Blkáberja Tom er líklega samið 2005-6 úti í Danmörku.

Lagið er samið í kringum riffið sem kemur í seinni viðlögunum. Það er gamaldags “stompy rocker” og hlaðið gítarriffum.

Tilurð lagsins er sú að ég (Guðlaugur Hjaltason) ásamt vinum mínum Jóni Magnúsi Sigurðarsyni (Chernobil) og Þór Sigurðssyni (Deep Jimi and the Zep Creams) héldum úti hljómsveit í Danmörku, sem bar nafnið Tundur. Auk Jóns og Þórs var danskur trommuleikari. Þessi trommuleikari var og er mjög góður tónlistamaður en eins og margir danir, afskaplega sérhlífinn. Hann átti það til að mæta illa á æfingar og var oft með mjög spaugilegar afsakanir á takteinum og lét ekkert endilega vita hvort hann kæmi. Ein afsökunin hans fyrir að mæta ekki var til dæmis sú að strákurinn hans væri veikur.

Við tilfinningakögglarnir í bandinu bráðnuðum gjörsamlega yfir gæsku mannsins. Þangað til við komumst að því að sonurinn var sextán ára og var með kvef! En alla vega varð þetta af einhverri ástæðu brandari innan hljómsveitarinnar það er að segja, slælegar mætingar trommuleikarans og getuleysi hans að láta vita.

Svo gerist það á einni æfingu að hinn téði trommuleikari mætir ekki. Fer þá mikill galsi og glens um mannskapinn og í gríni hrópa ég: Það þarf að berja hann! Þá hrópar Þór: Já bláberja hann! Með þetta fór höfundurinn heim og samdi lag um að berja trommuleikara. í gríni auðvitað. Það verður þó að játast að þessum ágæta trommuleikara og tónlistarmanni sem í laginu heitir Tom var aldrei sagt frá innihaldi textans. Seinna fór hljómsveitin í prufustúdíó T.C Electronic og tókum upp nokkur lög sem aldrei voru gefin út. Þar á meðal var lagið Bláberja Tom og var oft kímt og flissað þegar “Tom” fór að syngja með en vissi aldrei um hvað var fjallað. Svona er þetta í grunninn…brandari sem varð að lagi. 

Á þessari útgáfu Lýðskrums af Bláberja Tom eru hinsvegar miklir meistarar með mér. Fyrst ber að nefna Harald Þorsteinsson bassa. Fyrir utan að vera besti bassaleikari Íslands þá er hann minn traustasti vinur og ráðgjafi í öllu þessu tónlistabrölti. Ásgeir Óskarsson trommur. Fyrir utan að vera besti trommuleikari landsins er hann bara frábær gaur. Pétur Hjaltested hljómborð/upptökustjórn og útsetningar ásamt okkur Lýðskrumsmönnum. Fyrir svo utan það er hann bara frábær gaur. Guðlaugur Hjaltason annaðist gítara og söng auk þess að vera höfundur lags og texta. 

Enginn slasaðist við gerð þessa lags og enginn trommuleikari laminn.


Aðsent