Ástþór Árnason Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2024.

Þann 15. febrúar sl. var bæjarlistamaður Fjallabyggðar formlega útnefndur en Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 9. nóvember sl., að útnefna Ástþór Árnason Bæjarlistamann Fjallabyggðar árið 2024. Er það í 15. sinn sem nefndin útnefnir bæjarlistamann Fjallabyggðar.

Athöfnin fór fram í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði. 

Menningartengdum styrkjum var úthlutað í eftirfarandi flokkum: Styrkir til menningarmálastyrkir til hátíðarhalda og stærri viðburða og styrkir til reksturs safna og setra.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti að veita styrki til þessara þriggja flokka á árinu 2024 að upphæð kr. 11.990.000.-. Þar af fara kr. 2.640.000.- til einstakra menningartengdra verkefna, kr. 5.835.000.- til hátíðarhalda og kr. 3.515.000.- til reksturs safna og setra og þjónustusamnings vegna náttúrugripasafns. Áfram verður veittur styrkur til bæjarlistamanns og er upphæð hans óbreytt frá fyrra ári kr. 300.000.-

Í flokki fræðslumála samþykkti Bæjarstjórn Fjallabyggðar að veita styrki að upphæð 595.000.- og styrki til grænna verkefna að upphæð 2.500.000.-

Ægir Bergsson formaður markaðs- og menningarnefndar setti hátíðina og Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi flutti ávarp, afhenti styrkina ásamt Ægi og veitti bæjarlistamanni viðurkenninguna. Við athöfnina voru flutt glæsileg tónlistaratriði.  Fram komu þau Edda Björk Jónsdóttir sópran og Hörður Ingi Kristjánsson sem lék á píanó. Fluttu þau þrjú lög.  Að lokinni athöfn bauð Fjallabyggð gestum upp á léttar veitingar frá Kaffi Klöru í Ólafsfirði. 

Fjallabyggð þakkar fráfarandi bæjarlistamanni, Brynju Baldursdóttur hennar framlag til menningar og lista á árinu en allt árið 2023 vann Brynja að sýningunni Kom-andi á safn­anótt í Lista­safni Ein­ars Jóns­son­ar.  Með þess­ari sýn­ingu er Brynja að leit­ast við að skyggn­ast inn í órjúf­an­legt sam­spil komu og brott­far­ar, ei­lífa hringrás umbreyt­inga og and­ar­taks­ins þar á milli. Sýn­ing­in stend­ur til 25. ág­úst og eru íbúar Fjallabyggðar hvattir til að skoða sýninguna. 

Fjallabyggð óskar styrkhöfum velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru og Ástþóri Árnasyni innilega til hamingju með nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2024.

Alþýðuhúsið á Siglufirði – Menningarstarf
Umsækjandi: Félag um menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði Alþýðuhúsið á Siglufirði hefur staðið fyrir margþættu menningarstarfi á ársgrundvelli síðan árið 2012. Þar er starfrækt gallerí sem nefnist Kompan með 7 – 9 sýningum á ári, settar eru upp þrjár listahátíðir
á ári, 5 – 7 fyrirlestrar, listasmiðjur og annað sem viðkemur menningu og listum. Listrænn stjórnandi Kompunnar er Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og hefur hún kappkostað að sýna fjölbreytta nútímamyndlist með því markmiði að opna hurð inn í heim myndlistar fyrir almenning. Í alrými hússins er efnt til mánaðarlegra viðburða sem nefnast Sunnudagskaffi með skapandi fólki –
viðburði þar sem skapandi fólk segir frá og sýnir verk sín og starf. Í sal Alþýðuhússins eru settir upp stærri viðburðir og listasmiðjur, tónleikar, fjöllistasýningar, ljóðadagskrá, dans og hvað eina sem við kemur skapandi hugsun. Styrkupphæð kr. 500.000.-

