barði Sæby, er hann leit á klukkuna.

Þessa stuttu Barða setningu fékk ég í gegnum spjall við frænda minn hann Vilmund Ægir Edvardsson. Frændi var svo lukkulegur að hafa unnið heilmikið með Barða og öðrum skemmtilegum karakterum hjá t.d. Rammanum. Þó svo að margt og mikð sé nú þegar til af spakmælum og skondnum sögum um Barða Sæby, í t.d. sagnaheftum eins og “Gamansögur frá Siglufirði” sem Þórarinn Hannesson hefur gefið út reglulega síðustu árin. Þá hefur þessu kannski aldrei verið safnað saman og við frændi byrjuðum á að minna hvorn annan á munnmælasögur og ýmislegt sem við mundum sjálfir um elsku Barða okkar Sæby. Svo hann byrjaði að senda mér ýmislegt gegnum Messenger og þannig byrjaði boltinn að rúlla og hugmyndin er að lesendur þessarar greinar geti kannski sent höfundi eigin minningar um sín kynni af Barða.
T.d. í gegnum spjallþráð í okkar Siglfirsku og skemmtilegu Facebookgrúppu: Siglfirðingar, fyrr og nú – Sögur og myndir.

Það skal tekið fram hér, að greinarhöfundur hefur lagað og lagfært sumt, sem hefur bortist mér bæði munnlega og skriflega. En látið Siglufjarðar mállýskuna í frásögnum halda sér eins mikið og hægt er. Það er sem sagt, ekki eytt mögum orðum í að gera þetta skiljanlegt fyrir aðra, en þá sem þekkja til bæði manna/kvenna og staðarhátta heima á Sigló. Uppsetningin er meira svona: Ef við hittumst úti á götu heima á Sigló, þá myndum við líklega segja hvort öðru þessar sögur nokkurnveginn svona. Það hefur verið með eindæmum skemmtilegt að svo margir vilja minnast Barða og taka þátt í að deila með sér sögum og minningum. Siglfirski söguvinur okkar allra, Leó Óla minnist t.d. Barða með þessari sögu:

“Ég vann með Barða í frystihúsi SR. um tíma, því miður ekki það nálægt honum að samskiptin yrðu mikil, því ég var uppi í sal, en hann í tækjaklefanum lengst af og eitthvað held ég í móttökunni.

En að mínu mati var Barði stórlega misskilinn snillingur.

Man eftir því að nokkrir vinnufélagar ætluðu sér að stríða honum pínulítið og tókst það líklega að einhverju leyti. Þá bjó ónefnd kona, í húsi sem var þá oft kallað Glaumbær. Því þar var að sögn stundum fjörugt um helgar, en það stóð neðan við Lindargötuna, nánast beint á móti húsi Barða. Þeir bentu honum á að það væri nú ekki langt að fara yfir götuna ef hann vantaði einhvern félagskap og spurðu ítrekað að því hvort honum hefði aldrei dottið í hug að láta á það reyna hvernig tekið yrði á móti honum, en það var fátt um svör hjá okkar manni. Það var haldið áfram á sömu nótum og hann var áfram þögull og virtist jafnvel fara örlítið hjá sér en sagði að lokum:

„Jú, jú, það gæti svo sem verið gaman og hún gæti þá kannski fengið eitt launaumslag, en bankabókina mína fengi hún aldrei“.

Greinarhöfundur er ákaflega þakklátur ljósmyndaranum Sveini Hjartarsyni fyrir að fá að birta þessa frábæru og einstöku ljósmynd, en hún er tekin í júní 2000.

Það er mikil snilld að geta tekið mynd sem sýnir áhorfendum eitthvað miklu, miklu meira, en að þetta sé bara mynd af 75 ár gömlum manni, sitjandi í gamaldags eldhúsi. Mér hefur borist til eyrna að Barði hafi nú bara tekið vel í þessa beðni um myndartöku frá Sveini, enda þekkti Barði pabba hans vel. En þessi mynd er eitthvað svo mikið Barði Sæby. Hann er nokkuð brúnaþungur og enn þá er hann stór og herðabreiður, með sínar eflaust nú þreyttu og stóru stúarahendur fyrir framan sig og eins og alltaf, þá er munntóbaksdósin á sínum stað í brjóstvasanum.

