Selma Hrönn Maríudóttir barnabókahöfundur hefur hlotið 600.000 kr. styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra fyrir árið 2026. Styrknum er úthlutað til SM13 ehf., einkahlutafélags Selmu sem heldur utan um útgáfu barnaefnisins Grallarar.is, íslensks barnamenningarverkefnis sem hefur verið í stöðugri þróun frá árinu 2006.
Verkefnið samanstendur af sögubókum, vinnubókum, táknmálsútgáfum, tónlist og vef og er ætlað börnum á leikskólaaldri og yngsta stigi grunnskóla.
Grallarabækurnar hafa á síðustu árum notið vinsælda fyrir skapandi nálgun, ljóðrænt tungutak og vandaða meðferð íslensks máls. Bækurnar hafa verið notaðar til lestrarhvatningar í bókasöfnum og í skólastarfi víða um land.
- Piparkökuuppskrift Grallaranna er vinsæl í uppskriftahorni grallarar.is
- Vinnubækur fyrir heimili og skóla
Selma hefur fjölbreyttan bakgrunn. Hún er lögfræðingur og rafeindavirki að mennt og hefur einnig stundað nám í kerfisfræði og forritun. Hún rekur vefsíðufyrirtækið wplausnir.is og semur tónlist og skrifar barnabækur í frístundum.
Selma er fædd á Akureyri, dóttir Gylfa Ægissonar frá Siglufirði og Kristínar Maríu Jónsdóttur frá Akureyri. Þau eru bæði látin.
Selma hefur hlotið verðlaun og styrki fyrir framlag sitt til barnamenningar, meðal annars SAFT-verðlaunin árið 2013 fyrir besta barnaefnið á Netinu. Verðlaunin voru afhent af mennta- og menningarmálaráðherra og byggja á sameiginlegu átaki evrópskra netöryggismiðstöðva til að vekja athygli á gæðaefni fyrir börn á Netinu.

Selma með starfsfólki Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem vann táknmálsútgáfur af bókunum
Selma hefur frá upphafi lagt áherslu á nýnæmi í sköpun. Með útgáfu fyrstu bókarinnar árið 2006 þótti nýmæli að sögurnar væru sagðar bæði á vísnaformi og einföldu máli fyrir yngstu lesendur. Með Grallarabókunum voru ljóð einnig í fyrsta sinn gefin út á táknmáli fyrir börn og það að vinnubækur fylgdu bókunum tíðkaðist ekki í almennri bókaútgáfu.
„Með stuðningi úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra verður unnt að endurgera vefinn með nútímalegu aðgengi, þróa nýjar vinnubækur, endurbæta táknmálsútgáfur og skapa fræðandi efni sem sameinar tækni, menningu og leik.
Um leið og ég þakka Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra kærlega fyrir stuðninginn vil ég einnig nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sem hafa síðustu daga keypt eintök af bókunum í verslun SR á Siglufirði,“
segir Selma Hrönn.
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkir á hverju ári menningar- og nýsköpunarverkefni sem efla svæðið og samfélagið. Grallaraverkefnið er eitt þeirra sem hljóta styrk á árinu 2026.
Við óskum Selmu og Gröllurum innilega til hamingju með styrkinn og ljúkum þessari umfjöllun með vísu úr jólabók Grallaranna.
Hér syngja söngelsk systkini Grallavísur við lagið „Fljúga hvítu fiðrildin:“
Grallararnir sem heita The Perky Pranksters á ensku eiga sitt eigið stef sem heyra má hér:

Hér má hlusta á vísurnar þegar Glingló hrekkir bola og hér má einnig nálgast undirspil fyrir þá sem vilja sjálfir syngja með.
Hér má hlusta á vísurnar þegar Glingló hrekkir bola og hér má einnig nálgast undirspil fyrir þá sem vilja sjálfir syngja með.
Myndir: úr einkasafni