Frjó Listahátíð
Umsækjandi: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Frjó listahátíð verður haldin dagana 12. – 14. júlí
Frjó er þriggja daga hátíð á vegum Alþýðuhússins á Siglufirði sem hefur flætt út fyrir veggi hússins og
um alla Fjallabyggð. Listafólk og menningarstofnanir í Fjallabyggð taka þátt í Frjó til viðbótar við þá
listviðburði sem Alþýðuhúsið stendur fyrir. Hátíðin hefur rækilega fest sig í sessi meðal heimamanna
og ferðafólks.
Tilefni listahátíðarinnar Frjó er að skapa leikvöll lista, listafólks og listáhugafólks. Styrkupphæð kr. 600.000.-

INTO Listahátíð
Umsækjandi: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir INTO er þriggja daga listahátíð á Siglufirði dagana 7. – 9. júní sem Aðalheiður S. Eysteinsdóttir stendur að í samstarfi við Will Owen og Arnar Ómarsson.
INTO var fyrst haldin í Assedrup í Danmörku haustið 2023, en verður haldin í Alþýðuhúsinu á Siglufirði í ár.

Aðalheiður býður ólíkum listamönnum til þátttöku frá Danmörku, Íslandi og Bandaríkjunum og munu
þeir dvelja á Siglufirði um tíma við vinnu og uppsetningu hátíðarinnar. Styrkupphæð kr. 300.000.-

Abbý – Listasýningar
Umsækjandi: Arnfinna Björnsdóttir
Arnfinna (Abbý) rekur vinnustofu að Aðalgötu 13 á Siglufirði þar sem hún vinnur að list sinni, klippimyndum frá Síldarárunum og annarri myndlist ásamt handverki. Þann 20. maí ár hvert opnar hún sýningu sem er opin til 20. september eða lengur. Styrkupphæð kr. 100.000.-

Berjadagar tónlistarhátíð
Umsækjandi: Berjadagar, Félag um tónlistarhátíð.
Berjadagar tónlistarhátíð 2024, var stofnuð árið 1998 með orðin ,,Náttúra og listsköpun að leiðarljósi. Listrænn stjórnandi Berjadaga er Ólöf Sigursveinsdóttir selló leikari. Berjadagar er fjölskylduvæn tónlistarhátíð sem fram fer 14.-17. júní nk. með tónleikum og viðburðum sem tengjast m.a. þjóðhátíð Íslendinga. Berjadagar tónlistarhátíð er ein sinnar tegundar sem haldin er í Ólafsfirði. Styrkupphæð kr. 600.000.-

Farandtónleikar í Fjallabyggð
Umsækjandi: Daníel Pétur Daníelsson
Farandtónleikar í Fjallabyggð er röð pop-up örtónleika sem fram fara undir berum himni í Fjallabyggð.
Farandtónleikarnir fara þannig fram að stillt er upp hljóðkerfi á færanlegt svið og verður því sviði keyrt á fyrir fram ákveðna staði í bænum. Þar sem stoppað er verða fluttir 30-40 mín. Tónleikarnir fóru fyrst fram sumarið 2023 og var gamli Chevrolet vörubíll Síldarminjasafns Íslands notaður sem svið. Vöktu tónleikarnir og umgjörðin mikla lukku meðal áheyrenda. Styrkupphæð 90.000 kr.-

Fjarðargangan, – hlaup og -hjól 2024
Umsækjandi: Skíðafélag Ólafsfjarðar
Skíðafélag Ólafsfjarðar hefur nú í tvö ár haldið þríleik sem samanstendur af Fjarðargöngunni (skíðagöngukeppni) Fjarðarhlaupinu og Fjarðarhjólinu. Fjarðargangan á þó mun lengri sögu.
Fjarðagangan nýtur mikilla vinsælda meðal heimamanna og gesta. Keppnin fór fram dagana 10. og 11. febrúar sl.
Um 300 manns taka þátt í Fjarðargöngunni. Fjarðarhlaupið og Fjarðarhjólið hafa verið haldin í tvö ár og þátttaka hefur vaxið með hverju árinu. Sl. sumar voru 73 sem tóku þátt í hlaupinu og 54 sem tóku þátt í hólinu. Skíðafélagið reiknar með að þessir viðburðir eigi bara eftir stækka og er undirbúningur þegar hafinn. Styrkupphæð kr. 250.000.- að auki er veittur styrkur í formi afnota af húsnæði Fjallabyggðar að andvirði kr. 150.000.-