Síðan kemur Steingrímur Kristinsson meistarljósmyndari og sögusafnari inn í myndina og sendir mér fleiri ljósmyndir, sem hann hefur endurunnið og lagfært í tölvunni sinn. En svo gat hann ekki stillt sig og sendir mér þessa persónulegu sögu um Barða, sem er að mörgu leyti mjög svo lýsandi fyrir þann einstaka karakter sem Barði hafði að geyma:

Hérna er ein saga af Barða, Nonni, …beint úr æð.

Barði Ágústsson, stúari.  Frásögn SK, eftir minni

Ekki man ég árið, sennilega nálægt 1954 +/-

Á þessum tíma var lítið um vinnu á veturna, en ég naut þó þeirrar gæfu að fá annað slagið vinnu hjá Stúurunum, Jónasi Jónassyni frá Nefstöðum sem þar réði öllu. Stúarararnir höfðu aðstöðu á jarðhæðinni norðan til í Hafnarhúsinu á Hafnarbryggjunni. Þar var meðal annars drukkið mikið kaffi í kaffitímum og þegar beðið var eftir að skip kæmi í höfn. Ég sat á bekk við lítið borð, ásamt fleirum. 
Þar var Barði við hlið mér, greinilega svolítið pirraðu.

Ég man ekki hvaða umræða var í gangi hjá hópnum, en það var hnakkrifist um einhverjar aðgerðir sem fyrirhugaðar voru, eða hafnar hjá bæjarstjórninni, og rifist var með mikilli heift um aðgerðirnar á báða bóga. Barði sem ekki hafði tekið þátt í þessum látum frekar en ég, missti loks þolinmæðina. 

Hann barði harkalega í borðið, dauðaþögn var í herberginu á eftir og allir litu til Barða, sem svo sagði með yfirvegaðri og hvassri röddu.:

„Hættið þessu helvítis rausi, þeir ráða þessu mennirnir“

Það mátti heyra saumnál detta, svo mikil varð þögnin eftir að Barði tjáði sig. 

Svo var smátt og smátt farið að tala saman á rólegri nótum.   ⚡️

Þessa frábæru ljósmynd birti ég á sigló.is 2017 í greinarseríunni:

Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR !

sksiglo.is | Greinar | 27.03.2017 | Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 1653 | 

Hér birtist ykkur þessi ljósmynd aftur eftir að ljósmyndasnillingurinn Steingrímur, (sem varð 90 ára 21 feb. í ár), er búinn að nota gervigreind til að laga gæði myndarinnar sem hann tók sjálfur fyrir meira en hálfri öld. Geri aðrir betur.

En í þessari gömlu sigló.is grein má sjá margar myndir af öðrum eftirminnilegum og litríkum Siglfirðingum og þar segi ég frá eigin reynslu af stuttum augnabliksfundi með Barða á Aðalgötunni vorið 1996:

“Nýkominn í bæinn eins og hver annar farfugl í lok maí 1996, er að fara að vinna sem ferðamálafulltrúi suður í Roaldsbrakka hjá Örlygi.
Ég er í minningargöngutúr á Aðalgötunni og stend þungt hugsi og ég sé ekki að Barði kemur gangandi að mér, framálútur, með hendurnar fyrir aftan bak. Hann stoppar, gengur heilan hring í kringum mig og skoðar mig í bak og fyrir eins og ég sé Sænskur furðu- farfugl.

Barði: Ert þú Hrímnisdrengurinn ?

Nonni: Nei, Barði minn, ég er sonur hans, hvað þekkirðu mig ekki, var að vinna með þér í pönnunum í frystihúsinu.

Ég rétti fram höndina til að heilsa og handleggurinn á mér hvarf hálfur í þessa risastóru stúaralúku, handartakið var svo þétt að mér varð illt í hendinni.

