Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu Bessastaðaness sem friðlands. Friðlýsingin er staðfest að beiðni forseta Íslands og sveitafélagsins Garðabæjar og unnin í samstarfi ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, embætti forseta Íslands, Þjóðminjasafns, Minjastofnunar og Garðabæjar. Svæðið hefur verið á náttúruverndaráætlun sem hluti af Skerjafjarðarsvæðinu.
Bessastaðanes er hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði Skerjafjarðar og er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda og er fræðslu- og vísindagildi svæðisins hátt með tilliti til lífríkis og menningarminja, en þar er fjöldi menningarminja. Friðlýsta svæðið er 4,45 km² að stærð og nær yfir Bessastaðanes allt, hluta Bessastaðatjarnar og Lambhúsatjarnar og liggur að friðlandinu í Gálgahrauni sem friðlýst var í október 2009.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Mér þykir sérstaklega ánægjulegt að staðfesta að þetta náttúrusvæði, sem er umkringt þéttbýli stórhöfuðborgarsvæðisins, verði friðlýst. Ég hef í mínum störfum í ráðuneytinu talað fyrir vernd líffræðilegrar fjölbreytni sem er gríðarlega mikilvæg. Það er til fyrirmyndar að forseti Íslands og Garðabær hafi tekið saman höndum og átt frumkvæði að friðlýsingu Bessastaðaness sem er hluti af Skerjafjarðarsvæðinu sem er á náttúruverndaráætlun. Önnur sveitarfélög við Skerjafjörðin mættu taka sér það til fyrirmyndar áður en skaði hlýst af.“
Verndar líffræðilega fjölbreytni svæðisins
Á Bessastaðanesi eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Þá er svæðið viðkomustaður margæsar og rauðbrystings, en auk þess er þar æðarfugl, sendlingur og tildra sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Verndargildi vistgerðanna á svæðinu er frá því að vera miðlungs hátt og upp í mjög hátt og eru til að mynda votlendisvistgerðirnar starungsmýravist, gulstaraflóavist og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.
Friðlýsingunni er ætlað að tryggja vernd náttúrulegs ástand svæðisins sem bú- og viðkomusvæðis fugla, sem og að vernda líffræðilega fjölbreytni þess – lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi Bessastaðaness, sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki, tækifærum til útivistar innan þéttbýlis og nýtingar sem samrýmist verndun búsvæða fugla.
Með friðlýsingunni nú er Lambhúsatjörn að stærstum hluta friðuð, en við hana er m.a. að finna vistgerðina marhálmsgræður, sem hefur takmarkaða útbreiðslu og er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir.
Viðstödd friðlýsinguna voru, auk forseta, ráðherra og bæjarstjóra, fulltrúar Minjastofnunar, forsætisráðuneytis og starfsmenn forsetaembættisins, ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar.
Mynd/aðsend