Indoor Mural Project and Children’s Workshop
Umsækjandi: Emma Louise Sanderson
Innanhúss veggmyndaverkefni og barnasmiðja. Hér er um samfélagslegt framtak sem snýr að því að börn vinni að gerð veggmyndar í rými í eigu Fjallabyggðar. Um er að ræða eins dags vinnustofu fyrir börn. Þessi vinnustofa mun veita ungum þátttakendum vettvang til að kanna sköpunargáfu sína og leggja sitt af mörkum til að búa til veggmynd, undir leiðsögn listamannsins Emmu Louise. Styrkupphæð 250.000 kr.-

Myndasöguhátíð Siglufjarðar
Umsækjandi: Eleftherios Giakoumakis
Myndasöguhátíð Siglufjarðar er alþjóðleg myndasöguhátíð sem haldin verður í Fjallabyggð í ár. Hátíðin býður heimamönnum, innlendum aðilum sem og erlendum myndasögusmiðum og örðum áhugasömum að fagna myndasögulistinni saman. Listamenn munu sýna verk sín og rit á hátíðinni.
Boðið verður upp á fyrirlestra um list og sögu myndasagna hér á landi auk barnasmiðja. Markmið verkefnisins eru að skapa vettvang listafólks til að sýna íslenska myndasögusenu. Byggja brýr milli íslenskra og alþjóðlegra myndasögulistamanna og áhugafólks um myndasögu. Fræða ungmenni á staðnum um myndasögulist, sýna bæinn, menningararfleifðina og laða að gesti í bæinn. Styrkupphæð 250.000 kr.- Að auki er veittur styrkur vegna afnota af húsnæði Fjallabyggðar að andvirði kr. 120.000.-

Listasýningar í Pálshúsi
Umsækjandi: Fjallasalir ses.
Yfir sumartímann á opnunartíma Pálshúss verða opnaðar þrjár listasýningar í sýningarsal Pálshúss. Þá er ráðgert að hafa hina árlegu jólasýningu í desember. Einnig er verið að skoða þá hugmynd að koma á Ljósmyndasafni Ólafsfjarðar og verður unnið við það í vetur. Sýningar byrja þegar Pálshús opnar um maí og standa til 15. september. Styrkupphæð kr. 350.000.-

Karlakór Fjallabyggðar
Umsækjandi: Karlakór Fjallabyggðar
Kórinn verður með nokkra tónleika á vetrardagskrá 2023/2024. Jólatónleikar verða haldnir í Siglufjarðar kirkju og Dalvíkurkirkju. Karlakór Fjallabyggðar heldur tónleikar á Ólafsfirði í Tjarnarborg. Einnig stendur til að vera með Work shop og tónleika á Akureyri með karlakór Ak-Geysi, Karlakór Eyjafjarðar og Karlakór Kópavogs. Einnig eru fyrirhugaðir tónleikar með Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps á Blönduósi. Styrkupphæð kr. 100.000.-

Kirkjukór Ólafsfjarðar. Kórsöngur o.fl.
Umsækjandi: Kirkjukór Ólafsfjarðar
Kirkjukór Ólafsfjarðar hlýtur styrk vegna kórsöngs við hin ýmsu tilefni og til reksturs kirkjukórsins. En fyrirhuguð eru námskeið og raddþjálfun félaga. Styrkupphæð kr. 100.000.-

Kór eldri borgara í Fjallabyggð
Umsækjandi: Kór eldri borgara
Kór eldri borgara hlýtur styrk vegna kórsöngs við hin ýmsu tilefni til reksturs kórsins. Styrkupphæð kr. 100.000.-

