Alþýðuhúsið á Siglufirði fagnar 10 ára menningarstarfi með sex daga listahátíð og útgáfu bókar.

Frjó afmælishátíð 15. – 20. júlí 2022

Í tilefni 10 ára afmælis menningarstarfs í Alþýðuhúsinu á Siglufirði í umsjá Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur verður efnt til listahátíðar um allan bæ með þátttöku fjölmargra menningaraðila og listamanna.

Alþýðuhúsið mun standa fyrir fjölda listviðburða sem munu endurspegla grósku og fjölbreytni menningarstarfsins í 10 ár.

Þar koma fram listamenn sem hafa í gegnum árin verið gjöfulir á list sína í okkar samfélagi og einnig aðrir sem leggja sitt af mörkum í fyrsta sinn. Þar má t.d. nefna sýningu Finnboga Péturssonar í Kompunni, gjörninga frá listahópnum Flux Factory frá New York, tónleika með Óskari Guðjónssyni og félögum, tónleika með Eyjólfi Eyjólfsyni og Ragnheiði Gröndal, ljóðalestur Sölva Halldórssonar og heimspekierindi Ásgeirs Berg Matthíassonar um listir.

Alþýðuhúsið býður uppá 10 myndlistasýningar, 6 gjörninga, 8 tónleika og tónlistaratriði, 2. upplestra, stuttmyndasýningu, listasmiðju fyrir börn og aðstandendur, Gong yoga og heimspekifyrirlestur. Bókin um 10 ára starf í Alþýðuhúsinu verður formlega gefin út 15. júlí og fer þá í almenna sölu. Þegar allt þetta kemur saman verður til suðupottur viðburða, samveru og áhugaverðra samræðna sem gestum er boðið að taka þátt í.

Dagskrána á vegum Alþýðuhússins og annara menningaraðila í Fjallabyggð má sjá á heimasíðu Alþýðuhússins www.althyduhusid.com.

Lista- og fræðafólk sem kemur fram á Frjó:

Finnbogi Pétursson, Will Owen, Tommy Nguyen, Sholeh Asgary, Arnar Ómarsson, Freyja Reynisdóttir, Arna Guðný Valsdóttir, Dúfa Sævarsdóttir, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Arnfinna Björnsdóttir, Eleftheria Katsianou, Bára Kristín Skúladóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Ragnheiður Gröndal, Brák Jónsdóttir, Þórir Hermann Óskarsson, Þórunn Dís Halldórsdóttir, Ásgeir Berg Matthíasson, Rodrigo Lopes, Guito Thomas, Arnljótur Sigurðsson, Katrin Hahner, Magnús Trygvason Eliassen, Tumi Árnason, Magnús Jóhann Ragnarsson, Hróðmar Sigurðsson, Ingibjörg Elsa Turchi, Þórey Ómarsdóttir, Ylfa Marín Kristinsdóttir, Alvar Breki Kristinsson, Aró Kristinsson, Sölvi Halldórsson, Óskar Guðjónsson, Matthías Hemstock, Hilmar Jensson, Eyþór Gunnarsson, Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir, Örlygur Kristfinnsson.

Dagskráin er þétt skipuð og blandast á hverjum degi viðburðir frá Alþýðuhúsinu og viðburðir annara menningaraðila í Fjallabyggð sem fram fara á sama tíma, þannig að úr verður mikil hátíð.

Allir velkomnir.


Aðsent