Barði: já….. alveg rétt, Jón Ólafur, já……. þú ert að fara að vinna með þessa túr-hesta…… já, já það verður víst einhver að tala við þessi grey, en ég skil bara ekki af hverju maður þarf að ráða útlending í það ?

hann var að meina mig ) ……….og hvar áttu að gera það vinur? 

Nonni: Suður í Síldarminjasafni.

Barði: Huff….ruslahaugnum hans Örlygs……til hvers að vera að safna þessu drasli…..af hverju ekki bara að kveikja í þessu !”

Og svo lauk samtalinu jafn skyndilega og það byrjaði á: Já, en þeir vita þetta mennirnir… og svo labbaði hann bara í burtu.”

Sumarið, árinu áður (1995) lenti Sigurður Tómas Björgvinsson bróðir minn á svipuðum skyndifundi með Barða Sæby.
En hann var að grilla með góðum vinum sem bjuggu á þessum tíma í litla bárujarnshúsinu norðan við heimili Barða á Lindargötu 4.
Barði kemur skyndilega yfir í nágrannagarðinn og gengur þungbrýnn og ákveðinn á svip að bróður mínum og spyr:

Ert þú þessi Nonni Björgvins? Sem var nú svona og svona hér á árunum áður?

Siggi Tommi: Nei, Barði minn, ég er bróðir hans!

Barði: Huff, jáhá…. og svo sagði hann ekkert meira og strunsaði heim aftur.

ATH. Það sem er eftirtektarvert við þessar tvær dæmisögur, er að þær eru kannski mjög svo lýsandi fyrir mann sem í rauninni er ekkert mikið fyrir það að tjá sig við/um allt og alla. En hann notar samt oft mjög einkennilegar aðferðir við að byrja og enda samtöl. Eða svo snýst þetta kannski um að annars lagið kemur yfir hann einhverskonar skyndileg þörf fyrir að fá að segja sitt og sína meiningu og samtímis svala forvitni sinni.

Mér persónulega, sem er þessi Nonni Björgvins, sem Barði vill meina… var nú svona og svona… finnst þetta dásamleg, því hann meinar ekkert illt með þessu og ég veit alveg hvað hann er að meina. Þeim lesendum sem ekki vita mikið um persónu og fortíð greinarhöfundar og leikur forvitni um að reyna skilja orð Barða Sæby, er vinsamlega bent á að spyrja ömmu sína eða lesa eitthvað af óteljandi mörgum Sigló sögum frá barna og unglinga árum greinarhöfundar í minninga- og myndasyrpu greinum Nonna Björgvins á trölli.is.
Sjá meira hér: https://trolli.is/author/nonni/

Gamansögur frá Siglufirði. 28. maí 2017 :

Það eru nokkrar sögur af honum Barða í “50 Gamansögum frá Siglufirði.” Hér er ein þeirra:

“Stúararnir svokölluðu, það voru þeir kallaðir sem tóku að sér losun og lestun flutningaskipa á Siglufirði, stóðu oft við hornið, þar sem Samkaup er nú, og ræddu um menn og málefni. Eitt sinn voru þeir að ræða um viðkvæmt mál sem menn höfðu misjafnar skoðanir á og sýndist sitt hverjum. Barði Ágústsson var einna þessara manna en hann lagði ekkert til málanna í umræðunni þrátt fyrir að eftir því væri gengið.
Reyndu félagar hann allt hvað af tók til að fá hann til að segja sína skoðun en Barði var ekki til viðræðu um það. Menn gáfust þó ekki upp og héldu áfram að þrýsta á Barða að taka þátt í umræðunum.

Að lokum brast þolinmæðin hjá Barða og hann svaraði með þessari gullvægu setningu:

“Ef maður þegir, þá veit enginn hvað maður segir!