Leikfélag Fjallabyggðar – uppfærsla leikársins 2024
Umsækjandi: Leikfélag Fjallabyggðar
Uppfærsla verksins Beint í æð verður flutt í Tjarnarborg á leikárinu. Leikstjóri vetrarins er Valgeir Skagfjörð.
Markmiðið Leikfélagsins er að efla menningarlíf í Fjallabyggð og bjóða íbúum og gestum Fjallabyggðar upp á leikverk og ekki síður fá áhugaleikara hér í samfélaginu til að taka þátt og rækta hæfileika sína á leiklistarsviðinu. Styrkupphæð kr. 500.000.-

Ljóðahátíðin Haustglæður
Umsækjandi: Ungmennafélagið Glói og Félag um Ljóðasetur Íslands
Markmið hátíðarinnar er að auka áhuga íbúa og gesta Fjallabyggðar á ljóðlist og menningu. Veita þeim tækifæri til að hlýða á fremstu skáld landsins flytja ljóð sín. Skapa vettvang fyrir heimamenn til að koma sér og sínu efni á framfæri, hvort sem er í formi ljóðlistar eða tónlistar. Kynna komandi kynslóðum íslenska ljóðlist og þjálfa ungmenni í skapandi skrifum og að koma fram.
Dagskrárliðir hátíðarinnar verða 10 – 12 talsins. Þar eru hefðbundin atriði eins og skólaheimsóknir skálda, heimsókn skálda á dvalarheimili aldraðra, ljóðasamkeppni nemenda, ljóðakvöld heimamanna, heimsóknir skólahópa á Ljóðasetrið, flutt tónlist sem samin hefur verið við ljóð íslenskra skálda o.fl. A.m.k. eitt þjóðþekkt skáld kemur fram á hátíðinni auk heimafólks og yngri kynslóðin verður virkjuð til sköpunar og fær þjálfun í að koma fram. Frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar. Styrkupphæð kr. 275.000.-

Sápuboltinn 2024
Umsækjandi: Félag um Sápubolta
Sápuboltinn er tveggja daga tónlistar- og menningarhátíð þar sem markhópurinn er fólk á aldrinum 6- 40 ára. Á hátíðinni er öllum boðið að taka þátt. Áætlað er að 1000-1300 einstaklingar hafi sótt hátíðina árið 2023 en það er stærsta hátíðin sem fram hefur farið og er hátíðin í stöðugum vexti. Dagskráin samanstendur af tónleikum, sápubolta og tónleikum. Síðustu ár hefur dagskrá verið sniðin að þörfum og áhuga yngri kynslóða og fjölskyldufólki þar sem börnum á aldrinum 6-18 ára er boðið frítt í Sápubolta á föstudegi öllum sem geta komið er boðið upp á fría tónleika og brekkusöng við Tjarnarborg. Í ár verður Sápuboltinn haldinn í sjöunda sinn. Styrkupphæð kr. 500.000.-

Síldarminjasafn Íslands – Jólatónleikar
Umsækjandi: Síldarminjasafnið
Jólatónleikar Síldarminjasafnsins verða haldnir í Bátahúsinu í desember. Tónlistarflutningur verður í höndum starfsfólks safnsins, þeirra Eddu Bjarkar Jónsdóttur, Daníels Péturs Daníelssonar, Harðar Inga Kristjánssonar og Tinnu Hjaltadóttur. Bátahúsið verður skreytt jólaljósum og flutt úrval íslenskra jólalaga – sem þó geta átt sér ólíkan uppruna. Íbúum Fjallabyggðar og öðrum gestkomandi verður boðið að njóta tónleikanna án aðgangseyris. Styrkupphæð 350.000 kr.-

