Það er orðið að föstum lið að þessi gjörvulegi hópur hittist á miðvikudagsmorgnum, sest niður með kaffibolla og bakkelsi og rifjar upp gamlar sögur að heiman. Stundum er diktafónn með í för og undirritaður skráir þá niður sumt af því sem rætt er um, því oft er það svo að fram kemur sögulegur fróðleikur sem má helst ekki glatast og falla í gleymskunnar dá, því þessir menn eru ótrúlegir sagnabrunnar þegar þeir komast á flug. Þess utan er þetta stórskemmtilegur hittingur þar sem líflegar og uppbyggjandi umræður lita hversdagsgrámann fjörugum litum sem endast alveg fram að næsta fundi. 

Að þessu sinni var hittingurinn heima hjá Ásgeiri Péturssyni sem rekur stærðarinnar minkabú upp í Helgadal, en á meðfylgjandi mynd eru þeir Jósep Blöndal, Ragnar Páll Einarsson, Sigurður Konráðsson, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, Gunnar Trausti Guðbjörnsson, Guðbjörn Haraldsson og Ásgeir Pétursson. En einhver varð auðvitað að taka myndina og það gerði sá sem þetta skrifar, Leó R. Ólason sem fær kannski að vera með á næstu mynd. 

Hópurinn er þó síbreytilegur og fleiri hafa því komið að þessum svo mjög óformlegu fundum og má þar nefna Jónas Ragnarsson, Árna Jörgensen, Gunnlaug Skaftason, Jónas Valtýsson, Þorstein Birgisson og eflaust gleymi ég einhverjum.

LRÓ.