(Birt með leyfi frá ÞH. 2024-06-01)

Hér birtast ykkur nú, ýmis spakmæli og örsögur um Barða, sem Vilmundur Ægir sendi mér á Messenger:

Sæll frændi !
Jósep Blöndal sendi mér þessa sögu af Barða Sæby 2019.
Ung og falleg síldarstúlka gekk fram hjá Tórahorninu, þar sem stóðu nokkrir Stúarar og spjölluðu.
Einn þeirra sagði við Barða: “Þarna er nú ein handa þér, Barði!”.
“Þú grípur ekki sólina þótt þú sjáir hana!”, var svarið.

Barði Sæby var spurðu ?
Kýstu alltaf kratana? Og Barði svaraði :
“Er A ekki alltaf fremsti bókstafurinn.”

Tókum tal saman, ég og Barði Sæby.
Það var verið að gera hagræðinu hjá Íslandspósti, landpósturinn sem var þá í Fljótunum, en kom þrisvar í viku til Siglufjarðar, en eftir hagræðingu fimm sinnum. Við Barði vorum ekki allveg að átta okkur á þessu. Við stóðum á Bankahorninu, en kemur þá ekki landpósturinn, keyrandi fyrir hornið á jeppa sem kostaði minnst 4 milljónir og ég bendi Barða á póstbílinn.
Þá komu þessi fleygu orð:
“Mér sýnist þeir geti kúkað í Fljótunum”

Barði Sæby vann í saltinu með Ellu Mæju, Möggu Dís og Bylgju Árna og fannst þær frekar grannar og rýrar á skrokkinn .
Barði hallaði sér að mér og sagði: “Ég myndi ekki sjóða þær”

Þegar Barði kom úr hádegismat, spurði ég hvað hann hefði borðað:
“Það var bara mostros = (minnst fimm rétta afgangar vikunnar… öllu hrært saman) og svo ávaxtagrautur í fimmmerku skálinni sem mamma átti.” Bætti Barði við í lokin.

Valmundur Valmundsson sendi mér þessa Barðasögu 2018.

Vann með Barða og fleiri öðlingum, Mikka, Ragga Mikk, Gulla Páls í Rammanum í denn. Ekkert sjónvarp á fimmtudögum og þá var farið í bíó hjá Oddi Thór. Barði fór oft í bíó og var spurður á föstudagsmorgni hvaða mynd hefði verið í bíó kvöldið áður:
Þetta var svona jústí jústí mynd. Svaraði Barði og var þá að meina að þetta var Bruce Lee karate kvikmynd.

Tvær stuttar í viðbót frá Vilmundi Ægi.

Heimsókn á hárgreiðslustofu:

Barði Sæby var vinna við að seila dragúldna hausa og svo mundi hann skyndilega að hann hafði pantað sér klippingu á fínu hárgreiðslustofunni, sem konan hans Hemma Múrarar, rak á Bankahúshorninu. Barði hendir af sér svuntunni og ríkur af stað.
En þegar hann mætir í klippinguna, þá æpa allar dömurnar á stofunni hástöfum og grípa fyrir nefið.

Barða, úlpunni hans og hári var hreinlega vísað á dyr.

Enda var hárið og úlpan útatað í úldnu hausaslori. Barði flýtti sér út og fór niður í móttökunnar í gamla frystihúsinu, setti Þrif grænsápu sem var notað til skúringa í hárið og skolaði með köldu vatni úr slöngu. Greiddi sér, fór úr úlpunni og síðan var vel tekið á móti honum er hann mætti aftur á hárgreiðslustofuna. Hann var bara nokkuð ánægður með þessa klippingu minnir mig.

TV & telefon:

Barði Sæby þráaðist lengi vel við kaupa sér sjónvarp og hvað þá hafa síma heima. Við sem unnum með honum, vorum að tala um Hemma Gunn, en þá fussaði og sveiaði Barði mikið. En eftir að hann fékk sér TV, varð Hemmi Gúmm eins og hann kallaði þáttinn, hans besti vinur, sem stytti honum stundirnar. Svo varðandi símann, þá sagði Barði mér að fyrsta símtalið á ævinni sem hann hringdi suður.
Náði hann vissulega að slá inn landsnúmerið, en sló hitt ekki rétt inn.