Sjómannadagshátíð í Ólafsfirði 2024
Umsækjandi: Sjómannadagsráð
Sjómannadagurinn í Ólafsfirði. Sjómannadagsráð og Sjómannafélag Ólafsfjarðar halda uppi metnaðarfullri dagskrá alla sjómannadagshelgina og þar með sýna þessum hátíðisdegi sjómanna þá virðingu sem honum ber. það má minna á að byggðarkjarnarnir í Fjallabyggð Ólafsfjörður og Siglufjörður byggðust upp á sjósókn og fiskvinnslu. Sjómannadagshátíðin er fjölskylduhátíð og öllum opin.
Styrkupphæð 1.040.000 kr.- Að auki er veittur styrkur í formi afnota af húsnæði Fjallabyggðar að andvirði kr. 150.000.-


Síldarævintýri á Siglufirði
Umsækjandi: Stýrihópur um Síldarævintýri.
Markmið hátíðarinnar er fyrst og fremst að skapa grundvöll fyrir bæjarbúa til að koma saman og gleðjast saman. Um að ræða fjögurra daga fjölskylduhátíð þar sem lögð er áhersla á að allir aldurshópar finni eitthvað við sitt hæfi. Áætlað er að hátíðin verði samsett af um 50 smærri viðburðum um allan miðbæinn og gestir hátíðarinnar sjá og upplifa eitthvað nýtt og spennandi á hverju götuhorni.
Styrkupphæð kr. 600.000.- Að auki er veittur styrkur í formi afnota af húsnæði og munum Fjallabyggðar að andvirði kr. 400.000.-

Þjóðlagasetur – Sumartónleikar
Umsækjandi: Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar
Sumartónleikar í Þjóðlagasetri sr. Bjarna Þorsteinssonar er tónleikaröð þar sem boðið er upp á ferna tónleika. Ungt tónlistarfólk kemur fram í Þjóðlagasetrinu og víðar á Siglufirði og lífgar þannig upp á bæjarlífið sem hljóðfæraleik og söng. Listamennirnir verða flestir af yngri kynslóðinni enda er markmiðið tónleikaraðarinnar ekki síst að hvetja ungt fólk til þess að takast við eigin þjóðlagaarf og flétta hann inn í tónlist sína. Styrkupphæð kr. 200.000.-

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði
Umsækjandi: Þjóðlagahátíð 2024
Hátíðin í ár verður sú 24. í röðinni. Markmið Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði er að styðja við bakið á þeim sem stunda íslenska þjóðlagatónlist og að leyfa landsmönnum að hlusta á tónlistarmenn í fremstu röð, víðs vegar að úr veröldinni. Á hátíðinni kemur saman tónlistarfólk úr ólíkum áttum og á öllum aldri, hlustar á verk hvers annars og lærir í Þjóðlagaakademíunni um tónlistararf Íslendinga og annarra þjóða. Tónlistarmenn víðs vegar að úr veröldinni halda tónleika og námskeið auk þess sem Þjóðlagaakademían verður starfrækt samhliða hátíðinni. Hátíðin stendur yfir í fimm daga og verður hún með líku sniði og undanfarin ár. Daglega verða tvennir til þrennir tónleikar, nokkur námskeið verða haldin um tiltekið efni auk fyrirlestra í þjóðlagaakademíunni. Styrkupphæð kr. 600.000.-

Fræðslustyrkir

Dansnámskeið fyrir nemendur
Umsækjandi: Foreldrafélag Leikhóla
Foreldrafélag Leikhóla fær styrk til að standa fyrir dansnámskeiði fyrir nemendur. Styrkupphæð kr. 35.000.-

Myndlistasýning barna
Umsækjandi: Foreldrafélag Leikhóla
Foreldrafélag Leikhóla fær styrk til fyrir myndlistarsýningu nemenda í Tjarnarborg. Styrkur í formi afnota af húsnæði Fjallabyggðar kr. 60.000.-

Kaup á leikföngum
Umsækjandi: Foreldrafélag Leikskála
Foreldrafélag Leikskála fær styrk til kaupa á leikföngum. Styrkur kr. 200.000.-

Samningur um forvarnarstarf í samstarfi við forvarnarteymi Grunnskóla Fjallabyggðar
Umsækjandi: Foreldrafélag Grunnskóla Fjallabyggðar
Foreldrafélagið Grunnskóla Fjallabyggðar fær árlega styrk í þrjú ár til að standa undir kostnaði við forvarnarfræðslu fyrir grunnskólanema og eftir atvikum foreldra. Leitast er er við að hafa forvarnarfræðslu fjölbreytta s.s. gegn kynferðis- og kynbundnu ofbeldi, fíkn, stafrænu ofbeldi o.s.frv. Einnig mætti horfa til fyrirlestra sem byggja upp sjálfsmynd og styrkja börn og unglinga á annan hátt. Styrkupphæð kr. 300.000.-

Grænir styrkir

Skúlptúrgarður við Alþýðuhúsið á Siglufirði
Umsækjandi: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Skúlptúrgarður við Alþýðuhúsið á Siglufirði með verkum eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur. Uppbygging Garðsins hefur staðið yfir undanfarin ár og hefur gengið vel. Nú þegar eru komin tvö stór verk í garðinn, Álfhóll og Bergmyndir. Eftir því sem árin líða er komin ákveðin reynsla á hvernig fólk og náttúra leika sér í garðinum. Mikið er stoppað við Bergmyndir og jafnvel áð þar í einhverja klukkutíma með nestið sitt og bók til lestrar. Leitast verður við að samþætta náttúru og tíma í verkum Aðalheiðar og gera gestum kleift að staldra við á eða í verkunum. Haldið verður áfram að vinna að umgjörð garðsins og steinhleðslu sem mun verða áberandi þáttur í sköpunarverkinu. Styrkupphæð kr. 300.000.-

Ljúka frágangi við púttvöll
Umsækjandi: Félag eldri borgara á Siglufirði
Veittur er styrkur til að klára framkvæmdir við púttvöll á Siglufirði. Styrkupphæð kr. 75.000.-

Hvanneyrarskál – fólkvangur
Umsækjandi: Björn Jónsson
Verkefnið er gengur út á að auka nýtingu og bæta ásýnd fólkvangs með því að setja upp lítið bjálkahús í Hvanneyrarskál. Húsinu er ætlað að veita skjól og hvíld fyrir gesti. Í húsinu yrði aðstaða til að geta meðal annars kveikt upp í grilli til að elda einfaldar máltíðir, hita vatn,
hlýja sér eða einfaldlega til að hafa það notalegt. Verkefnið gagnast öllum íbúum Fjallabyggðar og hvetur til aukinnar útivistar í nærumhverfi.
Verkefnið er hluti af því að tengja saman leik og hreyfingu, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk, sem getur nýtt húsið sem markmið gönguferðar fyrir börn. Styrkupphæð kr. 1.975.0000.-

Grillskýli í Skógræktinni
Umsækjandi: Skógræktarfélag Siglufjarðar
Styrkurinn er til kaupa á áhöldum og skjóli við grillskýli í Skógræktinni á Siglufirði.Styrkupphæð kr. 150.000.-

Rekstrarstyrkir safna og setra

Ljóðasetur Íslands
Umsækjandi: Félag um Ljóðasetur Íslands.
Ljóðasetrið hefur verið starfrækt síðan 2011 og starfsemi þess hefur vaxið jafnt og þétt. Ljóðasetrið er það eina sinnar tegundar á landinu og hefur vakið töluverða athygli sem m.a. lýsir sér í reglulegri umfjöllun fjölmiðla undanfarin ár. Setrið er ein af perlunum í perlufesti safna, setra og annarra áhugaverðra staða til að heimsækja.
Markmiðið með Ljóðasetri Íslands er að kynna íslenska ljóðlist fyrir innlendum sem erlendum gestum með lifandi hætti sem og að gera komandi kynslóðir meðvitaðar um mikilvægi ljóðlistarinnar í menningu okkar og sögu.
Ljóðasetrið er opið yfir sumartímann en á öðrum tímum ársins er tekið á móti hópum með fræðslu, ljóðalestri, söng og kveðskap auk þess sem þar eru stakir viðburðir. Yfir sumartímann eru lifandi viðburðir alla opnunardaga kl. 16.00. Á Ljóðasetrinu er einnig að finna stórt safn ljóðabóka sem og ýmsa muni og myndir sem tengjast þessum merka arfi okkar. Styrkupphæð kr. 450.000.-