En það var mér ókunnug góðhjörtuð kona á Skólavörðustígnum, sem kenndi mér svo að hringja rétt. Svo sagði hann mér nokkru seinna, eftir að hann var búinn að fá sér bæði TV og telefon:

Mikið gat ég verið heimskur, meinti þá að hann hefði átt að vera kominn inn í nútímann miklu fyrr.

Nei Barði minn, þú vast sko allt annað en heimskur, það kemur svo sem ekki mikið gáfulegt úr þessum tólum og tækjum.

Og talandi um það að kaupa sér heimilistæki, þá mundi Steingrímur eftir þessari skemmtilegu sögu um kraftakarlinn Barða og hans móðurást:

Ein af götubylgjunni, Frásögn SK, eftir minni:

“Barði var einn af viðskiptavinum Gests Fanndal. Eitt sem oftar kom Barði við hjá honum, á leið heim til sín eftir vinnu til að versla smávegis sem hans var venja.

Gestur var þá nýbúinn að fá sendingu af þvottavélum og hvatti Barða til að kaupa eina og færa móður sinni til að létta henni störfin.
Barði var á báðum áttum, auðvitað elskaði hann móður sína og vildi allt fyrir hana gera. En var ekki viss um að henni mundi líka við þessa nýju tækni. Gestur var ýtinn, og sannfærði Barða um að mamma hans yrði ánægð. Barði keypti vélina, og sagðist koma með peningana síðar. Gestur samþykkti það þar sem hann þekkti Barða vel og hans heiðarleika. 

Gestur bauðst til að keyra vélinni heim til hans, en Barði sagði það óþarfa og tók þvottavélina bara á öxlina og bar hana heim.

Ekki er til svo að ég viti, frásögn af móttökunum hjá gömlu konunni, en frést hafði að það hefðu liðið margar vikur þar til gamla konan fékkst til að prófa vélina eftir að Gestur hafði komið í heimsókn og kennt henni á þvottavélina.”

Um leið og þessi Barðasögu viðbót frá Steingrími voru komin inn í söguna, þá koma ný skilaboð frá Vilmundi Ægi.

Sæll frændi!
Ég er farinn að vakna alla morgna með Barðasögur í hausnum.

Við Barði og nokkrir aðrir vorum að hengja upp skreið úti í hjöllunum snemma vors og stóðum upp á vörubíls palli hjá Jóni Kr.
Allt í einu dettur ein sperran niður og lendir á öxlinni á heljarmenninu Barða og þeytir honum af pallinum og í jörðina aftan við bílinn.
Okkur dauðbrá og við stukkum til og fórum að stumra yfir karlinum. En hann var svo heppinn að hann lenti í snjóskafli og hristi þetta bara af sér og sagði svo þegar hann stóð upp:

Djöfull var hann Jón Kr. vitlaus að bakka ekki… þegar ég lá svona vel til, aftan við bílinn.

Epilog:

Eitt af því skemmtilegast sem ég geri er að taka saman sögur um venjulegt alþýðufólk. Sem segja manni sögur úr hversdagsleikanum á síðustu öld. Þar var allt eitthvað svo jarðbundið og einfalt. Það syngur hver með sínu nefi úti á götum bæjarins, enginn var þá að fela sig og sínar skoðanir heima. Eða dæla út drullu í leyni, á aðra gegnum samfélagsmiðla.

En samfélagsmiðlar og ókeypis spjallmöguleikar í fleiri vikur, hafa komið að góðum notum í uppsetningarferlinu á þessari samantekt. Greinarhöfundur, rétt eins og Vilmundur Ægir frændi, var farinn að vakna líka upp úr Barðadraumum og Barði Sæby fékk sér oft morgunkaffi með mér hér úti í Gautaborg, síðan var hann með mér í huganum allan daginn.
Við frændi fundum líka fyrir miklu þakklæti yfir að hafa fengið að alast upp í firðinum fagra og þá sérstaklega fyrir að hafa fengið að vinna með og kynnast alvöru verkafólki, eins og t.d. Barða okkar Sæby.