Náttúrugripasafn Fjallabyggðar – þjónustusamningur
Fjallabyggð og Fjallasalir ses. gera með sér þjónustusamning vegna náttúrugripasafns sem Fjallabyggð afhenti Sigurhæð ses, seinna Fjallasalir ses. til eignar og fram kom i samþykktum undirrituðum 21.5.2014 og samningi sem gerður var og undirritaður sama dag. Safnið er staðsett í Pálshúsi Ólafsfirði.
Fjallasalir ses. tekur að sér varðveislu, umhirðu og sýningarhæfi náttúrugripasafnsins og að það sé aðgengilegt almenningi til skoðunar yfir sumartímann með auglýstum opnunartíma og að vetri eftir samkomulagi, eins og við verður komið. Upphæð þjónustusamnings á ári kr. 900.000.-

Pálshús
Umsækjandi: Fjallasalir ses.
Rekstrarstyrkur til safnahúss Pálshúss. Framkvæmdum er lokið og áætlað að bæta við og styrkja umgjörð hússins sem upplýsinga- og menningarlegt aðdráttarafl m.a. með ljósmyndasafni og fleiri sýningum og þá mögulega á heilsársgrunni. Tilgangur og markmið er að upplýsa- fræða og halda uppi menningu eins og kostur er með listsýningum og viðburðum. Styrkupphæð kr. 1.000.000.-

Saga Fotografica
Umsækjandi: Saga Fotografica félagasamtök
Tilgangur safnsins er varðveisla á tækjum til ljósmyndunar og ljósmyndavinnslu, frá ýmsum tímum auk þess að sýna þau og kynna. Einnig mun safnið standa fyrir kynningu á ljósmyndum, sögu ljósmynda og mismunandi aðferðum við ljósmyndavinnslu, sem og sýningum á myndverkum.
Markmið safnsins er að styrkja og vekja áhuga á ljósmyndun og ljósmyndatækni, kynna sögu hennar og mismunandi aðferðir við töku ljósmynda og sýna ljósmyndaverk. Fyrir liggur að safnið muni vinna að koma nýjum munum frá lager og inn á sýningargólf. Flokkun muna, yfirfærsla og skráning er framundan á munum gefenda. Safnið opnar vanalega með nýja sýningu, 17. júní ár hvert. Styrkupphæð kr. 175.000.-

Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar
Umsækjandi: Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinsson
Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar er eina stofnunin hér á landi sem helgar sig alfarið íslenskum þjóðlagaarfi, varðveislu hans, rannsóknum og kynningu með ýmsum hætti. Á safninu er boðið upp á lifandi kynningu á íslenskum þjóðlagaarfi með því að syngja og leika á langspil eða íslenska fiðlu. Í setrinu er hægt að fræðast um þjóðlagasöfnun Bjarna Þorsteinssonar, skoða húsgögn og muni úr eigu hans og konu hans Sigríðar Blöndal, sem og lög í handriti og í prentuðum bókum. Þjóðlagasetrið er með fasta opnun sumartímann en einnig er tekið á móti hópum allt árið, svo sem ferðamönnum, skólahópum, árgangshópum og fólki á ráðstefnum. Þjóðlagasetrið á Siglufirði er einstakt sinnar tegundar hér á landi og vekur mikla athygli, ekki síst erlendra gesta.
Styrkupphæð kr. 990.000.-