Það er von mín að lesendur sjái að allt sem hér er skrifað, er sagt í mikilli væntumþykju og virðingu um minninguna um Barða Guðmund Ágústsson Sæby. Hann var svo sannarlega mikil Siglfirðingur og einstakur og eftirminnilegur karakter. Bráðgáfaður og fróður maður sem lifði nægjusömu og látlausu lífi.

Barði fór sjaldan úr firðinum fagra, kannski í besta lagi skrapp hann inn á Máná með frændum sínum sér til ánægjuauka. Hef þó heyrt að hann hafi einu sinni skroppið í bíltúr upp á Hofsós og till baka sama dag, með góðum vörubílabílstjóra vini sínum.

Blessuð sé minningin um þennan góða og fræga Siglfirska stúara.

Að loka lokum… eða ekki?

En það sem er svo skemmtilegt við að skrifa svona samantekt í samvinnu við aðra er að manni berast stanslaust viðbætur, enda er það reyndar ætlunin í þessu tilfelli að aðrir taki þátt. Þetta verður kannski bara alveg óvart “Barðasagan endalausa. “
Því, t.d. að þrátt fyrir að Steingrímur Kristins, (Baddý í Bíó) hafi tilkynnt mér fyrir þremur árum síðan að hann ætlaði að hægja á sér í skrifum, og myndvinnslu sökum aldurs. Þá tekst mér alltaf að fá hann í gang, aftur og aftur. Hann getur bara ekki stillt sig ef honum finnst efnisinnihaldið skemmtilegt og Siglfirskt. Svo fær hann alltaf leynislóð á óbirtar greinar og fær þannig að fylgjast með og vera með í ferlinu frá A-Ö.

Enn ein. Ef til vill of seint? Frásögn SK, eftir minni:

“Þetta heyrði ég haft eftir Barða, setning frá Barða sem situr fast í mér. 
Veðurstofan hafði spáð sunnan golu á RÚV fyrir Norðurlandi, en er menn mættu til vinnu daginn eftir var kominn norðan garri ásamt mikilli rigningu. Flestir bölvuðu yfir þessum „falspám“ Veðurstofunnar, en þegar augnabliks hlé varð á kvörtunum, sagði Barði sem þarna var á vettvangi: „Greyin mín hættið þessu væli, sunnan vindurinn kemur aftur“

Já, Barði minn, sunnan vindurinn er líklega það eina með viti sem kemur að sunnan. Við sjáum sjaldan þennan svokallaða sunnanvind, því ef það blæs mátulega að sunnan, þá kemur GALDRALOGN heima á Sigló.

Svo minnti Steingrímur mig á skemmtilega og fræðandi grein um stóra 1963 jarðskjálftann og þar segir hann eftirfarandi sögu af viðbrögðum Barða Sæby:

“Margar sögur voru sagðar á vinnustað mínum og nágrenni, af fólki og viðbrögðum þess þegar skjálftinn reið yfir.

Ein þeirra var um hafnarverkamenn (Stúarafélag Siglufjarðar) sem voru gangandi á leið heim eftir vinnu við kolaskip (minnir mig) og voru á Gránugötunni þegar jarðskjálftinn dundi yfir með gný í fyrstu, og síðar tók jörðin að hristast undir fótum þeirra og í sama mund byrjuðu kirkjuklukkurnar að klingja af völdum skjálftans.

Þá mun Barði Ágústsson, einn stúaranna fyrrnefndu hafa sagt eitthvað á þessa leið:

“Nú er betra að vara sig, heimsendir er kominn” Sumir segja raunar að hann hafi sagt:

“Nú er betra að vara sig, skrattinn er kominn”

En örugglega hefur Barði sagt eitthvað krassandi, því hann var stundum fljótur til svara.”

Sjá meira hér:

Nú er betra að vara sig, skrattinn er kominn

Þakklætiskveðjur til Steingríms, Vilmundar Ægis, Leó, Tóta, Svenna Hjartar og fl. fyrir sögur og myndir.

Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá ljósmyndaranum og Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í ýmsar persónur og heimildir í greinartexta.